FOS
  • Færslur
  • Flugur
  • Grúsk
    • FiskurinnNokkrir punktar um hegðun fisksins sem við erum að eltast við.
    • GreinaskrifGreinar og fréttir sem komið hafa fram á hinum og þessum miðlum á liðnum árum.
    • GræjurNokkrar greinar um veiðistangir, hönnun þeirra og eiginleika.
    • HnútarNokkrir góðir hnútar
    • HnýtingarÝmislegt sem tengist veiðiflugum, hnýtingu þeirra og hönnun.
    • Hnýtingarefni
    • KannanirÝmsar kannanir sem FOS.IS hefur gert meðal lesenda sinna, niðurstöður þeirra og hugleiðingar út frá þeim.
    • KasttækniAlltaf gott að rifja upp kasttæknina.
    • Lífríkið
    • Línur og taumarÝmislegt gagnlegt sem lýtur að flugulínum og taumum.
    • MaturNokkrar uppskriftir og umfjöllun um þann mat sem má gera sér úr aflanum.
    • Veiðiferðir
    • Veiðitækni
    • ÞankarÝmsir þankar og hugleiðingar
    • ÆtiðAllt sem fiskurinn leggur sér til munns.
  • Vötnin
  • Myndir
  • Töflur
    • AFTM
    • Alfræði
    • Byrjendur
    • Festingar
    • Fiskurinn
    • Flóðatafla
    • Hlutföll
    • Krókar
    • Kúlur & keilur
    • Lög og reglur
    • Taumar og flugur
    • Þráður
  • Tenglar

  • Uppruni agnhalds

    10. apríl 2016
    Veiðitækni

    Upp

    Forsíða

    Að veiða og sleppa hefur færst mjög í aukana hin síðari ár. Veiðimálastofnun og fleiri mæla með agnahaldslausum önglum fyrir VogS. Eins og ég hef áður sagt hér frá er ég sjálfur ekki alveg eins sannfærður um ágæti agnahaldslausra öngla þegar kemur að VogS, en það er önnur saga sem lesa má hér.

    Um daginn var ég á einhverju internetráfi og rakst þá á skondna grein úr Þjóðviljanum frá árinu 1939 sem ég leyfi mér að endurbirta hérna í tilefni þess að nú í byrjun vertíðar fær umræðan um VogS væntanlega byr undir báða vængi, enn eitt skiptið.

    Sú gamansaga var sögð víða í fiskiverum í Noregi, að agnhaldið á önglinum væri uppfundið af kölska. Sagan er á þessa leið: Eitt sinn fyrr, á tímum voru mennirnir svo góðir og guðhræddir að allir fengu að enduðu Jarðlifi eilífa sáluhjálp, svo við sjálft lá að ríki kölska legðist í auðn söktun syndleysi mannanna. Sá gamli sá, að slíkt gat ekki gengið og kallaði alla púka sína á ráðstefnu um hvernig skyldi viðhalda og efla „rikið“! Eftir miklar bollaleggingar stendur einn púkinn upp og segir: Ég vil að fundið sé upp eitthvað, sem gerir fiskimönnum mikið gagn og þeir ekki geta verið án, en um leið ýfir skap þeirra og kemur þeim til að bölva og ákalla höfðingjann. Þegar kölski heyrði þessa uppástungu hló hann hátt og sagði: Verði agnhald á öngli! og svo varð. Agnhaldið heldur beitunni á önglinum, en veldur um leið miklum flækjum, sem seinka vinnu og ergja skapsmunina sem framleiða blótsyrði. Síðan hefur ekki heyrst að kölski hafi orðið hræddur um eyð- ingu ríkis síns.

    fos_vintagehook

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Á toppinum

    31. mars 2016
    Græjur

    Upp

    Forsíða

    Á mínu heimili er ég stundum spurður að því hvað þetta er hitt þurfi að vera lengi í ofninum eða á pönnunni. Ég hef ekki hugmynd um hvers vegna ég er spurður að þessu og yfirleitt er svarið mitt alltaf það sama; Þangað til það er orðið steikt. Reyndar væri oft betra að segja; Þangað til þú heldur að það þurfi að vera örlítið lengur í ofninum / á pönnunni.
    Með svipaðri kaldhæðni mætti svara þeim sem spyr hve mikið hann megi láta reyna á stöngina við löndun; Örlítið minna en þú telur að hún þoli. En hversu mikið þola stangir að svigna? Ef það væri eitt ákveðið svar til við þessu þá væri ég væntanlega ekki að velta þessu fyrir mér og þá hefði ég væntanlega aldrei brotið toppinn á stönginni minni.
    Mér skilst að oftast brotni stangir í toppstykkinu þegar átt er við fisk, en það er einmitt toppstykkið sem geymir minnsta orku í flugustönginni og mér skilst að þarna sé beint samhengi á milli. Ef flugan er þokkalega trygg í fiskinum og hann ekkert á því að taka rokur út og suður, þá mætti hugsanlega beita stönginni örlítið öðruvísi þannig að átakið við löndun komi ekki aðeins á efsta hluta hennar, heldur færa átakið neðan í stöngina þar sem hún er betur hlaðin og sterkari.

