Grein sem birtist í fréttablaði VEIDA.IS árið 2012. Flestar þessara greina voru unnar upp úr kynningum mínum frá árunum 2010 – 2012 sem margir hafa séð.

Einn er sá staður í vötnunum sem svipar svolítið til grynninganna sem ég fjallaði um í síðasta fréttabréfi, en það eru bakkarnir. Þetta er staður sem ég ætti að reyna miklu meira við því vatnsbakkarnir veita fiskinum skjól og ef hann verður ekki fyrir styggð heldur hann sig gjarnan þarna. Það er með mig eins og svo marga aðra veiðimenn að oftar en ekki veð ég hugsanalaust út í vatnið og oftar en ekki yfir fiskinn. Það þykir engum gott að láta vaða yfir sig á skítugum skónum og því hrökklast fiskurinn oft undan veiðimönnum af þessum annars ágæta veiðistað. En, fyrsta skrefið í að ráða bragarbót á þessari hegðun minni, er jú að viðurkenna vandann.
Hár bakki, jafnvel grasigróinn geymir oft fína fiska og fæðan er ríkuleg á þessum slóðum, ósynd skordýr sem hafa fallið í vatnið, ógrynni hornsíla og svo flugur sem klakist hafa út í vatninu og synda að bakkanum til að þurrka vængina áður en þær taka á loft. Í sumar verður sko ráðin bót á þessari bakkafælni minni og þessum ágæta veiðistað gefin viðeigandi gaumur.
Senda ábendingu