FOS
  • Færslur
  • Flugur
  • Grúsk
    • FiskurinnNokkrir punktar um hegðun fisksins sem við erum að eltast við.
    • GreinaskrifGreinar og fréttir sem komið hafa fram á hinum og þessum miðlum á liðnum árum.
    • GræjurNokkrar greinar um veiðistangir, hönnun þeirra og eiginleika.
    • HnútarNokkrir góðir hnútar
    • HnýtingarÝmislegt sem tengist veiðiflugum, hnýtingu þeirra og hönnun.
    • Hnýtingarefni
    • KannanirÝmsar kannanir sem FOS.IS hefur gert meðal lesenda sinna, niðurstöður þeirra og hugleiðingar út frá þeim.
    • KasttækniAlltaf gott að rifja upp kasttæknina.
    • Lífríkið
    • Línur og taumarÝmislegt gagnlegt sem lýtur að flugulínum og taumum.
    • MaturNokkrar uppskriftir og umfjöllun um þann mat sem má gera sér úr aflanum.
    • Veiðiferðir
    • Veiðitækni
    • ÞankarÝmsir þankar og hugleiðingar
    • ÆtiðAllt sem fiskurinn leggur sér til munns.
  • Vötnin
  • Myndir
  • Töflur
    • AFTM
    • Alfræði
    • Byrjendur
    • Festingar
    • Fiskurinn
    • Flóðatafla
    • Hlutföll
    • Krókar
    • Kúlur & keilur
    • Lög og reglur
    • Taumar og flugur
    • Þráður
  • Tenglar

  • Halar og skott í hnút

    7. mars 2018
    Kast

    Upp

    Forsíða

    Eins og svo oft áður er nánast ekki nokkur leið fyrir lesendur að dæma hvert ég er að fara af fyrirsögninni einni saman. Ég viðurkenni það að þetta á rætur að rekja til einhverrar duldrar hvatar sem ég hef að vekja forvitni lesandans á því sem ég set fram. Það er aftur á móti ekkert dulið við þessa grein, hér er fjallað um augljósa gildru sem allir veiðimenn lenda í. Já, ég fullyrði að allir lenda í þessu annars slagið og ekki síst þeir sem vilja ekkert kannast við vindhnúta.

    Það er hægt að nota mörg ljót orð um þessa litlu dásamlegu Ꚙ laga hnúta sem raða sér stundum á taumendann, tauminn eða í versta falli á línuna sjálfa. Það þarf reyndar töluverða færni til að setja vindhnút á línuna, færni sem ég mæli ekki með að nokkur maður ávinni sér. Ég nota viljandi þetta tákn (Ꚙ) vegna þess að það merkir óendanlegt í stærðfræði og sumir hafa lent í óendanlegum vandræðum með að fækka vindhnútum í gegnum tíðina. Til að geta átt við óvininn, þá er ekki úr vegi að kynnast honum betur. Vindhnútur verður til við það að endi flugulínunnar fellur niður fyrir línuna sjálfa í bakkastinu og myndar þannig lykkju í loftinu. Þetta er stutta og í raun eina lýsingin á óvininum sem menn þurfa, þ.e. ef menn þekkja feril flugulínunnar í lofti á annað borð. Reyndar er það þannig að endi línunnar verður að krossa línuna á tveimur stöðum þannig að vindhnútur komi fram. Einn kross er einfaldlega ljótt kast og mestar líkur á að flugan sláist niður fyrir aftan þig, tveir krossar er ávísun á vindhnút.

    Til að koma í veg fyrir að endi línunnar falli í kastinu, þá verður maður að passa að stangartoppurinn fylgi beinni línu á milli stoppa. Ef toppurinn fer niður fyrir beina línu yfir höfði manns, þá fellur línan að sama skapi vegna þess að hún fylgir ferli stangartoppsins, bara miklu ýktar. Það geta verið nokkrar ástæður fyrir því að stangartoppurinn fylgi ekki beinum ferli á milli stoppa. Ein algengasta ástæðan fyrir þessu er þegar toppur stangarinnar kikknar undan kastinu. Þetta gerist helst þegar kastarinn sýnir af sér óþolinmæði og leggur of snemma af stað í næsta kast eftir stopp. Línuboginn sem er þá ennþá að rúlla línunni út, þrengist skyndilega og togar óþarflega mikið í stangartoppinn sem fellur. Framhaldið er ávísun á að línuendinn falli niður fyrir línuna og hætta á vindhnút eykst. Við þessu er í raun til mjög einfalt ráð; gefðu línunni meiri tíma til að rétta úr sér, leyfðu kastinu að klárast í stoppinu áður en þú leggur af stað í það næsta.