    Stangartoppur
    Stangartoppur

    Hversu langt niður í stöngina maður verður að færa átakið fer svolítið eftir því hvort stöngin sé hröð, miðlungs eða hæg. Það hefur lengi laumast að mér sá grunur að hægum (mjúkum) stögum sé ekki eins hætt við því að brotna heldur en hröðum (stífum) stöngum. Það er í það minnsta mína reynsla. Auðveldast er að færa átakið neðar í stöngina með því að lækka topp hennar að vatnsborðinu, oft þarf ekki að lækka stöngina mikið til að sjá toppinn rétta úr sér en handa samt vel við fiskinn. Einn kostur við hæfilega sveigju toppsins er að sá partur getur brugðist einna hraðast við snöggum hreyfingum fisksins og því temprað skyndiákvarðanir hans að rjúka út og suður þegar minnst varir. Bara að passa sig á hástökkvurunum, þeir ná oft að losa sig ef stönginn er ekki höfð í efstu stöðu.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Vetrarhamur tauma

    29. mars 2016
    Línur og taumar

    Upp

    Forsíða

    Þegar ég var fínpússa græjurnar mínar um daginn; baðaði línurnar mínar enn eitt skiptið, fór yfir veiðihjólið og herti upp á ýmsu og losaði annað, þá opnaði ég fyrir rælni taumaveskið mitt. Æ, þessi ósköp fíngerðu spottar sem maður notar til að trappa línuþykktina niður í eitthvað sem getur flutt fluguna þokkalega út á vatnið. Sumir þykkir og pattaralegir fyrir línu #7, aðrir mjóir og nettir fyrir línu #4. Bestu vinir mínir og þó hinir mestu skaðvaldar sem maður getur kynnst í lok langs veiðidags þegar köstin hafa tekið upp á því að vera ómarkviss með lélegur bakköstum og svipusmellum í framkastinu.

    Taumarnir lágu þarna í veskinu og létu lítið fyrir sér fara, hringaðir upp með tvöföldum vafningi í enda til að varna því að þeir færu á flakk og í flækju. Raunar var það nú svo að ég þurfti ekkert að hafa áhyggjur af því að þeir færu í flækju, þeir voru svo rækilega fastir í sínu fari, rétt eins og stjórnmálamaður sem hefur bitið í sig á unglingsárum að vera á móti einu eða öllu og hefur haldið því áfram allan sinn feril á þingi. Ég losaði varlega upp á vafningunum á einum taum og ætlaði að rétta úr honum. En, nei. Það var nú ekki það sem hann hafði í huga. Ég veit ekki hvaða hljóð það var sem hann gaf frá sér þarna á borðinu, því verður kannski best lýst með orðinu krull. Taumurinn sem sagt krullaði sig bara aftur saman í fallegan 2“ hring og ég get svarið það, hann vafði sig tvisvar um sjálfan sig á endanum, geispaði framan í mig og lagðist aftur í vetrardvalann sinn. Mér fannst þetta nú heldur ótuktarleg framkoma sem minnti einna helst á ungling sem maður reynir að vekja á morgnanna; rumskar örlítið en snýr sér fljótlega aftur á hina hliðina og steinsofnar aftur.

