Flýtileiðir

Hvernig veiða þeir vorfluguna?

Vorfluga
Vorfluga

Ég þreytist seint á sumu, vorflugan er þar á meðal. Líkt og með næstum öll skordýr af matseðli silungsins þá getum við spreytt okkur á því að líkja eftir vorflugunni á þremur þroskastigum hennar; sem lirfu (Peacock), púpu (Héraeyra, Pheasant Tail eða Caddis pupa) og fullvaxta flugu (Elk Hair Caddis). Þeir eru ófáir veiðimennirnir og hnýtararnir sem hafa stúderað lífsferil vorflugunnar frá byrjun til enda. Án þess að kasta einhverri rýrð á einhverja þá hlýtur Gary LaFontaine að eiga vinninginn. Bók hans ‚Caddisflies‘ hefur orðið mögum manninum að trúarriti ásamt fjölda greina á netinu og í tímaritum. Eins og venjulega leggjum við Íslendingar líka nokkuð til málanna með Kolbein okkar Grímsson og son hans, Peacock fremsta í flokki.

Snemma vors og vel fram í hið íslenska sumar þurfum við að eiga ótakmarkaðar birgðir af Peacock í eins mörgum útgáfum og afbrigðum eins og okkur dettur í hug. Meðan lirfan lifir í hylkinu sínu getur útlit hennar verið eins margbreytilegt og efniviðurinn er fjölbreyttur. Það er ekki fyrr en lirfan púpar sig og yfirgefur hylkið að við verðum varir við útlitslegan mun þeirra 14 tegunda vorflugna sem lifa á Íslandi, litbrigði allt frá rjómahvítu yfir í appelsínugult eða jafnvel grænt. Trúlega er einmitt þetta þroskastig vorflugunnar, þ.e. púpan hve vanmetnust hjá okkur veiðimönnunum. Það er á þessi þroskastigi sem hún er hve lengst varnarlaus, beint fyrir framan snjáldrið á silunginum. Hægt ris hennar upp af botninum, upp að yfirborðinu þar sem hún brýst um og reynir að brjótast út úr unglingshamnum og verða fullorðinn. Þegar valið hjá silunginum stendur á milli þess að eltast við eina og eina lirfu í hylki sínu á botninum, varnarlausar púpur eða fullorðna flugu að brjótast um í vatnsborðinu, þá er valið auðvelt; púpan. Í athugunum Gary LaFontaine kom berlega í ljós að jafnvel með yfirborðið þakið af flugum var silungurinn mun grimmari í þeim púpum sem eftir voru í vatninu heldur en þeim sem brutust um á yfirborðinu þótt þær væru mun meira áberandi.

Kannski erum við svolítið á villugötum og eilítið blindaðir af Peacock þegar kemur að vorflugunni. Að vísu er það þannig að þó við sjáum flugur klekjast út á yfirborðinu og allt virðist vera komið á fullt þá eru ennþá gnægð púpa á ferli í vatninu, hvað þá lirfum á botninum. Það er langt því frá að allar vorflugur klekist út á sama tíma eða á stuttu tímabili. Við þekkjum stórkostlega sveipi mýklaksins sem stíga upp eins og rykský af íslenskum sveitavegi, en þannig hagar vorflugan sér ekki. Einhver innbyggð takmörkun verður til þess að framboð fullorðinna verður aldrei meira en svo að nánasta lífríki nái að anna því. Unglingarnir, hvað þá lirfurnar bíða bara róleg í vatninu á meðan að fullorðnu dýrin hafa náð flugi af yfirborðinu og komin vel úr færi silungsins.

Á þessum tímapunkti er dautt rek púpu málið. Ekki með Peacock heldur einhverja hinna óteljandi Caddis pupa flugum eða hinu sígilda Héraeyra. Í allan annan tíma stendur Peacock fyrir sínu.

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Create a website or blog at WordPress.com