Grein sem birtist í fréttablaði VEIDA.IS árið 2012. Eitthvað hafa áherslur og upplifun breyst á þeim árum sem liðið hafa, en flest stenst þetta tímanns tönn.

Í vatnaveiði liggur alltaf beinast við að skoða það sem stendur manni næst; grynningarnar. Þær eru það fyrsta sem vaknar til lífsins í vötnunum og þar byrja ég að svipast um. Ég trítla með bakkanum, létt svo ég styggi ekki fiskinn og svipast um eftir pöddum sem hefur skolað á land.
Á vorin, þegar vatnið er ennþá kalt er fiskurinn svolítið eins og í því að éta úr ísskápnum, afganga frá síðasta sumri, lirfur á botninum og einstaka púpur sem ruglast hafa í ríminu. Það liggur í hlutarins eðli að vatnið hitnar fyrst þar sem það er grynnst og þangað stefni ég, í raun byrja ég helst alltaf veiðiferðirnar á grynningunum. Þær eru matarkista og ef ekkert hefur styggt fiskinn er hann þarna líka, stutt frá bakkanum og í nægu æti.
Kalt vatn er svolítið eins og bíómynd í slow motion, pöddurnar og fiskurinn fara sér einstaklega hægt þannig að það þýðir ekkert fyrir mig að mæta á staðinn og henda einhverjum spíttbát út í vatnið og strippa hann inn eins og brjálæðingur. Ég vel mér rauða pöddu sem líkir eftir mýlirfunni þegar hún er full af frostlegi, sem heitir víst blóðrauði eða hemóglóbín, eða einhverja svarta mjónu. Umfram allt, þá gíra ég mig niður og flugurnar á botninn, dreg þær lús hægt inn og athuga hvort ekki sé eitthvert líf komið á kreik.
En grynningarnar eru ekki aðeins spennandi að vori. Allt sumarið og langt fram á haust eru þær þessi matarkista sem fiskurinn sækir í. Þegar vatnið hefur hitnað og fiskinum hlýnað svolítið og farinn á kreik, þá kemur hann samt alltaf aftur upp á grynningarnar og þá sérstaklega í ljósaskiptunum, smæstu fiskarnir fyrst, hægt og rólega en svo kemur oft hvellur. Þá getur oft verið gott að grípa til straumflugna eins og Nobbler, Black Ghost og svo Dentist þegar myrkrið er alveg að skella á.
En hvellurinn getur endað eins snögglega og hann byrjaði. En það þýðir ekki að ég sé hættur, nei. Ég nota tímann frekar til að setjast niður, fá mér kaffibolla og segja ótrúlegar sögur af þeim stóra sem slapp, sko tvisvar í röð. Silungurinn er nefnilega þannig gerður að hann étur í skorpum. Hann kemur inn á grynningarnar, étur eins og hann getur, leggst síðan fyrir áður en hann leggur aftur til atlögu. Svona gengur þetta oft langt fram eftir kvöldi, stundum alla nóttina þar til skömmu eftir sólarupprás.
Svona ‚ljósaskiptaveiði‘ getur líka átt sér stað á miðjum degi. Sjáið til, það er þessi snögga hitabreyting vatnsins við ljósaskiptin sem kveikir í silunginum. Þessi breyting verður einnig við snöggar veðrabreytingar eða þegar ský dregur fyrir sólu á heiðskýrum degi. Þessu vil ég alls ekki missa af, nema þá að ég sé sofandi einhvers staðar á bakkanum, örmagna eftir veiði næturinnar.
Senda ábendingu