Það var ekki veðurspáin sem réð því í þetta skiptið hvert við færum í veiði og það var kannski eins gott. Þar sem við áttum erindi í Borgarfjörðin á mánudagskvöldið, varð gamall kunningi okkar fyrir valinu, Langavatn. Veðurspáin fyrir svæðið hljóðaði reyndar upp á töluverðan vind af norðri, en það gekk heldur betur ekki eftir. Geinilega mikill munur á vindaspá fyrir Bröttubrekku og rauninni við Langavatn. Það eru alveg að verða tvö ár síðan við fórum síðast að Langavatni og því virkilega tími til kominn að taka stöðuna á vatninu aftur. Undir það síðasta þótti okkur fiskurinn heldur rýr og mikið af smábleikju á rápi, svo við gáfum vatninu eiginlega frí þangað til nú á sunnudaginn.

Dagurinn var tekinn snemma og við vorum mætt á Beilárvelli rétt upp úr kl.10 með vagn og alles. Við höfðum haft spurnir af því að mikið hefði lækkað í vatninu, sem reyndust orð að sönnu. Eitthvað hefur laxinn í Langá verið þyrstur þetta sumrið, mikið búið að fella vatnið og víða þurrt þar sem áður voru veiðistaðir. Hvað um það, með lækkuðu yfirborði koma líka nýir staðir í ljós og oft auðveldara að nálgast dýpiskanta úti í vatninu. Svo mikið hefur lækkað í vatninu að aka mátti á þurru inn að botni þess að norðan, nokkuð sem okkur hafði langað lengi til.
Á leiðinni til baka úr botninum voru stangirnar teknar fram og nokkrir staðir kannaðir frá Stórusteinum og að Barónsvík. Veiðifélaginn setti í ágæta bleikju undir Múlabrekkum en ég varð lítið var við fisk, en aulaðist þess í stað að missa fótanna og enda hálfur úti. Þetta kennir manni að vera ekki að spranga um á hálum steinum á sandölum eins og fífl. Þóttist góður að hafa sloppið með óbrotna limi og stöng eftir aulaskapinn. Eftir hrakfarir þessar klæddi ég mig í vöðlur og viðeigandi skótau og óð út að dýpiskantinum undan Beilárvöllum. Það kom þægilega á óvart að fiskurinn á þessum slóðum var af viðunandi stærð og vel haldinn í þetta skiptið. Að vísu var nokkuð um smælki innan um, en ég hirti fjóra fiska yfir um daginn og veiðifélagi minn sex, allt ágætir matfiskar. Fluga dagsins var væntanlega orange Nobbler eins og svo oft áður þetta sumarið. Annars kláruðum við daginn með því að tölta til berja og settum einhver blá- og krækiber í sitthvort ílátið. Það verður því bleikja í matinn í vikunni og í eftirrétt; skyr með rjóma og haug af berjum.

Langavatn frá Beilárvöllum
Langavatn frá Beilárvöllum

Mánudagurinn rann upp með þessari líka blíðu og við gerðum okkur ferð inn að Múlabrekkum þar sem veiðifélagi minn setti í hverja glæsilega bleikjuna á fætur annarri með því að sökkva flugum vel út í dýpið, nokkuð sem er ekki eins auðvelt þegar hátt stendur í vatninu. Á meðan frúin dundaði sér við að raða inn bleikjum, rölti ég um á mínu gatslitnu vöðluskóm og varð lítið var við fisk, sama hvar ég sökkti sömu flugum og hún, svartur Nobbler og Bleik og blá gáfum mér ekkert en náði þó að særa einn upp með orange Nobbler. Til að ljúka deginum reyndum við aðeins fyrir okkur í Barónsvík án árangurs en í sárabót kláruðum við ferðina fram undan Beilárvöllum þar sem ég setti í þrjár vænar bleikjur. Það hallaði töluvert á mig í þessari veiðiferð, frúin með fleiri fiska og að vanda; miklu fallegri.

Það er samdóma álit okkar hjóna að vatnið hefur heldur rétt úr kútinum, fiskurinn vænni heldur en oft áður og meira af nýtilegum fiski innan um. Kannski ræður lækkað vatnsborð þar einhverju, en við höfum svo sem komið að vatninu lægra og ekki fengið eins góða fiska og þessa daga. Það voru því nokkuð sáttir veiðifélagar sem héldu heim á leið  seinnipart mánudags með smá krók um Borgarfjörðinn. Enginn rosalegur aðgerðakvíði, en 24 bleikjur verður víst að teljast gott á einum og hálfum degi.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 16 / 8 157 172 / 0 30 / 39 16 18

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.