
Eyrarvatn
Rétt vestan Glammastaðavatns í Svínadal liggur Eyrarvatn. Vatnið er e.t.v. þekktast af sumarbúðum KFUM í Vatnaskógi, en það er líka ágætt veiðivatn. Vatnið er ekki alveg eins lítið og það virðist við fyrstu sýn, tæpur ferkílómetri að flatarmáli og alls ekki eins grunnt og margir telja, mesta dýpi 12,5 m.
Þar sem vatnið er notað til vatnsmiðlunar fyrir Laxá í Leirársveit er stífla við útfall vatnsins. Fiskur gengur þó úr Laxá upp í vatnið, að sögn bæði lax og sjóbirtingur. Annars hefur bleikja verið meira áberandi í vatninu heldur en silfraðir frændur hennar.
Fáum sögum fer af ákeðnum veiðistöðum í vatninu en gera má ráð fyrir fiski þar sem dýpi mætir grunni og því gott að spá í dýptarkortið áður en lagt er af stað. Gegnumstreymi vatnsins er töluvert og í því er nokkuð ákveðinn straumur sem veiðimenn hafa orðið varir við. Ekki er ólíklegt að fiskur leynist í og við þennan straum þegar þannig stendur á því með strauminum berst æti. Til glöggvunar má benda á innsendar upplýsingar sem fos.is bárust frá Árna Árnasyni sem skoða má hér.
Frá og með 2021 selja Fishpartner leyfi í Eyrarvatn til almennings, en Veiðifélagar Fishpartner veiða þar frítt. Athugið að veiðileyfi í Eyrarvatni gildir einnig í Geitabergsvatni og Glammastaðavatni.