Þyngdin skipti miklu máli þegar kemur að púpuveiðum, sérstaklega þegar þið ætlið að glepja fiskinn með flugum eins og Prince eða Copper John. Ef ákveðið klak er í gangi eða þegar massi af skordýrum skolast með vatninu einbeitir silungurinn sér að þessum skordýrum og étur eins og hann getur. Ef hann aftur á móti dólar bara í vatninu og étur eftir því sem til fellur verður þú beinlínis að hitta hann í hausinn.
Ég sá fiskinn sveigja rólega til sitthvorrar áttar, fáeinar tommur í einu, týnandi upp eitt og eitt skordýr í vatninu en hunsa algjörlega þau sem flutu á yfirborðinu. Í eitt skipti náðum við þyngdinni akkúrat í flugurnar, þær flutu í sama plani og fiskurinn hélt sig, sitt hvoru megin við skoltana á honum, og kræktu í hann.
Í öðru tilfelli notuðum við fjarstýrði myndavélarnar til að fylgjast með torfu 50 sm. urriða sem átu í lygnu undir fossi. Vegna þess að fiskarnir voru að éta skordýr sem risu með uppstreyminu stóðu þeir beinlínis kyrrir í vatninu í 45° halla, trýnið niður. Við yfirspekkuðum tauminn til þess að skjóta flugunum beint á botnin og lyftum þeim síðan rólega upp af botninum. Einn af þessum stóru urriðum hamraði beinlínis fluguna þegar hún reis.
Punkturinn er: Þú ættir að skipta þrisvar um þyngd áður en þú skiptir í aðra flugu.
Gúmmílappir á flugur auka verulega á aðdráttarafl þeirra í vatni og eru fáanlegar í ýmsum útfærslum. En það er ekki sama hvaða teygjur menn nota, þær þurfa að vera hæfilega stífar og umfram allt, rúnaðar. Fyrir þá sem vilja prófa, án þess að þræða allar veiðibúðir bæjarins, þá er ágætur möguleiki á að finna heppilega teygju úti í bílskúr. Kerruteygjur innihalda oft fínar teygjur og ef þú ert heppinn, í ýmsum litum. Kíktu á trosnuðu teygjurnar og athugaður hvort ekki þurfi að stytta þær um eins og 10 sm.
Frá mínu sjónarhorni í vatninu virðast tökuvarar sem gerðir eru úr garni ekki fæla fiskinn eins mikið eins og þeir sem gerðir eru úr plasti eða eru gegnheilir. Mér sýndist fiskar heldur hrelldir eftir að gegnheill tökuvari lenti á vatninu. Ég veit ekki hvers vegna, kannski er það vegna smellsins sem heyrist þegar hann lendir. Vissulega litu gegnheilu tökuvararnir framandi út þegar þeir flutu framhjá á yfirborðinu. Garn-tökuvari leysir bæði vandamálin. Hann fellur hljóðlaust á vatnið og frá mínu sjónarhorni séð virtist hann samlagast vatninu betur. Hann virtist ‚náttúrulegri‘, ekki eins og ‚mannanna verk‘. Mismunandi litir virtust ekki skipta fiskinn neinu máli.
Kirk Deeter
Hér get ég samsvarað mig nokkuð vel með Kirk Deeter. Sumir tökuvarar minna meira á flotholt fyrir beituveiði heldur en tökuvara og engin furða að fiskurinn taki við sér (neikvætt) þegar sumt af þessu lendir á vatninu.
Ein algengasta ástæða þess að menn slíta hnýtingarþráðinn er sú að þeir taka of mikið á honum eða spennan í keflishaldaranum er aðeins of mikil. Áður en þú ferð að reyna að spenna upp klemmuna á keflishaldaranum prófaðu að rjóða smá kertavaxi í götin á tvinnakeflinu. Það gerir oft kraftaverk og þráðurinn rennur mun betur. Sama ráð á við þegar ískrið í keflinu er að gera þig brjálaðan. Umfram allt, reyndu eitthvað annað en að eiga við keflishaldarann eða skipta yfir í sverari þráð.
