FOS
  • Færslur
  • Flugur
  • Grúsk
    • FiskurinnNokkrir punktar um hegðun fisksins sem við erum að eltast við.
    • GreinaskrifGreinar og fréttir sem komið hafa fram á hinum og þessum miðlum á liðnum árum.
    • GræjurNokkrar greinar um veiðistangir, hönnun þeirra og eiginleika.
    • HnútarNokkrir góðir hnútar
    • HnýtingarÝmislegt sem tengist veiðiflugum, hnýtingu þeirra og hönnun.
    • Hnýtingarefni
    • KannanirÝmsar kannanir sem FOS.IS hefur gert meðal lesenda sinna, niðurstöður þeirra og hugleiðingar út frá þeim.
    • KasttækniAlltaf gott að rifja upp kasttæknina.
    • Lífríkið
    • Línur og taumarÝmislegt gagnlegt sem lýtur að flugulínum og taumum.
    • MaturNokkrar uppskriftir og umfjöllun um þann mat sem má gera sér úr aflanum.
    • Veiðiferðir
    • Veiðitækni
    • ÞankarÝmsir þankar og hugleiðingar
    • ÆtiðAllt sem fiskurinn leggur sér til munns.
  • Vötnin
  • Myndir
  • Töflur
    • AFTM
    • Alfræði
    • Byrjendur
    • Festingar
    • Fiskurinn
    • Flóðatafla
    • Hlutföll
    • Krókar
    • Kúlur & keilur
    • Lög og reglur
    • Taumar og flugur
    • Þráður
  • Tenglar

  • Flugulykkjan

    9. ágúst 2012
    Veiðitækni

    Upp

    Forsíða

    Brot í taum

    Flestar flugustangir, í það minnsta einhendurnar, eru útbúnar einni græju sem er að margra mati; algjörlega óþarft í besta falli. Sumir ganga svo langt að segja þessa græju; hryðjuverk á góðri hönnun. Við erum að tala um flugulykkjuna sem er staðsett rétt framan við handfangið á stönginni.

    Yfirlýstur tilgangur þessarar lykkju er að krækja flugunni í hana þegar veiðimaðurinn kýs að draga inn línuna, annað hvort við göngu eða við lok veiði. Jamm, þetta er auðvitað gott og blessað ef þú ert með styttri taum en sem nemur lengd stangarinnar. Hvers vegna? Jú, vegna þess að ef lengd taumsins er lengri en stöngin lenda skil taums og línu fyrir innan efstu, jafnvel næst-efstu lykkju stangarinnar og það verður erfiðara en ella að koma línunni fram úr efstu lykkju heldur en ella.

    Annað vandamál sem þetta getur skapað er að ef taumurinn, sem oftar en ekki er úr eingirni, fer í gegnum efstu lykkjuna kemur brot í hann, jafnvel aðeins á skömmum tíma. Þessu broti er ekki svo auðvelt að ná úr taum þegar það er á annað borð komið í hann.

    Til að komast hjá þessum vandamálum má alveg hugsa sér að að skilja alltaf eftir sem svarar einu feti af línu fram úr efstu lykkju þegar línan er gerð upp á hjólið og í stað þess að festa fluguna í þessa ólukkans lykkju, þá má alveg hugsa sér að smeygja línunni einu sinni utan um handfangið rétt aftan við hjólið og festa síðan fluguna í hentuga lykkju hvar sem er upp eftir stönginni. Með þessu má komast hjá báðum ofangreindra vandamála.

