Þyrla eða þyrilvængja er skemmtilegt orð á ekki minna skemmtilegu fyrirbæri sem ég sem veiðimaður, hef eflaust notið góðs af. Nei, mig rekur ekki minni til að hafa stigið upp í þyrlu um ævina en eflaust hafa einhverjar góðar loftmyndir sem ég hef stuðst við fyrir veiðiferðir verið teknar úr þyrlu.
Síðasta sumar lá nú samt við að ég legði það formlega til að nafni þessa fyrirbæris yrði breytt í trukk. Ég geri mér grein fyrir því að það nafn er þegar í notkun, en stórir trukkar heita hvort hið er orðið ‚stórar vinnuvélar sem þvera veginn‘ og þrýstingur hefur eiginlega útrýmt trukki í öllum vatnslögnum. Að vísu er hægt að taka eitthvað með trukki, en það á ekki við í vatnaveiði. Ef einhver hefur náð því hvað ég er að fara, þá getur sá hinn sami hætt lestrinum núna. Hinir, sem enn standa á gati, eiga þá völina að hætta eða lesa til enda og ná innihaldinu sem ég er alveg að koma að.
Þannig var að síðasta sumar var ég í nokkur skipti við veiðar þar sem seðlamenn höfðu keypt sér útsýnisflug með þyrlu. Já, náttúrufegurð á Íslandi er einstök og sjálfsagt að leita allra leiða að ná einhverju af auðmagni veraldar út á það. Ekki geri ég mér neinar grillur um að útsýnisflug þessi hafi verið farin sérstaklega til að skoða mig og því fannst mér lítil ástæða til að fljúga jafn lágt og raun bar vitni. Þegar þyrlan nálgaðist var eins og náttúran héldi niðri í sér andanum, fuglarnir hættu að flögra á milli trjágreina og vatnið kyrrðist einkennilega. Vitaskuld tók fyrir alla veiði á meðan þyrlan flögraði þarna yfir og töluverðan tíma á eftir.
Síðar um sumarið fór ég nokkrar ferðir inn á hálendið og ekki var flugumferðin minni þar. Ef eitthvað þá var hún meiri og lægri heldur en við Þingvelli og þar var fiskurinn áberandi hvekktari eftir að þyrlur höfðu flogið yfir. Friðland að fjallabaki hljómaði svolítið ankannanlega á meðan andrúmsloftið titraði undan trukki spaðanna. Vegna þessa mælist ég til um að nafnið trukkur verði heimfært yfir á þessi flygildi sem raska heiðanna ró í tíma og ótíma og umferð trukka síðan sett í sama flokk og utanvegaakstur.

Senda ábendingu