Eins og svo oft áður er nánast ekki nokkur leið fyrir lesendur að dæma hvert ég er að fara af fyrirsögninni einni saman. Ég viðurkenni það að þetta á rætur að rekja til einhverrar duldrar hvatar sem ég hef að vekja forvitni lesandans á því sem ég set fram. Það er aftur á móti ekkert dulið við þessa grein, hér er fjallað um augljósa gildru sem allir veiðimenn lenda í. Já, ég fullyrði að allir lenda í þessu annars slagið og ekki síst þeir sem vilja ekkert kannast við vindhnúta.
Það er hægt að nota mörg ljót orð um þessa litlu dásamlegu Ꚙ laga hnúta sem raða sér stundum á taumendann, tauminn eða í versta falli á línuna sjálfa. Það þarf reyndar töluverða færni til að setja vindhnút á línuna, færni sem ég mæli ekki með að nokkur maður ávinni sér. Ég nota viljandi þetta tákn (Ꚙ) vegna þess að það merkir óendanlegt í stærðfræði og sumir hafa lent í óendanlegum vandræðum með að fækka vindhnútum í gegnum tíðina. Til að geta átt við óvininn, þá er ekki úr vegi að kynnast honum betur. Vindhnútur verður til við það að endi flugulínunnar fellur niður fyrir línuna sjálfa í bakkastinu og myndar þannig lykkju í loftinu. Þetta er stutta og í raun eina lýsingin á óvininum sem menn þurfa, þ.e. ef menn þekkja feril flugulínunnar í lofti á annað borð. Reyndar er það þannig að endi línunnar verður að krossa línuna á tveimur stöðum þannig að vindhnútur komi fram. Einn kross er einfaldlega ljótt kast og mestar líkur á að flugan sláist niður fyrir aftan þig, tveir krossar er ávísun á vindhnút.
Til að koma í veg fyrir að endi línunnar falli í kastinu, þá verður maður að passa að stangartoppurinn fylgi beinni línu á milli stoppa. Ef toppurinn fer niður fyrir beina línu yfir höfði manns, þá fellur línan að sama skapi vegna þess að hún fylgir ferli stangartoppsins, bara miklu ýktar. Það geta verið nokkrar ástæður fyrir því að stangartoppurinn fylgi ekki beinum ferli á milli stoppa. Ein algengasta ástæðan fyrir þessu er þegar toppur stangarinnar kikknar undan kastinu. Þetta gerist helst þegar kastarinn sýnir af sér óþolinmæði og leggur of snemma af stað í næsta kast eftir stopp. Línuboginn sem er þá ennþá að rúlla línunni út, þrengist skyndilega og togar óþarflega mikið í stangartoppinn sem fellur. Framhaldið er ávísun á að línuendinn falli niður fyrir línuna og hætta á vindhnút eykst. Við þessu er í raun til mjög einfalt ráð; gefðu línunni meiri tíma til að rétta úr sér, leyfðu kastinu að klárast í stoppinu áður en þú leggur af stað í það næsta.

Önnur algeng ástæða fyrir því að toppur stangarinnar fellur í kastinu er þegar kastarinn kann sér ekki hóf. Þetta gerist oftast í framkastinu þegar leggja á línuna niður á vatnið. Hversu oft vill maður ekki ná örlítið lengra og setur óþarflega mikinn kraft í síðasta kastið? Þessi aukni kraftur fer mest í stöngina en þegar lína nýtur hans á endanum og skriðþungi hennar eykst, þá hefur þegar hægst á hreyfingu stangarinnar og toppur hennar risið upp fyrir beinan feril og það kemur hlykkur á línuna. Ráðið við þessu er einfaldlega að stilla kraftinum í hóf, auka hann ekki meira en kastið fram að síðasta kasti leyfir.
Margar aðrar ástæður geta orðið þess að ferill línunnar brenglist, en hér verður hnúturinn hnýttur á þessa grein með einni til viðbótar. Ég ætla ekki að halda því fram að þessi síðasta ástæða vindhnúta sé algeng, en hún kemur fyrir og þá helst fyrir þá sem enn eiga í erfiðleikum með þolinmæðina. Yfirleitt er það nú svo að frekar stutt lína liggur úti þegar maður byrjar kastið og í hverju stoppi sleppir maður aðeins meiri línu út, lengir í því. Til að halda auknum línuþunga úti þarf meira afl og hraða. Stundum kemur það fyrir að maður freystast til að sleppa örlítið of mikilli línu út í stoppinu, línan þyngist umfram aflið sem er til staðar og í næsta framkasti hleðst stöngin ekki nægjanlega til að bera alla þessa línu, línuendinn fellur og kastið verður druslulegt. Druslulegt kast er ávísun á vindhnúta. Mitt ráð er að halda þolinmæðinni og endilega ástunda tvítog, það eykur hraða línunnar, fækkar falsköstum og lengir í kastinu.
Senda ábendingu