FOS
  • Færslur
  • Flugur
  • Grúsk
    • FiskurinnNokkrir punktar um hegðun fisksins sem við erum að eltast við.
    • GreinaskrifGreinar og fréttir sem komið hafa fram á hinum og þessum miðlum á liðnum árum.
    • GræjurNokkrar greinar um veiðistangir, hönnun þeirra og eiginleika.
    • HnútarNokkrir góðir hnútar
    • HnýtingarÝmislegt sem tengist veiðiflugum, hnýtingu þeirra og hönnun.
    • Hnýtingarefni
    • KannanirÝmsar kannanir sem FOS.IS hefur gert meðal lesenda sinna, niðurstöður þeirra og hugleiðingar út frá þeim.
    • KasttækniAlltaf gott að rifja upp kasttæknina.
    • Lífríkið
    • Línur og taumarÝmislegt gagnlegt sem lýtur að flugulínum og taumum.
    • MaturNokkrar uppskriftir og umfjöllun um þann mat sem má gera sér úr aflanum.
    • Veiðiferðir
    • Veiðitækni
    • ÞankarÝmsir þankar og hugleiðingar
    • ÆtiðAllt sem fiskurinn leggur sér til munns.
  • Vötnin
  • Myndir
  • Töflur
    • AFTM
    • Alfræði
    • Byrjendur
    • Festingar
    • Fiskurinn
    • Flóðatafla
    • Hlutföll
    • Krókar
    • Kúlur & keilur
    • Lög og reglur
    • Taumar og flugur
    • Þráður
  • Tenglar

  • Taumurinn hnýttur

    3. október 2012
    Línur og taumar

    Upp

    Forsíða

    Taumaefni

    Þeir sem hnýta sína tauma sjálfir frá byrjun til enda verða að eiga þetta 4-5 mismunandi sverleika taumaefnis í handraðanum. Silungsveiðimaðurinn á sverast t.d. 01x og niður í 3x. Hvað laxmaðurinn á sverast veit ég bara ekki, en það hlýtur að þurfa nokkuð svert og slitsterkt efni fyrir 20lb. lax. En látum það liggja á milli hluta. Uppskrift af netinu fyrir stöðluðum vatnaveiðitaum, segjum upp á 15‘ hljóðar einhvern vegin svona: 10lb + 8lb + 6lb í hlutföllunum 60% + 20% + 20% samsettur með Surgeon Knot. Aha, hér er talað um slitstyrk en hvaða sverleika þarf ég ef ég ætla að nota Polymid efni? Að ég tali nú ekki um Fluorcarbon? Slitstyrkurinn í þessum efnum er afskaplega mismunandi, jafnvel frá sama framleiðanda og ef ég er að leita að taum sem á að flytja ákveðna stærð af flugu, þá skiptir sver- og sveigjanleiki efnisins meira máli heldur en slitstyrkurinn. Hér verður eigin reynsla að koma til sögunnar og taka við af uppskriftum veraldarvefsins.

    Fyrir utan að handhnýttir taumar, þ.e. þeir sem maður setur saman sjálfur, kosta þig aðeins brot af því sem tilbúnir frammjókkandi taumar kosta, þá luma þeir á enn öðrum kosti; þú getur leikið þér miklu meira með samsetningu þeirra og þar með virkni í framsetningu. Skv. ofangreindu er þumalputtareglan sú að þú skiptir 15‘ taum í þrjá parta og hnýtir hann úr þremur styrkleikum. Mín reynsla er aftur á móti sú að skipta tauminum aðeins öðruvísi, ég stekk yfir stærðir og hugsa fyrst og fremst um sverleika efnisins og mýkt:

    a) Fyrir flugur í stærðum #6, #8, #10: 60% er original butt efni + 20% 0X + 20% 2X

    b) Fyrir flugur í stærðum #12, #14, #16: 60% er original butt efni + 20% 1X + 20% 3X

