FOS
  • Færslur
  • Flugur
  • Grúsk
    • FiskurinnNokkrir punktar um hegðun fisksins sem við erum að eltast við.
    • GreinaskrifGreinar og fréttir sem komið hafa fram á hinum og þessum miðlum á liðnum árum.
    • GræjurNokkrar greinar um veiðistangir, hönnun þeirra og eiginleika.
    • HnútarNokkrir góðir hnútar
    • HnýtingarÝmislegt sem tengist veiðiflugum, hnýtingu þeirra og hönnun.
    • Hnýtingarefni
    • KannanirÝmsar kannanir sem FOS.IS hefur gert meðal lesenda sinna, niðurstöður þeirra og hugleiðingar út frá þeim.
    • KasttækniAlltaf gott að rifja upp kasttæknina.
    • Lífríkið
    • Línur og taumarÝmislegt gagnlegt sem lýtur að flugulínum og taumum.
    • MaturNokkrar uppskriftir og umfjöllun um þann mat sem má gera sér úr aflanum.
    • Veiðiferðir
    • Veiðitækni
    • ÞankarÝmsir þankar og hugleiðingar
    • ÆtiðAllt sem fiskurinn leggur sér til munns.
  • Vötnin
  • Myndir
  • Töflur
    • AFTM
    • Alfræði
    • Byrjendur
    • Festingar
    • Fiskurinn
    • Flóðatafla
    • Hlutföll
    • Krókar
    • Kúlur & keilur
    • Lög og reglur
    • Taumar og flugur
    • Þráður
  • Tenglar

  • Punktar um tauma

    21. október 2012
    Línur og taumar

    Upp

    Forsíða

    Taumur

    Fyrir þá sem hnýta sína eigin tauma er ýmislegt að varast og annað sem gott er að hafa í huga bæði áður en lagt er af stað og í meðförum tauma. Á ferðum mínum um veraldarvefinn og um vötnin á Íslandi hafa ýmsir punktar safnast í sarpinn hjá mér sem mögulega geta nýst öðrum.

    Hér er ekki um nein geimvísindi að ræða og eflaust hafa margir upplifað og reynt það sama og ég í taumaflækjum, en hérna eru nokkrir punktar:

    Þegar talað er um Ritz uppskriftina að taum er átt við taum sem skiptist 60/20/20 hlutföllum frá þykkasta hluta og fram í taumaenda. Þetta hlutfall er fínt til að byrja með og smátt og smátt gerir maður sínar sérviskulegu breytingar og endar vonandi með sinn drauma taum.

    Ágætt er að hafa í huga að byrja tauminn á efni sem er 2/3 af þvermáli fremsta hluta línunnar. Það tryggir nokkurn veginn samfellt flæði orku frá línu og fram í taumaenda.

    Hlutfallið í þykkt einstaka hluta taumsins má að sama skapi alveg ná 2/3.

    Sé þess kostur er ágætt að stífleiki taumsins þar sem hann er þykkastur sé svipaður og línunnar.

    Grannir og linir taumar flytja orku verr en sverir og stífir.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Eltihrellir í vatni

    18. október 2012
    Veiðitækni

    Upp

    Forsíða

    Eltihrellir

    Við viljum alls ekki setja nálgunarbann á þennan eltihrelli, þvert á móti. En hvað er til ráða þegar við sjáum kauða þar sem hann fylgir flugunni okkar eftir alveg þar til við tökum hana upp í næsta kast en lætur aldrei til skarar skríða? Hvernig væri að prófa að drepa fluguna? Skjóta hana beinlínis í kaf, hætta öllum inndrætti og leyfa henni einfaldlega að sökkva eins og hún væri steindauð?

    Þeir sem prófað hafa segja þetta beri árangur í yfirgnæfandi tilfella, ef ekki strax þá næsta víst þegar hún nálgast botninn. En, hver hefur svo sem lýst hógværum orðum einhverju svona leynitrikki í veiðimennsku? O jæja, þetta rímar nú samt svolítið við þá reynslu manna af töku bleikjunnar í síðasta inndrætti eftir að maður hefur hinkrað örlítið við, leyft flugunni að hvílast áður en maður tekur hana upp í næsta kast. Kannski vel þess virði að prófa?

