FOS
  • Færslur
  • Flugur
  • Grúsk
    • FiskurinnNokkrir punktar um hegðun fisksins sem við erum að eltast við.
    • GreinaskrifGreinar og fréttir sem komið hafa fram á hinum og þessum miðlum á liðnum árum.
    • GræjurNokkrar greinar um veiðistangir, hönnun þeirra og eiginleika.
    • HnútarNokkrir góðir hnútar
    • HnýtingarÝmislegt sem tengist veiðiflugum, hnýtingu þeirra og hönnun.
    • Hnýtingarefni
    • KannanirÝmsar kannanir sem FOS.IS hefur gert meðal lesenda sinna, niðurstöður þeirra og hugleiðingar út frá þeim.
    • KasttækniAlltaf gott að rifja upp kasttæknina.
    • Lífríkið
    • Línur og taumarÝmislegt gagnlegt sem lýtur að flugulínum og taumum.
    • MaturNokkrar uppskriftir og umfjöllun um þann mat sem má gera sér úr aflanum.
    • Veiðiferðir
    • Veiðitækni
    • ÞankarÝmsir þankar og hugleiðingar
    • ÆtiðAllt sem fiskurinn leggur sér til munns.
  • Vötnin
  • Myndir
  • Töflur
    • AFTM
    • Alfræði
    • Byrjendur
    • Festingar
    • Fiskurinn
    • Flóðatafla
    • Hlutföll
    • Krókar
    • Kúlur & keilur
    • Lög og reglur
    • Taumar og flugur
    • Þráður
  • Tenglar

  • Af ljósi í vötnum

    22. janúar 2015
    Lífríkið

    Upp

    Forsíða

    Öll þekkjum við það þegar gróðurinn á landinu fer að taka við sér á vorin og sólar tekur að njóta. Við njótum þessa einnig, annað hvort beint undir sólu eða með því að sjá gróðurinn grænka í kringum okkur. Það léttist á okkur brúnin.

    En það er fleira sem nýtur sólar en augað sér. Vötnin okkar stunda s.k. varmanám, þ.e. ljóseindir úr sólarljósinu skella á rafeindum vatnssameindanna sem mynda vatnið og þær drekka í sig orkuna ljóssins, vatnið hitnar. Hlutfallslega er mest varmanám vatnsins í efsta metranum við yfirborðið. Þar nýtist u.þ.b. 50% sólarljóssins til upphitunar. Því dýpra sem leitað er niður í vatnið, því hægara verður varmanámið. Veiðimenn þekkja þennan efsta metra vatnanna sem annað gjöfulasta veiðisvæði þeirra. Hitt svæðið er botninn, e.t.v. gjöfulli vegna þess að þar tekur botngróðurinn til sín sólarljósið og bindur í lífrænni orku sem fóstrar síðan æti fyrir fiskinn. Við getum séð hvar varmanám er í góðum gír. Vatnið virðist blátt, því blárra því heilbrigðara.

    Það er ýmislegt sem getur haft áhrif á þetta varmanám og þar á meðal er skortur á sólarljósi. Það segir sig sjálft að þegar lítillar sólar nýtur við þá hlýna vötnin okkar ekki eins mikið fyrir vikið. Áhrif þessa ættu að vera augljós, vatnið er kaldara, plöntur og þörungar ná ekki að beisla sólarljósið og þar með verður heldur fátt um fína drætti í gróðri, skordýrum, fiskum og á endanum hjá veiðimanninum.

    Það sem getur einnig orsakað lélegt varmanám er aur og ólífrænar agnir í vatninu sem ná að tvístra sýnilega ljósinu frá sólinni áður en rafeindir vatnssameindanna ná að beisla orkuna. Endurkast þessara vatna verður því oft gráleitt eða mjólkurlitað og er þannig vísbending til okkar um lélega framleiðni. Árstíðabundnar sveiflur í framburði til stöðuvatna er oft á tíðum af hinu góða. Framburður ber með sér næringu sem kemur lífríkinu til góða, en þegar framburður er viðvarandi, allt árið um kring, þá er úti um lífríkið.

