Af fyrri ummælum mínum hér á síðunni mætti ráða að ég sé alltaf hreint á vefnum. Þetta má örugglega til einhvers sannsvegar færa og í haust sem leið var ég svolítið á vefnum að leita að ákveðnum krókum til fluguhnýtinga. Væntanlega hafa lesendur líka rekist á þann aragrúa af krókum sem eru framleiddir nú til dags, ég í það minnsta fór eiginlega í smá baklás þegar myndaleit skilaði mér allt of miklum niðurstöðum og það var eiginlega alveg sama hvað ég reyndi að þrengja leitina, niðurstöðurnar urðu alltaf, allt of margar.

Þegar upp var staðið, þá var það eitt umfram annað sem hjálpaði mér að þrengja leitina. Það var það heiti sem einhver ókunnur aðili hafði gefið beygjunni á krókinum. Reyndar vandaðist málið aðeins þegar það rann upp fyrir mér hve margar útfærslur framleiðendur höfðu á því að beygja krókana. Því safnaði ég saman myndum af nokkrum þeim helstu sem ég rakst á og birti hér, ef það gæti orðið öðrum til hjálpar.

Í grunninn skiptast krókar í tvær fylkingar. Annars vegar eru það J krókar, einfaldlega vegna þess að þeir líkjast bókstafnum J og hins vegar eru það circle krókar sem eru nánast beygðir í hring. Margir framleiðendur hafa síðan haldið í gömlu heitin sem ákveðnum bug (beygju) var gefin eftir því hver fann upp á honum, hvaðan hann er upprunninn eða hvar hann var vinsælastur.

Aberdeen krókurinn var upphaflega notaður til fiskveiða í sjó og þá helst fyrir flatfisk. Hann var framleiddur úr nokkuð deigum málmi þannig að ætt var við að hann rétti úr sér, en að sama skapi var auðvelt að koma honum í upprunalegt form. Þetta einfalda sköpulag hefur aftur á móti verið notað í mjög margar tegundir flugukróka.
Bartleet á uppruna sinn að rekja til Partridge sem enn þann dag í dag framleiðir þessa klassísku laxakróka. Helst hafa þeir verið notaðir Spey og Dee flugur.
Kendal króka má þekkja á örlítið uppsveigðum oddinum, en sjálfum buginum svipar mjög til Aberdeen króka.
Limerick krókar voru um árabil vinsælastu votflugukrókarnir. Upphaflega voru stærri flugur líka hnýttar á þennan krók, en þegar York og Bartleet krókarnir komu fram, tóku þeir að mestu yfir þær flugur enda lá þessi bugur undir því ámæli að hann ætti það til að brotna við átak þar sem hann er krappastur.
O’Shaughnessy krókar eru yfirleitt gerðir úr nokkuð sverum og þungum vír. Bugurinn er ekki ósvipaður Limerick, en krappa hornið er heldur víðara.
Sneck bugurinn er auðþekkjanlegur á skörpum hornum bugsins. Hér á landi hafa krókar með þessu lagi yfirleitt gengið undir heitinu Ýsukróar, sem reyndar hefur færst yfir á króka með gervibeitu hin síðari ár.
Viking krókunum svipar glettilega mikið til Kendal og má næstum segja að engin munur sér á þessum tveimur gerðum.
York krókar hafa í gegnum tíðina helst verið notaðir í laxaflugur. Fallegir krókar og eru trúlega elstir þeirra sem hafa viðlíka sköpulag.

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.