    Svo kemur auðvitað fyrir að ég hef fremsta partinn mun lengri, allt að 4‘ fyrir a) og 6‘ fyrir b) ef ég sé fram á að prófa margar mismunandi flugur, skipta ört um eða þegar ég er að bögglast við að koma þyngdri flugu niður á botninn.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Hröð, miðlungs eða hæg

    29. september 2012
    Græjur

    Upp

    Forsíða

    Hröð, miðlungs, hæg

    Þegar öllu er á botninn hvolft þá gegnir flugustöngin tveimur megin hlutverkum; koma línunni út með sómasamlegum hætti og styðja við baráttu þína þegar þú hefur tekið fisk. Þetta er einföld og góð skilgreining, punktur, málið dautt. Eða hvað?

    Óli og María í Veiðihorninu fengu um árið (2006) Hardy á Englandi til að hanna með sér flugustöng fyrir íslenskar aðstæður, Hardy Iceland sem var öllu lengri en tíðkaðist almennt með einhendur, 9,6‘ og stífari, afl hennar var alveg fremst, þ.e. í toppinum. Fleiri hafa hannað stangir fyrir íslenskar aðstæður, JOAKIM‘S stangirnar eru stimplaðar þannig, meðal-hraðar með mjúkum toppi. Nielsen, þ.e. Birgir Þórsson stimplar sínar Powerflex stangir með hentar íslenskum aðstæðum, hröð stöng. E2 frá Scott var síðan hönnuð eftir forskrift Engilberts Jensens, mjúk í toppinn og kraftmikil niður í skaftið. Sem sagt; ég er á Íslandi og taki ég fyllilega mark á þessu þá þarf ég stífa stöng í lengri kantinum með mjúkum toppi sem er þetta frá því að vera miðlungs- og upp í hröð. Og hvernig veit ég að stöngin sem ég er með í höndunum sé þetta allt, ef það er þá hægt í einni og sömu stönginni?

    Það verður seint sagt um framleiðendur og seljendur flugustanga að þeir séu hugmyndasnauðir í lýsingum sínum á eiginleikum stanga; mjúk og kraftmikli, djúp vinnsla,einstaklega hröð, aflmikil og hröð. Flestar lýsingar miða að því að lauma inn þeirri hugsun hjá veiðimanninum að hann geti kastað lengra, miklu lengra með viðkomandi stöng. Lengi vel var valið á flugustöng nokkuð einfalt, til voru þrjár skilgreiningar; Fast action, Medum action og Slow action og skilgreiningin var að sama skapi einföld:

    • Fast action / hröð stöng sveigist mest og nánast eingöngu í efsta þriðjundi, þ.e. næst toppinum. Hentar best fyrir stærri (þyngri) flugur, þungar línur og í hreinskilni sagt, hentar betur þeim sem hafa unnið heimavinnuna sína í flugukasti vel, eru góðir kastarar. Allt gengur miklu hraðar fyrir sig og því þurfa tímasetningar í kastinu að vera nokkuð nákvæmar. Oftast notuð í veiði þar sem von er á stærri fiskum, stærri ám eða jafnvel strandveiði.
    • Medium action / miðlungs hröð stöng sveigist alveg niður í annan þriðjung, þ.e. niður í miðju. Þessar stangir hlaða sig hægar heldur en fast action stangir og því gefst kastaranum meiri tími til að tímasetja aðgerðir í kastinu. Góð alhliða stöng sem hentar í ám, lækjum og í vatnaveiði sem ræður vel við flugur í ýmsum stærðum og línur frá #4 – #8. Langflestar stangir fluguveiðimanna falla undir þessa skilgreiningu.
    • Slow action / hæg stöng sveigist alveg niður í fyrsta þriðjung, þ.e. alveg niður í haldið. Þessar stangir hlaða sig mjög hægt frá toppi og niður í hald og því þurfa menn að hafa góða þolinmæði og sjálfstjórn til að vinna með svona stangir. Allt of oft freistast menn (oftast byrjendur) til að flýta aðeins fyrir hleðslunni með því að beita meira afli heldur en stöngin í raun ber og því verður kastið oft á tíðum tómt klúður. Stöngin þarf sinn tíma til að hlaðast. Þurfi fast action stöng 1/3 af x-tíma (svignar í efsta þriðjungi) og medium action 2/3 af x-tíma (svignar í tveimur af þremur hlutum) þá þarf slow action stöng í það minnsta 1,5 af x-tíma til að svigna.

