Vorið er svona um það bil kl. fimm að morgni ef við skiptum náttúrunni niður á klukkuna. Það eru aðeins hörðustu morgunhanar sem hafa sig af stað og svo þeir sem eldri eru, gamlingjarnir. Ég er eiginlega einn þessara gamlingja. Svefnþörfin hefur minnkað og ég er einfaldlega svo forvitinn að ég get bara ekki sofið lengur en til kl.fimm. Allt er þetta þó í óeiginlegri merkingu. Þegar veiðibakterían hefur grasserað allan veturinn fæ ég ákveðna fró út úr því að skyggnast um í vorinu, sjá lífið vakna og vötnin taka á sig kunnuglega mynd sumarsins. Að sjá vötnin beinlínis rífa af sér vetrarhaminn getur laðað ýmislegt fram í dagsljósið sem annars væri hulið. Það hjálpar síðan gríðarlega að vera svo sýktur af veiðibakteríunni að maður tengir allt þetta sjónarspil við væntanlega veiði sumarsins.

Ég hef farið nokkrum orðum um umhverfingu vatns að vori, lífríkið og silunginn, en svo eru einnig þeir hlutir sem við getum bara alls ekki séð í annan tíma en einmitt að vorinu. Þegar vötnin rífa af sér vetrarhaminn er gullið tækifæri að skyggnast um og horfa á það sem leynist undir yfirborðinu eins og einn lesandi síðunnar gerði s.l. páska við Eyrarvatn. Auðvitað kitlar það aðeins að mönnum detti eitthvað af síðunni í hug þegar þeir verða vitni að því augliti til auglitis úti í náttúrunni, eins og Árni Árnason upplifði og datt í hug greinin mín um undirstraum í vatni.

Sæll Kristján 

Ég reyndi að „lemja“ Þórisstaðavatnið þann fyrsta og kom nú heim án fiskjar en mikið rosalega var gaman að sjá fluguna í vatnsborðinu og sílin í fjöruborðinu, ný upplifun að spá í lífríkið í vatninu og mikið fannst mér þetta allt spennandi. 

En mig langaði að segja þér frá undirstraumi í vatni eftir að hafa skoðað slíkar upplýsingar á síðunni hjá þér í vetur og fannst þá merkilegt. En mér þykir það enn merkilegra núna þegar ég horfði á nokkuð mikinn ís á Eyrarvatninu og ísinn var að brotna niður eða „hverfa“ og þetta fylgdi ekki beinu gegnum streymi í gegnum vatnið, best að taka fram að þarna var logn og því enginn vindur að hjálpa til við brot eða straum. 

Eyrarvatnið var nú um páskana að mestu ísilagt nema alveg efsti hluti þess við og aðeins út frá efri ós. Þegar leið á blíðuna og dásamlega vorveðrið um páskana jókst gekk á ísinn en það gerðist ekki í beinu streymi frá efri ós heldur var niðurbrotið á ísnum bogadregið í líkingu við myndina þína um undirstraum.

Eyrarvatn
Eyrarvatn

Til að útskýra þetta myndrænt þá skulum við horfa á vatnið eins og um loftmynd og hafa þá neðri ós neðst og efri ós efst. Vatnsstraumurinn í vatninu virðist leggjast til hægri (séð af loftmynd) en þegar komið er útí c.a. 1/4 – 1/3 af vatnslengdinni þá breytist stefnan aftur yfir til vinstri, virðist stefna í átti að landi c.a. í miðju vatni og þaðan liggur svo straumurinn beina leið niður í neðri ós. 

Nú þegar ég rifja upp fyrri ár við ísað vatnið man ég eftir að hafa sé þetta gerast áður og leyfi ég mér að fullyrða að þarna sé undirstraumur Eyrarvatns. 

Efsti hluti þessa undirstraum er utan við kastgetu fluguveiðimanna, virðist liggja frá miðri vegu vatnsins og c.a. yfir á 1/3 hluta vatnsins Vatnaskógar megin, en við mitt vatnið(beint á móti Kapellunni í Vatnaskógi) kemur hann aftur nær landi, að neðsta sumarbústaðasvæðinu í landi Kambhóls og þar stoppar líka sefið sem getur verið mjög áberandi í vatninu og erfitt að koma agni yfir það til að komast að fiski. 

Þar sem straumurinn liggur meðfram Kambhólslandinu frá c.a miðju vatni og niður í neðri ós hafa sumir oft fengið fisk seinni hluta sumars eða snemma hausts, jafnvel lax eða sjóbirting. 

Mest notaða veiðisvæðið í vatninu, sandfjaran við efri hluta lands Kambhóls er mest notaði veiðistaðurinn af landi og margir þar að halda í laxavonina en algengast er þó að fá urriða eða bleikju. Þetta svæði er í raun þó nokkuð frá þessum undirstraumi og í þau skipti sem ég hef fengið fisk seinni hluta sumars er það á báti nálægt þessum undirstraumi, sérstaklega í efri hluta vatnsins. 

Ég leyfi mér að skjóta þessu til þín, til að undirstrika þessa upplýsingar með undirstraum í vatni. Upplýsingarnar hér eru engin hernaðarleyndarmál um hvar er fiskur í vatninu því þeir sem stunda það þekkja þessa staði og sögurnar um þá. 

Kv. Árni Árnason

Það er einmitt þessi upplifun Árna sem ég sækist svolítið í að reyna og nýti mér síðan þegar kemur að veiðinni. Að láta það eftir sér að skoða vatn í annan tíma heldur en á sumrin getur fært manni ómetanlegar upplýsingar fyrir komandi vertíð. Landslagið í vatninu og leyndir kostir þess blasa stundum við aðeins þessa stuttu stund sem það færist undan vetri og inn í sumarið. Átt þú ekki örugglega ‚þitt‘ vatn sem vert væri að skoða áður en þú ferð að veiða í sumar?

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.