    Þekkt dæmi um ‚litað‘ vatn er t.d. Lagarfljót. Það hefur alltaf verið frekar skolað að sjá en samt tekið nokkrum breytingum eftir árstíðum. Þessar smávægilegu sveiflur dugðu hér áður fyrr til þessa að varmanám átti sér stað stóran hluta ársins og þannig viðhélst lífríkið. Nú er svo komið að vatnið er ekki lengur ‚litað‘ heldur hefur það tekið massífan lit af sífelldum framburði, sveiflurnar eru horfnar og lífríkið er á öru undanhaldi. Í þessu tilfelli getum við aðeins sjálfum okkur um kennt.

    Það er mál manna að við Eyjafjallagosið 2010 hafi vötn á afréttum Suðurlands orðið fyrir áföllum vegna gosefna sem í þau barst. Hvort skammtímaáhrif þessa hafi orðið til þess að vatnshiti hafi lækkað þekki ég ekki, en reikna má með að langtímaáhrifin geti orðið nokkur. Það tekur alltaf einhvern tíma fyrir ösku að veðrast og verða að salla og það er einmitt þessi fíngerði salli sem á eftir að berast í vötnin okkar og hamla varmanámi þeirra á næstu árum. Við þessu getum við lítið gert, náttúran hefur sinn gang í þessu eins og svo mörgu öðru. E.t.v. verða aðrir umhverfisþættir til þess að draga úr skaðanum, ef hann verður þá nokkur.

    Vantar sól?
    Vantar sól?

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Haust eða vor

    20. janúar 2015
    Lífríkið

    Upp

    Forsíða

    Það er þrennt sem mér finnst skemmtilegast að gera; veiða silung að vori, veiða silung að hausti og svo þess á milli. Oft hefur veiðinni að vori og hausti verið líkt saman, fiskurinn fer sér hægt og svipaðar flugur virka einna best á þessum árstíma. Hvað veðráttuna varðar þá er svo sem allur gangur á því hvernig það hagar sér.

    Tökum til dæmis veðrið síðasta vor. Þegar leið á apríl hlýnaði heldur í veðri, að vísu með smá úrkomu, en almennt góð skilyrði fyrir veiði. En með hlýindunum jukust líka leysingar og vötnin sem þegar höfðu rifið af sér ísalög, kólnuðu aftur. Þegar slíkt gerist, þá kemur nokkurs konar bakslag í fiskinn og vorið í honum hægir á sér. Maí kom sterkur inn, hitastigið reis allsnarlega og fiskurinn tók aftur við sér. Það var samt hrollur í mér og það leiddi til stuttra, árangurslausra veiðiferða.

    Ég var svo bjartur að spá góðu sumri og löngu mildu hausti. Kannski réði þar mestu að mér finnst skemmtilegra og veiða langt inn í haustið heldur en snemma vors. Oft hef ég gert ágæta veiði í vötnunum á haustin, svona á milli þess að bleikjan hefur hrygnt og urriðinn fer í hrygningu. Þetta er auðvitað að því gefnu að hitastigið falli ekki mjög skart og vindar blási ekki af miklum móð.

    Veiðispáin mín gekk alveg eftir, svona til helminga í það minnsta. Eitt besta veiðisumar í langan tíma. Um haustið er allt aðra sögu að segja. Í mínu nær umhverfi var eins og skrúfað hefði verið fyrir þá litlu sól sem sumarið annars færði okkur og nokkrar snarpar lægðir gengu helst til snemma yfir landið og blésu heldur hressilega. Að sama skapi kólnuðu vötnin fyrr en ella og veiðin einfaldlega datt niður þótt vel hafi gefið í ám og lækjum langt að vetri. Langa milda haustið sem ég spáði varð sem sagt heldur stutt í annan endann.

