Langavatn 27. júní 2021

Það var smá glufa í dagskrá helgarinnar sem við veiðifélagarnir nýttum til að merkja við Langavatn á Mýrum. Þegar við skruppum upp á Langavatni á laugardag, skartaði vatnið sýni fegursta í gjólunni og það kveikti heldur betur í okkur. Illu heilli var ekki alveg nákvæmlega það sama upp á teningnum á sunnudaginn þegar við mættum á staðinn með allar græjur og heitt á brúsa.

Þokan átti eiginlega allt sviðið þegar við mættum upp úr hádeginu og þannig hélst það þá klukkutíma sem við stöldruðum við. Eins og sjá má á myndinni hér að neðan, er töluvert hátt í Landavatni um þessar mundir, raunar með því hærra sem við höfum séð síðustu árin, en trúlega á það eftir að breytast þegar laxarnir í Langá og Gljúfurá verða þyrstir þegar líður á sumarið.

Við beinlínis sundriðum vélfáki okkar yfir Barónsvík og ókum eins langt undir Múlabrekkur og vatnsborðið leyfði, sem var ekki langt. Það gáraði nokkuð á köldu vatninu og enn og aftur féll maður í þá freistni að halda að urriðinn kæmi upp að bakkanum. Það varð nú ekki svo, því eini fiskurinn sem kom á land þar var bleikja sem lét glepjast af flugu sem betur er þekkt sem ein af Veiðivatnaflugunum. Og slíkt var offors þessarar bleikju að hún varð ekki losuð af önglinum öðruvísi en hennar beið bráður bani, að öðrum kosti hefði henni trúlega verið sleppt.

Við ströggluðumst þarna þó nokkuð lengi, en urðum ekki vör enda var vatnið frekar kalt ennþá og almennt var ekki mikið líf að sjá, skordýr og gróður enn einhverjum vikum á eftir áætlun. Ekki bætti þokan úr skák og á einhverjum tímapunkti, trúlega þegar veiðifélaga mínum varð litið á bleikjuna sem lét lífið með vofeiginlegum hætti, varð til málshátturinn Sjaldan vakir dauður fiskur.

Þegar okkur þótti fullreynt, færðum við okkur í átt að Beilárvöllum þar sem ég setti í eina bleikju á sígildan Peacock sem var sleppt, þ.e. bleikjunni og þar með er öll sagan sögð af veiðiferð okkar í Langavatn að þessu sinni. Eitt að lokum, vegurinn upp að Langavatni frá Svignaskarði er sérstaklega góður, fær öllum bílum inn að Torfhvalastöðum, bara þannig að það sé sagt.

Langavatn 22. ágúst 2020

Tíðindalaust á vesturvígstöðvunum, það er helst í fréttum eftir þessa helgi. Á föstudaginn var nokkuð ljóst að veðurspá helginnar mundi ganga eftir, sól og blíða á suðvestan- og vestanverðu landinu, þannig að við hjónin ákváðum í skyndi að smella okkur í Langavatn á Mýrum.

Staðarhnúkur og Staðartunguhraun – Smellið fyrir stærri mynd

Eitthvað hefur vatnaborðið lagast frá því það var lægst fyrir einhverjum vikum síðan, nánast í venjulegri stöðu núna og mér liggur við að segja því miður. Við höfðum hug á að reyna fyrir okkur á ákveðnum veiðistaði sem ekki er aðgengilegur við venjulegt vatnsborð, þannig að við könnuðum aðra veiðistaðir á laugardaginn. Þó við séum á óbreyttum borgarjeppa, þá var okkur vel fært alveg inn að síðustu brekkunni inni við botn. Eflaust hefðum við með lagni getað komist þar upp en þar sem við getum enn notast við tvo jafnfljóta, þá sáum við enga ástæðu til þess. Þess í stað þræddum við helstu veiðistaði sem ekki voru fráteknir, allt frá innsta kletti og inn undir Beilárvelli.

Kvöldstillan á laugard.kvöldið – rönd af mána

Það verður að segjast að ekki var mikið líf á vatninu, lítið um flugu og uppitökur því fáar sjáanlegar. Veðrið var með eindæmum fallegt; hlýtt, sólríkt og stillt. Þó við hefðum ekki fengið eitt einasta nart þann tíma sem við böðuðum flugur á laugardaginn, þá var þetta kærkomin hvíld og góð slökun yfir helgina.

Veiðistangir fengu einnig hvíld í þessari ferð því berjaspretta er með besta móti á svæðinu og erfitt að standast gnótt af þroskuðum aðalbláberjum. Afraksturinn var vel yfir meðallagi og í bónus fékk ég nokkra berjablettir á vöðlurnar sem væntanlega eru komnir til að vera.

