
Eigum við að velta okkur aðeins upp úr stærðum? Við veiðimennirnir eru ekki skv. einhverjum staðli og því geta orð eins um litlar flugur verið stór orð í eyru annars. Ef við og reynsla okkar værum aftur á móti skv. staðli væri ekkert mál að flokka stórar, litlar og ör-litlar flugur. Einhvern tímann sá ég grófa flokkun; stórar flugur eru í stærðum #8 og niður í #12, litlar flugur eru í stærðum #14 og niður í #18, ör-litlar eru #20 og þaðan af minni. Skv. þessu eru allar mýflugur ör-ör-litlar því raunstærð flugnanna samsvara u.þ.b. #28 en samt er maður að veiða á Mýpúpu í stærð #12 Hvað er eiginlega í gangi? Án þess að gera lítið úr stærðum flugna og þeirri áherslu sem flugufræðingar leggja á smærri flugur, þá kennir reynslan mér að stærri flugur geta alveg eins kveikt tökur eins og smærri. Svo má aldrei gleyma því að púpur eru stærri að vori heldur síðla sumars. Því er nefnilega þannig farið að púpur og lirfur éta eins og þær geta á veturnar og langt fram á vorið og beinlínis tútna út í stærð. E.t.v. ættum við að hugsa dæmið í heilli árstíð, við byrjum stórt og smækkum svo flugurnar þegar líður á sumarið og ný kynslóð púpa og lirfa hefur tekið við í vötnunum.