FOS
  • Febrúarflugur
  • Færslur
  • Flugur
  • Grúsk
    • FiskurinnNokkrir punktar um hegðun fisksins sem við erum að eltast við.
    • GreinaskrifGreinar og fréttir sem komið hafa fram á hinum og þessum miðlum á liðnum árum.
    • GræjurNokkrar greinar um veiðistangir, hönnun þeirra og eiginleika.
    • HnútarNokkrir góðir hnútar
    • HnýtingarÝmislegt sem tengist veiðiflugum, hnýtingu þeirra og hönnun.
    • Hnýtingarefni
    • KannanirÝmsar kannanir sem FOS.IS hefur gert meðal lesenda sinna, niðurstöður þeirra og hugleiðingar út frá þeim.
    • KasttækniAlltaf gott að rifja upp kasttæknina.
    • Lífríkið
    • Línur og taumarÝmislegt gagnlegt sem lýtur að flugulínum og taumum.
    • MaturNokkrar uppskriftir og umfjöllun um þann mat sem má gera sér úr aflanum.
    • Veiðiferðir
    • Veiðitækni
    • ÞankarÝmsir þankar og hugleiðingar
    • ÆtiðAllt sem fiskurinn leggur sér til munns.
  • Vötnin
  • Myndir
  • Töflur
    • AFTM
    • Alfræði
    • Byrjendur
    • Festingar
    • Fiskurinn
    • Flóðatafla
    • Hlutföll
    • Krókar
    • Kúlur & keilur
    • Lög og reglur
    • Taumar og flugur
    • Þráður
  • Tenglar

  • Langavatn í Borgarbyggð 7. – 8. ágúst

    8. ágúst 2016
    Veiði

    Upp

    Forsíða

    Það var ekki veðurspáin sem réð því í þetta skiptið hvert við færum í veiði og það var kannski eins gott. Þar sem við áttum erindi í Borgarfjörðin á mánudagskvöldið, varð gamall kunningi okkar fyrir valinu, Langavatn. Veðurspáin fyrir svæðið hljóðaði reyndar upp á töluverðan vind af norðri, en það gekk heldur betur ekki eftir. Geinilega mikill munur á vindaspá fyrir Bröttubrekku og rauninni við Langavatn. Það eru alveg að verða tvö ár síðan við fórum síðast að Langavatni og því virkilega tími til kominn að taka stöðuna á vatninu aftur. Undir það síðasta þótti okkur fiskurinn heldur rýr og mikið af smábleikju á rápi, svo við gáfum vatninu eiginlega frí þangað til nú á sunnudaginn.

    Dagurinn var tekinn snemma og við vorum mætt á Beilárvelli rétt upp úr kl.10 með vagn og alles. Við höfðum haft spurnir af því að mikið hefði lækkað í vatninu, sem reyndust orð að sönnu. Eitthvað hefur laxinn í Langá verið þyrstur þetta sumrið, mikið búið að fella vatnið og víða þurrt þar sem áður voru veiðistaðir. Hvað um það, með lækkuðu yfirborði koma líka nýir staðir í ljós og oft auðveldara að nálgast dýpiskanta úti í vatninu. Svo mikið hefur lækkað í vatninu að aka mátti á þurru inn að botni þess að norðan, nokkuð sem okkur hafði langað lengi til.
    Á leiðinni til baka úr botninum voru stangirnar teknar fram og nokkrir staðir kannaðir frá Stórusteinum og að Barónsvík. Veiðifélaginn setti í ágæta bleikju undir Múlabrekkum en ég varð lítið var við fisk, en aulaðist þess í stað að missa fótanna og enda hálfur úti. Þetta kennir manni að vera ekki að spranga um á hálum steinum á sandölum eins og fífl. Þóttist góður að hafa sloppið með óbrotna limi og stöng eftir aulaskapinn. Eftir hrakfarir þessar klæddi ég mig í vöðlur og viðeigandi skótau og óð út að dýpiskantinum undan Beilárvöllum. Það kom þægilega á óvart að fiskurinn á þessum slóðum var af viðunandi stærð og vel haldinn í þetta skiptið. Að vísu var nokkuð um smælki innan um, en ég hirti fjóra fiska yfir um daginn og veiðifélagi minn sex, allt ágætir matfiskar. Fluga dagsins var væntanlega orange Nobbler eins og svo oft áður þetta sumarið. Annars kláruðum við daginn með því að tölta til berja og settum einhver blá- og krækiber í sitthvort ílátið. Það verður því bleikja í matinn í vikunni og í eftirrétt; skyr með rjóma og haug af berjum.