    Við þetta varð ekki búið, svo ég tók alla taumana mína úr veskinu og losaði upp á þeim. Jú, það var ekki um að villast, þeir snéru allir upp á sig og sofnuðu aftur í sömu stellingu og þeir hafa legið í allan veturinn. Snar í snúningum opnaði ég veiðitöskuna, þessa með öllum aukahlutunum sem maður notar eiginlega aldrei, og sótti strokuleður. Ég er sem sagt alltaf með strokuleður í töskunni til að renna taumunum í gegnum til að þrífa þá og rétta úr. Í þetta skiptið dugði gervigúmmíið ekki til. Það réttist bara örlítið úr þeim eitt augnablik en svo sótti allt í sama farið aftur. Þá mundi ég eftir leðurpjötlu sem ég átti í fórum mínum, þær ku virka vel á stífa tauma og sumir taumaframleiðendur selja meira að segja svoleiðis pjötlur dýrum dómum. Fyrstu tölur gáfu til kynna að leðrið væri málið, en svo féll þetta allt í sama farið. Eins og Bangsímon í framan fór ég að hugsa mig um. Einhvers staðar rakst ég á grein eftir álíka nískupúka og sjálfan mig sem tímdi ekki að kaupa sér nýja tauma á hverju einasta vori, hvað var það sem hann notaði á óþekka tauma? Jú, bút úr reiðhjólaslöngu og ég átti einmitt smá bút úti í bílskúr. Ég klippti mér u.þ.b. 5 sm. spotta af slöngunni, skolaði hana undir heitu vatni til að losna við allt barnapúðrið og svo renndi ég fyrsta tauminum í gegnum hana. Og viti menn, hann hitnaði greinilega mátulega til að gleyma því hvernig hann lá í hnipri í vetur og lá beinn og fallegur á eldhúsborðinu. Eftir að hafa dregið alla taumana mína í gegnum slöngubútinn, lagt þá beina og fallega á borðið gat ég vafið þá aftur upp og stungið í taumaveskið þar sem þeir bíða eftir því að ég farið í fyrstu veiði vorsins. Vonandi sofna þeir ekki of fast, en þá á ég alltaf reiðhjólaslönguna mína í veiðitöskunni með öllu hinu dótinu sem ég nota svo sjaldan.

    fos_vintage_taumar

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Slakar línur

    23. mars 2016
    Kast

    Upp

    Forsíða

    Sumar flugulínur virðast eiga erfitt með að segja skilið við fortíðina. Þetta á við nýjar línur og gamlar sem hefur verið spólað út af veiðihjólunum yfir á geymsluspólur. Þessar fortíðarlínur eiga það sameiginlegt að vilja endilega liggja á fluguhjólinu nákvæmlega eins og þær lágu á geymsluspólunum. Þetta orsakar auðvitað tómar flækjur og vesen og ekki skánar það þegar þær lenda síðan úti í vatni. Þær hrökkva til baka, rúlla sig upp eins broddgöltur og mynda einhvers konar skrúfu í vatninu.

    Sultu slakar línur
    Sultu-slakar línur

    En það er til nokkuð einfalt ráð við þessu. Prófaðu að vinda ofan af geymsluhjólinu niður í eldhúsvask sem hefur verið fylltur af ilvolgu vatni, um það bil 37°C og leyfðu línunni að liggja þar í nokkra stund áður en þú spólar henni inn á veiðihjólið. Í svona notalegu baði gleyma flugulínur yfirleitt alveg hvernig þær lágu á geymsluspólunni og spólast beinar og stilltar inn á veiðihjólið að baði loknu. Ekki sakar að nýta tilefnið og spólast línunni inn í gegnum gleraugnaklút sem haldið er þéttings fast utan um hana. Þá er hún hrein og fín, tilbúinn í slaginn.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Morgunmatur meistaranna

    19. mars 2016
    Matur

    Upp

    Forsíða

    Nú er heldur betur farið að styttast í að ferðavagninn verði gerður klár, fyllt á matarkistuna, sængurnar viðraðar og gengið úr skugga um að nægt gas sé á kútunum. Gasið kemur ekki aðeins að góðum notum til hitunar þessa fyrstu vikur vertíðarinnar, það er forsenda þess að maður getur fyllt á eigin tank fyrir daginn.

    Í veiðiferðum skiptir ekki minnstu máli að vera með nægt gas á eigin tanki yfir daginn. Staðgóður morgunverður, eða í mínu tilfelli dögurður því ég sef yfirleitt af mér morgunverðinn í útilegum, verður að vera til staðar eigi maður að halda daginn út í veiði.

    Morgunmatur meistaranna
    Morgunmatur meistaranna

    Það getur verið of seint að fylla á orkubirgðirnar ef tankurinn tæmist á miðjum degi. Betra er að vera með fullan tank þegar lagt er af stað og bæta jafnt og þétt á hann yfir daginn til að fyrirbyggja að hann tæmist alveg.

