
Reyndu á sjá fyrir þér vatnsborðið eins kyrrt og það mögulega getur orðið. Ekki sakar að skreyta hugarsmíðina með mynd af uppáhalds fjallinu þínu eða endalausum sjóndeildarhringnum. Umfram allt, það er kyrrð yfir myndinni. Þú ert með örsmáa púpu á þokkalega löngum taumi og svo….. flugulínan fer að haga sér einkennilega. Í stað þess að vísa beint áfram, með þessari litlu bungu rétt við endann þar sem hún sker yfirborðið, er allt í einu komin lauflétt sveigja á línuna. Ef maður hefur nú ekki orðið var við neitt nart, ekki einu sinni haft grunsemdir um slíkt, þá fer maður ósjálfrátt að velta vöngum; Er einhver straumur í vatninu þarna? Þú færð aldrei svar við þessu nema þú gerir eitthvað í málinu. Minnsta afbrigðilega hegðun línunnar á að kalla á viðbragð eins og t.d. að taka ákveðið í línu og draga u.þ.b. 4“ inn eða reisa stöngina eilítið. Ef ekkert gerist, þá er málið dautt og þú getur hugsað hvað hafi verið á ferðinni. Kannski er einmitt straumur í vatninu þarna og þá má nýta sér hann, kasta yfir hann og leyfa honum að bera fluguna þína sömu leið og hann ber annað æti. Nú, ef þú færð aftur á móti einhver viðbrögð þá er náttúrulega einhver á ferðinni þarna úti sem er ekki alveg áhugalaus um agnið þitt og þú þarft að hugsa næsta leik. Á ég að láta liggja eða á ég að draga meira inn. Umfram allt, merktu þér staðinn, taktu mið af fjallinu þínu eða steini við gagnstæðan bakka. Ef þér tekst ekki að góma fiskin í fyrstu atrennu, þá er um að gera að vita hvar hann nartaði og geta reynt við þann stað aftur.