    Sem sagt; action lýsir því hvar stöngin svignar undir átaki og hversu langan tíma það tekur hana að hlaða sig, ekki hversu mikið hún svignar, þá tölum við um mýkt hennar.

    Ummæli

    30.09.2012 – Árni Jónsson: Mér finnst einmitt ég hafa rekið mig á það, að hraðar stangir (og mið-hraðar sérstaklega) henti flestum og þá sérstaklega í logninu á Íslandi.

    Svo hef ég líka tekið eftir því að sumir framleiðendur í hærri verðflokkunum eru hættir að tala í hefðbundnum hugtökum. S.d. flokka G.Loomis sínar stangir með “Taper” & “Power” eða tveimur mismunandi skilgreiningum. Taper segir þá til um hver hraðinn á “prikinu” er og Power um hvernig aflið vinnur og skilar sér í aflhleðslunni.

    Scott aftur á móti talar um “Flex Profile” & “Recovery Speed” sem að mér finnst vera með betri skýringum sem að ég hef séð (og henta Íslenskum aðstæðum vel)

    Sérstaklega hef ég rekið mig á “Fast-action” er langt frá því að vera það sama frá framleiðanda til framleiðanda. Máli mínu til stuðnings nefni ég eitt merki: Winston.

    Mín ráðlegging til þeirra sem að eru að reyna að koma sér út úr þessum frumskógi framleiðanda, gerða, verðflokka og alls hins, er að byrja á að finna ódýra stöng frá framleiðanda “X” áður en að farið er útí fjárfestingu og prófa sig þannig áfram þar til að þú ert búinn að finna þann framleiðanda sem að þér finnst henta þínum stíl best. Svo er hægt að fara vinna sig upp í verðflokkum. Svínvirkaði fyrir mig.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Taumurinn lengdur

    27. september 2012
    Línur og taumar

    Upp

    Forsíða

    Taumaefni

    Íhaldssemi mín og það sem mér finnst þægilegt verður oftar en ekki til þess að ég festist í einhverjum ramma sem ég fer helst ekki útfyrir. Mér þykir t.d. þægilegast að veiða með flottaum úr einþátta girni og hafa hann frammjókkandi. Þessi sérviska mín kostar sitt og á hverju sumri kemur að því fyrr eða síðar að mínum eigin takmörkum er náð hvað varðar kostnað í taumum. Þá bregð ég mér í endurvinnsluna. Þegar taumurinn er orðinn það stuttur að grennsta taumaefnið passar ekki lengur framan á hann er alveg sjálfsagt að færa sig upp um einn sverleika og hnýta á milli. Þetta verður að vísu ekki ákjósanlegasti ósýnilegi taumurinn, en dugir samt glettilega ef snyrtilega er hnýttur.

    Það sem ber að varast og hefur komið mér í koll er að blanda saman óskyldum efnum í taum. Plastefni bregðast mismunandi við tognun og hita og það er einmitt hiti sem myndast þegar við hnýtum saman taum og taumaefni. Að vísu getum við dregið verulega úr þessari hitamyndun með því að væta hnútinn vel áður en hann er hertur, en hiti myndast nú samt sem áður. Það tognar lítillega á efninu, það veikist og í verstu tilfellunum krullast það sitt hvoru megin við hnútinn, svona eins og skrautbandið á jólapökkunum. Mitt blákalda mat er að efni sem krullast er ónýtt frá framleiðanda og það kaupir maður bara einu sinni, betra er að eyða 100 kr. meira í taumaefnið heldur en taka séns á einhverju no-name efni sem er ódýrara. Útsölurnar að hausti og fljótlega upp úr jólavertíð eru líka varhugaverðar. Plastefni gengur í samband við súrefni og veikist með tíð og tíma, sérstaklega þegar sólar- og halógenljós hjálpa til. Þegar taumar og taumaefni hafa legið frammi í nokkra mánuði hefur slitstyrkur þeirra minnkað verulega og þú bara slítur og slítur út úr hnútunum. Keyptu nýtt efni í upphafi vertíðar, ekki henda hundraðköllum til að spara 40% á útsölu löngu áður en þú ætlar að nota efnið.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Besta stöng í heimi

