Aðgangur bannaður

Í gegnum árin hefur maður tekið ástfóstri við ákveðin vötn. Stundum vegna fisksins, stundum vegna umhverfisins. Eitt þessara vatna hjá mér er Langavatn í Borgarbyggð. Náttúrufegurð á þessum slóðum er mikil og vatnið hefur fært mér einn af stærstu fiskunum sem ég hef veitt um æfina. Flestir leggja leið sína að Langavatni að austan, að Beilárvöllum, færri að vestan, upp með Langá, en það er ekki síðra svæði. Saga Langavatns og Langavatnsdals er þyrnum stráð. Þar hefur verið harðbýlt og á ýmsu gengið í aldanna rás (Jóhannes Davíðsson, Tíminn 1984). En það þarf ekki að leita aldir aftur í tímann til að finna dæmi um harmasögu Langavatns.

Árið 1970 hófst vatnsmiðlun úr vatninu og við getum frá þeim tíma rakið stórfeldar breytingar á lífríki þess, allt til dagsins í dag. Fljótlega eftir hækkun vatnsins jókst lífauðgi þess töluvert með mikilli viðkomu fiskjar. Nokkuð sem er þekkt og ég hef rakið hér áður (Þegar stíflan eldist). Stór hluti Beilárvalla fór undir vatn og strandlengjan skertist verulega. Að sama skapi jókst bakkarof og fjaran varð grýtt og gróðursnauð.

Langavatn 1965 - Kunnugir þekkja höfðann til hægri sem eyju í dag
Langavatn 1965 – Kunnugir þekkja höfðann til hægri sem eyju í dag (Ljósm.Tómas Einarsson)

Fiskur sem áður sótti í Beilá lagði þá hegðun af og þar hefur hann ekki sést síðan í byrjun 8. áratugs síðustu aldar. Þar sem ég hef engar heimildir fundið um hrygningu í ánni læt ég ósagt látið um möguleg afföll á þeim slóðum. Aftur á móti er öruggt að urriði hrygndi í efrihluta Langár fyrir tilkomu stíflunnar (Þór Dan Jónsson, Fiskifræðilegar rannsóknir í Langavatni Mýrarsýslu 1984) en nú hrygnir urriðinn vísast aðeins í Langavatnsá, nyrst í vatninu. Þangað hefur hann að miklu leiti hopað eftir að smábleikja lagði undir sig syðri hluta vatnsins. Þó hefur einn og einn stórurriði veiðst í vatninu að sunnan, en þó helst að vestan.

Stórurriði úr Langavatni 2011
Stórurriði úr Langavatni 2011

Fiskiræktarsjónarmið réðu alfarið þeirri ákvörðun að stífla Langavatn. Fyrir það fyrsta reyndist með tilkomu stíflunnar unnt að miðla vatni til Langár þann tíma árs sem lítið var í ánni „sem er talið til mikilla hagsbóta fyrir ána sem veiðiá“ eins og segir í Matsgerð Fiskistofu frá árinu 2009. Í annan stað er sagt frá því í Morgunblaðinu 29.2.1980 að „Tilkoma þessa mannvirkis hefur dregið nær alveg úr ísruðningi í ánni á vetrum sem áður var árviss og olli tjóni á fiskstofni árinnar.“ Til viðbótar má nefna að eflaust hefur frjósamt vatnið úr Langavatni fyrstu árin eftir stíflun þess, verið laxaseiðum Langár og viðkomu þeirra mikil búbót.

Þegar fram liðu stundir varð aftur á móti mikill hnignun í þessari frjósemi og væntanlega hefur þeirra áhrifa lítið gætt umfram þau 2 – 10 ár sem reikna má með að hún almennt vari. Væntanlega er lífríki Langár nú endanlega komið aftur til fyrra horfs og spurning hvort lífríkið beri allt það ungviði laxa sem þar klekst út. Að vísu eru bakkar árinnar vel grónir og trjágróður þar ætti að sjá fyrir töluverðri næringu fyrir ánna.

Eins má velta því fyrir sér hvort stíflan gegni enn því hlutverki sínu að stemma stigum við ísruðningi eins og henni var upphaflega ætlað. Án þess að geta vísað til rannsókna tel ég ekki ólíklegt að almenn hlýnun loftslags hin síðari ár hafi breytt ísalögum á Langavatni sunnanverðu þannig að fiskistofni Langár standi ekki lengur sú sama ógn af og áður. Vel að merkja á ég erfitt með að tala um fiskistofna Langár í eintölu. Í Langavatni er enn stofn stórurriða úr Langá sem hefur verið meinaður aðgangur að hrygningarstöðvum sínum frá árinu 1970. Ætli sá dagur renni upp að honum verði gert kleift að hrygna aftur í efri hluta Langár?

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Create a website or blog at WordPress.com