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Taumurinn undir eða ofaná

    15. október 2012
    Línur og taumar

    Upp

    Forsíða

    Þegar spurningin kemur upp um það hvort taumurinn eigi að vera undir eða ofaná, þ.e. vatnsfilmunni þá getur þú svo sem farið sömu leið og Kolbeinn kafteinn gerði, slegið í og úr eða bara svipt ofan af þér sænginni og látið slag standa. Nei, ég er ekki alveg búinn að missa mig. Poly-taumar fljóta gjarnan frekar á yfirborðinu heldur en Fluorcarbon taumar. Þetta liggur í eðlisþyngd efnisins. Eðlisþyngd Flurocarbon er meiri heldur en H2O og því sekkur taumurinn. Eðlisþyngd polyefna er aftur á móti svipuð eða minni en H2O og því fljóta þeir taumar.

    Polytaumur

    Poly-taumar eru ennþá langsamlega útbreiddastir og fyrir því eru einfaldar ástæður. Þeir kosta minna, eru slitsterkari og fást í fjölda stífleika, nokkuð sem alls ekki allir framleiðendur taka sérstaklega fram á umbúðum tauma og taumaefnis.

    Ókost poly-tauma varðandi sökk má auðveldlega ráða bót á, berðu mold eða plöntuleifar á tauminn áður en þú notar hann, þá sekkur kvikindið. Auðvitað eru líka til flottar krukkur í veiðiverslunum sem innihalda ‘sérstakan’ leir til þessara nota, þitt er valið.

    Fluorcarbon

    Flurocarbon taumar sækja sífellt í sig veðrið en hafa enn ekki náð poly-taumum í sveigjanleika og styrkleika. Aftur á móti eru þeir sterkri á svellinu þegar kemur að styrk gagnvart efnafræðilegum áhrifum. Þeir þola seltu mun betur en poly-taumar og þar að auki eru þeir því sem næst glærir sem er auðvitað kostur þar sem menn hafa trú á taumafælni fiska. Með tíð og tíma lærist mönnum að vinna bug á enn einum ókosti fluorcarbon, þ.e. hnútunum. Þeir vilja slitna undir álagi, efnið er stökkara og meiri vandvirkni þarf við hnútana. Einföld leið er t.d. að fjölga vafningum í hnútunum frá því sem maður hefur vanist með poly-efni. Fleiri vafningar og meiri hráki hjálpa oft mikið til.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Skiptum litum

    12. október 2012
    Hnýtingar

    Upp

    Forsíða

    Í lit eða svart/hvít?

    Þegar minnst varir getur allt nart og allar tökur gufað upp eins og dögg fyrir sólu. Og það er einmitt hún sem er líklegust til að eiga sökina á þessari uppgufun, sem sagt sólin. Vegna þess að silungurinn sér aðeins 1/8 þeirra litatóna sem við sjáum þá getur verið ansi stutt á milli þess að hann sér agnið okkar, fluguna og þess að hún einfaldlega hverfur sjónum hans í grámósku vatnsins. Oftast gerist þetta þegar sólin hverfur á bak við ský eða annað þéttara á himninum. Nokkuð sem við skynjum aðeins sem örlitla breytingu á litatón getur verið frávik upp á heilan lit í vatninu fyrir silunginum. Við þessu er tvennt til ráða. Annað hvort tekur þú þér pásu og bíður þess að sólin brjótist framundan skýinu eða þú  skiptir um lit á agninu. Aðeins annað þessara ráða gefur þér von um fisk, þitt er valið.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Taumurinn endurnýttur

    9. október 2012
    Línur og taumar

    Upp

    Forsíða

    Taumaefni

    Þeir sem lesið hafa þessa tauma-pistla mína hafa eflaust lagt saman tvo og tvo og náð einhverju í líkingu við fjóra. Ég hef nefnt óþol mitt gagnvart því að kaupa frammjókkandi tauma og þann kostnað sem af sí-endurteknum kaupum hlýst. Svo hef ég nefnt að ég hnýti á milli endanlegs taumaenda og taums til að drýgja hann. Þegar ég síðan held því fram að ég byrja á eigin taumum með efni 01X þá gæti nú samlagningin upp úr þessum greinum mínum farið að vefjast eitthvað fyrir mönnum. Útskýringa er eflaust þörf.

