FOS
  • Færslur
  • Flugur
  • Grúsk
    • FiskurinnNokkrir punktar um hegðun fisksins sem við erum að eltast við.
    • GreinaskrifGreinar og fréttir sem komið hafa fram á hinum og þessum miðlum á liðnum árum.
    • GræjurNokkrar greinar um veiðistangir, hönnun þeirra og eiginleika.
    • HnútarNokkrir góðir hnútar
    • HnýtingarÝmislegt sem tengist veiðiflugum, hnýtingu þeirra og hönnun.
    • Hnýtingarefni
    • KannanirÝmsar kannanir sem FOS.IS hefur gert meðal lesenda sinna, niðurstöður þeirra og hugleiðingar út frá þeim.
    • KasttækniAlltaf gott að rifja upp kasttæknina.
    • Lífríkið
    • Línur og taumarÝmislegt gagnlegt sem lýtur að flugulínum og taumum.
    • MaturNokkrar uppskriftir og umfjöllun um þann mat sem má gera sér úr aflanum.
    • Veiðiferðir
    • Veiðitækni
    • ÞankarÝmsir þankar og hugleiðingar
    • ÆtiðAllt sem fiskurinn leggur sér til munns.
  • Vötnin
  • Myndir
  • Töflur
    • AFTM
    • Alfræði
    • Byrjendur
    • Festingar
    • Fiskurinn
    • Flóðatafla
    • Hlutföll
    • Krókar
    • Kúlur & keilur
    • Lög og reglur
    • Taumar og flugur
    • Þráður
  • Tenglar

  • Hvenær púpur?

    6. júní 2012
    Veiðitækni

    Upp

    Forsíða

    Púpa og þurrfluga

    Það vefst sjaldan fyrir fjölhæfum veiðimönnum hvenær á að notast við púpur og hvenær straumflugur. En, svo eru þeir sem eru ekki alveg með þetta á hreinu og enn aðrir sem velta sér bara ekkert upp úr þessu. Ég tilheyri að mestu þeim síðast nefndu, ég byrja alltaf á púpu og færi mig ekki í straumfluguna fyrr en komið er í fulla hnefana. Reynum nú að æsa menn aðeins upp; Púpur eru einfaldlega fjölhæfasta, besta og skemmtilegasta agn fyrir fisk sem um getur.

    Snemma að vori eru púpurnar og eðli þeirra á svipuðu róli og fiskurinn; fara sér hægt og halda sig við botninn. Í björtu veðri þegar birtufælinn fiskurinn leitar á botninn er hann í púpum. Hér á Íslandi höfum við úr tveimur, mögulega þremur tegundum smáfiska að velja til að líkja eftir við straumfluguveiðar. Við höfum á 3ja hundrað skordýra hér á landi til að líkja eftir við púpuveiðar. Hér geislar hrokinn og yfirlætið af hverju orði, en það er samt svolítið til í þessu. Þegar fæða fiska er skoðuð eru einfaldlega fleiri fiskar í íslenskum vötnum sem leggja sér skordýr til munns heldur en seiði eða hornsíli.

    Einn er sá tími ársins sem ég hef ekki minnst á og það er þessi frjósami tími þegar skordýrin klekjast út í og við vötnin og silungurinn fer beinlínis hamförum. Þetta er ævintýri sem stendur því miður stutt hverju sinni, stundum bara ½ klst. í einu, en er þeim mun skemmtilegri. Að vera til staðar, leggja réttu púpuna fyrir silunginn og vera beinn þátttakandi í þessu undri náttúrunnar líður manni seint úr minni. Á þessum augnablikum renna púpu- og þurrflugumenn saman í eina sæng.

    Nóg í bili, best að kíkja aðeins í straumfluguboxið og strjúka fjaðurvængjunum, ég vil hafa þær í standi ef púpurnar mínar bregðast. Auðvitað verða menn að vera opnir fyrir öllum möguleikum.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Rush

    3. júní 2012
    Veiðitækni

    Upp

    Forsíða

    Púpuveiði

    Það leyndi sér ekkert í grein minni um daginn að ég er meira fyrir púpuveiði heldur en straumflugu. Kannski er þetta bara gamla sagan um hundinn og þetta með að sitja því þegar ég byrjaði að veiða á flugu þá leið ekki langur tími þar til ég heillaðist af þessari blindu viðureign sem púpuveiðin er. Þetta er svipað og raða púsluspili, blindandi.

