FOS
  • Færslur
  • Flugur
  • Grúsk
    • FiskurinnNokkrir punktar um hegðun fisksins sem við erum að eltast við.
    • GreinaskrifGreinar og fréttir sem komið hafa fram á hinum og þessum miðlum á liðnum árum.
    • GræjurNokkrar greinar um veiðistangir, hönnun þeirra og eiginleika.
    • HnútarNokkrir góðir hnútar
    • HnýtingarÝmislegt sem tengist veiðiflugum, hnýtingu þeirra og hönnun.
    • Hnýtingarefni
    • KannanirÝmsar kannanir sem FOS.IS hefur gert meðal lesenda sinna, niðurstöður þeirra og hugleiðingar út frá þeim.
    • KasttækniAlltaf gott að rifja upp kasttæknina.
    • Lífríkið
    • Línur og taumarÝmislegt gagnlegt sem lýtur að flugulínum og taumum.
    • MaturNokkrar uppskriftir og umfjöllun um þann mat sem má gera sér úr aflanum.
    • Veiðiferðir
    • Veiðitækni
    • ÞankarÝmsir þankar og hugleiðingar
    • ÆtiðAllt sem fiskurinn leggur sér til munns.
  • Vötnin
  • Myndir
  • Töflur
    • AFTM
    • Alfræði
    • Byrjendur
    • Festingar
    • Fiskurinn
    • Flóðatafla
    • Hlutföll
    • Krókar
    • Kúlur & keilur
    • Lög og reglur
    • Taumar og flugur
    • Þráður
  • Tenglar

  • Hvernig gengur?

    25. apríl 2023
    Ætið

    Upp

    Forsíða

    Ég veit ekki alveg hvað það er, kannski er það bara ég, en mér finnst veiðimenn vera duglegri að vori heldur en á miðju sumri að spyrja náungann á veiðistað hvernig gengur. Þegar líður á sumarið fækkar þessum spurningum, kannski telja veiðimenn þá eins víst að það gangi bara vel, flugur á sveimi og allt í gangi. Svo getur líka verið að spaugarinn sé oftar á ferðinni að vori, laumast niður að vatni án þess að vera með græjurnar með sér og nýtur þess bara að gera góðlátlegt grín að norpandi veiðimönnum í skítakulda og vosbúð og spyr því; Hvernig gengur þegar augljóst er að það er ekkert að gerast.

    En satt er það, það getur gengið misjafnlega vel í veiðinni að vori og ástæðurnar geta verið ýmsar og misjafnar eftir aðstæðum. Heilt yfir, þá ætti fiskurinn að vera í þokkalega góðu tökustuði, ef hann er þá á annað borð kominn á ról. Það er reynsla mín að vök á vatni, jafnvel íslaust vatn að vori kveikir meira í veiðimönnum heldur en endilega fiskinum, svona rétt til að byrja með. En svo kemur að því að ætið fer á ról, verður meira á berandi og þá fer fiskurinn af stað.

    Eitt er það sem hefur reynst mér ágætlega að vori er að veiða rauðar flugur, hvort sem það eru buzzerar, púpur eða straumflugur. Svo setur maður auðvitað fyrirvarann á þetta og segir; það sem maður notar oftast, það veiðir. Kannski er þetta bara til marks um hvað ég set oftast undir frekar en það sem fiskurinn endilega vill umfram eitthvað annað.

    Sumir veiða eingöngu einlitar, daufar flugur að vori. Aðrir fara alveg í hina öfgana og beita eingöngu flugum sem þurfa nánast ekkert sólarljós til að glampa og glitra þannig að fiskurinn sjái þær örugglega, segja þeir. Ætli ég sé ekki þarna mitt á milli, hófstillt notkun á glitþræði og hotspot, en yfirleitt einlit fluga eða með skörpum litaskilum.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Létt og leikandi

    28. mars 2023
    Ætið

    Upp

    Forsíða

    Meira um léttar flugur! Já, ég er svolítið með þetta á heilanum þessi misserin og ekki skánar ástandið þegar kunningi æsir mann upp í að skrifa um léttar flugur í straumvatni. Það sem hann hafði í huga voru ekki léttar straumflugur, hvað þá votflugur því hann hefur enga trú á svoleiðis furðuskepnum eins og hann kallar þær. Nei, hann var með léttari púpur í huga vegna þess að nýlega lét ég þess getið að ég skildi vel að veiðimenn vildu þyngri púpur í straumvatni. Þessi kunningi minn veiði ekkert, hvorki á flugu né nokkuð annað. Að vísu er ég ekki að segja alveg satt, hann veiðir oft og iðulega, en þá aðeins með einhver grisjuháf í hönd til að fanga skordýr, þess vegna kalla ég hann ekki veiðimann (hér skortir glettni í ritað mál, því ég meina þetta hreint ekki).

