Jason Borger leiðbeinandi og mikill grúskari mælir með V-gripinu, sem og Henrik Mortensen. Henrik gengur töluvert lengra og segir önnur grip beinlínis röng. Nafnið á gripinu er dregið af stöðu þumals og vísifingurs. Stönginni er snúið um 45° réttsælis (m.v. rétthenta) og lófinn látinn vísa í kaststefnu.
Þegar þú hefur náð að leggja stöngina rétt í lófa þér, þá ert þú kominn með upphafsstöðu eins algengasta grips veiðimannsins, þumallinn ofaná.
FramkastBakkast
Þumallinn ofan á er eitt þriggja algengustu gripa sem notuð eru. Mel Krieger og lærlingur hans Christopher Rownes mæla eindregið með þessu gripi og telja það öllum öðrum betur gert til að hjálpa veiðimanninum að hlaða stöngina. Aðrir spekingar setja helst út á þetta grip að veiðimenn sem nota það hneigist frekar en aðrir til að rykkja í og/eða ýta stönginni sem bíður heim hættunni á að stangartoppurinn sé látinn um alla vinnuna.
Það er þannig með margar klassískar bækur, eins og t.d. Moby Dick og Biblíuna, allir þekkja þær, en færri hafa lesið. Veiðimenn eiga sér nokkrar slíkar, ein þeirra er The Compleat Angler (útg. 1653) eftir Izaak Walton. Í þessari stuttmynd (47 mín.) eftir listamanninn James Prosek, fetar hann í fótspor Walton’s og eigrar um nágrenni Yale og gerir bókinni og efni hennar nokkur skil á mjög hógværan hátt. Fyrir þá sem missa sig alveg í grúskinu, þá er hægt að nálgast bókina hér á PDF formi.
Einn vanmetnasti hluti flugukastsins er gripið. Oftar en ekki, og þá sérstaklega hjá þeim sem hafa lært listina af sjálfum sér, er gripið rangt og heldur áfram að vera rangt allt þar til reyndur kastkennari tekur mann á beinið. Þannig er því farið með mig og því ætla ég að leita mér aðstoðar.
Ég hef heyrt því fleygt að ein algengasta ástæða þess að menn leita til kastkennara sé að þá langi, en nái ekki tökum á tvítoginu (double haul). Og hvers vegna vilja menn endilega læra tvítog? Jú, til að ná lengri köstum. En sannleikurinn er sá að oft á tíðum geta veiðimenn náð jafn löngum köstum án tvítogs, læri þeir undirstöðurnar fyrst; rétt grip og stöðugan úlnlið.
Þegar ég byrjaði að leita mér upplýsinga um rétt grip rakst ég auðvitað á þetta klassíska; þumallinn ofan á, vísifingur fyrir neðan. Svo rakst ég á aðra grein, þumallinn ofan- og utanvert á haldinu, vísifingur ofaná og fram. Auðvitað fór ég á stúfana og leitaði enn meira og þá kom; þumallinn ofan og utanvert og vísifingurinn gagnstætt. Reyndir veiðimenn og kennarar halda væntanlega áfram um ókomna framtíð að þrátta um hvert sé rétta gripið, allt þar til þeir mögulega komast að þeirri málamiðlun sem mér finnst rökrétt; rétt grip er það grip sem hverjum og einum hentar, svo lengi sem mönnum tekst að halda því út í gegnum kastið og ekki losnar upp á úlnliðnum.
En einhvers staðar þurfum við að byrja. Hvar í lófanum á stöngin heima?
Rétt staðsetningGripið
Leggðu stöngina í lófa þér þannig að handfangið liggi rétt fyrir neðan fremri lið vísifingurs og á ská yfir á bergið ofan við litlafingur. Byrjaðu á því að kreppa litla-, baug- og löngutöng um handfangið (ekki of fast). Læstu síðan gripinu með því að þrýsta fingugómum þumals og vísifingurs að handfanginu.
Það getur komið fyrir að við veiðum vísvitandi með of stuttan eða of langan taum. Þá er gott að veiðimaðurinn ráði við að leiðrétta það misræmi á milli línu og taums sem getur skapast.
Til að vinna á móti of stuttum taum getum við t.d. lengt kasttímann, fengið stærra kasthjól. Þannig stækkar línuboginn og yfirlínan ferðar hægar, við náum að leggja stuttan taum snyrtilegar frá okkur.
Að sama skapi getum við stytt kasttímann til að ná þrengri línuboga ef taumurinn er of langur.
Það er gott að ráða við hvoru tveggja, þó ekki væri nema að einhverju marki. Við byrjum oft veiðarnar með aðeins of langan taum því hann styttist jú í hvert skipti sem við skiptum um flugu og við viljum ekki enda strax með allt of stuttan taum. Eins kalla mismunandi veiðiaðferðir á mislanga tauma, t.d. hvort við viljum veiða grunnt eða djúpt.
Á YouTube má finna ágæta stubba úr myndbandinu Casts that Catch Fish frá On the Fly. Þetta eru stuttar klippur um algengustu mistökin í fluguköstum og hvernig má ráða bót á þeim, ekki ólíkt þeim molum sem ég hef verið að setja hér á bloggið. Því miður má ég ekki birta klippurnar hérna á síðunni, en ég hvet menn til að skoða þær á YouTube með því að smella hér.