FOS
  • Færslur
  • Flugur
  • Grúsk
    • FiskurinnNokkrir punktar um hegðun fisksins sem við erum að eltast við.
    • GreinaskrifGreinar og fréttir sem komið hafa fram á hinum og þessum miðlum á liðnum árum.
    • GræjurNokkrar greinar um veiðistangir, hönnun þeirra og eiginleika.
    • HnútarNokkrir góðir hnútar
    • HnýtingarÝmislegt sem tengist veiðiflugum, hnýtingu þeirra og hönnun.
    • Hnýtingarefni
    • KannanirÝmsar kannanir sem FOS.IS hefur gert meðal lesenda sinna, niðurstöður þeirra og hugleiðingar út frá þeim.
    • KasttækniAlltaf gott að rifja upp kasttæknina.
    • Lífríkið
    • Línur og taumarÝmislegt gagnlegt sem lýtur að flugulínum og taumum.
    • MaturNokkrar uppskriftir og umfjöllun um þann mat sem má gera sér úr aflanum.
    • Veiðiferðir
    • Veiðitækni
    • ÞankarÝmsir þankar og hugleiðingar
    • ÆtiðAllt sem fiskurinn leggur sér til munns.
  • Vötnin
  • Myndir
  • Töflur
    • AFTM
    • Alfræði
    • Byrjendur
    • Festingar
    • Fiskurinn
    • Flóðatafla
    • Hlutföll
    • Krókar
    • Kúlur & keilur
    • Lög og reglur
    • Taumar og flugur
    • Þráður
  • Tenglar

  • Snúningur

    20. maí 2021
    Línur og taumar

    Upp

    Forsíða

    Stundum kemur það fyrir að flugulínurnar mínar og ég erum ekki alveg sammála. Þær liggja bara þarna fyrir fótum mér en þegar ég ‚þarf‘ að lyfta tánum örlítið í kastinu, þá þurfa þær endilega að smeygja sér undir vöðluskóinn og húkka sig þannig fastar að ekkert verður úr kastinu. Sumar línur eru líka í eðli sínu illkvittnar og finna sér hvern einasta stein, trjágrein eða gróður til að vefja sig utan um þegar minnst varir og virðast segja „Hingað, og ekki lengra. Ég nenni þessu ekki lengur.“

    Svo kemur það fyrir að línan verður beinlínis andsetinn, snýr upp á sig og er bara með yfirgengilega almenna stæla. Í þeim tilfellum er víst ekki við línuna að sakast, þessir snúningar eru mér að kenna og þá þarf ég að gera eitthvað í mínum málum, jafnvel að strjúka línunni aðeins og fá hana aftur til fylgilags við mig.

    Það geta verið nokkrar ástæður fyrir því að það snýst upp á flugulínuna. Ein ástæða þess að flugulína vindur upp á sig er falinn í kastinu mínu. Við breytingar á kastferlinum, þ.e. einhver frávik frá því að línan ferðast í beinni línu frá öftustu stöðu og í fremra stopp, þá snýst upp á línuna. Stundum er þetta með vilja gert, þ.e. maður tekur línuna upp í bakkast og breytir stefnu hennar til að leggja hana niður á nýjan stað, en stundum er þetta óviljandi frávik í framkastinu.

    Notkun á stórum flugum, þeim sem taka á sig vind eða búa yfir mikilli loftmótstöðu, geta einnig framkallað smávægilegan snúning á línuna. Smá ábending; ef þessi snúningur hleðst ört upp, þá er það vísbending um að verið sé að nota of létta stöng / línu miðað við flugu og reynandi væri að hækka sig um eitt til tvö númer í stöng.

    Annars er það þannig að öll þessi smávægilegu frávik hlaðast upp í línunni og ef ekkert er að gert, þá er kominn svo mikill snúningur á línuna að jafnvel lítill stubbur af henni sem lafir niður úr hjólinu er farinn að snúa upp á sig, flækjast. Í verstu tilfellum dregur maður þessa flækju inn á hjólið og skyndilega stendur allt fast. En áður en að þessu kemur, þá eru nokkur atriði sem má nýta sér til að snúa ofan af vandamálinu.

    Það fyrsta sem maður getur gripið til er að taka minna af línunni út af hjólinu fyrir kastið og láta það nýta alla línuna sem leikur laus, alveg að hjólinu. Taka síðan aðeins meira út fyrir næsta kast og láta það nýta viðbótina líka. Það er glettilegt hvað nokkur góð köst geta undið ofan af snúningi.

