Í grein minni hér um daginn um varmanám í vötnum, gat ég þess að vötn hitna nær eingöngu í efsta metra yfirborðsins. Þegar kemur að djúpum vötnum eins og Þingvallavatni er því ljóst að dýpri vatnslög hitna ekki fyrr en umhverfing vatnsins hefur átt sér stað, þ.e. heitt vatnið af yfirborðinu leitar niður á við og þrýstir köldu vatninu upp í vatnsbolinn. Þessi umhverfing er hæg og því er mikilvægt að raska ekki hlýnun þessara vatna á yfirborðinu með snefilefnum eins og leynast í tilbúnum áburði

Vötn sem svona er háttað til um eru mjög frjósöm, sífelld umskipti (mælt í árstíðum) færir næringu á milli svæða í vatninu og viðkoma gróðurs og skordýra eykst. Að raska þessu jafnvægi, jafnvel í litlum hluta vatnsins getur haft mjög neikvæð áhrif á lífríkið. Heitasta tíma ársins er yfirborðshiti Þingvallavatns rétt um 10°C, á 20 sm. dýpi er hann 8°C og 6°C á 80 sm. Allur vatnsbolurinn fyrir neðan þessa dýpt er kaldari, yfirleitt miklu kaldari nema þar sem linda nýtur við. Lindavatnið sem streymir inn í Þingvallavatn er á bilinu 2,7°C til 4°C og á miklu dýpi er það nánast eins hitaveita þar sem vatnið er að jafnaði ekki nema 1°C.

Ákveðið svæði við vatnið sker sig mikið úr hvað hitastig varðar og hefur gert svo í hundruð ára, Nesjahraun. Þarna hefur heitt grunnvatn ofan úr Hengli streymt fram og yljað vatnið næst ströndinni. Frá því Nesjavallavirkjun tók til starfa hefur hiti grunnvatns á þessum slóðum hækkað verulega, svo mjög á köflum að hitatölur 17 – 27°C hafa mælst í gjám sem áður voru rétt ilvolgar. Við þekkjum þessi svæði og nágrennið sem einstakar uppeldisstöðvar urriðans í vatninu og hafa veiðst þar ótrúlegir drekar. Kyrrstöðuástandið sem skapast á þessum slóðum, sífelldur sumarhiti og vel það, hefur að öllum líkindum breytt hegðunarmunstri fisksins þannig að hann leggst ekki í dvala nema mjög skamman tíma, ef þá nokkurn yfir veturinn. Hér hafa mannanna verk væntanlega getið af sér verulegt frávik í eðlilegri hegðun urriðans.

Almennt hefur meðalhiti Þingvallavatns hækkað hin síðari ár, rétt eins og annarra vatna á norðlægum slóðum. Einn fylgifiskur þessa er að nú leggur vatnið mun síður en áður. Ísinn á Þingvallavatni hefur hingað til virkað sem ágætis einangrun í miklum kuldum og þannig temprað hitasveiflur. Sé ísinn ekki til staðar er þessi temprun horfin og vatnshitinn getur tekið mjög miklum sveiflum í hita. Viðkvæmari tegundir gróðurs gætu þannig horfið og harðgerðari plöntur náð yfirhöndinni með ófyrirséðum afleiðingum fyrir lífríkið í heild sinni. Verði miklar breytingar á svifi í Þingvallavatni er næsta víst að það hafi mikil áhrif á viðkomu murtunnar og þar með annarra fiska í vatninu. Hvort sú verður raunin, verður framtíðin væntanlega ein að skera úr um en þangað til ber okkur skilda til að vernda umhverfi og lífríki vatnsins af fremsta megni. Eitt af því sem við verðum að horfast í augu við eru áhrif mannlegs inngrips í lífríkið sem hingað til hefur fyrst og fremst hefur verið hita- og efnamengun.

Þingvallavatn
Þingvallavatn – horft til Nesjavalla

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.