    Annars hafa fyrstu tilraunir manna til púpuveiði oft ekki orðið upp á marga fiska, í orðsins fyllstu merkingu. Þeim sem stundað hafa straum- og/eða þurrflugu hefur oft reynst erfitt að fóta sig með púpuna, þessi litlu óásjálegu kvikindi sem kúra bara þarna niðri á botninum og hreyfast hægt eða ekki neitt yfir höfuð. Oftar en ekki hef ég verið spurður; Hvernig nennir þú þessu, það er engin action í þessu? Jú, satt, það er ekki oft mikið um að vera á meðan maður skyggnist um, les vatnið og náttúruna, velur að lokum eitthvert krílið og dregur það löturhægt inn. En, þegar svo einhver tekur skyndilega í og við tekur baráttan um yfirráðin, þá fer adrenalínið á fullt. Þetta er auðvitað ákveðin fíkn í ‚rush‘ á milli algjörar slökunar og þess að njóta náttúrunnar, rjúka síðan upp í spenningi og að lokum, þessi frábæra vellíðan sem streymir um mann þegar hann lætur undan og maður fær tekið um hann, losað fluguna og, kannski sleppt. Þetta er stormasamt samband manns og náttúru, æsingur og slökun.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Straumflugur eða ekki?

    30. maí 2012
    Veiðitækni

    Upp

    Forsíða

    Black Ghost

    Hvort á maður nú að setja straumfluguna undir eða púpuna? Sjálfur er ég meira fyrir púpuna en svo koma þessi augnablik þegar ekkert er að gerast og maður laumast í straumfluguboxin. Helst leita ég í straumfluguna þegar ekkert er að gerast í vatninu (stöðuvatninu). Litskrúðugir Nobblerar draga að sér fiskinn því er ekki að neita. Eins hafa klassíkerar eins og Dentis og Black Ghost gert ágæta hluti þegar líður á daginn, seinni ljósaskiptin þegar fiskurinn kemur upp af dýpinu og leitar að sílum á grynningunum.

    En það eru fleiri ástæður til að gefa straumflugunni séns. Það er ekki almennt að stóri fiskurinn hafi orðið stór af því að éta lirfur og púpur alla sína tíð. Hér setjum við sviga utan um landsþekkta stórurriða í ákveðnum ám sem éta ekkert annað en lirfur um ævina. Hvort sem það er nú meðfæddur karakter fisksins eða eitthvað áunnið, þá er magainnihald þeirra stóru oftar en ekki aðrir fiskar, bara miklu minni. Afleidd niðurstaða þessa hlýtur að vera að ætli maður að krækja í stóran fisk, þá notar maður straumflugu sem líkir eftir seiði eða hornsíli.

    Straumfluga að vori hefur verið helsta vopna margra veiðimanna. Kalt vatn, fiskurinn leitar fyrirhafnarlítillar fæðu í stórum skömmtum. Tja, ég hef reynt þetta snemma vors með frekar slökum árangri, hallast raunar meira að straumflugunni þegar ég sé sílin fara á stjá fyrir alvöru. En, þetta er væntanlega allt spurning um framboð og eftirspurn. Þegar framboðið er ekkert annað en straumfluga, þá tekur fiskurinn straumflugu, eða ekki. Ef framboðið er ekkert annað en púpur, þá tekur fiskurinn púpu, eða ekki. Hver hefur sitt lagið á þessu.