    24. september 2012
    Græjur

    Upp

    Forsíða

    Flugustöng

    Stöngin mín er; a) hröð, b) miðlungs-hröð, c)  hæg, d) stíf, e) miðlungs-mjúk, f) mjúk og ég nota hana í allt. Auðvitað er engin stöng sem nær þessu öllu, enda er þetta aðeins samansafn úr leit á Google yfir það hvernig menn lýsa bestu stöng sem framleidd hefur verið; stönginni sinni. Það hefur verið sagt um karlmenn og bíla að þeirra bíll er bestur; kemst lengst á lítranum, er aflmestur eða endist best á meðan konurnar okkar eiga annað hvort lítinn sætan, sparneytinn eða bara rauðann bíl.

    Þegar ég byrjaði í fluguveiði var mér ráðlagt að fá mér miðlungs-mjúka stöng. Hún fyrirgefur þér mistökin var sagt við mig. Fyrsta stöngin mín, Abu Garcia Diamond í tveimur hlutum, hefur núna fengið ákveðinn heiðurssess í bílskúrnum. Ég opna hólkinn reglulega og kíki á hana, en tek hana yfirleitt aldrei með mér í veiði, nema þá sem varastöng. Vissulega var stöngin miðlungs og fyrirgaf mér næstum öll mistökin sem urðu á vegi mínum til að byrja með, ég var sáttur. Ég sótti mér leiðbeiningar varðandi köstin og fékk þá kommentið; fín byrjendastöng og leiðbeinandinn lagði áherslu á að ég ætti að tilta (halla) stönginni til hægri og láta stöngina renna frá fremra stoppi og aftur í það aftara. Þessi hreyfing hefur fylgt mér alla tíð síðan sem minn aðal-kaststíll jafnvel þótt ég noti standard fyrir öxl á styttra færi með léttri stöng.

    Þegar mér síðan tókst að tæla konuna mína í fluguveiði, þá var henni bent á Airflo stöng (sett) sem væri tilvalið fyrir byrjendur. Eftir því sem ég best veit var hún mjög ánægð með stöngina en mér fannst hún frá fyrstu tíð allt of stíf (þ.e. stöngin) hún fylgdi mér ekki eins vel í rennsliskastinu mínu. Aftur á móti var hún frábær í standard yfir öxl og það varð einmitt aðalsmerkið í kaststíl konunnar. Maður beinlínis heyrir í ákveðnu fram og bakkasti hennar, svúpp, svúpp (Essence of Fly Casting II – Mel Krieger) beint yfir öxlina. Þeir sem séð hafa til okkar segja, hún kast miklu betur en hann og það er örugglega alveg rétt. Hún vandaði sig líka miklu meira í upphafi því stöngin hennar fyrirgaf henni ekki eins mikið og fyrsta stöngin mín, ég komst upp með villurnar.

