
Við viljum alls ekki setja nálgunarbann á þennan eltihrelli, þvert á móti. En hvað er til ráða þegar við sjáum kauða þar sem hann fylgir flugunni okkar eftir alveg þar til við tökum hana upp í næsta kast en lætur aldrei til skarar skríða? Hvernig væri að prófa að drepa fluguna? Skjóta hana beinlínis í kaf, hætta öllum inndrætti og leyfa henni einfaldlega að sökkva eins og hún væri steindauð?
Þeir sem prófað hafa segja þetta beri árangur í yfirgnæfandi tilfella, ef ekki strax þá næsta víst þegar hún nálgast botninn. En, hver hefur svo sem lýst hógværum orðum einhverju svona leynitrikki í veiðimennsku? O jæja, þetta rímar nú samt svolítið við þá reynslu manna af töku bleikjunnar í síðasta inndrætti eftir að maður hefur hinkrað örlítið við, leyft flugunni að hvílast áður en maður tekur hana upp í næsta kast. Kannski vel þess virði að prófa?