    Hér að ofan er mynd af morgunverði sem við veiðifélagarnir smellum á pönnuna hjá okkur áður en vagninn er yfirgefinn og haldið í veiði. Steikt egg, bacon, jafnvel nokkrar smápylsur, brauð með osti og sterkur kaffibolli með til að kveikja á heilabúinu og ná morgunhrollinum úr sér. Hvað sem manneldisfræðingar segja; ekki gleyma saltinu, það bindur vatn og viðheldur rafhleðslu líkamanns sem við getum auðveldlega ruglað með vatnsneyslu yfir daginn til að vinna á móti svitanum sem myndast þegar við glímum við þann stóra.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Vettlingar

    16. mars 2016
    Veiðitækni

    Upp

    Forsíða

    Þannig að maður missi sig nú ekki alveg í óþolinmæðinni eftir næstu vertíð, má taka nokkur róleg skref í átt að henni. Mér skilst á þeim sem kunna þá list að prjóna að það sé einstaklega róandi og sefandi iðja. Og hvað er þá betra en róa óþolinmæðina eftir næstu vertíð niður með því að prjóna vettlinga fyrir sumarið?

    Þar sem ég er kulsækinn í meira lagi, hef ég í gegnum tíðina þurft að vera með vettlinga bæði fyrri- og seinnipart vertíðar. Þetta getur auðvitað verið til einhverra trafala þegar maður stundar fluguveiði því það er ekki auðvelt að skipta um flugu þegar maður er dúðaður fram yfir fingurgóma. Þá getur komið sér vel að vera með ‚flapsa‘ á vettlingunum, geta lokað og opnað fyrir fingurna að vild en best hefur mér reynst að vera í grifflum, láta mig hafa það að fingurgómarnir kólni á meðan lófar og handarbök væru þokkalega heit.

    Í gegnum tíðina hef ég prófað ýmsar tegundir vettlinga; flís fingravettlinga, fóðraða gúmmívettlinga, prjónaða með flísfóðringum og svo grifflur úr íslenskri ull. Gallinn við fingravettlinga úr flísefni fannst mér helst vera að þegar þeir blotnuðu gat verið fjand… erfiðara að komast úr þeim og í þá aftur auk þess að rakir veittu þeir litla einangrun. Fóðruðu gúmmívettlingarnir voru fljótir að hverfa úr veiðitöskunni, tómt vesen; óþjálir og lítil einangrun í þeim. Þeir prjónuðu með flísfóðringunni hafa fylgt mér í nokkur ár. Mínir eru með þessum flöpsum sem ég get smeygt yfir fingurna þegar mér verður mjög kalt eða rétt á meðan ég rölti á milli veiðistaða.

    Veiðifélagi minn hefur óbilandi trú á íslensku ullinni en ég er svo mikil blúnda að ég veigraði mér lengi við að nota ullarvettlinga. Helsta minning mín frá vetrum barnæsku minnar er þessi óstöðvandi kláði undan ullinni og núningur við háls og úlnliði. Það var því með töluverðum semingi að ég lét mig hafa það að þiggja handprjónaðar grifflur úr íslenskri ull sem mér voru boðnar fyrir nokkru síðan. En, þessir vettlingar hafa reynst mér einna best. Eftir nokkrar veiðiferðir hafði ulli þæfst það mikið að allur kláði og núningur var horfinn og vettlingarnir voru orðnir þéttir og mjúkir. Af því að þetta er grifflur þarf ég ekki að fara úr þeim til að skipta um flugu og ég held góðu taki á línunni og hita á höndunum. Meira að segja þótt þeir blotni í gegn, þá halda þeir einangrun sinni merkilega vel.

    Á snúrunni eftir góðan veiðidag
    Á snúrunni eftir góðan veiðidag

    Svo er einn kostur við ullarvettlingana sem ekki má gleyma; þeir eru mun fljótari að þorna á milli veiðidaga heldur en fóðraðir- eða flísvettlingar.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
«Fyrri síða
1 … 79 80 81 82 83 … 153
Næsta síða»

FOS

Allur réttur áskilinn – © 2025 – Kristján Friðriksson

  • Facebook
  • Vimeo
  • Issuu
  • YouTube
  • Instagram
  • Senda skilaboð
  • Áskrift í tölvupósti
 

    • Gerast áskrifandi Subscribed
      • FOS
      • Join 176 other subscribers
      • Already have a WordPress.com account? Log in now.
      • FOS
      • Gerast áskrifandi Subscribed
      • Skrá mig
      • Innskráning
      • Report this content
      • Skoða vef í lesara
      • Manage subscriptions
      • Collapse this bar