Yfirleitt er ég ekki mikið fyrir að mæla með notkun á plasti umfram það sem bráðnauðsynlegt er. Að halda bílnum þokkalega þrifalegum eftir veiðitúrinn er aftur á móti að mínu mati bráðnauðsynlegt. Það er fátt leiðinlegra heldur en staðin fiskilykt, sérstaklega þegar hún læðist aftan að manni úr skottinu.
Það er aðallega þrennt sem getur tekið upp á því að anga nokkuð hressilega í bílnum á heimleiðinni; háfurinn, vettlingarnir og fiskipokinn. Auðvitað reynir maður að skola þokkalega úr háfnum áður en honum er stungið í skottið á bílnum, sömu sögu er að segja um fiskinetið, en það er eiginlega alveg sama hvað maður skolar vel, lyktin fer oftast ekki við fyrsta skol. Svipaða sögu er hægt að segja um vettlingana, ef eitthvað drekkur í sig fiskilyktina þá eru það þeir.
Þá getur komið sér vel að vera með góðan plastpoka í bílnum, stinga öllu í hann áður en lagt er af stað heim og tryggja sæmilega lokun. Bara alls ekki gleyma að tæma pokann og skola innihaldið þegar heim er komið. Slím og roðleifar af fiski eru fljót að gerjast og ekki þarf að líða langur tími þar til allt er ónýtt. Ég hef haft þá reglu að nota sem minnst af kemískum efnum við þrif á veiðarfærum, heitt vatn í vaski og svo út á snúru til þurrks (það rignir jú aldrei á Íslandi) og þá er maður í góðum málum þegar næst er haldið til veiða.

Senda ábendingu