    Önnur algeng ástæða fyrir því að toppur stangarinnar fellur í kastinu er þegar kastarinn kann sér ekki hóf. Þetta gerist oftast í framkastinu þegar leggja á línuna niður á vatnið. Hversu oft vill maður ekki ná örlítið lengra og setur óþarflega mikinn kraft í síðasta kastið? Þessi aukni kraftur fer mest í stöngina en þegar lína nýtur hans á endanum og skriðþungi hennar eykst, þá hefur þegar hægst á hreyfingu stangarinnar og toppur hennar risið upp fyrir beinan feril og það kemur hlykkur á línuna. Ráðið við þessu er einfaldlega að stilla kraftinum í hóf, auka hann ekki meira en kastið fram að síðasta kasti leyfir.

    Margar aðrar ástæður geta orðið þess að ferill línunnar brenglist, en hér verður hnúturinn hnýttur á þessa grein með einni til viðbótar. Ég ætla ekki að halda því fram að þessi síðasta ástæða vindhnúta sé algeng, en hún kemur fyrir og þá helst fyrir þá sem enn eiga í erfiðleikum með þolinmæðina. Yfirleitt er það nú svo að frekar stutt lína liggur úti þegar maður byrjar kastið og í hverju stoppi sleppir maður aðeins meiri línu út, lengir í því. Til að halda auknum línuþunga úti þarf meira afl og hraða. Stundum kemur það fyrir að maður freystast til að sleppa örlítið of mikilli línu út í stoppinu, línan þyngist umfram aflið sem er til staðar og í næsta framkasti hleðst stöngin ekki nægjanlega til að bera alla þessa línu, línuendinn fellur og kastið verður druslulegt. Druslulegt kast er ávísun á vindhnúta. Mitt ráð er að halda þolinmæðinni og endilega ástunda tvítog, það eykur hraða línunnar, fækkar falsköstum og lengir í kastinu.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Og hvað á barnið að heita?

    26. febrúar 2018
    Hnýtingar

    Upp

    Forsíða

    Af fyrri ummælum mínum hér á síðunni mætti ráða að ég sé alltaf hreint á vefnum. Þetta má örugglega til einhvers sannsvegar færa og í haust sem leið var ég svolítið á vefnum að leita að ákveðnum krókum til fluguhnýtinga. Væntanlega hafa lesendur líka rekist á þann aragrúa af krókum sem eru framleiddir nú til dags, ég í það minnsta fór eiginlega í smá baklás þegar myndaleit skilaði mér allt of miklum niðurstöðum og það var eiginlega alveg sama hvað ég reyndi að þrengja leitina, niðurstöðurnar urðu alltaf, allt of margar.

    Þegar upp var staðið, þá var það eitt umfram annað sem hjálpaði mér að þrengja leitina. Það var það heiti sem einhver ókunnur aðili hafði gefið beygjunni á krókinum. Reyndar vandaðist málið aðeins þegar það rann upp fyrir mér hve margar útfærslur framleiðendur höfðu á því að beygja krókana. Því safnaði ég saman myndum af nokkrum þeim helstu sem ég rakst á og birti hér, ef það gæti orðið öðrum til hjálpar.

    Í grunninn skiptast krókar í tvær fylkingar. Annars vegar eru það J krókar, einfaldlega vegna þess að þeir líkjast bókstafnum J og hins vegar eru það circle krókar sem eru nánast beygðir í hring. Margir framleiðendur hafa síðan haldið í gömlu heitin sem ákveðnum bug (beygju) var gefin eftir því hver fann upp á honum, hvaðan hann er upprunninn eða hvar hann var vinsælastur.

