Flýtileiðir

Framvötn – 5. júlí 2023

Það hefur farið fáum fréttum af veiði í Framvötnum þetta sumarið og þar sem ég á bágt með að trúa því að þar sé lítil veiði, þá ákvað ég á heimleið minni úr Veiðivötnum að taka á mig krók og renna veg 208 frá Sigöldu og niður að gagnamótum F225 Landmannaleið og taka stöðuna á vötnunum.

Eitthvað hef ég séð af fyrirspurnum um færð og ástand 208, en því miður virðist enginn hafa séð sér fært að upplýsa að spottinn frá Sigöldu og niður að Bjallavaði er bara eins og venjulega; leiðinlegur og grófur. Þar fyrir neðan og alveg að gatnamótum F225 er hann ágætur, lítið um þvottabretti (enn sem komið er) og ekkert mikið af lausum sandi. F225 Landmannaleið frá Frostastaðavatni og að 26 Landvegi er bara mjög góður, en varasamur skorningur þar sem Dómadalshraun mætir Dómadal, betra að fara þar með varúð á minni bílum.

Ræsið á Helliskvísl, austan Landmannahellis

Vaðið á Helliskvísl austan við Landmannahelli sem var frekar leiðinlegt í fyrra er nú horfið og í stað þess komið þetta fína ræsi og því greið leið fyrir alla bíla inn að Landmannahelli úr austri. Sem fyrr er vað undir Sauðleysu yfir Helliskvísl og Rauðfossakvísl og þó þau hafi verið grunn og vel fær, þá geta þau breyst í vætutíð og því betra að hafa hugann við aksturinn yfir þau.

En að veiðinni og þá fyrst Blautuver. Það var stinnings kuldi af norðri og hitastigið ekki nema rétt um 6°C þegar ég staldraði við á bökkum Blautavers. Ég fylgdist aðeins með öndum á vatninu, sem ég hef sjaldan séð fleiri, þar sem þær köfuðu í gríð og erg á nokkrum stöðum. Minnugur hugljómunar og gullmola sem hraut af vörum félaga míns í Veiðivötnum; Þar sem er æti, þar er fiskur, ákvað ég að setja saman stöng og kasta litlum svörtum Nobbler þar sem þær voru að kafa. Á um 20 mín. tók ég 6 bleikjur sem samtals vógu 2 kg. Nokkrar vænar en aðrar í smærri kantinum. Það vantar sem sagt ekki æti, fisk né endur í Blautuver.

Næst lá leið mín að Dómadalsvatni sem skartaði sínu fegursta í skjóli Lifrarfjalla. Þó ég sæi ekkert lífsmark á vatninu, hvorki æti né fisk, þá lét ég slag standa og rölti aðeins inn með vatninu að vestan og hafði Gullbrá undir. Í öðru eða þriðja kasti var nartað, fjórða eða fimmta kasti var tekið og skömmu síðar lá 2,5 punda urriði á bakkanum. Nokkrum köstum síðar var tæplega 2ja punda urriði við hlið hans. Ef þetta hafa ekki verið síðustu fiskarnir í vatninu, þá mundi ég halda að þarna væri nóg af fiski og bara spursmál um að sækja þá.

Löðmundarvatn

Eftir margar ánægjustundir við Löðmundarvatn á liðnum árum við grisjun með netum, aðgerðir sem verulega skiptar skoðanir hafa risið um árangur síðan þær lognuðust út af, þá lék mér auðvitað forvitni á að vita um stöðuna á bleikjunni. Það má hver sem er átelja mig fyrir að nenna ekki að labba inn með vatninu að norðan, ég var einfaldlega búinn á því eftir Veiðivatnaferðina þannig að ég lét mér nægja að labba niður frá bílastæðinu og kasta nokkrum sinnum út á vatnið. Á innan við 15 mín. lágu tvær 1 punda bleikjur á bakkanum sem glöptust af Watson‘s Fancy púpu. Fallegar og vel haldnar bleikjur sem áður þurfti að hafa verulega fyrir að finna í þessu vatni.

Herbjarnarfellsvatn

Síðasta vatnið sem ég heimsótti var Herbjarnarfellsvatn og ég sat fast við minn keip og var ekkert að fótum troða umhverfið. Þess í stað fór ég niður beint fram undan bílastæðinu með Gullbrá undir og kastaði rétt aðeins upp í ölduna þar sem ég þóttist sjá einhvern viðsnúning fisks. Í öðru kasti var tekið græðgislega í fluguna, rétt eins og frændur hans í Veiðivötnum höfðu gert og eftir snarpa og fjöruga viðureign lá tæplega 3 punda, silfraður og pattaralegur urriði á bakkanum.

Útbúnaðurinn

Þess má geta að útbúnaður minn í þessari veiði var ekki fullur skrúði veiðimanna, heldur aðeins gönguskór og gallabuxur. Aðgengi að þessum vötnum er slíkt að það þarf ekki mikinn útbúnað svo sem vöðlur og tilheyrandi til að eiga ánægjulega stund við þau.

Ég lét þennan eina fisk í Herbjarnarvatni nægja, renndi inn að Landmannahelli, fyllti út veiðiskýrslu og átti síðan sérstaklega ánægjulegt samtal við ungan aðstoðarmann skálavarða sem kemur til með að eyða sumrinu við Landmannahelli. Hann sýndi mér í boxið sitt sem hann hafði sjálfur fyllt á í vetur, box sem margir væru stoltir af að hafa hnýtt og ég gaukaði að honum nokkrum flugum sem hafa gefið mér í Framvötnum. Það verður gaman að hitta þennan áhugasama dreng síðar í sumar og fá veiðisögur frá honum. Svo er náttúrulega massi af fiskum í vötnunum sem verður líka gaman að heilsa uppá.

Eitt örstutt að lokum, ég átti smá spjall við landvörð á leiðinni frá Sigöldu sem var í óða önn að raka yfir hjólför utan vega við 208. Mér þótti nóg um að heyra að á þessum spotta væru oft og iðulega 10 ummerki um utanvegaakstur. Það er nóg af útskotum eða breiðum vegum þar sem stöðva má bíla án þess að fara út fyrir veg. Þó gróðurinn í vegkanntinum virðist ekki merkilegur, þá er hann þarna og eigin ástæða til að vanvirða seiglu þessara plantna með því að troða þær undir hjólbörðum. Hættum þeim ósóma að aka yfir lítt eða betur gróið land.

Senda ábendingu

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *