Eigum við að velta okkur aðeins upp úr stærðum? Við veiðimennirnir eru ekki skv. einhverjum staðli og því geta orð eins um litlar flugur verið stór orð í eyru annars. Ef við og reynsla okkar værum aftur á móti skv. staðli væri ekkert mál að flokka stórar, litlar og ör-litlar flugur. Einhvern tímann sá ég grófa flokkun; stórar flugur eru í stærðum #8 og niður í #12, litlar flugur eru í stærðum #14 og niður í #18, ör-litlar eru #20 og þaðan af minni. Skv. þessu eru allar mýflugur ör-ör-litlar því raunstærð flugnanna samsvara u.þ.b. #28 en samt er maður að veiða á Mýpúpu í stærð #12 Hvað er eiginlega í gangi? Án þess að gera lítið úr stærðum flugna og þeirri áherslu sem flugufræðingar leggja á smærri flugur, þá kennir reynslan mér að stærri flugur geta alveg eins kveikt tökur eins og smærri. Svo má aldrei gleyma því að púpur eru stærri að vori heldur síðla sumars. Því er nefnilega þannig farið að púpur og lirfur éta eins og þær geta á veturnar og langt fram á vorið og beinlínis tútna út í stærð. E.t.v. ættum við að hugsa dæmið í heilli árstíð, við byrjum stórt og smækkum svo flugurnar þegar líður á sumarið og ný kynslóð púpa og lirfa hefur tekið við í vötnunum.
Það eru alltaf einhverjir nýir að byrja í veiðinni og því ganga gamlar tuggur nokkuð reglulega í endurnýjun lífdaga. Hér er ein slík.
Ekki er allt fengið með töku, hvað þá löndun fisks. Kjósi veiðimaður að nýta aflann sér eða sínum til matar er eins gott að fara vel með hann. Best er að blóðga fiskinn strax að löndun lokinni, annað hvort með því að rífa táknin úr honum eða skera fyrir. Hvora aðferðina sem menn kjósa, er málinu ekki lokið. Mikilvægt er að leggja fiskinn með hausinn niður eða halda honum á hvolfi þar til hætt er að drjúpa úr honum, að öðrum kosti getur blóð smitast út í holdið og það orðið ólystugt. Og enn er ekki nóg að gert.
Ef menn hafa ekki tök á að gera strax að fiskinum er samt um að gera að koma honum í kælingu sem allra fyrst. Kæling í vatni er oftast einfaldasti kosturinn og sá fyrirhafnarminnsti. Notkun netpoka hefur aukist nokkuð hin síðari ár sem eru tilvalin til geymslu/kælingar afla þar til unnt er að gera að honum. Gera skal að fiskinum við fyrsta tækifæri, fjarlægja maga og önnur innyfli vandlega og skola kviðarholið vel. Að sjálfsögðu tökum við með okkur allt slóg eða urðum tryggilega til að halda því frá varginum og náttúrunni hreinni.
Innyfli silunga innihalda að öllu jöfnu fæðu og fæðuleifar ásamt töluverðu magni ensíma sem brotið geta niður meltingarveg fisksins skömmu eftir dauða hans. Komi til slíks smitast innihald magans fljótt út í kviðarholið og þaðan út í holdið með tilheyrandi skemmdum. Ekki má heldur gleyma því að kviðarholið inniheldur einnig ýmsa gerla sem skemmt geta fiskinn á skömmum tíma. Slæging, þrif og kæling eru það eina sem spornar við slíkum skemmdum. Því miður virðist það ítrekað koma veiðimönnum á óvart hve skamma stund niðurbrot meltingarfæra og skemmdir örvera tekur og afraksturinn eftir því ókræsilegur.
Kæling fiskjar gegnir líka öðru og ekki síðra hlutverki, hún hægir á dauðastirðnuninni. Of hröð stirðnun getur valdið því að holdið verður laust í sér og erfitt ef ekki ómögulegt verður að flaka svo vel sé. Og þá komum við að enn einum þættinum sem veiðimenn eru hvattir til að fara vel að; flökuninni og meðferð beinagarðs og hausa.
Það hefur færst nokkuð í aukana að veiðimenn geri að og flaki afla á veiðistað. Á þetta sérstaklega við um vötn sem eru langt utan alfaraleiðar og vilja menn væntanlega létta byrðarnar fyrir heimferðina. Gæta verður þess samt að kæling í vatni fari þannig fram að vatnið, með tilheyrandi örverum, komist ekki að flökunum. Einfaldur plastpoki dugir ágætlega til að halda streymi örvera um holdið í lágmarki. Og ef þú átt í vandræðum með hemja fiskinn við flökun þá getur þú orðið þér úti um svona græju eins og Svarti Zulu á eða bara einfaldlega notað gaffal. Umfram allt verða menn að gæta þess vera með beittan hníf og ekki of þykkan, annars endar þú með fiskfars.
Að lokum, ekki skilja við aðgerðastað eins og þú eigin von á að mamma þín komi rétt á eftir og taki til eftir þig, hirtu þitt rusl sjálf(ur).