    Ef allt um þrýtur, þá þarf einfaldlega að draga alla línuna út af hjólinu og spóla rólega inn á það aftur og gæta þess að það étist ofan af snúninginum jafnt og þétt. Það væri meira að segja heppilegt að nýta tækifærið og bregða gleraugnaklút eða hreinsitusku á línuna þegar henni er spólað inn á hjólið, slá tvær flugur í einu höggi.

    Algeng mistök þessu tengt er að fara að strengja á línunni til að losna við snúninginn, ekki gera það. Við strengjum aðeins á línunni ef hún herpir sig saman vegna hitabreytinga eða vegna þess að hún myndar gorm þegar hún kemur út af spólunni sem er allt annað vandamál og tengist mynni hennar, ekki snúningi.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Strekkingur

    18. maí 2021
    Línur og taumar

    Upp

    Forsíða

    Allt frá þeim tíma sem byrjað var að framleiða flugulínur úr gerviefnum hafa veiðimenn glímt við minnisvandamál. Ég til dæmis gleymi oft hvaða lína er á hvaða spólu; er þetta heilsökkvandi línan eða er þetta intermediate línan? Nei, auðvitað veit ég alveg hvaða lína er á hvaða spólu. En ég, rétt eins og aðrir, glími stundum við þetta minnisvandamál í línunum mínum. Þó ein ákveðin lína sé í miklu uppáhaldi hjá mér, þá á ég línur frá fleiri en einum framleiðanda og þær eru allar því marki brenndar að muna óþægilega oft hvernig þær hafa legið á spólunum í einhverjar vikur eða mánuði.

    Flestar flugulínur í dag eru framleiddar úr PVC, PU eða PE plastefnum og það liggur í eðli þessara efna að það bítur í sig ákveðna lögun ef það liggur kyrrt í langan tíma. Meira að segja venjulegar gosflöskur geta orðið flatbotna ef flöskurnar standa óhreyfðar svolítið fram yfir síðasta söludag innihaldsins. Flugulínurnar verða að vísu ekki flatbotna, en þær verða stundum eins og gormur þegar þær eru dregnar út af veiðihjólinu. Það sem við erum að sjá þarna er svo kallað langtímaminni plastefna. Línurnar muna nefnilega eftir því þegar þeim var spólað ilvolgum inn á stórar tromlur í verksmiðjunni. Þessari minningu línunnar bregður stundum fyrir þegar henni verður kalt, þá herpist hún saman einmitt í sömu áttina og hún fór inn á tromluna. Ef þið trúið mér ekki, þá skulið þið bara spyrja hann Air Rio von Cortland, hann hefur glímt við þetta vandamál í nokkuð mörg ár.

    Þegar flugulínan tekur upp á þessum skolla, þ.e. að rifja um þessar gömlu minningar, þá er í raun aðeins eitt til ráða. Vera hæfilega ákveðinn, svona eins og við óþekkan krakka, ekkert ruddalegur, vera mjúkhentur en ákveðinn. Framkvæmdin er í raun afskaplega einföld; takið 3 – 4 fet af línunni út af hjólinu, togið þéttingsfast í þennan spotta, en umfram allt reynið að forðast að setja hlykk á línuna í öðrum hvorum lófanum eða báðum. Það á ekki að vefja línuna um aðra höndina eða báðar, slíkt átak er einfaldlega of mikið og gerir meira ógagn en gagn. Þegar þú hefur farið svona yfir alla línu, þá er tilvalið að spóla henni aftur inn á hjólið með því að halda þéttingsfast um hana með gleraugnaklút, mögulega vættum í smá línubóni eða hreinsiefni, það sakar ekki að hafa línuna hreina inni á hjólinu.

    Því miður kemur það alveg fyrir að menn strekkja of harkalega á línunni og þá er hætt við að kápan (sá hluti línunnar sem er gerður úr plasti) losni frá kjarnanum. Það er raunar óþarfi að óttast að slíta venjulega flugulínu, þær eru yfirleitt framleiddar með 18 – 25 punda slitstyrk að lágmarki og sveigjuþol þeirra er oft vel yfir 20%. Eftir sem áður þá eru þær ekki gerðar fyrir fruntalegt átak, þá getur kápan losnað frá kjarnanum og hætt er við að línan virki þá verr eftir strekkinginn, rétt eins og hún sé brotinn eða kjarninn leiki laus inni í henni.

