Flýtileiðir

Vetrarhamur tauma

Þegar ég var fínpússa græjurnar mínar um daginn; baðaði línurnar mínar enn eitt skiptið, fór yfir veiðihjólið og herti upp á ýmsu og losaði annað, þá opnaði ég fyrir rælni taumaveskið mitt. Æ, þessi ósköp fíngerðu spottar sem maður notar til að trappa línuþykktina niður í eitthvað sem getur flutt fluguna þokkalega út á vatnið. Sumir þykkir og pattaralegir fyrir línu #7, aðrir mjóir og nettir fyrir línu #4. Bestu vinir mínir og þó hinir mestu skaðvaldar sem maður getur kynnst í lok langs veiðidags þegar köstin hafa tekið upp á því að vera ómarkviss með lélegur bakköstum og svipusmellum í framkastinu.

Taumarnir lágu þarna í veskinu og létu lítið fyrir sér fara, hringaðir upp með tvöföldum vafningi í enda til að varna því að þeir færu á flakk og í flækju. Raunar var það nú svo að ég þurfti ekkert að hafa áhyggjur af því að þeir færu í flækju, þeir voru svo rækilega fastir í sínu fari, rétt eins og stjórnmálamaður sem hefur bitið í sig á unglingsárum að vera á móti einu eða öllu og hefur haldið því áfram allan sinn feril á þingi. Ég losaði varlega upp á vafningunum á einum taum og ætlaði að rétta úr honum. En, nei. Það var nú ekki það sem hann hafði í huga. Ég veit ekki hvaða hljóð það var sem hann gaf frá sér þarna á borðinu, því verður kannski best lýst með orðinu krull. Taumurinn sem sagt krullaði sig bara aftur saman í fallegan 2“ hring og ég get svarið það, hann vafði sig tvisvar um sjálfan sig á endanum, geispaði framan í mig og lagðist aftur í vetrardvalann sinn. Mér fannst þetta nú heldur ótuktarleg framkoma sem minnti einna helst á ungling sem maður reynir að vekja á morgnanna; rumskar örlítið en snýr sér fljótlega aftur á hina hliðina og steinsofnar aftur.

Við þetta varð ekki búið, svo ég tók alla taumana mína úr veskinu og losaði upp á þeim. Jú, það var ekki um að villast, þeir snéru allir upp á sig og sofnuðu aftur í sömu stellingu og þeir hafa legið í allan veturinn. Snar í snúningum opnaði ég veiðitöskuna, þessa með öllum aukahlutunum sem maður notar eiginlega aldrei, og sótti strokuleður. Ég er sem sagt alltaf með strokuleður í töskunni til að renna taumunum í gegnum til að þrífa þá og rétta úr. Í þetta skiptið dugði gervigúmmíið ekki til. Það réttist bara örlítið úr þeim eitt augnablik en svo sótti allt í sama farið aftur. Þá mundi ég eftir leðurpjötlu sem ég átti í fórum mínum, þær ku virka vel á stífa tauma og sumir taumaframleiðendur selja meira að segja svoleiðis pjötlur dýrum dómum. Fyrstu tölur gáfu til kynna að leðrið væri málið, en svo féll þetta allt í sama farið. Eins og Bangsímon í framan fór ég að hugsa mig um. Einhvers staðar rakst ég á grein eftir álíka nískupúka og sjálfan mig sem tímdi ekki að kaupa sér nýja tauma á hverju einasta vori, hvað var það sem hann notaði á óþekka tauma? Jú, bút úr reiðhjólaslöngu og ég átti einmitt smá bút úti í bílskúr. Ég klippti mér u.þ.b. 5 sm. spotta af slöngunni, skolaði hana undir heitu vatni til að losna við allt barnapúðrið og svo renndi ég fyrsta tauminum í gegnum hana. Og viti menn, hann hitnaði greinilega mátulega til að gleyma því hvernig hann lá í hnipri í vetur og lá beinn og fallegur á eldhúsborðinu. Eftir að hafa dregið alla taumana mína í gegnum slöngubútinn, lagt þá beina og fallega á borðið gat ég vafið þá aftur upp og stungið í taumaveskið þar sem þeir bíða eftir því að ég farið í fyrstu veiði vorsins. Vonandi sofna þeir ekki of fast, en þá á ég alltaf reiðhjólaslönguna mína í veiðitöskunni með öllu hinu dótinu sem ég nota svo sjaldan.

fos_vintage_taumar

2 svör við “Vetrarhamur tauma”

  1. Atli Freyr Ólafsson Avatar
    Atli Freyr Ólafsson

    Einhversstaðar las ég um að sjóða kóníska tauma í vatni til að fá þá til að rétta úr sér. Veit ekki hvort það virkar, en væri tilraunarinnar virði

    Líkar við

  2. Kristján Friðriksson Avatar

    Já, gott ef ég var ekki búinn að heyra þetta líka. Efast ekki um að einhverjir taumar hafi hrokkið til baka í krullu, prófa þetta. Takk fyrir áminninguna, Atli Freyr.

    Líkar við

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Create a website or blog at WordPress.com