    Annars er einn tími sem alltaf er spennandi með straumflugu í vatnaveiði. Þegar vatnið er að jafna sig eftir góða rigningu eða er skolað eftir mikinn framburð, þá virkar straumflugan. Mikil rigning lækkar yfirleitt yfirborðshita vatnsins þannig að skordýrin eru minna á stjái, en að sama skapi eykur rigningin súrefnið í vatninu og þá fara litlu fiskarnir og hornsílin á stjá. Stærri fiskarnir fylgja svo á eftir.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Mýflugan

    27. maí 2012
    Ætið

    Upp

    Forsíða

    Rykmý

    Það hefur komið mörgum veiðimanninum á óvart að sjá hve stórir urriðar nærast á mýflugu og virðast bara braggast vel. Mýflugan er hreinn og klár bunki að próteini, almennt auðveld bráð, hvort heldur á lirfu eða púpustigi og þetta veit fiskurinn.

    Þegar við leitum að silungi er sjálfsagt að hafa augun hjá sér og skima eftir mýflugunni á öllum þroskastigum. En mýflugan finnst nú ekki hvar sem er. Helst er að finna hana í vatni þar sem það er ekki mikið dýpra en 4m, við jaðar dýpis eða jafnvel grynningum. Botninn hefur mikið að segja, kjörlendið er mjúkur leirkenndur botn eða stöðugur malarbotn og við bestu skilyrði getum við fundið allt að 20.000 einstaklinga á hverjum fermetra. Já, fiskurinn þarf ekki að leita langt yfir skammt að sínum prótein skammti. Að vísu þarf marga einstaklinga í góðan skammt, en þarna getum við blandað okkur í málið og lagt til áberandi heimasmíðar.

    Við vatnshita undir 2°C þekkjum við mýlirfurnar sem þessa litlu rauðu sprota sem standa upp á endann í vatninu, Blóðormur, og silungurinn sogar þær upp af botninum. Þegar vatnshitinn hækkar í 5 – 10°C fer mýið að klekjast, losar sig og syndir upp að yfirborðinu, Buzzer. Þegar nær yfirborðinu dregur hefur púpan safnað súrefni í bólu undir búkinn sem hjálpar henni að komast upp að yfirborðinu (Chromie). Þegar þessi gállinn grípur fluguna, margfaldast umferð silungsins á þessum slóðum og allt þetta æti virðist glepja eftirtekt hans þannig að við eigum stundum auðveldara að nálgast hann heldur en ella.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Að veiða mjónur

    24. maí 2012
    Veiðitækni

    Upp

    Forsíða

    Mjóna

    Mjónurnar (Buzzer) eiga að líkja eftir síðasta þroskastigi rykmýs sem púpu, þegar hún losar sig upp af botninum og syndir upp að yfirborðinu til að klekjast út. Einfalt, ekki satt? Við vitum að við eigum að beita þessum flugum fyrir okkur þegar yfirborð vatnsins er krökkt af tómum púpuhylkjum og við sjáum til flugnanna stíga upp af yfirborðinu. Þetta er einfalt líka, ekki satt? En hvernig eigum við svo að bera okkur að?

    Á kyrrum dögum þegar vatnið gárar lítið sem ekkert notum við flotlínuna, lengjum í tauminum upp í allt að 20‘ og veiðum þær mjóu. Framsetningin er nokkuð einföld og einkennist af þolinmæði. Eftir að við höfum lagt línuna út tökum við allan slaka úr henni og tauminum. Leyfum svo mjónunni að sökkva. Undir bestu kringumstæðum ræðst silungurinn á þær á meðan þær sökkva því þá líkjast þær púpunum sem örmagnast á leiðinni upp og eru auðveld bráð. Ef og þá þegar botninum er náð, lyftum við þeim aftur upp með löngum ákveðnum inndrögum. Ekki síður möguleiki á að verða var við fisk á þessum tímapunkti, ef ekki þá leyfum við henni að sökkva aftur og endurtökum þannig leikinn þangað til við tökum hana alveg upp og köstum aftur.