    Fyrri part sumars kaupi ég mér nýjan 12‘ frammjókkandi polymid taum, ég á mér eina uppáhalds tegund sem ég hef snúið aftur til eftir nokkrar tilraunir með aðrar tegundir, en það í sjálfu sér skiptir ekki máli. Það sem skiptir máli er að ég kaupi taumaefni frá sama framleiðanda, sama plastefni. Það fyrsta sem ég geri við þennan nýja taum er að setja á hann fasta lykkju (sjá hér). Þegar ég hef síðan veitt nokkrum sinnum með þessum taum (segjum að hann sé 3X) tekið af honum og bætt taumaenda við eftir þörfum, þá kemur að því að ég verð að skeyta eins og 2‘ af 1X efni við hann áður en venjulegi 3X taumaendinn fer á. Svona tekst mér að endurnýta upphaflega tauminn vel frameftir sumri, svo lengi sem hann verður ekki fyrir einhverju tjóni, særist í grjóti eða það sem er skemmtilegra eitthvert skrímslið í vatninu hefur flækt hann svo rækilega að honum verður ekki viðbjargandi. Keyptur frammjókkandi taumur á sér langt líf ef maður á nokkra sverleika af taumaefni í vestinu.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Atferli og hegðun

    6. október 2012
    Fiskurinn

    Upp

    Forsíða

    Á bekknum

    Á umliðnum árum hefur mjög færst í vöxt að stöndug samtök stangveiðimanna og veiðifélög styrkja eða standa að alvöru rannsóknum á lífríki og þar með atferlishegðun fiska. Mér liggur við að segja að auðvitað eru þetta erlendir aðilar, hér heima hafa stangveiðifélögin víst ekki bolmagn til slíkrar peningaeyðslu. En, rannsóknir auka við þekkingu okkar og með þeim gætum við kortlagt brunnana áður en við dettum í þá. Sumt af þessum rannsóknum eru náttúrulega einskorðaðar við ákveðin vötn eða vatnasvæði erlendis en það má samt alltaf lesa einn og einn góðan punkt út úr þeim.

    • Sé þess einhver kostur að hreyfa sig sem minnst er það fyrsti kostur silungsins þegar kemur að fæðuöflun. Léleg fæða, jafnvel orkulítil sem er innan seilingar verður oftar fyrir valinu heldur en fæða sem útheimtir einhverja orkueyðslu.
    • Silungurinn er vel hæfur til þess að greina á milli raunverulegrar fæðu og þess sem er óætt með því einu að fylgjast með hreyfingu og atferli bráðarinnar. Hann rennur frekar á agn sem hreyfist líkt og raunveruleg bráð heldur en þá sem líkist henni en hreyfist ekki ‚eðlilega‘.
    • Sjónskyn silungs er ekki ósvipuð okkur mönnunum, nema þá helst snemma morguns og að kvöldi. Þá dofnar allt litaskin fisksins, hann verður næstum litblindur og því um að gera fyrir okkur að nota agn sem inniheldur hve skörpust skil ljósra og dökkra flata.
    • Óróleiki í vatni, þá helst í ám og lækjum truflar sjónsvið silungs verulega. Við bestu skilyrði sér fiskurinn u.þ.b. 20‘ (6 metra) frá sér þannig að hann greini þokkalega hvað er á ferðinni. Hann má aftur á móti ekki vera nema u.þ.b. 2‘ (60 sentímetrar) frá flugu #12 til að hann sjái hana þokkalega og geri atlögu að henni.

    Mögulega getum við nýtt okkur eitthvað af þessu við hnýtingarborðið á komandi vetri.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
«Fyrri síða
1 … 110 111 112 113 114 … 153
Næsta síða»

FOS

Allur réttur áskilinn – © 2025 – Kristján Friðriksson

  • Facebook
  • Vimeo
  • Issuu
  • YouTube
  • Instagram
  • Senda skilaboð
  • Áskrift í tölvupósti
 

    • Gerast áskrifandi Subscribed
      • FOS
      • Join 176 other subscribers
      • Already have a WordPress.com account? Log in now.
      • FOS
      • Gerast áskrifandi Subscribed
      • Skrá mig
      • Innskráning
      • Report this content
      • Skoða vef í lesara
      • Manage subscriptions
      • Collapse this bar