    Aberdeen krókurinn var upphaflega notaður til fiskveiða í sjó og þá helst fyrir flatfisk. Hann var framleiddur úr nokkuð deigum málmi þannig að ætt var við að hann rétti úr sér, en að sama skapi var auðvelt að koma honum í upprunalegt form. Þetta einfalda sköpulag hefur aftur á móti verið notað í mjög margar tegundir flugukróka.
    Bartleet á uppruna sinn að rekja til Partridge sem enn þann dag í dag framleiðir þessa klassísku laxakróka. Helst hafa þeir verið notaðir Spey og Dee flugur.
    Kendal króka má þekkja á örlítið uppsveigðum oddinum, en sjálfum buginum svipar mjög til Aberdeen króka.
    Limerick krókar voru um árabil vinsælastu votflugukrókarnir. Upphaflega voru stærri flugur líka hnýttar á þennan krók, en þegar York og Bartleet krókarnir komu fram, tóku þeir að mestu yfir þær flugur enda lá þessi bugur undir því ámæli að hann ætti það til að brotna við átak þar sem hann er krappastur.
    O’Shaughnessy krókar eru yfirleitt gerðir úr nokkuð sverum og þungum vír. Bugurinn er ekki ósvipaður Limerick, en krappa hornið er heldur víðara.
    Sneck bugurinn er auðþekkjanlegur á skörpum hornum bugsins. Hér á landi hafa krókar með þessu lagi yfirleitt gengið undir heitinu Ýsukróar, sem reyndar hefur færst yfir á króka með gervibeitu hin síðari ár.
    Viking krókunum svipar glettilega mikið til Kendal og má næstum segja að engin munur sér á þessum tveimur gerðum.
    York krókar hafa í gegnum tíðina helst verið notaðir í laxaflugur. Fallegir krókar og eru trúlega elstir þeirra sem hafa viðlíka sköpulag.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Skrykkkrókar

    14. febrúar 2018
    Hnýtingar

    Upp

    Forsíða

    Það verður seint um mig sagt að ég sé nýjungagjarn maður eða eins og einhver sagði, ég er bara mjög lengi að fatta suma hluti. Eitt af því sem tók mig töluverðan tíma að tengja við eru skrykkkrókar (e: jig hooks). Auðvitað er ég að leika mér aðeins með heitið á þessum krókum og væntanlega þarf ég að nota enskt heiti þeirra þegar ég spyr eftir þeim í verslunum hér heima en mér finnst skrykkkrókur skemmtileg þýðing á þessu orði.

    90° skrykkkrókur

    Þessir krókar eru langt því frá einhver nýjung á markaðnum og hafa verið fáanlegir eins lengi og elstu menn muna, sem er að vísu afskaplega teygjanlegt og einstaklingsbundið. Einkenni þessara króka er að rétt neðan við augað er leggurinn beygður þannig að augað vísar að broddinum. Mér skilst að fyrstu útfærslur þessara króka hafi verið beygðir um 90° og voru upprunalega notaðir við fiskveiðar á grunnsævi þar sem hætt var við að krókar festust í botni. Það var síðan löngu síðar sem menn fóru að nota skrykkkróka með ásteyptum kúlum í vatnaveiði. Elstu tilfelli þess að menn hafi notað þessa króka í flugur fann ég frá því upp úr 1965 í Tékklandi og fljótlega bárust þessir krókar til annarra landa og frá því um 1980 má sjá ýmsar flugur sem hnýttar voru á skrykkkróka. Hvort það er tilviljun eða tilfellið, þá eru elstu myndir sem ég hef komist yfir af flugum á þessum krókum af púpum. Miðað við uppruna þessara flugna, þ.e. Tékkland, þá er reyndar ekki ólíklegt að menn hafi fyrst notað þá í púpur enda Tékkar snillingar í þyngdum púpum. Hvenær menn fóru síðan að nýta þessa króka í straumflugur, treysti ég mér ekki að fullyrða, en upp úr 1970 kynnti Bandaríkjamaðurinn George Glazener straumflugu sem hann kallaði Spinster sem hnýtt var á skrykkkrók. Raunar var sú fluga mjög í ætt við spón þar sem hann hafði fest spónaspjald á legginn þar sem hann bognaði undir auganu. Sagan segir að hann hafi fengið nokkuð bágt fyrir þessa flugu sína í upphafi, en hún hefur haldið velli og er nú talin ein af betri flugum í Striped Bass í Bandaríkjunum.

    Nokkra pólskar á skrykkkrók

    Hin síðari ári hafa menn vissulega hnýtt ýmsar straumflugur á skrykkkróka, en algengast sýnist mér að menn hnýti púpur á þessa króka enda verður sköpulag flugunnar þannig að hún festist síður í botni. Þar sem taumaendinn festist niður á krókinn leggst hún frekar á bakið í vatninu og því er flugunum síður hætt við að krækjast í botn.