Bleikjur í ferð
0 / 0
Bleikjur alls
3 / 33
Urriðar í ferð
0 / 0
Urriðar alls
81 / 45
Veiðiferðir
21 / 22

Langavatn – 16. ágúst 2019

Landshornaflakk gæti verið lýsingin á síðasta ferðalagi okkar veiðifélaganna. Eftir náttúruskoðun okkar á Ströndum lá leið okkar inn með Hrútafirði um Kollafjörð og Bitrufjörð og það er óhætt að segja að við höfum haft vindinn í bakið á þessari leið okkar. Eftir stutt stopp og áfyllingu á bíl og kaffibolla ákváðum við að kíkja á stöðuna á Hópinu ef svo ólíklega vildi til að lognið væri ekki alveg eins hraðfleygt þar eins og við Staðarskála. Í Víðigerði gaf að líta hvítfyssandi öldur vatnanna austan Vatnsness; Sigríðarstaðavatns, Vesturhópsvatns og Hópsins. Meira þurftum við ekki að sjá og snérum til baka og dóluðum okkur undan vindi niður í Norðurárdal, tókum snarpa hægri beygju við Svignaskarð og héldum sem leið lá upp að Langavatni.

Eins og vatnsbúskap áa hefur verið háttað í sumar áttum við von á að vatnsborð Langavatns væri í lágmarki vegna miðlunar niður í Langá og Gljúfurá. Það stóð á endum því ég held að við höfum aldrei sé vatnið eins lítið og ræfilslegt og á föstudaginn. Beilárvellir, þ.e. grasbakkarnir eru nánast upp í miðju landi og það mátti ekki miklu muna að vaðfært væri úr í Hólmana, sem hefði verið nógu skemmtilegt því þeir voru allir samtengdir og vel fært á milli þeirra.

Beilárvellir og Staðarhnjúkur

Við létum okkur hafa það að fara niður stutta og grýtta brekkuna frá veginum og niður að rústum gangnamannakofans á tanganum norðvestan Beilárvalla. Tanginn stóð nú aftur undir nafni, var ekki lengur eyja og mér sýnist að vatnsborðið sé sem næst því að vera eins og það var fyrir stífluna við útfallið, sjá mynd með grein Tómasar Einarssonar í Lesbók Morgunblaðsins frá 1999.

Rústir gagnamannakofans og tanginn

Eftir að hafa komið okkur fyrir í því lita skjóli sem var að finna fyrir stífri norðanáttinni, fórum við inn fyrir Torfhvalastaði og tókum stöðuna á vatninu til norðurs. Ef hinar Húnversku öldur hafi verið fráhrindandi fyrr um daginn, þá voru þær Borgfirsku ekkert síðri. Vatnið var eitt öldurót endanna á milli, en eitthvað blundaði í mér minning af svipuðum aðstæðum og stórum urriða að eltast við síli frá því fyrir nokkrum árum síðan, sjá hér. Þegar við vorum komin til baka í vagninn, klæddi ég mig því og tölti niður að vatninu. Það var svo sem skaplegt að veiða fyrstu 100 – 200 metrana, en um leið og ég var kominn inn undir Beilárvelli var aldan allsráðandi og þrátt fyrir, ég leyfi mér að segja hetjulegar tilraunir til að koma flugum út í vatnið, þá gafst ég upp þegar ég var svo gott sem kominn inn undir Staðarhnjúk. Draumurinn um stóran urriða reyndist ekki sterkari en vindurinn.

Þessi vakti yfir okkur um nóttina

Eftir að við höfðum sofið af okkur mesta rokið um nóttina, gerðum við heiðarlega tilraun til þess að veiða fram af tanganum, inni í Barónsvík og út af Barónskletti til vesturs. Það hafði eitthvað aðeins slaknað á vindinum, en kannski ekki alveg nóg til þess að fiskjar væri von eftir vindasama og kalda nóttina þannig að við vorum búinn að taka okkur saman um hádegisbil og drógum fellihýsið með öndina í hálsinum upp bölv…. brekkuna úr fjörunni. Brekkan hefur alltaf verið stutt og kröpp, en í þetta skiptið vorum við bara alls ekki viss um að ná því að draga vagninn upp, svo  mikið hefur sorfist úr henni. Upp fóru nú samt bíll og vagn án vandræða og við héldum sem leið lá heim á leið, vindbarinn og búinn að fá nóg af 8 – 12 m/sek. síðustu daga.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
0 / 0 55 / 71 0 / 0 15 / 36 20 / 21

Langavatn, 15. sept.

Fyrst við vorum í Borgarfirðinum í gær og ekki með neitt sérstakt fyrir stafni, þá lá auðvitað beinast við að kíkja í eitthvert vatnanna á svæðinu og fyrir valinu varð Langavatn. Það er ekki oft sem ég viðurkenni að ég keyri aðeins með annað augað á veginum, en í þetta skiptið var það nú svo að ég stóð mig ansi oft að því að gjóa á hitamælinn í bílnum. Hitastigið rokkaði reglulega um eina til tvær gráður á leiðinni, en fór aldrei neðan er svo að fiskur ætti að vera á stjái.

