Grein sem birtist í fréttablaði VEIDA.IS árið 2012. Flestar þessara greina voru unnar upp úr kynningum mínum frá árunum 2010 – 2012 sem margir hafa séð.
Einn er sá staður í vötnunum sem svipar svolítið til grynninganna sem ég fjallaði um í síðasta fréttabréfi, en það eru bakkarnir. Þetta er staður sem ég ætti að reyna miklu meira við því vatnsbakkarnir veita fiskinum skjól og ef hann verður ekki fyrir styggð heldur hann sig gjarnan þarna. Það er með mig eins og svo marga aðra veiðimenn að oftar en ekki veð ég hugsanalaust út í vatnið og oftar en ekki yfir fiskinn. Það þykir engum gott að láta vaða yfir sig á skítugum skónum og því hrökklast fiskurinn oft undan veiðimönnum af þessum annars ágæta veiðistað. En, fyrsta skrefið í að ráða bragarbót á þessari hegðun minni, er jú að viðurkenna vandann.
Hár bakki, jafnvel grasigróinn geymir oft fína fiska og fæðan er ríkuleg á þessum slóðum, ósynd skordýr sem hafa fallið í vatnið, ógrynni hornsíla og svo flugur sem klakist hafa út í vatninu og synda að bakkanum til að þurrka vængina áður en þær taka á loft. Í sumar verður sko ráðin bót á þessari bakkafælni minni og þessum ágæta veiðistað gefin viðeigandi gaumur.
Sumarið 2012 skrifaði ég nokkrar greinar fyrir söluvefinn VEIDA.IS sem birtust í vikulegu fréttabréfi vefsins. Þessir stubbar voru að mestu unnir upp úr glærkynningu sem ég ferðaðist með á milli stangaveiðifélaga og klúbba á árunum 2010 – 2012. Eflaust hafa margri séð þessar greinar, en til gamans birti ég þær hér aftur.
Flest skordýr sem silungurinn leggur sér til munns eru skordýr sem taka fullkominni myndbreytingu, þ.e. þau þroskast frá eggi til lirfu, frá lirfu til púpu og púpu til fulltíða. Sem dæmi um svona skordýr má nefna mý- og vorflugur (caddis). Annars á vorflugan ekkert frekar skylt við vorið frekar en mýið, hún er á ferðinni allt frá því í byrjun maí og fram til loka október. Þetta eru þessar feitu og fallegu sem við kölluðum fiðrildi á okkar yngri árum.
Lirfur mý- og vorflugna er hægt að finna í vötnunum allt árið um kring og eru uppistaðan í fæðu silungsins. Hvort silungurinn sé eitthvað gáfaðri en laxinn, skal ósagt látið, en silungurinn lítur alltént frekar við flugum sem líkjast því sem hann er vanur að éta og einmitt þess vegna rembast silungsveiðimenn við að apa eftir þessum lirfum í flugnavali. Og þar sem lirfurnar þroskast og skipta um ham, er ekki verra að eiga þær í nokkrum útfærslum.
Þegar ég var að byrja í veiðinni útbjó ég mér svona töflu yfir pöddurnar sem silungurinn sækir í og með tímanum síaðist þessi tafla inn hjá mér og umbreyttist í nokkrar grundvallarflugur sem ég hef að staðaldri í boxinu mínu. Um þær fjalla ég í næsta fréttabréfi.
Grein sem birtist í fréttablaði VEIDA.IS árið 2012. Eitthvað hafa áherslur og upplifun breyst á þeim árum sem liðið hafa, en flest stenst þetta tímanns tönn.
Í vatnaveiði liggur alltaf beinast við að skoða það sem stendur manni næst; grynningarnar. Þær eru það fyrsta sem vaknar til lífsins í vötnunum og þar byrja ég að svipast um. Ég trítla með bakkanum, létt svo ég styggi ekki fiskinn og svipast um eftir pöddum sem hefur skolað á land.