    Ummæli

    09.08.2012 – Urriði: Vinur minn sýndi mér þetta “trick” seinasta sumar og það er ótrúlega hvað svona lítið smáatriði hefur auðveldað mér lífið í sumar :)

    Svar: Já, þetta er meira en lífsnauðsynlegt fyrir röltara eins og mig og hefur breytt miklu eftir að ég tamdi mér þetta.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Línulykkja

    6. ágúst 2012
    Hnútar

    Upp

    Forsíða

    Þeim fer fækkandi, en eru samt ennþá til sem hnýta tauminn sinn á línuna með Nail knot. Flestir hafa frelsast og nota fasta lykkju á línunni og tengja þannig í fasta lykkju á taum. En úr hverju vilja menn hafa línulykkjuna? Margar flugulínur koma með soðnum lykkjum sem er allra góðra gjald verðar svo lengi sem þær eru heilsteyptar og úr aðeins stífara efni heldur en línan sjálf. Ég hef sjálfur átt línu sem var einfaldlega lykkjuð með því að fremsti hluti hennar hafði verið lagður aftur og soðin við línuna. Fljótlega særðist kápan undan eingirninu í taumnum og byrjaði eflaust að leka þar sem opið var inn í kjarna. Ég var fljótur að klippa framan af og setja tilbúna ofna lykkju á línuna.

    Ef vandað er til ásetningar ofinnar lykkju getur hún dugað ansi lengi en það er alltaf þess vert að gæta vel að þrifum hennar og hvort hún sé byrjuð að rakna upp. Þessar lykkjur eiga það til að safna í sig óhreinindum sem verða til þess að þær stífna, jafnvel í óheppilega átt. Það er fátt bagalegra heldur en veiða með lykkju sem er alltaf thumbs up og leyfir tauminum ekki að leggjast beint fram. Eins eiga þessar lykkjur það til að særast og rakna upp og því um að gera að fylgjast vel með þeim og skipta um ef þær eru orðnar tæpar.

    Ofnar lykkjur

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Taumalykkja

    2. ágúst 2012
    Línur og taumar

    Upp

    Forsíða

    Það eru til margar leiðir til að tengja taum við línu. Ég hef aðeins verið að gjóa augunum á það hvernig menn hnýta lykkju á taumana sína, þ.e. þeir sem gera það á annað borð því enn eru þeir til sem hnýta tauminn beint á línuna með tilheyrandi fórnarkostnaði við taumaskipti. En aftur að taumum með lykkjum. Margir hnýta Non slip loop á tauminn, en mér hefur alltaf vaxið sá, og raunar aðrir hnútar á taumum í augum og því hef ég alltaf vafið lykkjur á mína tauma.

    Smellið fyrir stærri mynd

    Aðferðin er í sjálfu sér afskaplega einföld, allt sem maður þarf er hnýtingarþráður, keflishaldari og tonnatak. Ég byrja á því að skammta mér ríflegan enda af hnýtingarþræði út af keflishaldaranum. Síðan skammta ég mér u.þ.b. 8 sm. af taumaendanum og mynda lykkju úr honum á milli fingra hægri handar þannig að ég held bæði um tauminn og hnýtingarþráðin. Síðan gríp ég einfaldlega um lykkjuna með fingrum vinstri handar og sveifla haldaranum í hringi utan um tauminn þannig að þráðurinn vefjist upp eftir lykkjunni.

    Þegar þráðurinn er kominn vel fram eftir lykkjunni bregð ég eins og einum til tveimur half-hitch á tauminn. Því næst læt ég nokkra dropa af tonnataki drjúpa á kaflann sem ég hef vafið og leyfi því að storkna til hálfs. Muna bara að vera ekkert að káfa í þessu alveg strax. Því næst vef ég þræðinum með sömu aðferð aftur til baka, bregð öðrum half-hitc á endann og svo aftur til baka fram að lykkjunni þar sem ég geng tryggilega frá honum og klippi af. Ef vill, þá má dreypa tonnataki aftur yfir allan vafninginn, bara gæta þess að hann leki ekki niður eftir taumnum.

    Með þessu hef ég útbúið lykkju á tauminn þannig að ég er fljótur að skipta um og er ekki alltaf á nálum yfir því hvort fiskurinn sé að atast í hnútinum í stað flugunnar. Rétt að taka það fram að þessar lykkjur hafa aldrei gefið eftir hjá mér og virðast endast von úr viti. Muna bara að nota frekar hlutlausan hnýtingarþráð, helst gráann eða bage þannig að fiskurinn fari ekki að atast í vafningnum.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Brot

    30. júlí 2012
    Veiðitækni

    Upp

    Forsíða

    Sumir segja það aðeins tímaspursmál hvenær stangveiðimenn lendi í því að brjóta stöngina sína. Á hverju sumri sér maður blogg- og spjallfærslur þar sem menn býsnast yfir þessu og tímanum sem fer í að fá nýjan topp á stöngina. Vissulega getur þetta verið bagalegt, sérstaklega fyrir þá sem ekki eiga stöng með auka-toppi eins og ég.

