Hvort sem maður var nú eitthvað fúll yfir aflabresti í Haukadalsvatni eða bara vegna þess að lognið í Dölunum tók upp á þeim óskunda að vaða áfram með einhverjum æðibunugangi, þá tókum við hjónin okkur upp nokkru fyrir hádegið á sunnudag og héldum heim á leið, eða þannig sko.
Þegar við vorum komin niður af Bröttubrekku var veðrið eiginlega orðið miklu meira en skaplegt svo við ákváðum eftir smá vangaveltur að skjótast upp að Langavatni til að geta sagt að við hefðum komið þangað þetta árið. Frábært veður, mikið vatn og alveg tilvalið að byrja úti á Beilárvöllum. Að vísu fannst mér að fiskurinn sem var að sýna sig væri þessi sem verður því miður að teljast ‚venjulegi‘ fiskurinn á þessum slóðum; murta eða smávaxin bleikja. Ég er reyndar einn af þeim sem telja stærri fisk vera í vatninu, en bara ekki inni við Beilárvelli eða undir Torfhvalastöðum (sæluhúsinu).
Eftir að frúin hafði eitthvað verið að atast í smælkinu með þurrflugu og stöku púpu, ákváðum við að renna inn fyrir sæluhúsið. Að vísu er vegurinn ekki upp á marga fiska, en það þarf nú ekki að fara langt inn með vatninu til að komast í annan fisk. Það fékk ég að reyna þegar tekið var allharkalega í Svartan Zulu en mér tókst því miður ekki að setja hann fastann. Annað bar svo sem ekki til tíðinda í þessu stutta stoppi okkar en mikið væri ég til í að eyða eins og einum degi í rölt inn að botni með stöngina og valdar flugur í boxi. Ég er alveg sannfærður um að leiðin til baka yrði öllu þyngri, því fiskur er svo sannanlega í vatninu, það þarf aðeins að bera sig eftir honum.
Og enn og aftur gaf Langavatn myndavélinni minni færi á flottum skotum í kyrrðinni.

Veiðitölur ársins
Bleikjur í ferð | Bleikjur alls | Urriðar í ferð | Urriðar alls | Fj.ferða |
---|---|---|---|---|
0 / 0 | 19 / 23 | 0 / 0 | 7 / 24 | 31 |
Ummæli
30.07.2013 – Siggi Kr. (Svarti Zulu): Það er ekki að spyrja að því með Svarta Zulu-inn
Svar: Nei, ég vildi bara óska að ‘nafni þinn’ hefði náð að sökkva tönnunum aðeins betur í þennan urriða sem var þarna á ferðinni.
Það er ekki að spyrja að því með Svarta Zulu-inn 😉