    Langavatn frá Beilárvöllum
    Langavatn frá Beilárvöllum

    Mánudagurinn rann upp með þessari líka blíðu og við gerðum okkur ferð inn að Múlabrekkum þar sem veiðifélagi minn setti í hverja glæsilega bleikjuna á fætur annarri með því að sökkva flugum vel út í dýpið, nokkuð sem er ekki eins auðvelt þegar hátt stendur í vatninu. Á meðan frúin dundaði sér við að raða inn bleikjum, rölti ég um á mínu gatslitnu vöðluskóm og varð lítið var við fisk, sama hvar ég sökkti sömu flugum og hún, svartur Nobbler og Bleik og blá gáfum mér ekkert en náði þó að særa einn upp með orange Nobbler. Til að ljúka deginum reyndum við aðeins fyrir okkur í Barónsvík án árangurs en í sárabót kláruðum við ferðina fram undan Beilárvöllum þar sem ég setti í þrjár vænar bleikjur. Það hallaði töluvert á mig í þessari veiðiferð, frúin með fleiri fiska og að vanda; miklu fallegri.

    Það er samdóma álit okkar hjóna að vatnið hefur heldur rétt úr kútinum, fiskurinn vænni heldur en oft áður og meira af nýtilegum fiski innan um. Kannski ræður lækkað vatnsborð þar einhverju, en við höfum svo sem komið að vatninu lægra og ekki fengið eins góða fiska og þessa daga. Það voru því nokkuð sáttir veiðifélagar sem héldu heim á leið  seinnipart mánudags með smá krók um Borgarfjörðinn. Enginn rosalegur aðgerðakvíði, en 24 bleikjur verður víst að teljast gott á einum og hálfum degi.

    Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
     16 / 8 157 / 172 0 / 0 30 / 39 16 / 18

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Langavatn 20. sept.

    21. september 2014
    Veiði

    Upp

    Forsíða

    Fiskilega séð varð ferð okkar hjóna í Langavatn í Borgarbyggð heldur snautleg, í það minnsta hjá mér. Frúin aftur á móti náði að jafna bleikjuveiði ársins; 121 fiskur hjá hvoru okkar. Bið lesendur að gefa því gaum að staðan er enn 27:18 fyrir mér þegar kemur að urriðanum.

    Annars var þessi dags-skeppur okkar hjóna alveg hreint frábær. Síðasti séns að bleyta flugur í Langavatni þessa vertíðina og þar sem við höfum ekkert kíkt í vatnið þetta sumarið var afráðið að renna í haustlitaferð upp með Langá og reyna aðeins fyrir okkur við vatnið vestanvert. Einstaklega fallegt haustveður fylgdi okkur úr bænum og hélst allan daginn. Að vísu var heldur svalt, rétt slefaði í 4-7°C en ekkert út á það að setja þegar ull er höfð bæði innst og yst.

    Ekki var frúin búinn að baða margar flugur þegar bleikja dagsins lét glepjast af Watson’s Fancy púpu (án kúluhauss). Ég aftur á móti varð þess heiðurs aðnjótandi að fá ekki eitt einasta högg, ekki eitt einasta nart og upplifði algjört áhugaleysi þeirra fiska sem mögulega voru á staðnum. Nú má hver sem er trúa eða ekki, en ég var fullkomlega sáttur við að fara heim með öngulinn í rassinum. Dagurinn frábær, umhverfið ægifagurt og ég svitnaði eins og hundur innan undir allri ullinni um leið og ég hreyfði mig eitthvað.

    Nú verður veðrið aðeins að fá að stjórna næstu mögulegu för, því enn eru 10 dagar eftir af tímabilinu í nokkrum vötnum og ef spáin versnar ekki, þá er alltaf möguleiki á einum skrepp í viðbót.