    Fyrir einhverju síðan setti ég saman nokkur atriði sem lesast áttu með öfugum formerkjum varðandi það að brjóta stöngina sína, en hverjar eru algengustu ástæður þess að stangir brotni?

    U.þ.b. 25% stangarbrota eiga sér stað þegar við reisum stöngina, annað hvort í viðureign við fisk eða þegar við reynum að losa festur. Sem sagt; tökum varlegar á því og reynum að stilla stöngina betur af, ekki troða henni upp í skýjahuluna yfir höfði okkar. Reynum að nota línuna til að tempra óvænt átak frá fiski. Svo notum við bara alls ekki stöngina til að losa festur, tökum frekar í línuna og höfum stöngina beina í átt að flugunni.

    Að grípa um stöngina fyrir ofan handfang er náttúrulega algjörlega bannað. Stangir eru hannaðar miðað við það að við höldum höndunum að okkur og á handfanginu. Öll önnur grip eru til þess fallin að grípa fram fyrir hugmyndir hönnuðarins um það hvernig stöngin á að vinna.

    Ótrúlega mörg brot eiga sér einnig stað þegar við þræðum stöngina. Sumir láta hjá líða að draga næga línu út af hjólinu áður en þeir þræða og taka síðan hressilega á því þegar þeir eru komnir fram yfir 2/3 stangarinnar, einmitt að veikustu hlutum stangarinnar og sveigja þannig fremsta partinn svo hann brotnar. Nei, við tökum nægjanlega langa línu út af hjólinu áður en við þræðum og við þræðum stöngina beint fram, ekki niður og alls ekki til hliðar.

    Þungar flugur í svifi eftir lélegt eða misheppnað kast geta verið stönginni banvænar. Þó við sleppum við að brjóta stöngina einmitt þegar hún skellur á henni, þá getur flugan sært toppinn þannig að við næsta alvöru átak brestur hún einmitt á þeim slóðum.

    Eftir langan dag og stífa veiði fer stöngin stundum að losna upp á samskeytunum. Fyrstu einkennin eru svolítið óstöðugar hreyfingar og svo dettur stöngin í sundur. Ef við erum heppinn þá dettur hún einmitt bara í sundur og við lítum aulalega í kringum okkur, drögum inn og setjum hana aftur saman. En, stundum er það bara of seint. Ef hressilegt átak kemur á stöng sem farinn er að losna upp á festingunum, þá getur það orðið til þess að hún brotni. Oft þarf ekki nema einn til tvo vafninga af límbandi við samskeytin til að hindra þetta eða kanna stöngina í hvert skipti og maður skiptir um eða kannar ástand flugunnar.

    Óþarfi er síðan að minnast á það hvernig við röltum með stöngina okkar. Hún á að vísa aftur, ekki fram.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Sýpur hann eða bítur?

    27. júlí 2012
    Veiðitækni

    Upp

    Forsíða

    Lítill eða stór?

    Almennt séð þá held ég að veiðimenn séu sammála um að urriðinn tekur fluguna okkar öllu ákveðnar heldur en bleikjan, eða hvað? Það getur verið stór munur á því hvort fiskurinn sé að taka agnið við botninn eða í efsta hluta vatnsbolsins. Ég var að gefa því aðeins gaum hvernig urriðarnir hafa verið að taka fluguna hjá mér í sumar. Flestir þeirra eru með hana fasta í öðru munnvikinu, raunar frekar því hægra ef það skiptir nú einhverju máli. En einstaka hafa verið með hana fasta fyrir miðju í annarri hvorri vörinni. Góður maður sagði mér um daginn að ástæðan fyrir því að við fyndum meira fyrir töku urriðans væri einfaldlega sú að hann nálgast bráðina frá hlið og rífur hana til sín, þ.e. í gagnstæða átt við inndráttinn okkar. Bleikjan nálgist bráðina aftur á móti beint af augum og dragi hana niður eða til hliðanna eftir töku. Já, þetta stemmir við það að maður finnur minna fyrir bleikjutöku heldur en urriða.