    Örlítil varnaðarorð í lokinn, ekki strekkja á línu sem er snúin. Það er nefnilega ekki það saman að lína sé snúinn eða hafi krullað sig upp í gorm eða rétti ekki alveg úr sér. Ef þú þekkir ekki muninn á snúinni línu og krullaðri, þá skaltu bíða í nokkra daga og lesa þér til um það hvernig eigi að snúa ofan af línu áður en þú ferð að strekkja á línunni þinni.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Ný lína

    13. maí 2021
    Línur og taumar

    Upp

    Forsíða

    Þessa dagana upplifa margir veiðimenn eða finna bara hjá sér óstöðvandi þörf að kaupa sér nýja flugulínu, því ekki endast flugulínur til eilífðar. Vissulega má framlengja líf flugulínunnar með ýmsum ráðum, helst ilvolgu baði og almennum þrifum, en það kemur alltaf að því að þær einfaldlega virka ekki sem skyldi lengur.

    Það er að mörgu að hyggja þegar ný lína verður fyrir valinu, burtséð frá framleiðanda og gerð línunnar. Þegar allt hefur verið ákveðið og menn tilbúnir að taka upp veskið, þá er aðeins ein ákvörðun eftir; á maður að þiggja það að starfsmaður í veiðiversluninni setji línuna á hjólið eða ætlar maður að gera það sjálfur?

    Ef maður er nú með hjólið með sér í búðarferðinni eða það sem enn skemmtilegra er, maður hefur keypt sér nýtt hjól í leiðinni, þá er ekkert því til fyrirstöðu að þiggja þetta boð og láta setja nýju línuna á hjólið. En svo eru það þeir sem eiga eftir að færa línur á milli hjóla eða spóla og verða því að segja nei, takk ég geri það sjálfur.

    Það þarf væntanlega ekki að segja reyndum veiðimönnum að það er ekki saman hvernig línu er spólað inn á veiðihjól, en það eru mögulega einhverjir óvanir sem reka augun í þessa grein og þá gætu eftirfarandi leiðbeiningar gagnast. Fyrir utan hið augljósa, þ.e. að réttur endi línunnar eigi að fara fyrst inn á hjólið, oft með áföstum miða sem segir this end to reel eða eitthvað álíka, þá er alls ekki sama hvernig línan er tekin út af spólunni í pakkanum.

    Stillið nýju línuna alltaf þannig af að hún spólist úr af geymsluspólunni að neðan og inn á fluguhjólið að neðan. Ef ekki er gætt að þessu, þá er hætt við að línan fari að vinda upp á sig í fyrstu köstunum því framleiðsluminni hennar er snúið við á fluguhjólinu.

    Alls ekki taka nýju línuna út af geymsluspólunni í gormi, þá er hætt við að fyrstu köstin endi einmitt þannig.

    Því miður hef ég nokkrum sinnum séð nýjar línur eyðilagðar vegna þess að þær eru settar rangt yfir á fluguhjólið og veiðimenn fara að strekkja línurnar í tíma og ótíma til að leiðrétta þessa skekkju, en það dugar skammt og gerir oft meira ógagn heldur en gagn ef öll línan er ekki tekin út af hjólinu og henni spólað inn aftur.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Mismunur línugerða

    20. apríl 2021
    Línur og taumar

    Upp

    Forsíða

    Það hafa komið hér á síðunni nokkrar greinar um línur í gegnum tíðina, en um daginn tók ég eftir því að það vantaði hér inn smá skýringar á því hvernig mismunandi línugerðir haga sér í vatni. Hér á eftir geri ég heiðarlega tilraun til að bæta úr þessu. Byrjum á mynd af þeim fjórum helstu gerðum lína sem í boði eru:

    Flotlínan (F) er orange á myndinni og flestir fluguveiðimenn þekkja hvernig hún hagar sér, liggur bara þarna á yfirborði vatnsins og það eina sem getur dregið hana undir yfirborðið er þyngd flugunnar. Haus flotlína er yfirleitt þetta 35 – 45 fet og form hans getur verið með ýmsum móti. Það má lesa nánar um það í þessari grein.