    Langavatn 20.sept. - Ljósm.ÞBP
    Langavatn 20.sept. – Ljósm.ÞBP

    Veiðitölur ársins

    Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
     1 / 0 121 / 121 0 / 0 18 / 27 23 / 25

    Ummæli

    21.09.2014: Já staðan er 27 -18. En eru hennar fiskar ekki miklu fallegri ?

    Svar: Hverjum þykir sinn fugl (hvað þá urriði) fagur 🙂 Við skulum spyrja að leikslokum, það er langt því frá að vertíðinni sé lokið og oft hefur frúin verið sterkari á endaspettinum heldur en ég.

    21.09.2014 – Þórunn Björk: Já og þá verður hugsanlega hægt að jafna urriðatalið…. eða vonandi minnka munin. (minnir eins og ég hafi einhverntímann farið fram á endurtalningu?) Það var þó ekki engöngu eitt stk. bleikja sem var með í för heim. Þetta var sannkölluð búdgrýgindaferð því, einiber, fjallagrös og nokkur kíló af krækiberjum þyngdu farangur á heimleið. Dásamlegur dagur þar sem aðeins heyrðist tvisvar ámátlega í himbrimanum, annars réð þögnin ríkjum. Nauðsynlegt eftir allan skarkalan sífellt í mannabyggðum.

    Svar: Hvað er þetta kona, endurtalning, endurtalning! Sama svar og síðast+ hér teljum við ekki endur.

    21.09.2014 – Þórunn Björk: Jú takk fyrir. Kunni ekki við að taka það fram, en mínir fiskar eru vitanlega muuuuuun fegurri en hans, þeir eru líka; stærri, veiddir með fallegri köstum, á fallegri flugur og að sjálfsögðu af fallegri veiðimanni (en það segir sig nú hérumbil sjálft) ….já, og svo má ekki gleyma hógværari …miklu, miklu hógværari.

    06.10.2014 – Stefán B. Hjaltested: Fagnar hver þá fengið er.!!!! Með sporðakveðju.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Langavatn, 28. júlí

    29. júlí 2013
    Veiði

    Upp

    Forsíða

    Hvort sem maður var nú eitthvað fúll yfir aflabresti í Haukadalsvatni eða bara vegna þess að lognið í Dölunum tók upp á þeim óskunda að vaða áfram með einhverjum æðibunugangi, þá tókum við hjónin okkur upp nokkru fyrir hádegið á sunnudag og héldum heim á leið, eða þannig sko.

    Þegar við vorum komin niður af Bröttubrekku var veðrið eiginlega orðið miklu meira en skaplegt svo við ákváðum eftir smá vangaveltur að skjótast upp að Langavatni til að geta sagt að við hefðum komið þangað þetta árið. Frábært veður, mikið vatn og alveg tilvalið að byrja úti á Beilárvöllum. Að vísu fannst mér að fiskurinn sem var að sýna sig væri þessi sem verður því miður að teljast ‚venjulegi‘ fiskurinn á þessum slóðum; murta eða smávaxin bleikja. Ég er reyndar einn af þeim sem telja stærri fisk vera í vatninu, en bara ekki inni við Beilárvelli eða undir Torfhvalastöðum (sæluhúsinu).

    Eftir að frúin hafði eitthvað verið að atast í smælkinu með þurrflugu og stöku púpu, ákváðum við að renna inn fyrir sæluhúsið. Að vísu er vegurinn ekki upp á marga fiska, en það þarf nú ekki að fara langt inn með vatninu til að komast í annan fisk. Það fékk ég að reyna þegar tekið var allharkalega í Svartan Zulu en mér tókst því miður ekki að setja hann fastann. Annað bar svo sem ekki til tíðinda í þessu stutta stoppi okkar en mikið væri ég til í að eyða eins og einum degi í rölt inn að botni með stöngina og valdar flugur í boxi. Ég er alveg sannfærður um að leiðin til baka yrði öllu þyngri, því fiskur er svo sannanlega í vatninu, það þarf aðeins að bera sig eftir honum.

    Og enn og aftur gaf Langavatn myndavélinni minni færi á flottum skotum í kyrrðinni.