    Hann spurði mig sem sagt út í þetta dauðarek (e: dead drift) hvað það væri eiginlega sem veiðimenn sæktust eftir með þessu. Ég reyndi, af nánast fullkominni vanþekkingu, að skýra það út fyrir þessum kunningja mínum að markmiðið væri að láta ekki straum í vatni ná tökum á línunni, taumnum eða flugunni þannig að agnið ræki ekki óeðlilega hratt. Trúið mér, oft hef ég séð stór augu þegar ég læt eitthvað út úr mér, en þau augu sem mættu mér þegar ég lét þetta út úr mér voru með þeim stærri sem ég hef séð. Hvers vegna? spurði hann og ég reyndi að umorða skýringar mínar en var stoppaður í miðri setningu. Ég skil alveg, en hvers vegna? Nú var komið að mér að reka upp stór augu og ég spurði hvað hann eiginlega meinti, þetta væri auðvitað gert til að fiskurinn gæti ekki spottað að flugan væri ekki náttúrulega fæða og léti glepjast af henni.

    -Aha, og hvað segir þér að náttúruleg fæða ferðist ekki undan straumi, jafnvel með meiri hraða en straumurinn? sagði hann og glotti. Ég þóttist alveg kannast við að á einhverjum tímapunkti losar skordýr tökin á botninum og leitar upp á yfirborðið, en gat það verið að það ferðist hraðar en straumurinn? Það stóð ekki á svarinu; Pottþétt, því þegar paddan leitar upp, þá annað hvort tekur hún frumstæð sundtök eða notar gasbólu undir skel eða aftan við haus til að létta sig. Allt sem er á hreyfingu í straum, með lægri eðlismassa en vatnið og meiri þéttni, það ferðast hraðar en straumurinn. Hann bætti að vísu við sá tími sem skordýrið losar tökin og svamlar um í vatninu, getur í besta falli talist augnablik í lífi þess, en ef veiðimenn vilja endilega líkja eftir hreyfanleika pöddunnar, þá ættu þeir líka að vera viðbúnir því að litla, hreyfingarlausa paddan á botninum taki á sprett í vatninu. Ef hún nær ekki upp að yfirborðinu í fyrstu atrennu, þá helmingast strax líkurnar á að henni takist það í annarri tilraun og hvert fer hún þá? Jú, með straumnum, kannski ekki nema hálf í kafi en að öllum líkindum undir yfirborðinu; Léttari púpur.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Örlítið meiri léttleiki

    19. mars 2023
    Ætið

    Upp

    Forsíða

    Það hefur eitthvað borið á vangaveltum hér um léttleika flugna og ég er ekki alveg hættur enn. Í flestum færslum um léttari flugur hef ég verið að velta mér upp úr straumflugum, en hvað með púpurnar? Er ekki einmitt kostur við púpur að hafa þær þungar? Koma þeim niður sem fyrst, þyngja þær með tungsten kúlum í yfirstærð þannig að þær sökkva eins og steinn?

    Í mínum huga er svarið hreint og klárt þegar veitt er í straumi. Ég hef alveg reynt það sjálfur að tökum fjölgar þegar flugan kemst hratt og örugglega niður að fiski, einfaldlega vegna þess að allt þarf að gerast hraðar þegar veitt er í straumi heldur en vatnaveiði. Alhæfing? Já, alveg örugglega að einhverju marki, en til einföldunar óska ég eftir því að við höldum okkur við þessa alhæfingu og getum þannig haldið áfram og komist að því ætlaði upphaflega að koma á framfæri.

    Veiði í tiltölulega kyrrstæðu vatni er einfaldlega allt önnur en veiði í straumvatni. Ég hef alltaf (reynt að) nálgast vatnaveiði í rólegheitum, hún er mín leið til að vinda ofan af mér og njóta þess að vera í veiði. Hér má ég til með að skjóta því inn sem skotið var á mig eitt sinn; Vatnaveiði er bara fyrir letingja, bæði þá sem eru fastir á bakkanum og þá sem halda á stöng. Mér fannst þetta fyndið, þetta var þannig sagt að ég gat ómögulega tekið þetta nærri mér. Það sem einn kallar leti, það finnst öðrum að njóta og þegar maður nýtur einhvers, þá liggur ekkert endilega mikið og nú er ég alveg að nálgast efnið.