Vert er að geta þess að vegurinn upp frá Gljúfurá var hreint og beint frábær, nýlega búið að hefla ofan af honum stærsta grjótið og bera í hann þannig að það er fólksbílafært alveg inn að Torfhvalastöðum við Langavatn og ég er ekki frá því að spottinn inn að Barónskletti hafi eitthvað verið lagfærður líka. Slóðinn þar fyrir norðan var bara eins og venjulega, seinfær en fær 4×4 bílum.

Horft inn að botni frá Stórusteinum

Þegar inn að vatni var komið var ljóst að það hefur verið hleypt vel úr vatninu til að vökva laxinn í Langá þetta sumarið. Fljótt á skotið hefur vatnshæðin verið lækkuð um einn metra og því var vel fært inn að botni og við lögðum leið okkar langleiðina þangað, inn að Stórusteinum.

Veðurblíða við Stórusteina

Veðrið kom þægilega á óvart, stillt og fallegt en mikið rosalega var vatnið kalt eftir næturfrost undangenginnar nætur. Það var því e.t.v. engin furða að við yrðum ekkert vör við fisk þar sem við renndum öllum mögulegum flugum út í dýpið og drógum hratt, hægt og allt þar á milli. Eftir dágóða stund færðum við okkur til baka og renndum niður að Beilárvöllum, nánar tiltekið undir hlíðina austan við Galtarholtsvík, gengt tanganum.

Við Beilárvelli

Heldur var tekið að þykkna í lofti en við gerðum okkur vonir um að vatnið væri eitthvað hlýrra þarna í vari fyrir norðanáttinni. Ekki munaði nú miklu á vatnshitanum, en þarna tókst okkur að særa upp tvær bleikjur sem úðuðu í sig hornsílum í víkinni austan við tangann og þegar þær voru komnar á land létum við gott heita og héldum heim á leið.

Helmingur aflans

Þar sem Langavatn lokar núna 20. sept. á ég ekki von á að við förum þangað aftur þetta sumarið, en það er greinilega fiskur enn á ferðinni og hann er bara þokkalega vænn og vel haldinn ef marka má þessa tvo sem við tókum.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
/ 1 67 / 85 / 0 48 / 38 19 / 22

Langavatn, 7.- 8. júlí

Hvort sem við mislásum veðurspár helgarinnar eða þær voru eitthvað misvísandi, þá afréðum við að renna út úr bænum á föstudaginn og tókum stefnuna á Langavatn á Mýrum. Ég gæti best trúað að við höfum bæði verið hálft í hvoru með það í huga að veiða dauða fiska, þ.e. þá sem við veiddum þegar við renndum síðast í vatnið. Þá var vatnsstaða Langavatns lág og við áttum greiðan aðgang að veiðistöðum sem að öllu jöfnu eru utan kastfæris og þeir staðir gáfu okkur feitar og pattaralegar bleikjur.

Langavatn á föstudagskvöldið

Langavatnsdalurinn tók á móti okkur í blíðskapar veðri og töluvert hærri vatnsstöðu heldur en vonir okkar stóðu til. Eftir að við komum okkur fyrir á Beilárvöllum og reyndum aðeins fyrir okkur utan við vellina, gerðum við okkur ferð inn fyrir Barnónsklett. Vegarslóðinn með vatninu að austan er ekki upp á marga fiska um þessar mundir og fyrir ‚venjulega‘ 4×4 bíla er eiginlega ekki fært nema rétt inn fyrir klett. Lítið varð um afla þetta kvöld og þá meina ég aðallega stærð þeirra sem létu glepjast af flugunum okkar. Fjöldinn var einhver en við hirtum aðeins sitthvora bleikjuna, annar fiskur var langt undir máli.

Langavatn á laugardaginn

Laugardagurinn var langt því frá eins fallegur eins og við höfðum talið okkur trú um að hann ætti að vera. Það gekk á með skúrum, skítkaldri gjólu af norðri mestan part dags og það sást eiginlega ekki til sólar nema örfá augnablik. Veiðin var með svipuðum hætti og á föstudagskvöldið, smælki og aðeins meira smælki og það endaði með því að við bættum aðeins sitthvorri nýtanlegri bleikjunni við í kælikassann en skiluðum vatninu einhverjum ótilgreindum fjölda undirmálsfiskjar.