    45° og 60° skrykkkrókar

    Nú á tímum má fá þessa króka með mismunandi krappri beygju, algengast þó 45°, 60° og svo upprunalegu 90°. Eins og nærri má geta þá getur það verið töluvert snúið að koma hefðbundinni kúlu upp að auganu á þessum krókum. Til að byrja með notuðu menn fíngerðar þjalir eða sagarblöð og surfu örlitla rauf í þær aftanverðar til að auðvelda þeim leiðina yfir beygjuna. Nú á tímum má kaupa kúlurnar tilbúnar frá framleiðendum með þessari rauf og væntanlega hefur útbreiðsla þessara flugna tekið kipp þegar þessar kúlur komu fyrst fram.

    Kúlur fyrir skrykkkróka

    Sjálfur hef ég lítið sem ekkert hnýtt af flugum sem þessum, en þess í stað hef ég fiktað við að sverfa rauf í kúlur til að geta fært þyngdarpunkt flugnanna upp fyrir legginn þannig að þær leggist frekar á bakið þegar á botninn er komið. Ég er nú ekkert endilega viss um að þessar tilraunir mínar hafi fækkað festum hjá mér, ég finn í það minnsta engar þeirra lengur í mínum boxum. Ég þarf kannski að endurnýja birgðirnar eða þá hnýta nokkrar skrykkflugur til að eiga fyrir sumarið?

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Hnýtingarefni fyrir byrjendur

    7. febrúar 2018
    Hnýtingarefni

    Upp

    Forsíða

    Þegar mér datt í hug að setja hér inn örstutta samantekt á hnýtingarefni fyrir byrjendur, þá tóku hlutirnir aðeins að vefjast fyrir mér. Hvað, af öllu því dóti sem ég hef sankað að mér í gegnum tíðina, ætti ég að setja á þennan lista? Úr varð að ég tók nokkrar algengar silungaflugur sem eru hér á síðunni og setti hráefnið í þær á einn lista sem úr varð þetta:

    Krókar

    Tegundir og stærðir króka eru óteljandi og þá meina ég óteljandi en til að hnýta nokkrar góðar flugur má alveg komast af með tvær gerðir króka, plús önnur stærð innan sviga ef vel liggur á þér. Púpu og votflugukrók (B170) með stuttum legg í stærð #12 (#10) og straumflugukrók (B830) í stærð #10 (#8). Til viðmiðunar setti ég hér inn tegundarnúmer Kamazan öngla, en samanburðartöflu króka eftir framleiðendum má finna hér.

    Þetta er vitaskuld aðeins mitt val og ýmsar aðrar gerðir eru vissulega mögulegar; sverari vír, grennri eða þá lengri eða styttri leggur. Vel að merkja, þá er ýmsan fróðleik að finna hér á síðunni um króka, m.a. í þessari grein.

    Þráður

    Fyrir byrjendur mæli ég með nokkuð sverum hnýtingarþræði, en þó ekki svo að haus flugunnar verði einhver klumpur í lokinn. Nokkuð algengur þráður er UNI nylon þráðurinn og þá mæli ég með að nota 6/0 til að byrja með og eiga hann í svörtu, rauðu og brúnu. Þegar getan til að meðhöndla grennri þráð kemur með æfingunni, þá er einfalt að breyta til og auka við tegundirnar.

    Vír

    Margar flugur eru styrktar með vír sem annað hvort er gerður úr brass, kopar eða áli. Til að byrja með dugir ágætlega að eiga koparvír og silfraðan (ál) og þá alls ekki of fínan og ekki of sveran. Þá liggur beinast við að velja sér vír sem er medium.

    Kúlur

    Því er ekki ósvipað farið með kúlurnar eins og vírinn, þær eru til í nokkrum litbrigðum en þau helstu eru kopar, gyllt (brass) og silfur (ál/stál). Það eru til nokkrar töflur fyrir stærðum kúlna sem passa ákveðnum krókum, sbr. Kúlur í mm og tommum en sé miðað við krókana hér að ofan, þá væri ekki úr vegi að eiga kúlur í eftirfarandi stærðum; 3,2mm og 4,0mm. Ég mæli með gyltum og silfruðum til að byrja með, síðan má auka fjölbreytnina og taka inn kopar og litaðar kúlur.

    Vinyl rip

    Loksins kemur að einhverju einföldu, þ.e. miðað við krókastærðirnar hér að ofan. Svart medum vinyl rip og þá getur þú sett í nokkrar keimlíkar silungapúpur sem hafa alltaf gefið ágætlega.