    Langavatn, horft til Langár
    Langavatn, horft til Langár

    Veiðitölur ársins

    Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
     0 / 0 19 / 23 0 / 0 7 / 24 31

    Ummæli

    30.07.2013 – Siggi Kr. (Svarti Zulu): Það er ekki að spyrja að því með Svarta Zulu-inn ;)

    Svar: Nei, ég vildi bara óska að ‘nafni þinn’ hefði náð að sökkva tönnunum aðeins betur í þennan urriða sem var þarna á ferðinni.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Langavatn, Borgarbyggð 8. september

    8. september 2012
    Veiði

    Upp

    Forsíða

    Það var nú alls ekki ætlunin að renna fyrir fisk um þessa helgi, nóg annað á verkefnalistanum. En ýmislegt varð til þess að á fætur var ég komin fyrir allar aldir í morgun og það var eins og veðrið léki sér að því að kitla veiðibakteríuna í mér. Áður en ég yrði algjörlega óhæfur til allra verka, gafst ég upp og renndi upp með Langavatni að vestan. Smá gola, hálfskýjað og afskaplega fallegt veður, létt bára úr norðri.

    Á meðan ég sýndi tilburði til fluguveiði var mun fallegri veiðisýning í gangi í grennd við mig. Smyrill nokkur lék listir sínar í lofthernaði og ekki laust við að maður fylltist auðmýkt fyrir náttúrunni við að horfa á annan eins snilling á ferð. Samt sem áður varð ég fyrri til að ná bráð, þokkaleg bleikja stóðst ekki rauðan Nobbler og fór því heim með mér eftir þennan frábæra dag.

    Veiðifélagi minn í þessari ferð

    Veiðitölur ársins

    Bleikjur Sleppt Urriðar Sleppt Fj.ferða Núllað
     73 / 35 14 28 / 33 4 35 14

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Langavatn, Borgarbyggð 17.- 19. ágúst

    19. ágúst 2012
    Veiði

    Upp

    Forsíða

    Ég á nú ýmislegt konunni minni að þakka og um helgina bættist enn eitt í sarpinn. Hefði hún ekki krækt í mjög þokkalega bleikju á laugardaginn uppi við Langavatn hefði þessi veiðiferð með réttu átt að merkjast sem fyrsta núllið eftir að veiðin fór af stað fyrir alvöru í sumar. Við sem sagt ákváðum ásamt Mosó-genginu að renna upp að Langavatni um helgina. Ég hafði það sterkt í huga að renna inn með austubakka vatnsins inn að botni, nokkuð sem mig hefur lengi langað til að gera en aldrei látið verða að.

    Langavatn um miðnættið

    Þar sem heldur gustaði á okkur á laugardaginn var ákveðið að leggja í leiðangur austur með vatninu. Okkur til nokkurrar furðu var einstaklega hátt í vatninu, jafnvel þótt hleypt hefði verið duglega úr því til að vökva laxveiðimenn niðri á Mýrum. Við höfðum við opnunina í júní rennt inn með vatninu en þá var slóðinn svo illa í sundur að við hurfum frá. Nú var annað uppi á teningnum, slóðinn í alveg þokkalegu standi þar sem hann lá á þurru, en þegar komið var 2/3 leiðarinnar inn í botn hvarf slóðinn svo gjörsamlega í vatnið að ég hvarf frá. Jæja, það gengur bara betur næst.

    Í þessum leiðangri okkar stöldruðum við á mjög veiðilegu nesi fyrir miðju vatni þar sem frúin tók fisk helgarinnar, þann sem hirtur var. Ég setti að vísu í þokkalega bleikju, en eitthvað tók hún tæpt þannig að ég missti af henni áður en mér tókst að þreyta hana að einhverju ráði. Annars var lítið um fisk í ferðinni, þ.e. þeir sem tóku flugu voru litlir, svo litlir að öllum var sleppt og ekki færðir til bókar.

    Ýmsar flugur voru áhugaverðar í augum titta, svo sem; Pheasant, Héraeyra, Hérinn og svo auðvitað Peacock í ýmsum útfærslum, helst sú sem gengur undir heitinu Frankenstein vegna óheyrilegrar stærðar (hnýttur á XXL #8 með margföldu undirlagi = feitur og fínn).