    En hvað með það þegar fiskurinn sýpur bráðina? Þegar ég fer að hugsa um það, svona eftir á, þá get ég alveg trúað því að urriðarnir og bleikjurnar sem hafa tekið í vörina hafi verið að nálgast ætið öllu varfærnar, sopið hana beinlínis upp í sig. Hverjir hafa ekki lent í því að stimpla litlu sætu hringina á yfirborði vatnsins sem leik smáfisks eða nettar uppitökur en síðan tekið vænan fisk á þessum slóðum skömmu síðar, þ.e. þeir sem ekki forðast smáhringina og leggja fluguna niður á öðrum stað, orðnir leiðir á tittunum. Stórfiskurinn tekur bráðina ekkert frekar með látum. Stundum tekur hann bara með því að renna sér upp að yfirborðinu og súpa hana í kjaftinn, ekki einu sinni með skoltinn upp úr. Skorkvikindi á yfirborðinu eða örmagna fluga sem marir rétt undir því. Ég lenti einmitt í þessu um daginn í Úlfljótsvatni. Allt vaðandi í tittum og vatnið morandi í ólympíuhringjum hingað og þangað. Einhver óeirð og ergelsi yfir lélegum köstum varð til þess að ég henti beint á eina uppitökuna, langt því frá þá stærstu og viti menn; flott bleikja sem var fyrir löngu vaxin upp úr því að vera tittur með fluguna í vörinni. Stórir hringir, stórir fiskar; kannski. Litlir hringir, litlir fiskar; nei, ekkert endilega.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Blogginu barst bréf

    24. júlí 2012
    Veiðitækni

    Upp

    Forsíða

    Eins og sagt var í gamla daga á Gufunni; Þættinum hefur borist bréf. Ekki alls fyrir löngu birti ég játningu mína á gæftaleysi í Þingvallavatni sem hefur hrjáð mig frá upphafi veiða. Stuttu síðar barst mér bréf frá lesanda bloggsins sem kveikti enn frekar hjá mér vangaveltur um þau áhrif sem leiðbeiningar um veiði og veiðiaðferðir hafa haft á mig, jafnvel leiðbeiningar sem ganga þvert meginregluna mína; Regla nr. eitt, það er engin regla. Því er einfaldlega þannig farið að aðferð eins virkar ekki endilega hjá öðrum.

    Þær voru ófáar lýsingarnar á veiðiaðferðum við Þingvallavatn sem beindu mér inn á þá átt að koma flugunni niður; þyngdar púpur og straumflugur, hægsökkvandi lína, sökk taumur og hægur inndráttur. Kannski klikkaði eitthvað eitt hjá mér í þessari ‚bestu‘ samsetningu og þess vegna varð ég ekki var við fisk, hver veit? Ekki ég í það minnsta. Samhliða gæftaleysinu minnkaði áhugi minn á vatninu, en eins og komist er að orði hér á eftir; En allt í einu þá small allt og nú hefur ferðunum fjölgað aftur í vatnið og enn hef ég ekki komið fisklaus heim úr því.

    En að bréfinu sem mér barst. Ég fór þess á leit við sendandann, Jóhann Gunnlaugsson að fá að birta úrdrátt úr því á blogginu með innskotum frá mér og auðvitað var það auðsótt mál.

