
Litla Fossvatn
Litla Fossvatn hefur samgang við Stóra Fossvatn um Fossvatnalænu og þar með má segja að sami stofn ísaldarurriða finnist í þessum vötnum. Litla Fossvatn er 0,12km2 að flatarmáli og úr því rennur Fossvatnakvísl til Vatnakvíslar. Fyrirstaða við útfall Litla Fossvatns hefur varnað því að bleikja nái upp í Fossvötnin og til að viðhalda þessari náttúrulegu vörn hefur hún verið lagfærð í það minnsta einu sinni og vel er fylgst með ástandi hennar.
Rétt eins og við Stóra Fossvatn er náttúrufegurð þarna gríðarleg og mikil gróska í gróðri og fuglalífi. Sjálfur hef ég kynnst fuglalífi þar betur en ég óskaði mér, því í ógáti varð mér það á í fyrstu ferð minni í Veiðivötn að ganga heldur nærri hreiðri himbrimans við vatnið og fékk heldur betur hvæs í eyra og ógnandi tilburði steggsins sem kom þar aðvífandi. Eftir þá upplifun hef ég haft það að reglu að sneiða hjá hreiðrum himbrima þar sem ég rekst á þau.
Í Litla Fossvatni er aðeins leyfð fluguveiði og hefur svo verið til fjölda ára.
Tenglar
Flugur
Myndir