    Veiðitölur ársins

    Bleikjur Sleppt Urriðar Sleppt Fj.ferða Núllað
     107 14 61 4 31 11

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Langavatn í Borgarbyggð, 15.-17.júní

    17. júní 2012
    Veiði

    Upp

    Forsíða

    Opnun Langavatns var á föstudaginn og að sjálfsögðu brugðum við hjónin okkur þangað ásamt Mosó-genginu sem að þessu sinni taldi þrjá aðila, gaman að því. Vatnið tók á móti okkur með brosi á vör ef svo má að orði komast, því veðrið lék við okkur þegar við komum okkur fyrir undir Réttarmúlanum í skjóli fyrir væntanlegri norðanátt. Fljótlega fóru fiskarnir að týnast á land, flestir og stærstir hjá Mosó og þar á meðal jómfrúarfiskur þriðja aðila Mosó sem reyndist stærstur fiska eftir helgina, 1,5 pund. Auðvitað byrjaði frúin fljótlega á því að setja í bleikju á Hérann en töluverð bið varð eftir fyrsta hirðanlega fiski hjá mér sem kom seint og um síðir á Olive Nobbler með gylltu tinsel. Segið svo að bleikjan taki ekki Nobbler. Það sem einkenndi kvöldið hjá mér og raunar helgina alla var ógrynni smárrar bleikju sem gerði lítið annað en rugla talningar á sleppingum.

    Langavatn um miðnættið

    Laugardagurinn byrjaði alveg þokkalega, nokkur strekkingur og glampandi sól. Við hjónin brugðum fyrir okkur fjórum dekkjum og keyrðum út á Beilárvelli til að reyna okkur við fiskinn á móti vindi. Ég, eins og vanalega, byrjaði á rölti út með suðurbakkanum og varð ekki var við fisk. Frúin aftur á móti krækti í fína bleikju undan völlunum. Og hér væri hægt að gera langa sögu stutta, því hvorugt okkar tók einn einasta fisk það sem eftir lifði dags. Já, trúið því bara. Strekkingur að norðan með tilheyrandi kulda og öldugangi sem jókst stöðugt yfir daginn gerði úti um alla frekari veiði.

    Þar sem við tókum á okkur náðir með fyrra fallinu á laugardag var ég með frískasta móti á sunnudagsmorgun og var kominn í gallann rétt um kl.6 og lagður af stað fótgangandi undan Réttarmúlanum að Beilárósum. Veðrið lék við mig, stilla og kyrrð sem ég naut til hins ítrasta á meðan ég þræddi hvern veiðilegan staðinn á fætur öðrum á leiðinni til baka. Þegar ég var svo kominn aftur undir Réttarmúlann um kl.10 var afraksturinn, núll. Ekki einn einasti fiskur, ekki ein einasta taka, ekkert líf. Það var eins og allur fiskur hefði hrökklast út í dýpið undan kuldanum um nóttina, kannski ekki furða þar sem gránað hafði í fjöll. Það var svo ekki fyrr en eftir hádegið að frúin bætti einni bleikju við í safnið, annar fiskur var svo lítill að hann var losaður af í snatri og sleppt. Rétt um það bil sem við byrjuðum að taka okkur saman skall síðan á okkur þessi líka fína demba með trompi upp í erminni, hagléli. Ekki í fyrsta skiptið sem við upplifum slíkt við Langavatn, sjá hér.

    Veiðitölur ársins

    Bleikjur Sleppt Urriðar Sleppt Fj.ferða Núllað
     34 10 30 2 19 11

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
«Fyrri síða
1 2 3
Næsta síða»

FOS

Allur réttur áskilinn – © 2025 – Kristján Friðriksson

  • Facebook
  • Vimeo
  • Issuu
  • YouTube
  • Instagram
  • Senda skilaboð
  • Áskrift í tölvupósti
 

    • Gerast áskrifandi Subscribed
      • FOS
      • Join 176 other subscribers
      • Already have a WordPress.com account? Log in now.
      • FOS
      • Gerast áskrifandi Subscribed
      • Skrá mig
      • Innskráning
      • Report this content
      • Skoða vef í lesara
      • Manage subscriptions
      • Collapse this bar