
Að vera skipulagður, í það minnsta á hnýtingarborðinu getur sparað manni töluverðan tíma þegar kemur að hnýtingum. Þeir sem ekki eru svo heppnir að eiga sér fastan samastað til hnýtinga hafa oft verið í ákveðnum vandræðum með tæki sín og tól, en það er alltaf hægt að koma helstu verkfærum þannig fyrir að auðvelt sé að nálgast þau og taka saman að lokinni notkun. Svona svamp má finna í ýmsum pakkningum og einfalt er að líma hann á fjöl með trélími. Sjálfur límdi ég síðan smá búta úr hjólaslöngu undir fjölina til að hún yrði stöm á borðinu. Einfalt og handhægt, svo er bara að venja sig á að setja tólin í svampinn strax að lokinni notkun, þá er ekkert mál að taka saman eftir góða kvöldstund við hnýtingar.