Væntanlega verða aðrar veiðislóðir aðgengilega síðar í sumar þegar vatnsborðið verður komið í upprunalegt horft, þ.e. eins og það stóð í áður en útfall vatnsins var stíflað fyrir einhverjum tugum ára. Hver veit nema við kíkjum þá í Langavatn og reynum okkur að nýju við bleikjurnar, þ.e. þær stóru og feitu sem við vitum að leynast í vatninu.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 2 62 / 56 / 0 14 / 10 8

Langavatn í Borgarbyggð 7. – 8. ágúst

Það var ekki veðurspáin sem réð því í þetta skiptið hvert við færum í veiði og það var kannski eins gott. Þar sem við áttum erindi í Borgarfjörðin á mánudagskvöldið, varð gamall kunningi okkar fyrir valinu, Langavatn. Veðurspáin fyrir svæðið hljóðaði reyndar upp á töluverðan vind af norðri, en það gekk heldur betur ekki eftir. Geinilega mikill munur á vindaspá fyrir Bröttubrekku og rauninni við Langavatn. Það eru alveg að verða tvö ár síðan við fórum síðast að Langavatni og því virkilega tími til kominn að taka stöðuna á vatninu aftur. Undir það síðasta þótti okkur fiskurinn heldur rýr og mikið af smábleikju á rápi, svo við gáfum vatninu eiginlega frí þangað til nú á sunnudaginn.

Dagurinn var tekinn snemma og við vorum mætt á Beilárvelli rétt upp úr kl.10 með vagn og alles. Við höfðum haft spurnir af því að mikið hefði lækkað í vatninu, sem reyndust orð að sönnu. Eitthvað hefur laxinn í Langá verið þyrstur þetta sumrið, mikið búið að fella vatnið og víða þurrt þar sem áður voru veiðistaðir. Hvað um það, með lækkuðu yfirborði koma líka nýir staðir í ljós og oft auðveldara að nálgast dýpiskanta úti í vatninu. Svo mikið hefur lækkað í vatninu að aka mátti á þurru inn að botni þess að norðan, nokkuð sem okkur hafði langað lengi til.
Á leiðinni til baka úr botninum voru stangirnar teknar fram og nokkrir staðir kannaðir frá Stórusteinum og að Barónsvík. Veiðifélaginn setti í ágæta bleikju undir Múlabrekkum en ég varð lítið var við fisk, en aulaðist þess í stað að missa fótanna og enda hálfur úti. Þetta kennir manni að vera ekki að spranga um á hálum steinum á sandölum eins og fífl. Þóttist góður að hafa sloppið með óbrotna limi og stöng eftir aulaskapinn. Eftir hrakfarir þessar klæddi ég mig í vöðlur og viðeigandi skótau og óð út að dýpiskantinum undan Beilárvöllum. Það kom þægilega á óvart að fiskurinn á þessum slóðum var af viðunandi stærð og vel haldinn í þetta skiptið. Að vísu var nokkuð um smælki innan um, en ég hirti fjóra fiska yfir um daginn og veiðifélagi minn sex, allt ágætir matfiskar. Fluga dagsins var væntanlega orange Nobbler eins og svo oft áður þetta sumarið. Annars kláruðum við daginn með því að tölta til berja og settum einhver blá- og krækiber í sitthvort ílátið. Það verður því bleikja í matinn í vikunni og í eftirrétt; skyr með rjóma og haug af berjum.

Langavatn frá Beilárvöllum
Langavatn frá Beilárvöllum

Mánudagurinn rann upp með þessari líka blíðu og við gerðum okkur ferð inn að Múlabrekkum þar sem veiðifélagi minn setti í hverja glæsilega bleikjuna á fætur annarri með því að sökkva flugum vel út í dýpið, nokkuð sem er ekki eins auðvelt þegar hátt stendur í vatninu. Á meðan frúin dundaði sér við að raða inn bleikjum, rölti ég um á mínu gatslitnu vöðluskóm og varð lítið var við fisk, sama hvar ég sökkti sömu flugum og hún, svartur Nobbler og Bleik og blá gáfum mér ekkert en náði þó að særa einn upp með orange Nobbler. Til að ljúka deginum reyndum við aðeins fyrir okkur í Barónsvík án árangurs en í sárabót kláruðum við ferðina fram undan Beilárvöllum þar sem ég setti í þrjár vænar bleikjur. Það hallaði töluvert á mig í þessari veiðiferð, frúin með fleiri fiska og að vanda; miklu fallegri.

Það er samdóma álit okkar hjóna að vatnið hefur heldur rétt úr kútinum, fiskurinn vænni heldur en oft áður og meira af nýtilegum fiski innan um. Kannski ræður lækkað vatnsborð þar einhverju, en við höfum svo sem komið að vatninu lægra og ekki fengið eins góða fiska og þessa daga. Það voru því nokkuð sáttir veiðifélagar sem héldu heim á leið  seinnipart mánudags með smá krók um Borgarfjörðinn. Enginn rosalegur aðgerðakvíði, en 24 bleikjur verður víst að teljast gott á einum og hálfum degi.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 16 / 8 157 172 / 0 30 / 39 16 18

Langavatn 20. sept.

Fiskilega séð varð ferð okkar hjóna í Langavatn í Borgarbyggð heldur snautleg, í það minnsta hjá mér. Frúin aftur á móti náði að jafna bleikjuveiði ársins; 121 fiskur hjá hvoru okkar. Bið lesendur að gefa því gaum að staðan er enn 27:18 fyrir mér þegar kemur að urriðanum.

