Það getur verið nógu skemmtilegt að grípa myndavélina þegar lífríkið bregður á leik. Það sannaði sig við Arnarvatn stóra nýlega þegar konan stjórnaði brúðuleikhúsi með Orange Nobbler í aðalhlutverki. Að vísu er þessi klippa ekki í einhverjum súper gæðum, tekin á venjulega vasamyndavél, Sony CyberShot í gegnum Polaroid veiðigleraugun mín.
Ef vel er að gáð má sjá að svo lengi sem flugan hreyfðist á svipuðum hraða og fiskurinn var hún í raun látin í friði, en um leið og einhver afbrigðileg hegðun skaut upp kollinum var látið til skarar skríða og ráðist á hana, stundum heldur óvægilega. Snemma breygist krókurinn og ráðdýrseðli urriðans er greinilega meðfætt og ekki virtist stærð flugunnar flækjast neitt mikið fyrir tittunum sem sumir náðu henni ekki nema til hálfs í lengd.
Og hvað má svo sem ráða af þessu? Jú, ef fullorðin fiskur hagar sér eitthvað í líkingu við ungviðið er kannski eins gott að draga Nobblerinn inn með rykkjum og skrykkjum.