    Floss

    Margar flugur eru með einhverjum kraga eða skotti í áberandi lit og þá er gott að eiga floss í stærðinni 2X. Af hverju 2X? Jú, það nýtist ágætlega í fíngerðan kraga því það má kljúfa þennan þráð og svo nýtist það einnig í skott ef maður leggur það tvö- eða þrefalt saman. Sjálfur mæli ég með neon lituðu flossi.

    Peacock

    Fjaðrir páfuglsins eru fíngerðar og stundum nokkuð erfiðar viðureignar fyrir byrjendur, en alveg bráðnauðsynlegar fyrir þá sem ætla að hnýta samnefnda flugu fyrir silunginn. Best er að leita eftir nokkuð löngum fjöðrum, heillegum og hraustlegum útlits. Þær eru flestar grænar en viljir þú nota brúnar, þá skaltu taka smá hluta þeirra og láta liggja úti í glugga í nokkra daga, þá verða þær brúnar og koparlitaðar.

    Pheasant tail

    Trúlega er stélfjöður fasanans ein notadrýgsta fjöður sem þú getur eignast. Annað tveggja hráefna í frægustu og að margra mati bestu silungaflugu allra tíma og svo notar maður hana í lappir og skott á óteljandi aðrar flugur.

    Hanafjaðrir

    Cock hackles eru nauðsynlegar í skegg og kraga, hringvafðar um búk og ýmislegt annað, meira að segja í vængi á vot- og straumflugur. Litir: svartar, rauðar, hvítar og gular, svona til að byrja með. Til að byrja með er óþarfi að kaupa fjaðrirnar á ham, þær eru einnig seldar lausar í pokum á mjög viðráðanlegu verði.

    Héri

    Nei, þú þarft ekki að kaupa heilt skinn af héra. Það er miklu meira en nóg að grímu af héra eða þá einfaldlega tilbúið dub sem búið er að tæta niður sem getur dugað í nokkur ár. Ef þú ætlar að hnýta Héraeyra, þá er þetta efnið og svo er það notað í kraga á ýmsar aðrar flugur.

    Tinsel

    Til að vekja flugur til lífsins og gera þær aðeins meira áberandi í vatninu er ekki úr vegi að eiga flatt og mögulega ávalt tinsel. Einn höfuðkosta þessa efnis, þ.e. þess flata, er sá að það er gyllt öðru megin og silfrað hinu megin, tvær flugur í einu höggi. Til að byrja með er fullkomlega nægjanlegt að eiga tinsel í medium.

    Garn og ullarband

    Mér finnst nauðsynlegt að eiga rautt og svart garn í fórum mínum. Notadrjúgt garn og þá helst ullarband má finna í öllum hannyrðaverslunum og þá sérstaklega ef það er spunnið saman úr tveimur eða fleiri þáttum, þá má rekja það sundur fyrir fíngerðari búk.

    Flugurnar sem þú getur hnýtt úr þessu efni eru; BAB (Babbinn, Kibbi), Black Ghost, Black Zulu, Butcher, Brassie, Buzzer, Copper John, Héraeyra, Hérinn, Killer, Koparmoli, Krókurinn, Mobuto, Mýpúpu, Peacock, Pheasant Tail, Pheasant, Red Tag og fjöldi annarra flugna. Ef eitthvert efni vantar í uppskriftina, þá er alltaf hægt að finna staðgengil þangað til þú hefur ánetjast fluguhnýtingum svo mikið að þú bætir hnýtingarefni í safnið eftir því sem þarf.

    Mikið af þessu hnýtingarefni, ef ekki allt, er einnig að finna í settum frá ýmsum framleiðendum og verslunum og því vel þess virði að kíkja á svona tilbúin sett ef þú rekst á þau. Mér hefur sýnst að verðið á svona settum og þá ekki síst magn efnisins sé mjög hentugt og oft hagstæðara heldur en kaupa það í stykkjatali.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Byrjandi í fluguhnýtingum

    5. febrúar 2018
    Hnýtingarefni

    Upp

    Forsíða

    Það fer töluvert fyrir fluguhnýtingum hér á síðunni í febrúar. Átakið okkar, Febrúarflugur stendur yfir og hnýtarar keppast við að sýna afrakstur sinn þennan mánuð og njóta aðdáunar annarra á verkum sínum. Það sem hefur vakið athygli mína síðustu ár er sá fjöldi einstaklinga sem fylgist með átakinu án þess að hnýta sjálfir. Það eru ekki allir fluguveiðimenn sem hnýta sínar flugur sjálfir, en mér býr svo í grun að nokkra langar að prófa eða hafa prófað en setja fyrir sig kostnað við að koma sér upp hnýtingargræjum. Sjálfur byrjaði ég að hnýta upp úr litlu setti sem ég fékk gefins og það dugði mér afskaplega vel og lengi, það þarf ekki að fjárfesta háar upphæðir til að komast af stað í hnýtingum.

