Þegar ég var að fletta í gegnum nokkrar greinar þar sem menn lýstu mýfluguveiðum, þá fannst mér eitt alveg gegnum gangandi; varlega sögðu menn. En hvað er varlega? Eiga menn að skríða á maganum fram á bakkann, fela sig á bak við stein og kasta ofur-rólega með agnar smáum þurrflugum út á vatnið, helst án þess að hreyfa stöngina nokkurn skapaðan hlut? Ég þori alveg að viðurkenna að mér brá bara svolítið yfir allri þessari leynd sem átti að hvíla yfir mýfluguveiðum. Er þá ekki alveg eins gott að koma sér fyrir, móti sól, vera ekkert mikið á ferðinni og reyna að ná silunginum áður en mýflugurnar klekjast fyllilega út?
Blóðormur
Á meðan mýflugan heldur sig á botninum sem blóðormur er aðferðin einföld; kasta, leyfa að sökkva og bíða bara rosalega rólegur. Blóðormar eru nánast ekkert á ferðinni þannig að þetta er aldrei spurning um hraðan eða hægan inndrátt, ef þú vilt endilega draga inn (með öðrum orðum; ef þér fer að leiðast) þá ætti langur og rólegur inndráttur að vinna með þér, jafnvel góðar pásur á milli.
Þegar svo mýflugan nær næsta þroskastigi skiptum við yfir í Toppfluguna, Mýflugu eða grannann Mobuto með hvítum kraga, bara svona sem dæmi. Aðferðin er svipuð, nema nú má alveg prófa rykkjóttan inndrátt eða langan með pásu eða stutta kippi þegar flugan er alveg alveg komin upp að yfirborðinu. Annars hef ég örugglega líka heyrt að menn dragi ekkert, láti liggja eða djöflist eins og sá í neðra sé á hælum flugunnar. Kannski hreyfir mýpúpan sig þannig líka? Nei, annars, ég held ekki.
Draumafluga hvers veiðimanns er væntanlega sú sem hann getur alltaf tekið upp úr boxinu, hnýtt á tauminn, kastað og fengið viðbrögð við innan stundar. Að finna draumafluguna er fjarlægt markmið sem fæstum hefur nokkurn tímann tekist. Það næsta því sem flestir komast er að geta farið nokkrum sinnum í sama eða svipuð vötn, valið sömu fluguna og fengið fisk. En um leið og eitthvað bregður út frá norminu er dæmið ónýtt. Breyturnar í vatnaveiðinni eru svo margar og ef veiðimaðurinn bregst ekki við breyttum aðstæðum þá eru litlar líkur á að sama flugan gefi alltaf. Ein mikilvægasta breytan er vitaskuld tíminn. Tími dags, tími árs og síðast en ekki síst sá tími sem veiðimaðurinn hefur boðið fiskinum sömu fluguna í veiðiferðinni. Sumir veiðimenn veiða aðeins frá rökkri og fram í dagrenningu. „Fiskurinn tekur ekkert á daginn“ segja þeir e.t.v. Fiskur étur hvenær sem er, svo lengi sem eitthvað er að éta. Veiði maðurinn ekkert utan náttmála eru miklu meiri líkur á að hann viti ekki hvar fiskurinn heldur sig á daginn eða hann hefur einfaldlega aldrei ratað á réttu fluguna. Er sem sagt, að bjóða eitthvað sem er bara alls ekki á matseðlinum einmitt þá stundina. Næstum það sama má segja um tíma ársins, þ.e. svo lengi sem fiskurinn sé ekki lagstur í dvala vegna kulda eða fæðuskorts. Á vorin er lífið rétt að kvikna, skordýr vatnsins með stærsta móti (þau éta jú allt árið) og þá þýðir ekkert að bjóða einhver peð í stærðum #24 eða minni. Um leið og stóru feitu pöddurnar hafa klakist út byrjar nýtt tímabil, tímabil ungviðisins og þá fara flugurnar að minnka.
Ekki alltaf eins
Veðrið ræður líka miklu um veiðni manna. Sumir veiðimenn einfaldlega draga allt í land þegar byrjar að rigna eða vindur að blása. Aðrir láta sig hafa það, klæða sig eftir veðri og halda áfram. Rigning, svo fremi hún berji ekki vatnið endalaust og deyfi fiskinn niður á botn, kemur með aukið súrefni í vatnið. Með auknu súrefni fara pöddurnar á stjá og fiskurinn líka. Fyrstu tímarnir eftir stórkostlega rigningu eru oft frábært veiðiveður, allt lífríkið á fullu og fiskurinn í stuði.