    Þetta kallast sveiflur í náttúrunni og ekkert við þeim að segja né gera. Einn þrálátasti misskilningur mannskepnunnar er sá að hún geti stjórnað náttúrunni, en ekki öfugt. Að vísu getum við gert ýmislegt til að raska náttúrunni, jafnvel dælt fiski í ár og vötn sem vart ber hann. En slíkar ráðstafanir skila sér sjaldnast sem dempari á eðlilegar sveiflur náttúrunnar. Þó eitt og eitt haust, jafnvel heilu sumrin bregðist í veiði, þá þarf nú eitthvað meira til ef hrun á að kallast. Náttúrlegar sveiflur í tíðarfari, fiskgengd og afkomu stofna eru einfaldlega eitthvað sem veiðimenn þurfa að lifa við og kannski fyrst og fremst, þeir þurfa að læra að lifa við. Köld vötn að vori eða hausti eru bara eðlileg, ekki förum við að leggja hitaveitu í vötnin okkar, eða hvað? Það er kannski efni í annan pistil.

    Haust eða vor?
    Haust eða vor?

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Kælibox

    15. janúar 2015
    Veiðitækni

    Upp

    Forsíða

    Undantekningarlítið tek ég gamla góða kæliboxið með mér í veiðina, þetta einfalda fyrir kælikubbana. Það kemur sér ágætlega að geta sett vöðluskóna í boxið þegar lagt er af stað í stað þess að hafa þá lausa í skottinu. Það virðist vera alveg sama hvað maður lemur úr filtsólanum, það er alltaf einhver sandur eftir sem virðist sækja í teppið í skottinu. Þegar svo útivistinni er lokið ræðst það af efnum og aðstæðum hvað fer í boxið fyrir heimferðina. Ef lukkan er með í för fer fiskurinn í boxið, annars fara blautu vöðluskórnir einir og sér í boxið, þá losna ég við bleytuna í teppið því sjaldnast gefst tími til að þurrka skóna áður en haldið er heim á leið. Blönduð leið er auðvitað líka til í dæminu; skórnir og kannski nokkrir silunga, vafðir þétt í plastpoka eftir að gert hefur verið að þeim. Ekki er verra að vera með nokkra vel frosna gamaldags kælikubba með í för til að halda mögulegum afla í svala á leiðinni heim.

    Gamla, góða kæliboxið
    Gamla, góða kæliboxið

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Að halla undir flatt

    13. janúar 2015
    Kast

    Upp

    Forsíða

    Það hefur ekkert farið framhjá þeim sem séð hafa að ég er enginn kastsnillingur, en mér er svo sem ekki alls varnað heldur, held ég. Síðast þegar ég leitaði mér aðstoðar og fékk slatta af skömmum var mér bent á að kasta undir flatt, þ.e. kasta fram og til baka með stöngina í láréttu plani. Galdurinn við þessa æfingu er sá að horfi maður ofan á línubogann sem myndast í fram- og afturkastinu gerir maður sér betri grein fyrir því hvenær og hvernig kasthjólið myndast. Þegar maður hefur náð tökum á þessu kasti; lárétt, fram og til baka, þá má færa sig og kastið upp á skaftið þangað til maður er farinn að kasta nokkuð ‚eðlilega‘ með stöngina í lóðrétta. Til að auka enn meira á færnina má færa úr láréttu kasti frá hægri hlið, upp og yfir á þá vinstri þar til stöngin er aftur í láréttu plani.

    Ef eitthvað hefur hjálpað mér að ná stjórn á stærð kasthjólsins, þá er það þessi æfing. En fyrr átti ég á dauða mínum von heldur en notað þetta kast í veiði. Jú, ég hef svo sem fært stöngina í lárétt plan til að ná undir vind en í sumar fannst mér ég endilega þurfa að ná kasti meðfram bakkanum mér á hægri hönd. Vandamálið var bara að ég eini staðurinn sem ég gat tyllt niður fæti á var smá bleðli á milli hárra steina sem gengu alveg fram í vatnið.

    Lágrétt kast til hægri
    Lárétt kast til hægri

    Undir þessum kringumstæðum kom sér vel að geta laumað stangarendanum út fyrir steinana og kastað með landi þangað sem ég taldi fiskinn vera. Það var að vísu enginn fiskur þarna þegar til kom, en ég var samt sem áður nokkuð sáttur við kastið og ekki síst að hafa munað eftir æfingunni.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Vindurinn

    8. janúar 2015
    Lífríkið

    Upp

    Forsíða

    Hvað er þetta eiginlega með vindátt og veiði? Í sumar sem leið var nokkuð viðvarandi vindátt hér sunnan heiða sú vestlæga. Um leið og einhver veiðimaður kom með öngulinn í rassinum frá Þingvöllum, þá stóð ekki á skýringunni; Helv… vestanáttin, það gefur aldrei á Þingvöllum í vestanátt.

