Nú er lag í Heiðmörk

Persónulega fagna ég því að veiðisvæði Elliðavatns sé komið inn á Veiðikortið, ekki spurning. Þetta svæði er stórt, eitt það stærsta sem silungsveiðimenn komast í á þessu horni landsins; Elliðavatn, Helluvatn og Hólmsá/Bugða sem er 8km í það minnsta og Nátthagavatn. Skv. fréttatilkynningu Veiðikortsins er Suðurá ekki inni á kortinu þannig að ég tel hana ekki með. Kunnugir halda því fram að ásókn í Elliðavatn hafi minkað mikið hin síðari ár og er það miður því sjaldan hefur reynt eins mikið á að veiðimenn jafni út þann mun sem orðið hefur í stofnstærðum bleikju og urriða á svæðinu.

Skv. skýrslu Jóns Kristjánssonar fiskifræðings frá 2003, Mat á veiðiálagi Elliðavatns 2002 er ‚Álag veiðimanna á stofninn er lítið, sennilega innan við 15% af stofnstærð bleikju og urriða. Áhrif veiðanna á stofninn eru ekki sjáanleg.‘ Í þessari skýrslu og flestum öðrum sem komið hafa fram um Elliðavatn er þess getið að skil veiðiskýrslna séu mjög lélegar og það eitt hamli verulega raunhæfu mati á stofnstærð silungs í vatninu. Ég geri mér vonir um að þetta geti batnað verulega með aðkomu Veiðikortsins að því.

Gagnrýni í þá átt að ofveiði geti gætt með auknu veiðiálagi er auðveldlega hægt að vísa á bug hvað vötnin varðar. Ef einhvern tímann hefur verið þörf á meiri veiði urriða á svæðinu, þá er það núna þegar hlutfall bleikju minnkar jafnt og þétt. Samkvæmt skýrslu Jóns Kristjánssonar frá árinu 2003; Veiðar og endurheimtur á merktum silungi í Elliðavatni 2003 þá var stofnstærð urriða í Elliðavatni metin ríflega 25.000 fiskar eða um 74%. Stofnstærð bleikju var metin í besta falli um 9000 fiskar eða um 26%. Í skýrslunni kemur fram að afföll bleikju hafi verið nokkuð stöðug um 30% frá árinu 1971 og á sama tíma hafi stærðarsamsetning hennar staðið nokkuð í stað. Án þess að geta um heildarfjölda silunga, nefnir Guðni Guðbergsson fiskifræðingur í blaðaviðtali árið 2011 að bleikjan sé komin niður í 10% stofnstærðar silungs og urriðinn kominn í 90%. Einfaldur framreikningur m.v. 30% afföll á niðurstöður Jóns frá 2002 styður þessar tölur.

Á þeim árum sem Orkuveitan ástundaði niðurdrátt vatnshæðar í Elliðavatni beinlínis þurrkaði hún riðsvæði bleikjunnar sem liggja á aðeins 10-50 sm. dýpi og skerti þannig samkeppnisstöðu hennar gagnvart urriðanum sem hélt sínum hrygningar- og uppvaxtarstöðvum óskertum í Hólmsá og Suðurá og styrkti seiðabúskap sinn jafnt og þétt á milli ára. Það liggur síðan í eðli urriðans að leita nýrra fanga þegar lífríki ánna nær vart að fæða hann og er Elliðavatnið hans nærtækasti kostur eftir að niðurgöngu til sjávar var lokað á sínum tíma. Þessi ágangur urriðans er auðvitað á kostnað bleikjunnar og stuðlar enn frekar að fækkun hennar í heildarstofnstærð.

Eitt af því sem hefur komið fræðingum á óvart hin síðari ár er að Elliðavatn er tiltölulega rýrara af gæðum næringar en áður hefur verið talið sbr. Stofnstærðarmæling silungs í Elliðavatni 2001. Ég leyfi mér að efast um að fyrri mælingar/álit manna hafi verið rangar. Þess í stað tel ég að lífríki vatnsins hafi einfaldlega hrakað hin síðari ár. Það er alþekkt að vötn sem verða til eða eru stækkuð út yfir gróið land verða frjósamari töluverðan tíma eftir þessar aðgerðir en hrakar síðan snögglega þegar drekkt gróðurþekjan lætur loks undan og hættir að framleiða t.d. blaðgrænu.

Öllu þessu til viðbótar hefur nýrnasýking  (PKD) í Elliðavatni herjað meira á bleikjuna heldur en urriðann hin síðari ár skv. skýrslu Þórólfs Árnasonar og Friðþjófs Árnasonar; Elliðaár 2010 Rannsóknir á fiskistofnum vatnakerfisins.

Stutt samantekt Jóns Kristjánssonar í lok ofangreindrar skýrslu er sláandi ‚Veiðiálag á bleikju er lítið, náttúruleg dánartala er lág, stofninn fremur lítill tölulega séð og viðkoma er lítil. Urriðastofninn er stór, veiðiálag lítið, etv. 10-15 % á ári, heildarafföll virðast mikil , um 60% milli ára, en óvissu háð, margt bendir til þess að hann sé fremur staðbundinn á uppvaxtartíma.

Ofangreint verður allt til þess að Elliðavatn breytist í ‚stórurriðavatn‘ eins og sumir veiðimenn hafa nefnt það. Miðað við þær aðstæður sem við búum silunginum í vatnasviði Heiðmerkur er þetta eðlileg þróun. Við höfum auðvitað valkosti til úrbóta, ef við viljum það á annað borð. Einn þessara kosta er að auka veiði í Elliðavatni, Hólmsá og Suðurá með þeim formerkjum að sleppa skuli bleikju. Með þessu getum við stangveiðimenn stuðlað að jöfnuði í stofnstærðum þó það hafi tæpast úrslitaáhrif þar sem stangveiði í vötnum verður seint afgerandi þáttur í lífríkinu. Annar kostur er stórtækari og verður væntanlega seint áberandi í umfjöllun opinberlega, því miður. Til þess að velta honum upp þurfum við aðeins að skoða Vatnsendavatn og Vatnsvatn sem ég ætla að gera í næsta pistli mínum.

2 svör við “Nú er lag í Heiðmörk”

 1. Urriði Avatar
  Urriði

  „Ofangreint verður allt til þess að Elliðavatn breytist í ‚stórurriðavatn‘ eins og sumir veiðimenn hafa nefnt það“

  Og er það slæmt? Mér hefur nú aldrei leiðst að veiða stóra urriða 😛
  Vissulega eru svona snöggar breytingar í lífríkinu áhyggjuefni en það má alveg horfa á björtu hliðarnar 🙂
  Annars flottir pistlar hjá þér um þetta vatnasvæði.

  Líkar við

 2. Urriði Avatar
  Urriði

  Takk fyrir og ég bjóst nú hálfpartinn við því að þú og fleiri síður birti tengil á þetta eins og í fyrra 🙂 Þess vegna passa ég nú hvað sést í bakgrunninum á þeim myndum sem ég birti 😉

  Líkar við

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.