    Eins og með svo marga fluguveiðimenn höfum við uppfært stangirnar okkar. Hvort sem það var nú frekjan í mér eða aðeins tilviljun, þá erum við með eins stangir sem aðal-stangir í dag; miðlungs-mjúkar JOAKIM‘S MMX. Konan mín heldur áfram að kasta eins og klippt út úr kennslumyndbandi Mel Krieger (svúpp,svúpp) og ég held áfram með rennsliskastið mitt með fáeinum áherslubreytingum til batnaðar. Þegar ég svo tek í hraða stöng, segjum Scott S4 eða Sage One, þá finnst mér svolítið eins og ég sé með kústskaft (bara miklu léttara) í höndunum. Nei, bíðið aðeins áður en þið missið ykkur í hneykslan og formælingum. Það getur vel verið að ég sé auli og asni, en ég er ekki að hallmæla stöngunum sem slíkum. Það segir ekkert um gæði stanganna að menn hafi skiptar skoðanir á þeim, sú stöng sem hentar kaststíl einum getur verið sem kústskaft í höndum annars. Ástæða þess að framleiðendur senda frá sér margar mismunandi útfærslur stanga er einfaldlega sú að þarfir manna og stuðningur stanga við kaststíl þeirra er mismunandi. Fyrsta stöng manna hefur mjög mikil áhrif og mótar, oft fyrir lífstíð, kastið þeirra. Lengi býr af fyrstu gerð og mörgum reynist erfitt að breyta rótgrónum stíl þegar fram í sækir. Það er hægt að leiðrétta og þá eiga menn að nýta sér leiðsögn til þess hæfra manna, kastkennara sem geta litið út fyrir eigin uppáhalds stíl og leiðbeint með rýni til gagns. En hvað með; hröð, miðlungs eða hæg? Meira um það síðar.

    Ummæli

    26.09.2012 – Árni Jónsson: Allir góðir kastkennarar taka það einmitt fram að þetta er ekki klippt og skorið og allir þróa sér sín eigin stíl. Kennarar sem segja annað og byrja að segja þér hvað þú átt og átt ekki, hugnast mér ekki.

    26.09.2012 – Þórunn: awwwwwwww…… (Aðspurð skýrði Þórunn þetta með orðunum; ´Æ, hvað þetta er krúttlega sagt’)

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Taumurinn minn

    21. september 2012
    Línur og taumar

    Upp

    Forsíða

    Taumaefni

    Vegna þráhyggju minnar í silungsveiði hef ég alltaf geta komist upp með að hugsa meira um þvermál taums heldur en slitstyrk hans. Ég viðurkenni það fúslega að ég á stundum í nokkrum erfiðleikum með að gera mér grein fyrir því hvaða taumur það er sem menn kalla 8lb taum. Er það 1x eða 2x? Slitstyrkur tauma er misjafn eftir framleiðendum og efnisgerð þeirra og því er ekki til nein ein góð regla fyrir samhengi þvermáls og slitstyrks. Það næsta sem maður getur komist reglu er að leggja einhverja töflu á minnið eins og þá sem má nálgast hér.

    Þannig er að silungsveiðimenn, þ.e. þeir sem ástunda nokkuð hefðbundna vatnaveiði þurfa sjaldnast að hafa áhyggjur af því þótt þeir séu að nota 2x taum með 3x taumaenda. Að vísu er hnúturinn veikasti hlekkurinn en það má svona nokkurn veginn reikna með því að slitstyrkur svona taums sé eitthvað á bilinu 6lb – 8lb.og hentar ágætlega til að leggja fram flugur í stærðum frá #6 og niður í #16, spannar sem sagt nokkuð stórt bil í flugnavali. Sé aftur á móti ætlunin að veiða smærri flugur getur reynst nauðsynlegt að fara í grennri taum, 4x eða 5x. Notist þú við einþátta frammjókkandi taum má líka hugsa sér að klippa 3x taumaendann af og hnýta 4x í stað hans og hafa hann þá nokkuð lengri.

    Þegar ég keypti mér mína fyrstu flugustöng, alveg rennandi blautur á bak við eyrun, þá var mér réttur 0x frammjókkandi taumur og spóla með taumaefni 1x. Hvort sem afgreiðslumaðurinn hefur séð á mér að ég væri hnútaböðull eða greip bara það sem hendi var næst þá var þetta taumurinn sem ég böðlaðist með fyrsta sumarið mitt í flugunni. Síðar meir hefur mér oft orðið hugsað til þess að eitthvert misræmi var nú samt í þessu hjá blessuðum manninum, því hann tók saman einar 20 ‚pottþéttar‘ silungaflugur í stærð #12 og #14 handa mér. Kannski engin furða að ég væri í vandræðum með að leggja þessi kríli fram með sómasamlegum hætti mitt fyrsta sumar.