Á vorin, þegar vatnið er ennþá kalt er fiskurinn svolítið eins og í því að éta úr ísskápnum, afganga frá síðasta sumri, lirfur á botninum og einstaka púpur sem ruglast hafa í ríminu. Það liggur í hlutarins eðli að vatnið hitnar fyrst þar sem það er grynnst og þangað stefni ég, í raun byrja ég helst alltaf veiðiferðirnar á grynningunum. Þær eru matarkista og ef ekkert hefur styggt fiskinn er hann þarna líka, stutt frá bakkanum og í nægu æti.
Kalt vatn er svolítið eins og bíómynd í slow motion, pöddurnar og fiskurinn fara sér einstaklega hægt þannig að það þýðir ekkert fyrir mig að mæta á staðinn og henda einhverjum spíttbát út í vatnið og strippa hann inn eins og brjálæðingur. Ég vel mér rauða pöddu sem líkir eftir mýlirfunni þegar hún er full af frostlegi, sem heitir víst blóðrauði eða hemóglóbín, eða einhverja svarta mjónu. Umfram allt, þá gíra ég mig niður og flugurnar á botninn, dreg þær lús hægt inn og athuga hvort ekki sé eitthvert líf komið á kreik.
En grynningarnar eru ekki aðeins spennandi að vori. Allt sumarið og langt fram á haust eru þær þessi matarkista sem fiskurinn sækir í. Þegar vatnið hefur hitnað og fiskinum hlýnað svolítið og farinn á kreik, þá kemur hann samt alltaf aftur upp á grynningarnar og þá sérstaklega í ljósaskiptunum, smæstu fiskarnir fyrst, hægt og rólega en svo kemur oft hvellur. Þá getur oft verið gott að grípa til straumflugna eins og Nobbler, Black Ghost og svo Dentist þegar myrkrið er alveg að skella á.
En hvellurinn getur endað eins snögglega og hann byrjaði. En það þýðir ekki að ég sé hættur, nei. Ég nota tímann frekar til að setjast niður, fá mér kaffibolla og segja ótrúlegar sögur af þeim stóra sem slapp, sko tvisvar í röð. Silungurinn er nefnilega þannig gerður að hann étur í skorpum. Hann kemur inn á grynningarnar, étur eins og hann getur, leggst síðan fyrir áður en hann leggur aftur til atlögu. Svona gengur þetta oft langt fram eftir kvöldi, stundum alla nóttina þar til skömmu eftir sólarupprás.
Svona ‚ljósaskiptaveiði‘ getur líka átt sér stað á miðjum degi. Sjáið til, það er þessi snögga hitabreyting vatnsins við ljósaskiptin sem kveikir í silunginum. Þessi breyting verður einnig við snöggar veðrabreytingar eða þegar ský dregur fyrir sólu á heiðskýrum degi. Þessu vil ég alls ekki missa af, nema þá að ég sé sofandi einhvers staðar á bakkanum, örmagna eftir veiði næturinnar.
Grein sem birtist í fréttabréfi VEIDA.IS árið 2012. Eitthvað hafa áherslur og upplifun breyst á þeim árum sem liðið hafa, en flest stenst þetta tímanns tönn.
Hérna eru sem sagt fulltrúar þeirra flugna sem ég tek með mér í veiðina. Ekki endilega nákvæmlega þessar flugur, oftast miklu fleiri. En það má vel komast af með þessar, svona um það bil þessa mánuði.
Rauðar og mjóslegnar fyrir fyrstu mánuðina, svo fara þær aðeins fitnandi og um leið og hornsílin og seiðin fara á stjá þá detta inn straumflugur eins og Nobbler og Black Ghost.
Vel fram á sumarið er líka ágætt að vera með einhverja glepju, svona bling bling flugu í boxinu. Hún verður að vera svolítið áberandi, jafnvel öfgakennd ef fiskurinn er eitthvað sloj og vill ekkert taka.