    Einn kunningi minn sagði svipað um Hlíðarvatn í Selvogi, annar sagði reyndar suð-vestan, en það skiptir kannski ekki mestu máli. Það sem ég velti fyrir mér er aftur á móti hvort einhver skýring sé á þessari trú manna. Auðvitað leitaði ég á náðir netsins og leitaði. Jú, eitthvað höfðu menn um vindáttir að segja. Vestanhafs sögðu menn “when the wind is in the east, the fish bite the least” og til mótvægis “when the wind’s in the west, the fish bite the best”. Eitthvað stangaðist þetta nú á við upplifun manna hér á Íslandi en getur átt sér náttúrulegar skýringar.

    Landsynningur, þ.e. suðaustanátt sem kemur á undan skilum lægðar, ber yfirleitt með sér hlýtt loft og stöðugara. Ekki endilega betra, en í það minnsta stöðugra. Útsynningurinn / suðvestanáttin sem á ættir sínar að rekja til kaldari svæða í vestri, dregur aftur á móti með sér óstöðugt loft og við getum átt von á öllum skollanum inn á milli bjartra stunda.

    En hvað kemur þetta fiskinum við? Jú, ef eitthvað er hægt að segja um blessaðan silunginn, þá er það að hann vill helst af öllu hafa hlutina í nokkuð föstum skorðum og er ekkert sérstaklega hrifin af mikilli tilbreytingu í veðrinu. Ræður þar væntanlega mestu hitastig þar sem hann er jú með kalt blóð og hægir verulega á líkamsstarfseminni ef snögglega kólnar, t.d. þegar kaldur gustur læðist inn að vatninu, hvað þá ef vestan kalsa rigning fylgir með.

    Ástæðan fyrir þessum viðsnúningi vestan hafs er væntanleg að kalda loftið þeirra berst að austan þegar kaldur Austur-Grænlandsstraumurinn laumast niður með austurströnd Norður-Ameríku.

    Vestanátt?
    Vestanátt?

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Hvað er verra en frumskógur?

    6. janúar 2015
    Línur og taumar

    Upp

    Forsíða

    Í sumar sem leið vorum við veiðifélagarnir svo heppnir að vera boðið að fylla í hóp sem stundað hefur Veiðivötn í fjölda ára. Við þurftum ekki að hugsa okkur lengi um og þáðum boðið. Það hefur lengi verið hugur til þess hjá okkur að komast innar í landið að sunnan heldur en Framvötnin og þarna bauðst gullið tækifæri. Eins og vera ber, leitaði ég til mér kunnugri manna eftir leiðbeiningum um útbúnað og aðferðir. Ekki stóð á góðum ráðum og helst nefndu menn; koma flugunni niður, djúpt. Já, ég þóttist nú kannast við einhverjar leiðir til þess. Langur taumur, þungar flugur, jafnvel sökktaumar sem eiga að húrra öllu dótinu niður á botn á innan við 20 sek. Vandamálið hefur bara alltaf verið að ég hef átt í bölvuðu basli með sökktauma í kastinu.

    Eftir að hafa skeggrætt þetta á mínu heimili, þá varð úr að ég keypt hægsökkvandi línu #7 (intermediate) fyrir konuna og svo var ég svo lukkulegur að fá lánaða heldur hraðvirkari línu #8 á stöng #7 fyrir sjálfan mig. Menn geta svo rétt ímyndað sér hversu mikið stökk þetta var fyrir flotlínumanninn mig að höndla þessa hraðsökkvandi línu. En þetta er aðeins inngangurinn að því sem mér býr í brjósti.