    Ef það liggur ekkert á að koma flugunni niður, þá finnst mér allt mæla með því að nota létta púpu. Rétt eins og léttari straumflugur, þá hreyfa léttari púpur sig eðlilegar í vatni heldur en þungar og það hlýtur að teljast ótvíræður kostur. Það er víst svo að hlutfallslega fá skordýr sem slugast þetta á botninum, eru silaleg og þung á sér, miðað við þau skordýr sem svamla um í rólegheitunum (letingjar?) eða kippast líflega til í vatninu. Þá má reyndar alveg benda á kosti þess að beita votflugu í stað púpu þegar ætið svamlar um, en það er önnur saga.

    Nú ætla ég ekki vera með einhverja aldursfordóma, en það eru helst yngri veiðimenn sem hafa ekki hugmynd um hvernig léttar púpur líta út. Það er stór hópur veiðimanna sem þekkir aðeins púpur með kúluhaus, jafnvel tungsten kúlu og ýmsum brögðum beitt til að bregða þyngingu undir búkinn. Svo vita náttúrulega allir að mjóar púpur sökkva betur en þær bústnu.

    Til að eignast léttari púpu er einfaldast að sleppa einhverju og bæta jafnvel einhverju öðru við þannig að kvikindið þurfi að hafa eitthvað fyrir því að sökkva. Það má t.d. sleppa kúlunni eða nota léttari kúlu, þetta segir sig eiginlega sjálft. Svo má sleppa því að vírvefja búkinn á nokkrum vel þekktum púpum eins og t.d. Pheasant Tail og nota bara þráð í staðinn. Púpan léttist trúlega um einhver 30 – 40% við að sleppa koparnum og mig grunar fastlega að hún verði enn líflegri í vatni fyrir bragðið.

    Svo má ekki gleyma því að mjög margar púpur sem við þyngjum í drep í dag voru ekkert svona þungar þegar höfundar þeirra settu þær fyrst saman. Prófaðu að nota léttari púpur og ég er sannfærðum um að ef þú kemst upp á lagið með að veiða þær líflega, þá hættir þú að hugsa um letingja kommentið hér að framan. Það er virkilega líflegt að veiða léttar púpur.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Vatnssöfnun

    10. desember 2018
    Ætið

    Upp

    Forsíða

    Eins og kunnugt er þá hef ég ákveðna tilhneigingu til að safna vötnum, þá helst hérna á síðuna. Aðrir safna vötnum í atvinnuskyni og þá helst með því að stífla allar mögulegar og ómögulegar sprænur og bein þeim í risavaxin forðabúr til orkuframleiðslu. Hvaða álit sem menn kunna að hafa á forðabúrum þessum þá er ekki óalgengt að við tilbúning þeirra lokast göngu leið fisks eða íbúar náttúrlegra vatna sem hverfa undir forðabúrin verði að leita nýrra búsvæða.

     

    Það er í eðli þessara forðabúra að vatnshæð þar sveiflast nokkuð á milli árstíða. Frá hausti og fram á vor er tappað af þeim með tilheyrandi lækkun og tærir hlutar þeirra sem í rennur allt árið um kring verða meira áberandi. Verður þá oft heilmikill handagangur í öskjunni hjá veiðimönnum og þeir flykkjast upp á heiðar og nýta tækifærið að egna fyrir fisk í þessum lónum. Þegar síðan snjó- og jökulbráð tekur að streyma aftur inn í lónin hverfa þessir góðu veiðistaðir undir litað jökulvatnið, en eins víst er að þar heldur fiskurinn þó enn til.

    Þegar kemur að því að velja flugu í vötnum sem tekið hafa að skolast aftur, þá eru nokkrar flugur sem að sögn standa uppúr. Flugur sem nefndar hafa verið eru; Flæðarmús, Black Ghost Sunburst, Bleik og blá og mosagrænn Nobbler. Þessar flugur má síðan poppa enn frekar upp með því að nota UV efni í þær og þá helst rautt, appelsínugult og gult, því þeir litir ku vera mest áberandi UV lita í skoluðu vatni.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Þoka

    6. mars 2017
    Ætið

    Upp

    Forsíða

    Veiðimenn eru bara mannlegir, rétt eins og annað fólk. Að vísu eru þeir til sem hafðir eru svo upp til skýjanna að þeir nálgast guði, en flestir erum við samt fastir við jörðina þegar öllu er á botninn hvolft. Rétt eins og aðrar manneskjur lærum við mest af því sem reynslan færir okkur og það er einmitt reynslan sem mótar sannfæringu okkar.