Ert þú skarpasti hnífurinn í bænum? En hvað með önglana þína? Vonandi þekkja veiðimenn þessar hægu tökur sem koma fyrir á vorin. Það er ekki fyrr en fiskurinn finnur að hann er fastur, ef hann þá festir sig þá á annað borð, að það færist líf í leikinn. Þegar fiskurinn fer sér hægt eins og hann gerir á vorin er um að gera að vera með eins beitta öngla í flugunni og unnt er. Beittir önglar festast fyrr og við verðum fyrr varir við fiskinn. Auðvitað á þetta ekki bara við á vorin, allt sumarið koma þeir tímar sem fiskurinn fer sér hægt og tökurnar geta orðið hægar, allt að því silalegar og þá er um að gera að vera beittur. Þumalputtaregla, beinlínis, er að tylla flugunni á nögl þumals þannig að hún standi á oddinum. Hangi flugan á nöglinni er öngullinn nægjanlega beittur en leki hún niður er eins gott að velja aðra eða taka fram brýnið.
Ummæli
12.05.2013 – Urriði: Mér finnst eins og ég hafi að hluta til verið innblásturinn að þessari færslu! Mér til varnar þá var þetta aumingjalegasta taka sem að ég hef nokkurn tíman fengið og ég hélt í fúlustu alvöru að ég væri bara að draga fluguna eftir botninum!
Svar: Já, mér fannst þetta koma skemmtilega út, en…… þessi grein var því miður skrifuð fyrir einhverjum vikum síðan og hefur bara beðið síns tíma. Til skemmtunar má benda lesendum á að fylgjast með hvar athygli veiðimannsins er á fimmtu mínútu í þessu myndbandi þegar urriðin lekur á fluguna.
Flott myndband hjá þér Urriði en helv… hefur var hann kaldur þarna.
13.05.2013 – Urriði: Takk. Já, athyglin var ekki alveg á flugunni enda var ég nýbúinn að kvarta upphátt yfir því hvað þetta hafði verið lélegt kast. Ég klippti þá kvörtun út alveg eins og ég klippti út þegar ég var að kvarta yfir því hvað mér var skítkalt á puttunum þegar ég var að merkja fyrsta urriðann.
Meðalaldur urriða er rétt um 5 ár. Það tekur bjórdós u.þ.b. 10 ár að brotna niður í náttúrunni, glerflaskan lifir margfalt lengur, plastið eitthvað álíka. Ef veiðimaður hefur burði til að bera með sér fulla flösku/dós á veiðistað, ætti hann einnig að hafa burði til taka tómar umbúðirnar með sér heim aftur. Það er öfugsnúin upplifun að sjá veiðimann ástunda veiða/sleppa og skömmu síðar henda frá sér í fögnuði bjórdós eða flösku, það er léleg kveðja og þökk sem fylgir fiskinum út ævina og afkomendum hans.
Ummæli
06.05.2013 – Siggi Kr.: Góð vísa sem verður aldrei of oft kveðin – tökum allt rusl með okkur heim af veiðislóð!
Á þessum árstíma eru bæði veiðimenn og fiskar á höttunum eftir góðu veðri, hlýrra vatni og fæðu. Það síðast nefnda á kannski mest við um fiskana og jú, líka þá veiðimenn sem hungrar orðið í nýveiddan silung með bráðnu smjöri, nokkrum kornum af salti og …….
Það verður væntanlega aldrei of brýnt fyrir veiðimönnum að á vorin leitar fiskurinn í hlýrra vatn vegna þess að hann veit að þar er lífið. Ef svo mjög ólíklega vildi til að einhverrar golu gætir að vori, við erum jú að tala um Ísland sem er þekkt fyrir logn og blíðu endalaust, þá er alveg tilvalið að koma sér fyrir við bakkann áveðurs. Hlýrra vatn leitar upp, vindurinn myndar öldur á yfirborðinu sem draga hlýtt vatnið, ætið og fiskinn með sér. Meira að segja harðasti óðalsherra vatnsins, urriðinn, lætur sig hafa það að synda töluverða veglengd ef von er á hlaðborði og þá er ekki verra að sitja fyrir honum með gómsæta flugu í vatninu.
Ég er alveg óhræddur við að viðurkenna að ég hef notað tóbak, smávindla þegar sest er niður, lúin bein hvíld og aumir kastvöðvar nuddaðir. Ég er líka alveg óhræddur við að viðurkenna að fátt fer meira í taugarnar á mér heldur en sígarettu- og vindlastubbar úti í náttúrunni. Flest erum við að vísu orðin stafrænt sinnuð í myndatökum, en þau finnast nú samt víða þessi litlu svörtu box undan gömlu 35mm filmunum og þau eru alveg tilvalinn undir stubbana. Þau fara vel í vasa og mjög hentugt að geta lokað fýlupúkana inni þegar búið er að drepa í þeim í stað þess að skjóta þeim úr augsýn eða út í vatnið.