    Þvinga 2.000 – 4.990

    Einfalda fasta þvingu er hægt að fá fyrir innan við 2.000,- kr. og þær gagnast hnýtaranum vel og lengi. Sjálfur á ég enn mína fyrstu þvingu og nota hana reglulega, sérstaklega þegar ég er að rað-hnýta mörg eintök af sömu flugunni.

    Vitaskuld er hægt að fjárfesta í flóknari þvingu, t.d. snúningsþvingu (e: rotary vice) sem gerir hnýtaranum kleift að snúa flugunni 360° í þvingunni. Slíkar þvingur má fá fyrir innan við 7.000,- og upp úr.

    Nær allar tegundir þvinga er hægt að fá með klemmu fyrir borðbrún eða platta sem stendur á borðinu. Það er undir hverjum og einum hnýtara komið hvora tegundina hann kýs, en vitaskuld er fljótlegra að stilla upp ef þvingan er á platta. Þvinga sem fest er með klemmu stendur aftur á móti stöðugar heldur en sú sem er á platta.

    Skæri 500 – 6.000

    Einföld og góð skæri má fá fyrir u.þ.b. 500,- kr. og þau þurfa ekki að vera flókinn. Hér skiptir máli að vera með oddmjó skæri og umfram allt, ekki klippa hart efni eins og t.d. vír með sömu skærum sem ætlaðar eru í mýkra efni eins og fjaðrir og þráð. Ágæt regla er að vera með tvenn skæri í borðinu og má þá jafnvel notast við gömul aflóga skæri í grófara efnið.

    Keflishaldari 700 – 10.000

    Keflishaldarar eru af ýmsum gerðum og tiltölulega auðvelt að missa sig í flóru þeirra. Einfaldur haldari með stálröri er klassískur fyrir byrjendur. Traustan og öruggan haldara má fá á innan við 700,- kr. og málið er dautt. Af hefðbundnum höldurum er næsta stig trúlega þeir sem búnir eru keramik röri í stað stáls, þeir fara að öllu jöfnu betur með hnýtingarþráðinn, en eru að sama skapi örlítið viðkvæmari fyrir hnjaski. Keramik haldarar kosta yfirleitt tvöfalt á við ódýrustu stál haldarana.

    Síðan má alveg missa sig í tæknivæddum og vísindalega hönnuðum höldurum sem kosta tífalt meira, en með þeim fylgir engin ábyrgð að flugurnar verði fallegri eða endingarbetri heldur en með einföldum haldara.

    Fjaðratöng  400 – 1.800

    Það getur alltaf komið sér vel að geta vafið fjöður eða öðru hnýtingarefni um fluguna án þess að vera með puttana í efninu. Fjaðratangir eru til í óskaplega mörgum útfærslum en einfaldar og notadrjúgar tangir má fá fyrir innan við 400,- kr. og þær duga alveg ágætlega í nær allt sem venjulegur hnýtari er að fást við. Þetta er sett fram með þeim fyrirvara að sumir hnýtarar nota reyndar aldrei tangir, þannig að einhverjir gætu alveg hugsað sér að sleppa þessari græju úr byrjendasettinu. Ég aftur á móti er hálf handalaus þegar önnur eða allar mínar tangir hverfa undir draslið á hnýtingarborðinu mínu.

    Nál 600 – 3600

    Eitt af því sem ekki má vanta á hnýtingarborðið er nálin. Maður notar hana til að laga til efni á flugunni, bera lím eða lakk á fluguna og eiginlega allt mögulegt. Einfalda nál má fá fyrir innan við 600,- kr. Mestu máli skiptir að vera alltaf með tusku eða stálull við hendinga til að þrífa nálina reglulega. Nál með storknuðu lími eða lakki á, er ekki gott verkfæri í viðkvæmar fjaðrir eða hnýtingarþráð.