Birtan hefur einnig töluvert um veiðimöguleika okkar að segja. Glampandi sól er sjaldan fyrirboði mikillar veiði í grunnu vatni. Enn og aftur; silungurinn hefur engin augnlok og fær einfaldlega ofbirtu í augun af því að glápa upp í sólina. En, ef veiðimaðurinn skiptir um flugu og veiðir nær botninum er alveg eins líklegt að þar leynist silungur sem hatar sólbað. Takið eftir; skiptir um flugu er e.t.v. lykillinn í þessari setningu því oft er því þannig farið að sama skordýrið lítur alls ekki eins út þegar það heldur til á botninum eða uppi við yfirborðið.
Draumaflugan mín er flugan sem ég á í nokkrum útgáfum, jafnvel litbrigðum og í nokkrum stærðum. Ég get byrjað á henni í stærri stærð á vorin og veitt hana við botninn í upphafi vertíðar og þegar mjög bjart er yfir. Þegar líður á sumarið tek ég fram minni afbrigðin, veiði ofar í vatnsborðinu og leik mér gjarnan með litina. Stundum verð ég að leyfa henni að eiga sviðið, nota litsterka glepju þegar lítið er að gerast þannig að hún virki svolítið eins og auglýsingaskilti á silunginn. Hann er ekkert skárri en við, ef sama áreitið dynur á honum í svolítinn tíma, þá lætur hann loks undan og kaupir það sem maður hefur að selja.
Auðvitað er það einhver gorgeir í mér en mér finnst það svolítið á mína ábyrgð að fylgja Higa‘s SOS úr hlaði á Íslensku fyrst ég kom henni fyrst á prent/framfæri hérna heima. Þessi fluga reyndist mér alveg prýðilega í fyrrasumar, braut nokkra múra fyrir mig og hjálpaði mér mikið á dauðum augnablikum. Þessi tegund flugna hefur verið þekkt lengi og yfirleitt kölluð ‚attractor‘ upp á erlenda tungu. Bein þýðing segir svo til allt um eiginleika þessara flugna, þ.e. þær eiga að draga fiskinn að sér. Einkenni þeirra er að eitthvað glitrar, oft meira en lítið og hún er ekkert endilega lík einhverju skordýri sem við þekkjum, þ.e. við fyrstu sýn. Sumur fluguhönnuðir hafa aftur á móti bent á að það sem vex okkur í augum, getur temprast 80% þegar niður í vatnið er komið, þannig að e.t.v. erum við full dómharðir á ofur-skreyttu glysflugurnar. En hvað um það. Það skiptir nokkuð í tvö horn hvernig menn vilja veiða glepjur. Sumir veiða þær sem minni flugur á dropper en aðrir veiða þær stakar, djúpt og ekkert smeykir við að halda þeim mikið á hreyfingu. Ég er ekki frá því að mér finnist síðari aðferðin skemmtilegri, jafnvel með nokkuð hröðum inndrætti, svo hröðum að dýpið minnkar vegna uppdráttar. Velti því stundum fyrir mér s.l. sumar hvort fiskurinn teldi þarna á ferðinni flugu að brjótast um við yfirborðið á leið út úr púpunni, auðveld bráð.
Ummæli
Davíð – 15.06.2013:Sæll, ég er ekki svo klár að ég kunni að hnýta mér sjálfur þessa flugu en hef mikinn áhuga á að prófa hana enda lesið mikið um hana á blogginu þínu. Ég hef verið að kíkja í helstu veiðiverslanir og hef ég ekki enn fundið neina sem hefur tekið uppá að selja hana. Ég býst við að þú sért að hnýta hana bara fyrir sjálfan þig þá eða veistu hvar væri hægt að nálgast hana?
Svar: Sæll Davíð, endilega sendu mér gilt póstfang, þá skal ekki standa á svari. Póstfangið sem þú gafst upp með kommentinu er ekki til 😦
Sjaldnast kemur manni í hug ‘hnýtingarefni’ þegar gler kemur til umræðu. En glerperlur, einkum þessar glæru sem notaðar eru í ýmiskonar föndur, eru alveg fyrirtaks hnýtingarefni þegar kemur að því að líkja eftir loftbólum sem skordýrin líma undir kviðinn á sér eða utan um hausinn þegar þau leita upp að yfirborðinu. Rauðar perlur eru síðan alveg tilvaldar í blóðorm, einfaldlega raðað upp á öngulinn, endurkast glersins er alltaf mun eðlilegra heldur en glitrandi tinsels og ekki nándar nærri eins kostnaðarsamt og litað Epoxíð lím. Og ef þú hefur áhyggjur af þyng eða öllu heldur þyngdarskorti glersins m.v. brasskúlur, þá er sára lítill munur þar á.