    Eftir þessa ferð og þá reynslu sem ég fékk af línunni sem ég hafði fengið að láni, fór ég á stúfana og kíkti á nokkrar línur. Var einhvern tímann talað um línufrumskóg? Hvað ætli það heiti þá sem ég rakst á varðandi sökklínur? Hvað sem það nú var, þá var það miklu þéttara heldur en frumskógur og mér tókst að villast strax í fyrstu skoðunarferð. Hvers vegna hefur framleiðendum ekki tekist að merkja línurnar sínar með sökkhraða sem er skiljanlegur? Þegar ég fór af stað, hafði ég í huga töflu yfir sökkhraða lína sem ég hafði nálgast hjá AFTM:

    Class / Type

    Sökkhraði (tommur á sek)

    Dýpt (fet)

    Intermediate

    < 1

    0-5

    I

    1 – 1 ¾

    5-10

    II

    2 ½ – 3

    10 – 20

    III

    3 ½ – 4

    20 – 25

    IV

    4 ½ – 5

    25 – 30

    V

    5 – 6

    30

    VI

    6 ¼ – 7

    > 30

    Express

    7 – 8

    > 30

    Lead core 450gr

    7 – 8 ¾

    > 30

    Hér ætla ég að taka dæmi um línur frá þremur algengum framleiðendum; Airflo, Scientific Anglers og Rio. Eflaust eru eiginleikar lína frá þessum aðilum og jafnvel innan gerða eitthvað mismunandi sem getur alveg skýrt mismun þeirra á merkingum, en fyrir leikmann er alls ekki auðvelt að gera sér grein fyrir því hve hratt og djúpt hver þessara lína sekkur.

    Airflo Jú, ég þóttist skilja intermediate hjá þeim en rak síðan í roga stans þegar kom að fast intermediate og Sink Rate 3, 5 og 7. Humm, sagði kunnugur við mig þegar ég spurði hvað tölurnar við Sink Rate ættu að segja mér. Ég komst síðar að því að þessi framleiðandi er ekkert að flækja málið; Sink Rate er einfaldlega tommur á sek. sem viðkomandi lína sekkur en ég veit enn ekki hvað fast intermediate stendur fyrir. Engar tölur uppgefnar um hámarksdýpi.

    Scientific Anglers Þessar línur eru skilmerkilega stimplaðar með Type III, Type V o.s.frv. sem mér fannst lofa góðu. Eina vandamálið er að sökkhraði þessara lína stemmir hvorki við Airflo tölurnar né AFTM töfluna. Á heimasíðu SA fann ég að Type III sekkur 2 ½ – 3 ½ tommur á sek. og er gefin upp fyrir 5 – 10 feta dýpi. Type V sekkur 4 ½ – 6 tommur á sek. og er gerð fyrir 20+ feta dýpi.

    Rio Type 3 sekkur 3 – 4 tommur á sek. og Type 4 sekkur 4 – 5 tommur. Ekkert meira um það að segja og litlar upplýsingar um hámarksdýpi að finna hjá þeim.

    Ástæðan fyrir því að ég vildi bera saman línur frá þessum þremur framleiðendum er einföld; þeir nota sömu aðferð við að mæla sökkhraða sinna lína, en því miður virðist sú mælieining ekki alveg ná til kaupenda.

    Ég reyndar endaði á því að kaupa mér samskonar línu og frúin er með, intermediate sem sekkur alveg mátulega fyrir alhliða notkun og rennur alveg glettilega vel. Vel að merkja þá er hún ekki frá neinum ofangreindra aðila og kostaði mig langt innan við helming af meðalverði þeirra og ég var einfaldlega guðs feginn að hafa ratað þokkalega óskemmdur út úr þessum skógi sökklína.

    Flugulínur
    Flugulínur

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
«Fyrri síða
1 … 89 90 91 92 93 … 153
Næsta síða»

FOS

Allur réttur áskilinn – © 2025 – Kristján Friðriksson

  • Facebook
  • Vimeo
  • Issuu
  • YouTube
  • Instagram
  • Senda skilaboð
  • Áskrift í tölvupósti
 

    • Gerast áskrifandi Subscribed
      • FOS
      • Join 176 other subscribers
      • Already have a WordPress.com account? Log in now.
      • FOS
      • Gerast áskrifandi Subscribed
      • Skrá mig
      • Innskráning
      • Report this content
      • Skoða vef í lesara
      • Manage subscriptions
      • Collapse this bar