    Nýlega las ég áhugaverða grein eftir Lamar Underwood, handbókahöfund þar sem hann smellir fram þessari áhugaverðu setningu Foggy Weather Fishing: Forget About It!  I have never, anywhere, anytime, been able to catch fish when dense fog covers the water.  Ég hélt fyrst að þessi annars ágæti rithöfundur væri að grínast og það kæmi eitthvað tvist í greinina þar sem hann drægi í land, en það fór nú ekki svo, þetta var greinilega hans sannfæring sem væntanlega hefur orðið til út frá hans reynslu. Ég veit ekki hvort Lamar hafi í nokkurn tíma komið til Íslands, en hann hefur örugglega aldrei verið við Frostastaðavatn þegar þokan læðist út á vatnið niður af Dómadalshrauni, fikrar sig yfir vatnið og þéttist við hraunið undir Suðurnámum.

    Þoka á Frostastaðavatni
    Þoka á Frostastaðavatni

    Eflaust fara veiðimöguleikar í þoku mikið eftir því hvort um er að ræða kalda, hráslagalega þoku eða þoku sem losar léttan úða yfir vatnið og hækkar súrefnismagn yfirborðsins. Eins og mér er minnisstætt frá Frostastaðavatni, þá getur klak flugunnar magnast ótrúlega þegar þokan leggst yfir og bleikjan fer hamförum í uppitökum með tilheyrandi færi á þurrfluguveiði. Ég segi því fullum fetum, njóttu þokunnar og veiddu eins og þig lystir, það er mín sannfæring.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Fuglalíf

    16. janúar 2016
    Ætið

    Upp

    Forsíða

    Ég hef áður sagt frá aðdáun minni á himbrimanum, þessum fisknasta fugli okkar. Í sumar sem leið hitti ég fyrir mann sem var hreint ekki á sama máli og ég. Himbriminn er eins og hvalurinn, étur og étur frá okkur fiskinn sagði hann eða eitthvað á þá leið. Síðan nefndi hann tölu yfir þau kíló sem einn himbrimi getur látið ofan í sig af silungi á einum degi, margfaldaði það svo með 365 og fékk út svimandi fjölda kílóa sem einn himmi getur látið ofan í sig. Því miður man ég ekki þessar tölur, en ég viðurkenni að mér brá við þær.

    Himbrimi
    Himbrimi

    Þrátt fyrir þetta er ég ennþá mikill aðdáandi himbrimans og raunar allra annarra fugla sem veiða í vötnum landsins. Mér hefur alltaf þótt það góðs viti að fugl sé á vatni, helst í æti og nái hverjum fiskinum á fætur öðrum. Það kemur oft og iðulega fyrir að ég er ekki að veiða þar sem fiskurinn heldur sig og þá er ekki mikið annað að gera en skima í kringum sig á meðan flugan er dregin inn á milli kasta. Kemur þá fyrir að maður rekur augun í fugl; kríu, máf, himbrima eða lóm. Fylgist maður með atferli fuglsins, má gjarnan sjá hvar hann sækir æti og þá kemur auðvitað til greina að færa sig um set og nálgast staðinn sem fugli veiðir á eða setja sig niður í gönguleið fisksins sjái maður fuglinn færa sig eftir ákveðnu mistri eða slóð. Sé hann aftur á móti bara að lóna fram og til baka án þess að vera nokkru sinni með fiski í goggi, þá er hann væntanlega í sömu ördeyðunni og maður sjálfur. Svona getur fuglinn gefið manni vísbendingar eða verið manni huggun í gæftaleysinu.

    Meira að segja litlu vaðfuglarnir geta hjálpað okkur að velja rétta flugu. Skyggnist maður eftir þeim við vatnsbakkann er eins víst að maður geti skoðað hvað þeir eru kroppa upp undan steinum, í gróðrinum eða bara í flæðarmálinu. Þá er lag að skipta um flugu, það sem er við bakkann er oft einnig á sveimi úti í vatninu, meira að segja skemur frá bakkanum en okkur grunar.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
1 2 3 … 5
Næsta síða»

FOS

Allur réttur áskilinn – © 2025 – Kristján Friðriksson

  • Facebook
  • Vimeo
  • Issuu
  • YouTube
  • Instagram
  • Senda skilaboð
  • Áskrift í tölvupósti
 

    • Gerast áskrifandi Subscribed
      • FOS
      • Join 176 other subscribers
      • Already have a WordPress.com account? Log in now.
      • FOS
      • Gerast áskrifandi Subscribed
      • Skrá mig
      • Innskráning
      • Report this content
      • Skoða vef í lesara
      • Manage subscriptions
      • Collapse this bar