    Sökkendalína er gul á myndinni (T). Hefðbundin sökkendalína er í raun flotlína, en fremstu 10 – 15 fetin af hausnum eru þannig hönnuð að þeir sökkva. Svo fer málið aðeins að flækjast því það er hægt að fá þessar línur með mismunandi sökkhraða. Algengast er að sökkhraði sé mældir í tommum á sekúndu (IPS) og algengt að þær sökkvi frá 3 IPS og upp í 9 IPS. Á mannamáli þá þýðir þetta að 3 IPS fer frekar rólega niður í vatnið en 9 IPS steinsekkur.

    Intermediate  (I) er heil flóra af línum og er sú bláa á myndinni. Sá partur línunnar sem í raun sekkur getur verið frá 15 fetum og allt að enda línunnar, þess sem er inni á hjólinu (full intermediate) sem ég verð að viðurkenna að mér finnst þá vera nokkuð nálægt því að vera síðasta gerðin, þ.e. sökklína. Sökkhraði intermediate lína er mis mikill, allt frá slow (0,5 IPS) og upp í fast (1,5 IPS). Það sem mér finnst vera góð intermediate lína er sú sem er með tiltölulega góðum haus (skothaus) og stöðvast í sökkinu um leið og ég tek í hana. Það má lesa nánar um intermediate línur í þessari grein.

    Sökklínu (S) eru línur sem sökkva alveg frá byrjun til enda og er sú gráa á teikningunni. Hérna er ég ekki sérstaklega sterkur í lýsingum, hef lítið sem ekkert notað heilsökkvandi línu í vatnaveiðinni og um leið og ég skrifa þetta, þá rennur upp fyrir mér að ég veit bara hreint ekki af hverju ekki. Heilsökkvandi línur eru, eins og heiti þeirra segir til um, sökkvandi línur í hraða 3 IPS og alveg upp í 7 IPS rétt eins og sökkendalínurnar. Stærsti munurinn ku vera að þær sökkva alla leið, í tvennum skilningi, frá byrjun til enda og ef þeim er gefinn nægur tími, þá er ekkert það dýpi sem þær ná ekki niður á. Eftir að hafa spáð og spekúlerað í hvar þeir fengsælustu hafa verið að veiða í Veiðivötnum síðustu árin, þá er þetta línan sem mig vantar í vötnin þar sem botninn er ekki urð og grjót alla leið.

    En nú er sagan aðeins sögð að hálfu leiti, þessar línur haga sér náttúrulega með misjöfnum hætti við inndrátt. Sú saga verður sögð í öðrum pistli hér á síðunni.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Hvar á maður að draga línuna

    16. júní 2020
    Línur og taumar

    Upp

    Forsíða

    Af mörgum ástæðum er rétti staður línunnar í vatninu. Ef hún er of lengi í loftinu, þá er flugan það líka og ekkert veiðist. Ef hún er alltaf inni á hjólinu, þá er engin fluga og ekkert veiðist. Ef hún er í sandinum, þá er maður að skrapa húðina af henni og hún hættir að renna.

    Það eru ótal margar leiðir til að fara illa með línuna sína. Að dragnast með hana í eftirdragi á vatnsbakkanum er ein leið til þess. Ef það er ekki sandur sem sér um að skrapa og rispa yfirborð hennar, þá er trúlega einhver gróður sem hægt er að húkka í, jafnvel búa til skemmtilega slaufu eða hnút sem gæti í versta falli orðið að broti í línunni.

    En það er lítið betra að dragnast með línuna á eftir sér í vatninu. Það þarf ekki nema einn góðan stein eða nibbu til að stöðva för og hvað gerir maður oftar en ekki þá? Jú, kippir í línuna eða reynir að vippa henni af steininum. Í augnablikinu eru nokkrar smá skeinur á einni af mínum línum vegna þessa sem ég efast um að ég nái að lagfæra.

    Eins gott og það getur nú verið að setjast aðeins niður eftir drjúga stund við veiðar, þá geri ég oft á tíðum þau mistök að hanka línuna saman og leggja hana frá mér ásamt stönginni á öruggan stað. Þegar ég er svo búinn að fá mér kaffisopa og láta líða aðeins úr mér, þá stend ég upp og …. stíg á línuna. Meira að segja á mjúku undirlagi er ekki ólíklegt að ég merji línuna aðeins undir skónum. Því miður gengur mér erfiðlega að venja mig af þessu og spóla línunni inn á hjólið áður en ég tek mér pásu.