Ég veiði alltaf með tvær flugur á taum í púpuveiði. Fyrri (efri) flugan er skrautfluga, sem dæmi San Juan ormurinn eða Copper John. Síðan hnýti ég 30 til 45 sm. taumenda í hana og þar á endann minni flugu, góðgæti á botninn. Svona er byrjunarsettið mitt í straumvatni, stundum einnig í stöðuvatni. Í mjög hægur og tæru vatni nota ég tvær litlar flugur.
Kenningin er að fyrri flugan grípi athygli fisksins sem athugar málið þá betur og rekur þá augun í þá síðari og hremmir hana. Hljómar svolítið langsótt, en ég varð vitni að þessu. Ég staðsetti mig á botninum um það bil 4 fet fyrir neðan og örlítið til hliðar við stóran regnboga. Mardick kastaði og ég fylgdist með fiskinum þar sem flugan greip athygli hans, hann snéri sér við og synti framhjá mér eins og til að undirstrika „Bíddu, ég kem að vörmu, þarf bara að tékka aðeins á þessu“. Hann fylgdi þeim eftir (lítilli steinflugulirfu og litlum rauðleitum Copper John) en ákvað greinilega að gefa þeim líf og snéri til baka á nákvæmlega sama stað og hann lagði upp frá. Í næsta kasti flutu flugurnar rétt framhjá mér, fiskurinn tók á rás á eftir þeim og hvarf mér sjónum. Skömmu síðar kom hann til baka á staðinn sinn. Eftir þriðja kastið setti fiskurinn aftur kúrsinn á eftir flugunum, en í þetta skiptið kom hann ekki aftur. Ég fór upp á yfirborðið og sá Mardick og Bartkowski með regnbogann í netinu. Hann hafði hremmt neðri fluguna, fangaður af forvitninni.
Kirk Deeter
Ummæli
Ónafngreindur – 15.janúar 2012
Svona af því að þú ert að fjalla um tvær flugur á sama taum þá sendi ég VoV sumarið 2010 smá sögu sem kom meðal annars inn á þetta svið:
“Ég fór um daginn tvo daga í röð og fyrri daginn var ég með Peacock á beinum öngli og Pheasant tail á bognum öngli(ég er með tvær flugur á taumnum) og tóku allir fiskarnir Peacockinn. Daginn eftir var ég með Peacock á bognum öngli en Pheasant tail á beinum, þann daginn tóku allir fiskarnir Pheasant tail púpuna. Merkilegt hvað svona smáatriði geta skipt miklum sköpum.”
Þetta var í urriðavatni og í öllum veiðiferðum mínum það sumar veiddi ég mun betur á flugur á beinum öngli heldur en grubber öngli. Skipti þá litlu máli hvort beini öngullinn væri sá efri eða neðri.
Hérna er öll fréttin: http://www.votnogveidi.is/aftheying/veidisagan/nr/3439, þarna sést reyndar hvað maður veit lítið, ég efaðist um að það væru stærri fiskar en 50 cm í ánni en núna í sumar fékk ég þónokkra milli 50 og 60 cm og missti enn fleiri! Annaðhvort hef ég skánað sem veiðimaður eða fiskurinn stækkaði rosalega hratt milli ára
Frábær síða hjá þér, ein af sárafáum veiðisíðum með einhverju lífi yfir veturinn!
Nú eru flestir komnir í gang í hnýtingunum fyrir næstu vertíð. Sjálfur er ég alltaf að grípa í hnýtingarnar árið um kring, enda svo heppinn að geta haft hornið mitt alltaf klárt, en auðvitað í misjöfnu ástandi. Ég er ekki alveg sá duglegasti að taka til á borðinu þannig að ég notaði tækifærið um daginn og tók þessa mynd, kannski til að minna mig á að það þarf ekki alltaf að vera í rusli.
Margir gúrúar hafa bent á nauðsyn þess að hafa skipulag á hlutunum og sæmilega snyrtilegt á borðinu og ég get svo sem ekki verið annað en sammála þessu. Það er bara hægara sagt en gert.