    Þá erum við komin með þau áhöld sem hnýtarinn þarf að fjárfesta í til að geta hnýtt allar helstu flugur sem til eru fyrir 4.200,- kr. ef þau eru keypt stök. En ekki gleyma því að margar verslanir bjóða upp á pakka með tólum og tækjum á mjög hagstæðu verði og oft má gera fanta góð kaup í slíkum pökkum. Oft leynast ýmis önnur tæki og tól í þessum pökkum, en séu ofangreindar græjur í pakkanum, þá ertu góð/góður í að byrja fluguhnýtingar og allt annað í pakkanum er bara bónus og vel þess virði að eignast.

    Það er þó ýmislegt annað sem þarf til að geta hnýtt flugur; krókar, þráður, tinsel, kúlur, vír og fjaðrir. Meira um það síðar.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Tiltrú og æfing

    31. janúar 2018
    Hnútar

    Upp

    Forsíða

    Ég geymi mína tauma í veski og taumaefnið á spólum í vösunum mínum. Þegar ég klippi af þá fara afgangarnir í þar til gerða klemmu sem ég tæmi síðan þegar heim er komið eða hún rúmar ekki fleiri afklippur og ljóta tauma. Ég nota í grunninn aðeins þrjá hnúta; einn til að tengja taumaefnið saman og sitt hvorn hnútinn fyrir fluguna, fasta- og lausa lykkju. Þetta er einfalda myndin og svona vil ég hafa hana. Auðvitað er ég opinn fyrir nýjungum og ég prófa ýmislegt nýtt; hnúta og taumefni, en einhverra hluta vegna enda ég alltaf í því gamla góða.

    Smekkur manna á tauma og taumefni er og verður trúlega alltaf mjög misjafn. Takið eftir að ég segi smekkur því þegar ég hlusta á veiðimenn tala um uppáhalds taumaefnið sitt, þá heyri ég oftast eitthvað sem tengist útliti, áferð og endingu tauma með forskeytinu mér finnst. Þetta er gott, um þetta á fluguveiðin að snúast. Menn eiga að leyfa sér að taka ástfóstri við eitthvað ákveðið, þykja það gott og helst betra en allt annað.  En þegar öllu er á botninn hvolft, þá eru það mögulega ekki tegund eða gerð taumefnisins sem skiptir mestu máli, heldur hvað veiðimaðurinn gerir við það áður en það fer í vatnið. Já, ég er að tala um hnútana, bæði þá sem notaðir eru til að hnýta taumefni saman og þá sem (í besta falli) festa fluguna við taumaendann.

    Hnútar eru misjafnir að byggingu. Sumir vefja taumaefnið upp, taka krappar beygjur og leggjast ítrekað yfir leiðarann og er því hætt við að hita efnið þegar hnúturinn er hertur. Þegar efnið hitnar, þá teygist á því og styrkur þess minnkar, ekki gleyma að væta hnútinn vel áður en hann er hertur. Aðrir hnútar eru mun taumvænni, nuddast sjaldnar við efnið en eiga það til að rakna upp.

    Ég hef laumast til að skipta hnútum í tvær fylkingar; þeir sem halda og þeir sem eiga það til að rakna upp. Síðan einbeiti ég mér að þeim sem halda, reyni mismunandi aðferðir til að hnýta þá því það getur skipt miklu máli hvernig hnúturinn er hnýttur, það hef ég séð í meðförum annarra. Sami hnútur verður þéttur og góður hjá einum, en groddalegur og ljótur hjá öðrum. Þetta snýst um æfinguna, æfinguna og æfinguna, gott veganesti inn í veturinn. Hef ég nokkuð sagt þetta áður? Já, trúlega en þetta á alltaf jafn vel við.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
«Fyrri síða
1 … 58 59 60 61 62 … 153
Næsta síða»

FOS

Allur réttur áskilinn – © 2025 – Kristján Friðriksson

  • Facebook
  • Vimeo
  • Issuu
  • YouTube
  • Instagram
  • Senda skilaboð
  • Áskrift í tölvupósti
 

    • Gerast áskrifandi Subscribed
      • FOS
      • Join 176 other subscribers
      • Already have a WordPress.com account? Log in now.
      • FOS
      • Gerast áskrifandi Subscribed
      • Skrá mig
      • Innskráning
      • Report this content
      • Skoða vef í lesara
      • Manage subscriptions
      • Collapse this bar