    En það geta líka orðið ákveðin særindi ef maður spóla inn á hjólið. Ef það er of mikil undirlína á hjólinu og línan svo til rétt sleppur inn á hjólið, þá þarf nú ekki mjög mikið til þess að maður spóli henni inn í kryppu og þá fer hún að rekast í umgjörðina við hvern einasta snúning. Ef svo ber undir, þá er rétt að spóla allir línunni út og stytta undirlínuna til að skapa aðeins meira pláss á hjólinu fyrir hana.

    Þá held ég örugglega að ég sé kominn með alla línuna af mistökunum sem ég geri mig uppvísan að. Nei, annars, það vantar eitt. Ég á það til að draga línuna svolítið mikið á ská út af hjólinu og þá nuddast hún við umgjörðina á spólunni og … einmitt, ég skef húðina af kápunni. Það ætti að vera auðvelt að venja sig af þessu, draga bara línuna beint fram eða niður í stað þess að skófla henni út á ská.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Sérsniðnir taumar

    16. apríl 2020
    Línur og taumar

    Upp

    Forsíða

    Þegar ég nefni sérsniðna tauma, þá er ég ekki að vísa til tauma sem veiðimaðurinn setur saman, styttir eða lengir eftir aðstæðum. Ég er að vísa til tauma sem eru sérsniðnir að ákveðinni línu, beinlínis niður í þyngd hennar og eiginleika. Áður en lengra er haldið, þá vil ég taka það fram að þetta er ekki aðkeypt umfjöllun þótt ég nefni framleiðanda línu og taums, ég er fyrst og fremst að dást að því að veiðimönnum gefst kostur á að finna lausn á línu + taum + taumaenda sem er sett saman af einum aðila og passar fullkomlega saman, þ.e. alls þess sem er frá 2 og upp í 5 á myndinni.

    Þannig er að veiðifélagi minn féll alveg í trans eftir að hafa prófað ákveðna línu á stöngina sína s.l. vor.  Línan heitir Shooter WF og er frá Salmologic, þá er það sagt. Svo uppveðruð var hún af þessari línu að það var ekki um annað að ræða heldur en fara og versla svona línu, annars hefði heimilishald og sambúð verið stefnt í voða.

    Þannig fór því að fest voru kaup á línu og passandi kónískum taum. Byrjum aðeins á þeim upplýsingum sem var ekki að finna á kassanum utan af línunni. Þar kom hvergi fram að hún væri ætluð stöng með ákveðnu AFTM númeri. Þess í stað var hún einfaldlega auðkennd með WF og þyngd í grömmum og grains. Þegar ég bar þetta saman við upplýsingar hér á síðunni, þá var viðkomandi lína nálægt því að vera fyrir stöng heilu númeri léttari en stöngin var skráð. Ég játa að ég varð svolítið efins um að þessi lína passaði, væri jafnvel aðeins of létt á þessa stöng.

    Taumurinn sem læddist með í þessum kaupum var ekki ódýr en nokkuð augljóst að töluverð vinna hafði verið lögð í hönnun hans og hráefni. Kónískur taumur með mjúkri áferð, lykkjur á báðum endum og það sem vakti athygli mína var að hann var sérstaklega merktur með nákvæmlega sömu upplýsingum og voru á línunni (grömm og grain). Eins og góðum taum sæmdi, þá var sverari partur hans nánast upp á 1/1000 úr mm. 2/3 af þvermáli línunnar. Framan á þennan taum hnýtti frúin síðan stuttan taumaenda með fastri lykkju sem hún útbjó með Perfection Loop.

    Þetta finnst mér til fyrirmyndar, framsetning og kerfi af taumum með passa línunni. Og hvernig virkaði þetta svo, jú alveg eins og smurt saman; stöng, lína og taumur. Léttleiki línunnar sem ég hafði haft áhyggjur af reyndist tilhæfulaus, eiginleikar þessarar skothausalínu vógu upp það sem ég taldi vera undirspekkun á línu.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
«Fyrri síða
1 2 3 4 5 … 10
Næsta síða»

FOS

Allur réttur áskilinn – © 2025 – Kristján Friðriksson

  • Facebook
  • Vimeo
  • Issuu
  • YouTube
  • Instagram
  • Senda skilaboð
  • Áskrift í tölvupósti
 

    • Gerast áskrifandi Subscribed
      • FOS
      • Join 176 other subscribers
      • Already have a WordPress.com account? Log in now.
      • FOS
      • Gerast áskrifandi Subscribed
      • Skrá mig
      • Innskráning
      • Report this content
      • Skoða vef í lesara
      • Manage subscriptions
      • Collapse this bar