Ég þreytist seint á sumu, vorflugan er þar á meðal. Líkt og með næstum öll skordýr af matseðli silungsins þá getum við spreytt okkur á því að líkja eftir vorflugunni á þremur þroskastigum hennar; sem lirfu (Peacock), púpu (Héraeyra, Pheasant Tail eða Caddis pupa) og fullvaxta flugu (Elk Hair Caddis). Þeir eru ófáir veiðimennirnir og hnýtararnir sem hafa stúderað lífsferil vorflugunnar frá byrjun til enda. Án þess að kasta einhverri rýrð á einhverja þá hlýtur Gary LaFontaine að eiga vinninginn. Bók hans ‚Caddisflies‘ hefur orðið mögum manninum að trúarriti ásamt fjölda greina á netinu og í tímaritum. Eins og venjulega leggjum við Íslendingar líka nokkuð til málanna með Kolbein okkar Grímsson og son hans, Peacock fremsta í flokki.
Snemma vors og vel fram í hið íslenska sumar þurfum við að eiga ótakmarkaðar birgðir af Peacock í eins mörgum útgáfum og afbrigðum eins og okkur dettur í hug. Meðan lirfan lifir í hylkinu sínu getur útlit hennar verið eins margbreytilegt og efniviðurinn er fjölbreyttur. Það er ekki fyrr en lirfan púpar sig og yfirgefur hylkið að við verðum varir við útlitslegan mun þeirra 14 tegunda vorflugna sem lifa á Íslandi, litbrigði allt frá rjómahvítu yfir í appelsínugult eða jafnvel grænt. Trúlega er einmitt þetta þroskastig vorflugunnar, þ.e. púpan hve vanmetnust hjá okkur veiðimönnunum. Það er á þessi þroskastigi sem hún er hve lengst varnarlaus, beint fyrir framan snjáldrið á silunginum. Hægt ris hennar upp af botninum, upp að yfirborðinu þar sem hún brýst um og reynir að brjótast út úr unglingshamnum og verða fullorðinn. Þegar valið hjá silunginum stendur á milli þess að eltast við eina og eina lirfu í hylki sínu á botninum, varnarlausar púpur eða fullorðna flugu að brjótast um í vatnsborðinu, þá er valið auðvelt; púpan. Í athugunum Gary LaFontaine kom berlega í ljós að jafnvel með yfirborðið þakið af flugum var silungurinn mun grimmari í þeim púpum sem eftir voru í vatninu heldur en þeim sem brutust um á yfirborðinu þótt þær væru mun meira áberandi.
Kannski erum við svolítið á villugötum og eilítið blindaðir af Peacock þegar kemur að vorflugunni. Að vísu er það þannig að þó við sjáum flugur klekjast út á yfirborðinu og allt virðist vera komið á fullt þá eru ennþá gnægð púpa á ferli í vatninu, hvað þá lirfum á botninum. Það er langt því frá að allar vorflugur klekist út á sama tíma eða á stuttu tímabili. Við þekkjum stórkostlega sveipi mýklaksins sem stíga upp eins og rykský af íslenskum sveitavegi, en þannig hagar vorflugan sér ekki. Einhver innbyggð takmörkun verður til þess að framboð fullorðinna verður aldrei meira en svo að nánasta lífríki nái að anna því. Unglingarnir, hvað þá lirfurnar bíða bara róleg í vatninu á meðan að fullorðnu dýrin hafa náð flugi af yfirborðinu og komin vel úr færi silungsins.
Á þessum tímapunkti er dautt rek púpu málið. Ekki með Peacock heldur einhverja hinna óteljandi Caddis pupa flugum eða hinu sígilda Héraeyra. Í allan annan tíma stendur Peacock fyrir sínu.
Ég veit, þeir eru ekkert stórkostlega umhverfisvænir en ef maður passar þá þokkalega, þá geta þeir komið að góðum notum í veiðinni. Ég á svona rúllu af gráum ruslapokum í veiðitöskunni minni og yfirleitt rúlla ég einum út og festi við töskuna þegar ég byrja veiði (þú veist, bara svona með einum góðum hnút um handfangið á henni). Þegar ég svo rekst á eitthvað rusl sem fokið hefur í ógáti frá öðrum veiðimönnum, treð ég því í pokann minn. Takið eftir; fokið hefur í ógáti því ekki dettur mér í huga að veiðimenn noti íslenska náttúru viljandi sem ruslatunnu.