    Seinna eftir nokkurn lestur og grúsk á netinu fóru taumarnir mínir í megrun. Fyrst náðu þeir 1x, síðar 2x og nú veiði ég nokkuð jafnhliða með 2x og 3x, en það er ekki þar með sagt að ég hafi ekki prófað ennþá grennra en þá tók flugnavalið mitt í taumana og ég færði mig aftur til baka í framangreindar stærðir. Sem sagt; flugurnar mínar ráða þvermáli taumsins, ekki slitstyrkurinn eða vonir um 10lb. urriða með ofsóknarbrjálæði.

    Í nokkrum komandi pistlum ætla ég að velta upp ýmsum flötum á tauminum og samsetningu hans.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Fiskur í hita

    18. september 2012
    Fiskurinn

    Upp

    Forsíða

    Nú í sumar reyndi ég aðeins að veita því athygli hvenær dags og þá sérstaklega með tilliti til hitastigs vatns, fiskurinn væri virkastur. Það er löngu þekkt að ljósaskiptin eru virkur tími til veiða, en hvað er það við ljósaskiptin sem kveikir í silunginum að fara á stjá? Eru það birtuskilyrðin eða er það e.t.v. ölítil en samt merkjanleg breyting á hitastigi vatnsins?

    Urriði

    Mæli maður hitastig vatnsins þegar ekkert er að gerast og svo þegar allt fer á fullt, þá er það mín tilfinning að urriðinn vilji helst vera á stjái þegar hitastigið hefur náð 10°C en dragi sig fljótlega í hlé þegar hitinn fer yfir 14°C. Þetta á alveg jafnt við um það hvort æti sé á yfirborðinu eða ekki, ef yfirborðshitinn fer yfir 14°C þá sekkur urriðinn. Ég hef sannreynt þetta einfaldlega með því að gefa því gaum hvenær uppitökur hætta að morgni eða um hádegi og prófað þá að þyngja flugurnar mínar og veiða dýpra. Oftar en ekki heldur veiðin áfram á sömu slóðum, bara aðeins neðar í vatnsbolnum þar sem hann hefur ekki hitnað eins mikið. Ég leyfi mér að draga þá ályktun af þessu að fiskurinn hörfar ekkert endilega strax út í vatnið þar sem er meira dýpi heldur byrji á því að leita neðar í vatnsbolinn. Auðvitað á þessi kenning aðeins við um þau vötn sem taka miklum breytingum, eru annað hvort grunn eða lituð. Lituð vötn sveiflast meira í hitastigi milli dags og nætur heldur en þau tæru. Sama á við um þau grunnu. Ofangreind hegðun virðist einnig eiga við bleikjuna, nema þá að kjörhitastig hennar er lægra, þ.e. 9 – 13°C. Hún virðist sökkva fyrr en urriðinn og hörfar síðan í framhaldi út í vatnið.

    En er þetta yfir höfuð nokkuð vandamál hér á Íslandi? Hvar eru þessi vötn sem hitna svona á Íslandi? Jú, það kemur mönnum væntanlega á óvart hve vötn hitna hér almennt hratt og mikið yfir sumartímann. Áttu vatnshitamæli?  Leyfðu honum að dingla í vatninu á meðan þú veiðir og kíktu á hann annars lagið. Hver veit nema þú getir haldið áfram að veiða eftir að fiskurinn er hættur að taka á og við yfirborðið.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
«Fyrri síða
1 … 111 112 113 114 115 … 153
Næsta síða»

FOS

Allur réttur áskilinn – © 2025 – Kristján Friðriksson

  • Facebook
  • Vimeo
  • Issuu
  • YouTube
  • Instagram
  • Senda skilaboð
  • Áskrift í tölvupósti
 

    • Gerast áskrifandi Subscribed
      • FOS
      • Join 176 other subscribers
      • Already have a WordPress.com account? Log in now.
      • FOS
      • Gerast áskrifandi Subscribed
      • Skrá mig
      • Innskráning
      • Report this content
      • Skoða vef í lesara
      • Manage subscriptions
      • Collapse this bar