Annars var þessi dags-skeppur okkar hjóna alveg hreint frábær. Síðasti séns að bleyta flugur í Langavatni þessa vertíðina og þar sem við höfum ekkert kíkt í vatnið þetta sumarið var afráðið að renna í haustlitaferð upp með Langá og reyna aðeins fyrir okkur við vatnið vestanvert. Einstaklega fallegt haustveður fylgdi okkur úr bænum og hélst allan daginn. Að vísu var heldur svalt, rétt slefaði í 4-7°C en ekkert út á það að setja þegar ull er höfð bæði innst og yst.

Ekki var frúin búinn að baða margar flugur þegar bleikja dagsins lét glepjast af Watson’s Fancy púpu (án kúluhauss). Ég aftur á móti varð þess heiðurs aðnjótandi að fá ekki eitt einasta högg, ekki eitt einasta nart og upplifði algjört áhugaleysi þeirra fiska sem mögulega voru á staðnum. Nú má hver sem er trúa eða ekki, en ég var fullkomlega sáttur við að fara heim með öngulinn í rassinum. Dagurinn frábær, umhverfið ægifagurt og ég svitnaði eins og hundur innan undir allri ullinni um leið og ég hreyfði mig eitthvað.

Nú verður veðrið aðeins að fá að stjórna næstu mögulegu för, því enn eru 10 dagar eftir af tímabilinu í nokkrum vötnum og ef spáin versnar ekki, þá er alltaf möguleiki á einum skrepp í viðbót.

Langavatn 20.sept. - Ljósm.ÞBP
Langavatn 20.sept. – Ljósm.ÞBP

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 0 121 / 121 / 0 18 / 27 23 / 25

Ummæli

21.09.2014Já staðan er 27 -18. En eru hennar fiskar ekki miklu fallegri ?

Svar: Hverjum þykir sinn fugl (hvað þá urriði) fagur 🙂 Við skulum spyrja að leikslokum, það er langt því frá að vertíðinni sé lokið og oft hefur frúin verið sterkari á endaspettinum heldur en ég.

21.09.2014 – Þórunn BjörkJá og þá verður hugsanlega hægt að jafna urriðatalið…. eða vonandi minnka munin. (minnir eins og ég hafi einhverntímann farið fram á endurtalningu?) Það var þó ekki engöngu eitt stk. bleikja sem var með í för heim. Þetta var sannkölluð búdgrýgindaferð því, einiber, fjallagrös og nokkur kíló af krækiberjum þyngdu farangur á heimleið. Dásamlegur dagur þar sem aðeins heyrðist tvisvar ámátlega í himbrimanum, annars réð þögnin ríkjum. Nauðsynlegt eftir allan skarkalan sífellt í mannabyggðum.

Svar: Hvað er þetta kona, endurtalning, endurtalning! Sama svar og síðast+ hér teljum við ekki endur.

21.09.2014 – Þórunn BjörkJú takk fyrir. Kunni ekki við að taka það fram, en mínir fiskar eru vitanlega muuuuuun fegurri en hans, þeir eru líka; stærri, veiddir með fallegri köstum, á fallegri flugur og að sjálfsögðu af fallegri veiðimanni (en það segir sig nú hérumbil sjálft) ….já, og svo má ekki gleyma hógværari …miklu, miklu hógværari.

06.10.2014 – Stefán B. Hjaltested: Fagnar hver þá fengið er.!!!! Með sporðakveðju.

Langavatn, 28. júlí

Hvort sem maður var nú eitthvað fúll yfir aflabresti í Haukadalsvatni eða bara vegna þess að lognið í Dölunum tók upp á þeim óskunda að vaða áfram með einhverjum æðibunugangi, þá tókum við hjónin okkur upp nokkru fyrir hádegið á sunnudag og héldum heim á leið, eða þannig sko.

Þegar við vorum komin niður af Bröttubrekku var veðrið eiginlega orðið miklu meira en skaplegt svo við ákváðum eftir smá vangaveltur að skjótast upp að Langavatni til að geta sagt að við hefðum komið þangað þetta árið. Frábært veður, mikið vatn og alveg tilvalið að byrja úti á Beilárvöllum. Að vísu fannst mér að fiskurinn sem var að sýna sig væri þessi sem verður því miður að teljast ‚venjulegi‘ fiskurinn á þessum slóðum; murta eða smávaxin bleikja. Ég er reyndar einn af þeim sem telja stærri fisk vera í vatninu, en bara ekki inni við Beilárvelli eða undir Torfhvalastöðum (sæluhúsinu).

