Þegar spurningin kemur upp um það hvort taumurinn eigi að vera undir eða ofaná, þ.e. vatnsfilmunni þá getur þú svo sem farið sömu leið og Kolbeinn kafteinn gerði, slegið í og úr eða bara svipt ofan af þér sænginni og látið slag standa. Nei, ég er ekki alveg búinn að missa mig. Poly-taumar fljóta gjarnan frekar á yfirborðinu heldur en Fluorcarbon taumar. Þetta liggur í eðlisþyngd efnisins. Eðlisþyngd Flurocarbon er meiri heldur en H2O og því sekkur taumurinn. Eðlisþyngd polyefna er aftur á móti svipuð eða minni en H2O og því fljóta þeir taumar.

Poly-taumar eru ennþá langsamlega útbreiddastir og fyrir því eru einfaldar ástæður. Þeir kosta minna, eru slitsterkari og fást í fjölda stífleika, nokkuð sem alls ekki allir framleiðendur taka sérstaklega fram á umbúðum tauma og taumaefnis.
Ókost poly-tauma varðandi sökk má auðveldlega ráða bót á, berðu mold eða plöntuleifar á tauminn áður en þú notar hann, þá sekkur kvikindið. Auðvitað eru líka til flottar krukkur í veiðiverslunum sem innihalda ‘sérstakan’ leir til þessara nota, þitt er valið.

Flurocarbon taumar sækja sífellt í sig veðrið en hafa enn ekki náð poly-taumum í sveigjanleika og styrkleika. Aftur á móti eru þeir sterkri á svellinu þegar kemur að styrk gagnvart efnafræðilegum áhrifum. Þeir þola seltu mun betur en poly-taumar og þar að auki eru þeir því sem næst glærir sem er auðvitað kostur þar sem menn hafa trú á taumafælni fiska. Með tíð og tíma lærist mönnum að vinna bug á enn einum ókosti fluorcarbon, þ.e. hnútunum. Þeir vilja slitna undir álagi, efnið er stökkara og meiri vandvirkni þarf við hnútana. Einföld leið er t.d. að fjölga vafningum í hnútunum frá því sem maður hefur vanist með poly-efni. Fleiri vafningar og meiri hráki hjálpa oft mikið til.
Senda ábendingu