    Ef logið ferðast eitthvað hraðar og gáran liggur á vatninu styttum við í tauminum, kannski niður í 14‘. Undir svona kringumstæðum getum við notað okkur vindinn til að færa mjónuna til í vatninu. Köstum lítillega upp í vindinn, réttum úr línu og taum og leyfum flugunni að sökkva eins og leyfist. Hér gildir að vera ekkert að draga inn að óþörfu, flotlínan sér um að færa mjónuna, veifa henni fyrir framan silunginn. Eitt þó í lokinn, rétt fyrir upptöku er rétt að lyfta stönginni rólega um nokkur fet líkt og við gerum í púpuveiðinni. Það er ótrúlegt hve silungurinn verður oft snöggur til þegar honum finnst eins og hann sé að missa af bráðinni, jafnvel þó hann hafi verið að hnusa af henni í langan tíma en aldrei lagt til atlögu.

    Ummæli

    24.05.2012 – Kristinn hjá veida.is: Skemmtileg lesning hér að ofan. Það er spurning hvort búið sé að prófa þetta í Hlíðarvatni að undanförnu þegar Bleikjan hefur engu sýnt áhuga nema Rykmýinu.

    24.05.2012 – Kristján: Já, ég prófaði þetta aðeins 11.maí en þá ferðaðist lognið kannski aðeins of hratt yfir til að þetta virkaði, en vel að merkja það var afskaplega lítill munur á mýpúpunni sem krækti í bleikjuna fyrir mig og alvöru mjónu, svo lítilmótleg var flugan.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Er ég of nálægt fiskinum?

    21. maí 2012
    Veiðitækni

    Upp

    Forsíða

    Flugulínur

    Eins og glöggir lesendur hafa e.t.v. orðið varir við, svona innan um annað á blogginu, þá er ég að fikra mig áfram með nýja línu, s.k. Switch línu. Þessi lína er töluvert frábrugðin öðrum línum sem ég hef notað hingað til, hún er til að mynda með mun lengri skothaus heldur en aðrar línur sem ég hef notað. Ástæða þess að ég er að reyna mig við þessa línu er einföld, sumargolan á Íslandi ferðast stundum svo hratt yfir að mér hefur reynst erfitt að eiga við hana með hefðbundnu WF línunum mínum. Að skjóta Switch línu undir eða beint upp í vindinn er bara snilld. En, þetta er ekki aðal inntak þessarar greinar.

    Til að ná góðri hleðslu í stöngina með svona línu, þarf að leyfa öllum skothaus hennar að liggja úti, hér er ekkert um það að ræða að draga inn alveg upp að stangarenda. Reikningsdæmið er einfalt; ég er með 12‘ taum + 12-14‘ skothaus þannig að frá stangartoppi eru minnst 24‘ út í fluguna. Hingað til hef ég leyft mér að vaða út að dýpinu og egna fyrir fiskinn þar sem hann liggur við kantinum. Ef ég ætla að halda áfram að eiga við þennan fisk verð ég að færa mig nær landi, svo einfalt er það. Annars er ég alltaf að kasta yfir fiskinn án þess að koma flugunni nokkru sinni fyrir hann, aðeins hrekja hann undan línunni til næsta manns við vatnið.

    Ummæli

    22.05.2012 – Árni Jónsson: Ég hef einmitt verið að fikta með 40+ línu (reyndar WF) og hefur gefið fína raun. Reyndar mætti með sanni kalla hana Lots-of-weight-forward, þar sem að hún rýkur út eins kona á leið á skó-útsölu.

    23.05.2012 – Þórunn: Hvar er þessi skóútsala?

    23.05.2012 – Kristján: Nei, Þórunn mín. Hann Árni tók bara svona til orða 🙂

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
«Fyrri síða
1 … 117 118 119 120 121 … 153
Næsta síða»

FOS

Allur réttur áskilinn – © 2025 – Kristján Friðriksson

  • Facebook
  • Vimeo
  • Issuu
  • YouTube
  • Instagram
  • Senda skilaboð
  • Áskrift í tölvupósti
 

    • Gerast áskrifandi Subscribed
      • FOS
      • Join 176 other subscribers
      • Already have a WordPress.com account? Log in now.
      • FOS
      • Gerast áskrifandi Subscribed
      • Skrá mig
      • Innskráning
      • Report this content
      • Skoða vef í lesara
      • Manage subscriptions
      • Collapse this bar