    Sæll Kristján og takk fyrir skemmtilegt blogg

    Las grein frá þér um veiðiferð á Þingvelli og langaði að deila minni reynslu. Ætla alls ekki að tala sjálfan mig upp en mér hefur gengið mjög vel á Þingvöllum. Hef stundað veiði þar í einungis 4 ár og má segja að ég hafi varla veitt fisk fyrstu 2 árinn þó svo að farnar væru margar ferðir. Murtur voru reyndar alltaf til í fluguna en það kom mjög sjaldan fyrir að ég næði Kuðunga eða Sílableikju. En eins og við erum þá þróast með okkur aðferðir og við lærum með tímanum og reynslan er það dýrmætasta við veiðar á Þingvöllum.  Það hafa margar veiðihetjur komið að máli við mig og sagt mér hvað virkar best á Þingvöllum og hlustar maður og reynir að nýta sér það síðar. Í dag er hetjurnar reyndar orðnar ansi margar og segja manni misvísandi til. Ég las marga greinar og reyndi að fara eftir öllum ráðum sem mér voru gefin en allt kom fyrir ekki. En allt í einu þá small allt. Mín reynsla er að tími skipti miklu máli, ekki árstími heldur tími dags. Sá tími sem reynst hefur mér best er snemma morguns. Kominn á veiðistað kl 06. Veiði sjálfur til c.a hádegis og hætti þá oftast. Þetta er tíminn sem mér finnst að takan detti niður.

    Hver kannast ekki við lýsingarnar af ‚brjálaðri‘ síðdegis og kvöldveiði í Þingvallavatni? Hér heyrum við af allt öðrum prime time hjá Jóhanni, mun líkara mínum uppáhalds tíma. Ég hef náð fiski í síðari hluta þessa tíma, rétt fyrir hádegið og rúmlega það. Raunar hefur tímabilið frá seinna kaffi og framyfir kvöldmat gefið mér á meðan aðrir forma það ekki einu sinni að mæta fyrir kl.21

    Veiði eingöngu á flotlínu og langan taum. Lengi taum eftir dýpt á veiðistað og veiði stundum með 3 stangar lengdir (20-22) fet. Það er mjög leiðinlegt að kasta þessu og það verður varla gert með réttum kaststíl 🙂 Taumur finnst mér ekki skipta máli, veiddi nú síðast á þriðjudag, 3 júlí á 10 punda Maxima Ultagreen, því hann var í vasanum… …oftast er hann um 8 pund, þá get ég oftast nær rétt úr króknum þegar ég lendi í festu.

    Taumfælni silungs er að mínu viti ofgert stórlega. Sjálfur fór ég eftir leiðbeiningum um 4 – 5 punda taum (c.a. 3X – 4X) vegna meintrar taumfælni bleikjunnar og auðvitað urðu flugurnar mínar þá fórnarlamb Þingvallaheilkennisins, urðu eftir á botninum þegar ég festi. Í seinni tíð hef ég, þar sem von er á festu leyft mér að nota tauma í stærðum 1X og 2X. Ég viðurkenni að svona langan taum nota ég ekki, ræð bara hreint ekki við hann svo vel sé en almennt séð fór fiskum að fjölga verulega þegar taumurinn lengdist hjá mér, ekki bara í Þingvallavatni.

    Númer 1,2 og 3 er línan, hún þarf alltaf að vera strekkt og í beinni línu útfrá þér. Ef mikið rek er þá er um að gera að kasta styttra og þegar bugt er komið á línuna þá ertu hættur að veiða. Það þarf að vera bein tenging frá fingrinum sem línan dregst eftir og til flugunnar. Línan þarf alltaf að vera í beinni línu útfrá stangartoppnum. Ef að bugt er á línunni og bleikjan tekur þá finnur maður aldrei tökuna. Tökurnar eru ofur grannar og ef ekki er brugðist við strax þá er fiskurinn búin að spýta flugunni útúr sér. Sjálfur nota ég silkiteip á fingurinn sem flugulínan dregst eftir vegna þess að oft er fingurinn stamur og maður heldur að það sé taka en svo er ekki. Þú finnur muninn þegar þú prófar… … Inndráttur þarf einnig að vera mjög hægur.

