Opnun Langavatns var á föstudaginn og að sjálfsögðu brugðum við hjónin okkur þangað ásamt Mosó-genginu sem að þessu sinni taldi þrjá aðila, gaman að því. Vatnið tók á móti okkur með brosi á vör ef svo má að orði komast, því veðrið lék við okkur þegar við komum okkur fyrir undir Réttarmúlanum í skjóli fyrir væntanlegri norðanátt. Fljótlega fóru fiskarnir að týnast á land, flestir og stærstir hjá Mosó og þar á meðal jómfrúarfiskur þriðja aðila Mosó sem reyndist stærstur fiska eftir helgina, 1,5 pund. Auðvitað byrjaði frúin fljótlega á því að setja í bleikju á Hérann en töluverð bið varð eftir fyrsta hirðanlega fiski hjá mér sem kom seint og um síðir á Olive Nobbler með gylltu tinsel. Segið svo að bleikjan taki ekki Nobbler. Það sem einkenndi kvöldið hjá mér og raunar helgina alla var ógrynni smárrar bleikju sem gerði lítið annað en rugla talningar á sleppingum.

Langavatn um miðnættið

Laugardagurinn byrjaði alveg þokkalega, nokkur strekkingur og glampandi sól. Við hjónin brugðum fyrir okkur fjórum dekkjum og keyrðum út á Beilárvelli til að reyna okkur við fiskinn á móti vindi. Ég, eins og vanalega, byrjaði á rölti út með suðurbakkanum og varð ekki var við fisk. Frúin aftur á móti krækti í fína bleikju undan völlunum. Og hér væri hægt að gera langa sögu stutta, því hvorugt okkar tók einn einasta fisk það sem eftir lifði dags. Já, trúið því bara. Strekkingur að norðan með tilheyrandi kulda og öldugangi sem jókst stöðugt yfir daginn gerði úti um alla frekari veiði.

Þar sem við tókum á okkur náðir með fyrra fallinu á laugardag var ég með frískasta móti á sunnudagsmorgun og var kominn í gallann rétt um kl.6 og lagður af stað fótgangandi undan Réttarmúlanum að Beilárósum. Veðrið lék við mig, stilla og kyrrð sem ég naut til hins ítrasta á meðan ég þræddi hvern veiðilegan staðinn á fætur öðrum á leiðinni til baka. Þegar ég var svo kominn aftur undir Réttarmúlann um kl.10 var afraksturinn, núll. Ekki einn einasti fiskur, ekki ein einasta taka, ekkert líf. Það var eins og allur fiskur hefði hrökklast út í dýpið undan kuldanum um nóttina, kannski ekki furða þar sem gránað hafði í fjöll. Það var svo ekki fyrr en eftir hádegið að frúin bætti einni bleikju við í safnið, annar fiskur var svo lítill að hann var losaður af í snatri og sleppt. Rétt um það bil sem við byrjuðum að taka okkur saman skall síðan á okkur þessi líka fína demba með trompi upp í erminni, hagléli. Ekki í fyrsta skiptið sem við upplifum slíkt við Langavatn, sjá hér.

Veiðitölur ársins

Bleikjur Sleppt Urriðar Sleppt Fj.ferða Núllað
 34 10 30 2 19 11

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.