Eftir að frúin hafði eitthvað verið að atast í smælkinu með þurrflugu og stöku púpu, ákváðum við að renna inn fyrir sæluhúsið. Að vísu er vegurinn ekki upp á marga fiska, en það þarf nú ekki að fara langt inn með vatninu til að komast í annan fisk. Það fékk ég að reyna þegar tekið var allharkalega í Svartan Zulu en mér tókst því miður ekki að setja hann fastann. Annað bar svo sem ekki til tíðinda í þessu stutta stoppi okkar en mikið væri ég til í að eyða eins og einum degi í rölt inn að botni með stöngina og valdar flugur í boxi. Ég er alveg sannfærður um að leiðin til baka yrði öllu þyngri, því fiskur er svo sannanlega í vatninu, það þarf aðeins að bera sig eftir honum.

Og enn og aftur gaf Langavatn myndavélinni minni færi á flottum skotum í kyrrðinni.

Langavatn, horft til Langár
Langavatn, horft til Langár

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 0 19 / 23 / 0 7 / 24 31

Ummæli

30.07.2013 – Siggi Kr. (Svarti Zulu)Það er ekki að spyrja að því með Svarta Zulu-inn ;)

Svar: Nei, ég vildi bara óska að ‘nafni þinn’ hefði náð að sökkva tönnunum aðeins betur í þennan urriða sem var þarna á ferðinni.

Langavatn, Borgarbyggð 8. september

Það var nú alls ekki ætlunin að renna fyrir fisk um þessa helgi, nóg annað á verkefnalistanum. En ýmislegt varð til þess að á fætur var ég komin fyrir allar aldir í morgun og það var eins og veðrið léki sér að því að kitla veiðibakteríuna í mér. Áður en ég yrði algjörlega óhæfur til allra verka, gafst ég upp og renndi upp með Langavatni að vestan. Smá gola, hálfskýjað og afskaplega fallegt veður, létt bára úr norðri.

Á meðan ég sýndi tilburði til fluguveiði var mun fallegri veiðisýning í gangi í grennd við mig. Smyrill nokkur lék listir sínar í lofthernaði og ekki laust við að maður fylltist auðmýkt fyrir náttúrunni við að horfa á annan eins snilling á ferð. Samt sem áður varð ég fyrri til að ná bráð, þokkaleg bleikja stóðst ekki rauðan Nobbler og fór því heim með mér eftir þennan frábæra dag.

Veiðifélagi minn í þessari ferð

Veiðitölur ársins

Bleikjur Sleppt Urriðar Sleppt Fj.ferða Núllað
 73 / 35 14 28 / 33 4 35 14

Langavatn, Borgarbyggð 17.- 19. ágúst

Ég á nú ýmislegt konunni minni að þakka og um helgina bættist enn eitt í sarpinn. Hefði hún ekki krækt í mjög þokkalega bleikju á laugardaginn uppi við Langavatn hefði þessi veiðiferð með réttu átt að merkjast sem fyrsta núllið eftir að veiðin fór af stað fyrir alvöru í sumar. Við sem sagt ákváðum ásamt Mosó-genginu að renna upp að Langavatni um helgina. Ég hafði það sterkt í huga að renna inn með austubakka vatnsins inn að botni, nokkuð sem mig hefur lengi langað til að gera en aldrei látið verða að.

Langavatn um miðnættið

Þar sem heldur gustaði á okkur á laugardaginn var ákveðið að leggja í leiðangur austur með vatninu. Okkur til nokkurrar furðu var einstaklega hátt í vatninu, jafnvel þótt hleypt hefði verið duglega úr því til að vökva laxveiðimenn niðri á Mýrum. Við höfðum við opnunina í júní rennt inn með vatninu en þá var slóðinn svo illa í sundur að við hurfum frá. Nú var annað uppi á teningnum, slóðinn í alveg þokkalegu standi þar sem hann lá á þurru, en þegar komið var 2/3 leiðarinnar inn í botn hvarf slóðinn svo gjörsamlega í vatnið að ég hvarf frá. Jæja, það gengur bara betur næst.

Í þessum leiðangri okkar stöldruðum við á mjög veiðilegu nesi fyrir miðju vatni þar sem frúin tók fisk helgarinnar, þann sem hirtur var. Ég setti að vísu í þokkalega bleikju, en eitthvað tók hún tæpt þannig að ég missti af henni áður en mér tókst að þreyta hana að einhverju ráði. Annars var lítið um fisk í ferðinni, þ.e. þeir sem tóku flugu voru litlir, svo litlir að öllum var sleppt og ekki færðir til bókar.

Ýmsar flugur voru áhugaverðar í augum titta, svo sem; Pheasant, Héraeyra, Hérinn og svo auðvitað Peacock í ýmsum útfærslum, helst sú sem gengur undir heitinu Frankenstein vegna óheyrilegrar stærðar (hnýttur á XXL #8 með margföldu undirlagi = feitur og fínn).

