Eins og áður hefur komið fram þá eru það tvö atriði sem skipta mestu máli í flugukasti; gripið og stöðugur úlnliður.



Stöðugur úlnliður er lykilatriði í góðum köstum. Grip sem er ekki rétt og úlnliður sem losnar upp á eru helstu ástæður mistaka og lélegra kasta, hvort heldur í fram- eða bakköstum. Ef við leggjum stöngina þvert í gegnum lófann, t.d. rétt við fingurrætur og grípum þannig um handfangið, þá er meiri hætta á að stöngin snúist og það losni upp á úlnliðnum í kastinu. Það sem við uppskerum er; opinn línubogi (ef þá einhver) og stöng sem þrýstir sé allt of langt aftur í bakkastinu. Aftara stoppið fjarar út og línan slæst í jörðina.



Gott stöðugt grip þar sem stöngin hvílir örugglega á ská í lófanum, ekki þvert í gegnum hann, gefur fyrirheit um gott kast. Sé gripinu haldið og úlnliður stöðugur í gegnum allt kastið, flyst orkan betur yfir í stöngina. Ákveðið stopp setur svo punktinn yfir i-ið og við uppskerum fallegan línuboga, höfum fullt vald á línunni.


Stöðugur úlnliður er einnig lykilatriði hvað varðar beinan kastferil. Alltaf skal gæta þess að fluguhjólið vísi beint í kaststefnu, úr fremstu stöðu yfir í þá öftustu og til baka.
Verði misbrestur á þessu og stöngin snýst í greipinni verður kastferillinn ekki beinn, við teiknum sveig í loftinu með stönginni sem línan fylgir. Þessi sveigur getur endað í beinlínis hættulegri lykkju. Við getum fengið fluguna í bakið eða höfuðið og lína og taumur geta flækst saman, sem hefur akkúrat ekkert með vind að gera þrátt fyrir nafnið ‚Vindhnútur‘.
Senda ábendingu