Ein er svo flugan sem virkar allt árið, ekki bara þessa mánuði og það er þjóðarfluga okkar silungsveiðimanna, Peacock. Ótrúlegt kvikindi, mjög lík vorflugupúpunni. Um hana hafa verið skrifaðar margar greinar í gegnum tíðina, óþarfi að bæta þar um.
Inn í svona flugnaval spilar svo smekkur manna, staðbundin reynsla af ýmsum vötnum og auðvitað margbreytileiki náttúrunnar. Svört fluga virkar kannski vel í einu vatni en í því næsta er gróðurfar annað og botnset ljósara. Þar getur sama flugan í brúnu gefið mun betur.
Um daginn heyrði ég í félaga mínum sem þótti boxið sitt vera helst til einlitt eftir hnýtingar vetrarins, svart og brúnt með rauðu ívafi. Það í sjálfu sér er ekkert óeðlilegt, pöddurnar í náttúrunni eru ekkert sérstaklega litskrúðugar, það væri jú bara ávísun á að verða silunginum að bráð. Þó slæðist alltaf ein og ein í lit í boxið, eins og t.d. appelsínugulur Nobbler sem urriðinn er oft brjálaður í, sérstaklega þegar bjart er í veðri og ekkert gengur með aðrar flugur. Stundum verður maður bara að þora að prófa eitthvað nýtt.
Sú grein sem hér fer á eftir er sú nýjasta sem fengið hefur að fljóta með í fylgiriti Veiðikortsins. Einmitt þessa daga er Veiðikortið fyrir 2020 að koma út og með því er að vanda fylgiritið margumrædda með haldgóðum upplýsingum um vötnin sem í boði verða næsta sumar og ýmsum öðrum fróðleik. Ég bíð alltaf jafn spenntur eftir Veiðikortinu og ekki síst fylgiritinu, það er eins og kortið færir manni staðfestinu þess að veturinn er ekki eilífur, það vorar á endanum.
Um það leiti sem nýtt Veiðikort kemur út, þá er maður þegar farinn að bíða eftir næsta sumri. Og ekki verður sú bið léttari þegar kortið góða kemur inn um lúguna og maður sér hvað stendur til boða næsta sumar.
Biðin eftir síðasta sumri var eiginlega sú lengsta sem um getur frá því ég byrjaði að nýta mér Veiðikortið. Hún hófst að venju í nóvember – desember og henni lauk ekki fyrr en mér þótti raunhæfara að bíða eftir góðu hausti. Þetta helgast væntanlega af því að ég er búsettur sunnanlands eða sunnan- og vestan veðraskila eins og norðlendingar og austfirðingar kölluðu það síðasta sumar.
Vorið lét aðeins bíða eftir sér en þegar loks rofaði aðeins til, kviknaði eins og venjulega vonarneisti veiðimannsins í brjósti mér. Fyrsti fiskur sumarsins kom sumardaginn fyrsta í bæjarlæknum, Hólmsá við Heiðmörk og þóttist ég þá himinn hafa höndum tekið og gott sumar væri í vændum. Illu heilli gerði síðan nokkurt vorhret, svo mjög að vonarneisti sumarsins var orðinn heldur lítil tíra þegar næsti fiskur kom loksins á land.
Svona er nú líf veiðimannsins stundum og ekki verður á allt kosið, hvorki í veðri né veiði. En þótt kreppi að í öðru, þá getur hitt komið skemmtilega á óvart. Brösugt veðurfar síðasta sumars virtist bara fara vel í bleikjurnar á Þingvöllum enda eru þær ekki óvanar vætu. Ekki er langt síðan veiðimenn höfðu örlítinn vott af áhyggjum af bleikjunni, en í sumar sem leið létu þær sér fátt um dómsdagsspár eða veðurfar finnast og gældu allhressilega við ástríðu veiðimanna, bæði í Þingvalla- og Úlfljótsvatni.