    Já, mikil ósköp hef ég reynt hæga inndráttinn. Ég þekki minn þröskuld í almennri þolinmæði og veit að ég missi mig aðeins upp á stökkið eins og gæðingur á spretti. Hægi inndrátturinn minn verður oft nokkuð rykkjóttur, brokkgengur í besta falli og e.t.v. aflabrögðin eftir því.

    Það þarf ekki að kasta langt. Þegar stilla er á vatninu áttar þú þig fyrst á því hversu stutt fiskurinn er frá landi. Oft hægt að háfa hann upp… …mikilvægt að vaða ekkert meira en maður þarf. Þegar ég veiði Leirutá þá veð ég ekkert í fyrstu. Fiskurinn er mjög nálægt landi þarna og ótrúlegt hvað menn eru oft að veiða fyrir framan fiskinn. Ein ‘hetjan’ tjáði mér um daginn að ég væri að veiða allt of stutt frá landi, þyrfti að vaða út þar sem ég var vegna þess að fiskurinn væri á dýpra vatni. Þennan morguninn var mikið um fisk c.a 2-3 metra frá landi og hefði verðið fásinna að vaða útá hann.

    Ég sem hélt á tímabili að fiskurinn í Þingvallavatni væri eitthvað öðruvísi heldur en annar silungur. Ófáar leiðbeiningarnar um það hvar væri best að vaða til að ná nógu langt út í rötuðu inn á leslistann minn og ég göslaðist auðvitað eftir þeim. En, þegar upp var staðið þá var kannski rúmlega stangarlengd eftir af línu + taumurinn langi eftir í vatninu þegar bleikjan tók, rétt áður en ég tók upp.

    Nú í sumar finnst mér Krókurinn í smáum stærðum gefa mér langbest og litlir Peacockar 12-14. Nota mest Svartan Killer, Peacock, Krókinn, Watson fancy púpu eða bara eitthvað svart latex, þá er maður í fiski. Ég nota óþyngdar flugur á grunnu vatni c.a 1 metra djúpu og þyngri annar staðar. Hnýti nær eingöngu á beina öngla fyrir Þingvelli. Veiði oftast á stærð 10 snemma í júní og svo smækka ég. En þetta er allt tilfinning. Horfa á línuna og vera viðbúin töku.

    Það er alltaf gaman að heyra frásagnir manna sem maður getur samsvarað sig með hvað varðar veiði og aðferðir. Það var kannski helsta ástæða þess að mig langaði að koma þessu bréfi Jóhanns á framfæri við lesendur, ég fann mig mjög sterkt með aðferðum og nálgun hans við Þingvallavatnið. Kannski er það þessi þörf manns til að fá staðfestingu þess að maður var e.t.v. ekki að gera allt vitlaust á sínum tíma þótt illa gengi. Hæfilega mikil fylgni við allar leiðbeiningarnar, smávægilegar breytingar og fínpússning varð til þess að þetta small saman.

    Kærar þakkir Jóhann fyrir þitt frábæra innlegg.

    Ummæli

    24.07.2012 – Árni Jónsson: Dásamlegt að fá fleiri og fleiri til að deila visku sinni. Oft er talað um að Elliðavatn sé háskóli fluguveiðimanna, en persónulega finnst mér Þingvallavatn slungnara, svo ég tali nú ekki um fallegra og skemmtilegra. Afskaplega mikið sem að maður getur lært þarna og án þess að vera mikill sérfræðingur, þá held ég að Þingvellir séu með albestu veiðivötnum í heiminum.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
«Fyrri síða
1 … 114 115 116 117 118 … 153
Næsta síða»

FOS

Allur réttur áskilinn – © 2025 – Kristján Friðriksson

  • Facebook
  • Vimeo
  • Issuu
  • YouTube
  • Instagram
  • Senda skilaboð
  • Áskrift í tölvupósti
 

    • Gerast áskrifandi Subscribed
      • FOS
      • Join 176 other subscribers
      • Already have a WordPress.com account? Log in now.
      • FOS
      • Gerast áskrifandi Subscribed
      • Skrá mig
      • Innskráning
      • Report this content
      • Skoða vef í lesara
      • Manage subscriptions
      • Collapse this bar