
Fyrir þá sem hnýta sína eigin tauma er ýmislegt að varast og annað sem gott er að hafa í huga bæði áður en lagt er af stað og í meðförum tauma. Á ferðum mínum um veraldarvefinn og um vötnin á Íslandi hafa ýmsir punktar safnast í sarpinn hjá mér sem mögulega geta nýst öðrum.
Hér er ekki um nein geimvísindi að ræða og eflaust hafa margir upplifað og reynt það sama og ég í taumaflækjum, en hérna eru nokkrir punktar:
Þegar talað er um Ritz uppskriftina að taum er átt við taum sem skiptist 60/20/20 hlutföllum frá þykkasta hluta og fram í taumaenda. Þetta hlutfall er fínt til að byrja með og smátt og smátt gerir maður sínar sérviskulegu breytingar og endar vonandi með sinn drauma taum.
Ágætt er að hafa í huga að byrja tauminn á efni sem er 2/3 af þvermáli fremsta hluta línunnar. Það tryggir nokkurn veginn samfellt flæði orku frá línu og fram í taumaenda.
Hlutfallið í þykkt einstaka hluta taumsins má að sama skapi alveg ná 2/3.
Sé þess kostur er ágætt að stífleiki taumsins þar sem hann er þykkastur sé svipaður og línunnar.
Grannir og linir taumar flytja orku verr en sverir og stífir.