Hvað bleikjurnar gera næsta sumar er ómögulegt að geta sér til um, hvort sem þær eiga heima í Þingvallasveit, Grafningi eða vestur á Mýrum. Eitt er þó víst, ég er byrjaður að bíða og ég læt ekkert skemma þá bið fyrir mér og held áfram að blaða í gegnum Veiðikortabæklinginn og læt mig dreyma.
Rétt fyrir jólin 2017 laumaðist þessi grein inn um bréfalúguna með Veiðikortinu 2018. Smá samantekt og uppgjör veiðinnar sumarið 2017. Til að geta þeirra þá hafa nokkrar myndir frá mér verið lífseigar í fylgiriti Veiðikortsins í gegnum tíðina, þrjár þeirra eru hérna að neðan til hægri.
Vonir og væntingar eru órjúfanlegur hluti stangveiðinnar. Með vonina að vopni en eitthvað hófstilltari væntingar byrjaði mitt tímabil við Gíslholtsvatn á fyrsta degi aprílmánaðar. Kaffibrúsinn var fullur af rjúkandi heitu kaffi sem var eins gott því vorið var ekki alveg á næstu grösum í byrjun apríl. Reyndar kom kaffibrúsinn óvenju mikið við sögu í sumar, tíðafarið var einfaldlega þannig.
Þegar aðeins fór að rofa til í tíðarfari og sumardagurinn fyrsti rann upp höfðu vonir og væntingar tekið öll völd og ég fór nokkur skipti að nærumhverfi mínu, Elliðavatni. Það bar ekki á öðru en í vatninu væri nægur fiskur og mikið ólmaðist hann þarna, rétt utan kastfæris. Það var ekki fyrr en leið á sumarið og ég færði mig inn í Helluvatn að fiskur komst í kastfæri, feitar og fallegar bleikjur sem veltu sér í klakflugu.
Eins og nærri má geta hefur veðurfar mikil áhrif á stangveiðimenn og fátt jafn mikið notað sem afsökun fyrir lélegri veiði. Sökum síðkominna snjóaalaga s.l. vetur leysti snjó með nokkrum hvelli s.l. vor og mörg vötn stóðu snemma í hæstu stöðu. Svo rammt kvað að þessum vatnavöxtum að ný vötn urðu til og eldri flæddu lengi yfir bakka sína. Langavatn gældi þannig lengi við grasið á Beilárvöllum og virtist seint ætla að draga sig til baka í hefðbundna stöðu. Þannig varð til ný afsökun fyrir gæftaleysi, þetta er allt of mikið vatn.
Því miður fór væntingavísitala mín fyrir vötnin sunnan heiða heldur lækkandi þegar leið á sumarið. Mér fannst eins og veðurguðir og veiðigyðjur hefðu ekki komið sér sérstaklega vel saman um bestu lausn fyrir veiðimenn. Þegar veiðigyðjurnar tældu fiskinn upp að voru veðurguðirnir ekki alveg sammála og smelltu á roki eða kuldakasti, tóku jafnvel upp á því að blása úr vestri. Þannig var mín upplifun t.d. af Þingvöllum, bleikjan kom en gaf sig ekki þannig að þær urðu fáar, en vissulegar bragðgóðar, Þingvallableikjurnar sem enduðu á pönnunni þetta sumarið.
Norðanlands skaust Skagaheiði á toppinn um leið og fært varð og gerðu margir gott mót þar. Illu heilli fór ég ekkert norður þetta sumarið og varð því af ævintýrum norðlensku heiðanna. Ég held samt í vonina og stefni þangað næsta sumar, það hlýtur að koma að því að ég hitti á gott samkomulag guða og gyðja.
Vestfjarðakjálkinn ýtir reglulega við veiðibakteríunni og kemur örugglega til með að halda því áfram. Ekki skortir mig væntingarnar og vonin viðheldur markmiðinu að þræða vötnin frá Haukadal að Syðradal í einni góðri ferð. Það er jú vonin eftir ævintýrum sem heldur manni í þessu áhugamáli og ég vænti þess, eins og venjulega, að eiga gott veiðisumar í vændum.