Veiðitölur ársins

Bleikjur Sleppt Urriðar Sleppt Fj.ferða Núllað
 107 14 61 4 31 11

Langavatn í Borgarbyggð, 15.-17.júní

Opnun Langavatns var á föstudaginn og að sjálfsögðu brugðum við hjónin okkur þangað ásamt Mosó-genginu sem að þessu sinni taldi þrjá aðila, gaman að því. Vatnið tók á móti okkur með brosi á vör ef svo má að orði komast, því veðrið lék við okkur þegar við komum okkur fyrir undir Réttarmúlanum í skjóli fyrir væntanlegri norðanátt. Fljótlega fóru fiskarnir að týnast á land, flestir og stærstir hjá Mosó og þar á meðal jómfrúarfiskur þriðja aðila Mosó sem reyndist stærstur fiska eftir helgina, 1,5 pund. Auðvitað byrjaði frúin fljótlega á því að setja í bleikju á Hérann en töluverð bið varð eftir fyrsta hirðanlega fiski hjá mér sem kom seint og um síðir á Olive Nobbler með gylltu tinsel. Segið svo að bleikjan taki ekki Nobbler. Það sem einkenndi kvöldið hjá mér og raunar helgina alla var ógrynni smárrar bleikju sem gerði lítið annað en rugla talningar á sleppingum.

Langavatn um miðnættið

Laugardagurinn byrjaði alveg þokkalega, nokkur strekkingur og glampandi sól. Við hjónin brugðum fyrir okkur fjórum dekkjum og keyrðum út á Beilárvelli til að reyna okkur við fiskinn á móti vindi. Ég, eins og vanalega, byrjaði á rölti út með suðurbakkanum og varð ekki var við fisk. Frúin aftur á móti krækti í fína bleikju undan völlunum. Og hér væri hægt að gera langa sögu stutta, því hvorugt okkar tók einn einasta fisk það sem eftir lifði dags. Já, trúið því bara. Strekkingur að norðan með tilheyrandi kulda og öldugangi sem jókst stöðugt yfir daginn gerði úti um alla frekari veiði.

Þar sem við tókum á okkur náðir með fyrra fallinu á laugardag var ég með frískasta móti á sunnudagsmorgun og var kominn í gallann rétt um kl.6 og lagður af stað fótgangandi undan Réttarmúlanum að Beilárósum. Veðrið lék við mig, stilla og kyrrð sem ég naut til hins ítrasta á meðan ég þræddi hvern veiðilegan staðinn á fætur öðrum á leiðinni til baka. Þegar ég var svo kominn aftur undir Réttarmúlann um kl.10 var afraksturinn, núll. Ekki einn einasti fiskur, ekki ein einasta taka, ekkert líf. Það var eins og allur fiskur hefði hrökklast út í dýpið undan kuldanum um nóttina, kannski ekki furða þar sem gránað hafði í fjöll. Það var svo ekki fyrr en eftir hádegið að frúin bætti einni bleikju við í safnið, annar fiskur var svo lítill að hann var losaður af í snatri og sleppt. Rétt um það bil sem við byrjuðum að taka okkur saman skall síðan á okkur þessi líka fína demba með trompi upp í erminni, hagléli. Ekki í fyrsta skiptið sem við upplifum slíkt við Langavatn, sjá hér.

Veiðitölur ársins

Bleikjur Sleppt Urriðar Sleppt Fj.ferða Núllað
 34 10 30 2 19 11

Langavatn, 27. ágúst

Jæja, ekki varð dagsferð veiðifélagsins nein frægðarför, en ágæt samt. Í stuttu máli; fjórar bleikjur á land, tvær hjá kvennadeild Mosó á maðk (eins ræfilslegan og unnt var) og sitt hvor hjá okkur hjónunum, Héraeyra og Dentist þ.e. flugurnar ekki við hjónin. Vorum staðsett vestan við vatnið, nærri útfalli Langár og skimuðum allt svæðið frá útfalli og inn að syðri enda Langavatnsmúla. Hvorki smár né stór urriði lét sjá sig þannig að alvöru tilraunaveiði með hrognaflugur verður að bíða betri tíma. Áhrif vatnsmiðlunar í Langá og þar með lífríkið í vatninu voru nokkuð sláandi, yfirborðið hefur lækkað um hátt á annan metra frá því að við voru við vatnið í lok júlí enda vatni veitt ótæpilega í ánna. Slíkar sveiflur í vatnshæð verða eflaust til þess að fiskurinn færir sig um set og velur sér síður hentug búsvæði heldur en ella. Kjörlendi stórurriða og kuðungableikju stóðu nánast á þurru og maður fer að hallast að því að ‘Langavatn var eyðilagt með vatnsmiðlunarstíflunni’ eins og kemur fram í Stangaveiðihandbókinni 2.bindi, bls.95 .

Smá uppfærsla á leiðarlýsinguna inn að vatninu að vestan; án fellihýsis vorum við ekki nema 40 mín. frá Fjallgirðingunni inn að vatninu. Munaði þar mestu um að búið er að lagfæra veginn á verstu köflunum ofan við vaðið á Langá. Væntanlega hefur veiðifélagið annast þessar lagfæringar þar sem slóðinn þjónar veiðistöðum 81 og uppúr.

