Flýtileiðir

Þegar stíflan eldist

Konan mín sagði við mig um daginn að frá því ég tók upp fluguveiði, þá hafi ég aðeins átt eitt áhugamál. Raunar sagði hún að ég hefði ekki átt neitt áhugamál áður en að fluguveiðinni kom. Jú, ég kannast örlítið við eitthvað af þessu, kannski þetta með áhugamálsleysið. Ég þori alveg að andmæla konunni minni augliti til auglitis, en í þetta skiptið ætla ég að fela mig aðeins innan um hið ritaða orð.

Ég á mér nefnilega annað og ekki minna áhugamál heldur en stangveiðina. Ég er sérstakur áhugamaður um endurheimt náttúrulegra vatnsfarvega. Þetta er að vísu ekki hátt skrifað áhugamál hér á Íslandi enda ekki vinsælt að ræða það opinskátt að brjóta eitthvað niður sem aðrir hafa byggt upp. Annað sem gerir málið viðkvæmt er að töluvert af stíflum og hömlum sem settar hafa verið í náttúrulega farvegi áa á Íslandi eru tilkomnar vegna fiskiræktar.

Hvernig stíflun nýtist til fiskiræktar er nokkuð mismunandi. Stundum hefur afrennsli vatna verið stíflað vegna fiskiræktar í vötnunum sjálfum en stundum til að stemma stigu við skaðlegum áhrifum leysinga á uppeldissvæði í ám sem úr þeim renna. Þá eru einnig þekkt dæmi þess að stíflur eru notaðar til miðlunar vatns á þeim tímum er uppgöngufiskur þarf eitthvað til að synda í á leið sinni upp árnar. Auðvitað er þetta síðast nefnda sagt með nokkurri kerskni, en smá sannleikskorn í því samt.

Horft yfir stífluna
Horft yfir stífluna

Þegar vatnsborð innan stíflu er hækkað og vatn flæðir yfir gróið land, hefst útskolun lífrænna efna og áburðar sem eykur frjósemi vatnsins allverulega, lífauðgi eykst mjög hratt. Fiskur, sé hann til staðar á annað borð, tekur þá mjög við sér, stækkar hratt og fjölgar mikið. Í flestum tilfellum er þetta að vísu skammgóður vermir. Haldist hækkað yfirborð, kemur að því að gróðurinn eyðist eða rotnar og útskolun næringarefna þrýtur. Það er nokkuð misjafnt hve langan tíma þetta ferli tekur. Fræðimenn telja að þessi útskolun geti varað í 2 – 10 ár (Guðni Guðbergsson, Fræðaþing landbúnaðarins 2009) / Þór Dan Jónsson, Fiskifræðilegar rannsóknir í Langavatni Mýrarsýslu 1984). Sem dæmi um vatn eða lón sem þannig er háttað til um, má nefna Blöndulón sem var myndað 1991. Fyrstu fjögur árin varð vart við gríðarlega fjölgun silungs, aðallega bleikju og veiddist mikið af vel öldum fiski. Að fáum árum liðnum, fækkaði fiskinum aftur á móti mjög hratt og sá litli fiskur sem varð eftir var mjög illa haldinn. Nú er svo komið að nánast ekkert veiðist í lóninu.

Fyrst eftir myndun eða hækkun yfirborðs hálendislóna, eins og Blöndulóns og Þórisvatns, verður skötuormur uppistaðan í fæðu silungsins. Skötuormurinn nærist á rotnandi jurtaleyfum en honum fækkar hratt þegar lífauðgi vatnsins þverr og þá þarf fiskurinn að leita í aðra og fjölbreyttari færðu. Þá leitar hann í sviflægari fæðu, leggur sér sem sagt flest til munns en að lokum kemur að því að lífauðgin þverr svo við tekur fæðuþurrð.

Hún er ekki ýkja frábrugðin saga þeirra vatna sem stífluð hafa verið til miðlunar á láglendi. Lífauðgi þeirra eykst hratt, fiski fjölgar og hann stækkar til að byrja með. Svipaða sögu má segja af lífauðgi og þar með lífríki ánna sem úr þeim renna. Þar dafnar ungviði urriða og laxa vel fyrstu árin en það heyrir til undantekninga að þetta ástand vari lengur en fyrrgreind 2 – 10 ár. Að þeim tíma liðnum færist lífríkið að mestu til fyrra horfs, í besta falli. Oft standa neikvæð áhrif ofan stíflu eftir, eyðing hrygningarstöðva, fábreyttari jurtaflóra og svo má lengi telja. Þessu til viðbótar má nefna að rof við vatnsbakka eykst umtalsvert ef vatnsborð er breytilegt og á sama tíma líður lífríkið í fjörunni fyrir. Dæmi um vatn sem þetta má nefna Skorradalsvatn í Borgarfirði.

Undan Árbæjarstíflu
Undan Árbæjarstíflu

Yfirleitt standa stíflur óhaggaðar allan sinn líftíma og gott betur en það. Eins og áður segir hafa flestar þeirra verið reistar hér á landi vegna raforkuframleiðslu, áveitu eða fiskiræktrar. Það heyrir til undantekninga á Íslandi að þær séu fjarlægðar, hvort heldur þær séu í notkun eða löngu aflagðar. Þótt lokur séu teknar úr þeim sem óþarfar eru orðnar, þá halda þær áfram að vera þyrnir í augum manna og fiska og hafa mikil áhrif á fiskfarvegi (Áhrif ræsa og brúa á ferðir fiska og búsvæði þeirra, 2007).

Eitt svar við “Þegar stíflan eldist”

  1. Aðgangur bannaður | FLUGUR OG SKRÖKSÖGUR Avatar

    […] þess töluvert með mikilli viðkomu fiskjar. Nokkuð sem er þekkt og ég hef rakið hér áður (Þegar stíflan eldist). Stór hluti Beilárvalla fór undir vatn og strandlengjan skertist verulega. Að sama skapi […]

    Líkar við

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Create a website or blog at WordPress.com