
Þegar minnst varir getur allt nart og allar tökur gufað upp eins og dögg fyrir sólu. Og það er einmitt hún sem er líklegust til að eiga sökina á þessari uppgufun, sem sagt sólin. Vegna þess að silungurinn sér aðeins 1/8 þeirra litatóna sem við sjáum þá getur verið ansi stutt á milli þess að hann sér agnið okkar, fluguna og þess að hún einfaldlega hverfur sjónum hans í grámósku vatnsins. Oftast gerist þetta þegar sólin hverfur á bak við ský eða annað þéttara á himninum. Nokkuð sem við skynjum aðeins sem örlitla breytingu á litatón getur verið frávik upp á heilan lit í vatninu fyrir silunginum. Við þessu er tvennt til ráða. Annað hvort tekur þú þér pásu og bíður þess að sólin brjótist framundan skýinu eða þú skiptir um lit á agninu. Aðeins annað þessara ráða gefur þér von um fisk, þitt er valið.