Langavatn, Borgarbyggð 30.-31.júlí

Þrátt fyrir frekar óheppilega veðurspá ákvaðum við hjónin að skreppa í Langavatnið á laugardaginn. Eitthvað lét ævintýraþráin á sér kræla þannig að við ákváðum að prófa vatnið að vestan í þetta skiptið, nokkuð sem okkur hefur langar í töluverðan tíma. Fyrir þá sem hug hafa á þessari leið, þá eru hér helstu tölur og lýsingar. Frá Borgnesi að afleggjaranum að Grímsstöðum [535] eru 9 km. Næstu 13 km. eru eftir [535] og inn á [536] að Grenjum þar sem beygt er inn á slóða við Fjallahlið. Frá hliðinu, meðfram Langá, framhjá Sandvatni og inn að stíflu við Langavatn eru síðan 11 km. eftir mis lélegum slóða þar sem skiptast á brekkur, óræstir lækir með nokkuð krappri aðkomu. 4×4 vegur þar sem lágadrifið kom sér vel með fellihýsið í eftirdragi. Þessi síðasti spotti tók 1 klst. í akstri.

Smelltu fyrir stærri mynd

Langavatn tók á móti okkur með blíðu sem hvergi var getið í veðurspá og við þóttumst himinn höndum tekið, en fljótlega gekk þó á með skúrum og nokkrum vindi þannig að flugu varð vart komið út.

Sunnudagurinn rann upp með töluverðum blæstri og ljóst að ef við ætluðum að krækja í einhvern fisk yrðum við að taka fram kaststangir og spún sem við og gerðum. Eftir nokkurn barning varð ég var við einhvern óróa á spúninum sem reyndist vera 15 sm. ungviði sem kokgleypti þríkrækjuna þannig að honum varð ekki hugað líf. Eitthvað dró þetta úr áhuga mínum en hélt þó áfram.

Smelltu fyrir stærri mynd

Næsta taka var heldur hressilegri, ákveðið, þungt og tekið vel út af hjólinu, bremsan sett á. Eftir 5 mín. sýndi fiskurinn sig og fór ég þá með bænirnar mínar að 6 punda girnið mitt héldi. Næstu 5-10 mín. fóru síðan í að skiptast á inndrætti og eftirgjöf á bremsu sem lauk með því að á land kom þessi líka flotti urriði, 8 pund og 65 sm. Nokkru síðar setti konan í smábleikju sem fékk líf og þar á eftir tók ég eina rúmlega pund.

Um kvöldið gáfum við upp alla von að vindinn, sem hafði aukist verulega lægði eitthvað, tókum saman og fikruðum okkur heim á leið. Hvorugt alveg sátt við að fara að svo komnu máli því við sáum til fleiri bolta urriða á svæðinu og hefðum gjarnan viljað spreyta okkur við þá með flugu. Já, talandi um flugu. Þegar lygndi var nóg af flugu á svæðinu og ég fékk eins og venjulega að kenna á því. Í þetta skiptið hefði ég getað leikið staðgengil Rocky með bólgið auga eins og eftir hnefaleikakeppni. Já, það er til einhvers að telja upp öll möguleg ráð gegn flugnabiti og gleyma svo öllu draslinu heima.

Langavatn 8.- 10.júlí

Næstum upp á sömu daga og í fyrra, brá veiðifélagið sér í Langavatn (sjá ferð 9.-11.júli 2010) og gerði bara ágætan túr. Vatnið er alveg að smella í gang, lífríkið að kvikna og fiskurinn að færa sig upp úr dýpinu. Í þetta skiptið komum við okkur fyrir á ströndinni undir sæluhúsinu við Réttarmúla, en hreint ekki á sama stað og 21.ágúst í fyrra því þá hefðum við þurft að draga vagnana með bátum. Vatnið kemur sem sagt vel inn í sumarið, í það minnsta 1 metra hærra í því en í fyrra, spá-ný brú yfir Beilá og mikið búið að gera við veginn þarna upp eftir. Töluvert af  fiski á ferðinni, mikið af smárri bleikjur og Murtu, en einnig vænar bleikjur á bilinu 1-2 pund, þar af 4 sem lentu í kæliboxinu hjá Reykjavíkur deildinni og 3 hjá Mosó. Reykjavíkur deildin tók alla sína á ofvaxinn Peacock, en Mosó á maðk. Allri Murtu og litlum tittum sleppt, eitthvað á bilinu 8-10 stk.

Langavatn 21.ág.

Það var ein lítil 1/2 punda bleikja sem forðaði því að hér yrði öngull í rassi enn eitt skiptið. Af okkur fjórum sem börðum Langavatn frá morgni til kvölds í strekkings vindi og úrkomu á köflum, var ég sá eini sem einhvern fisk fékk. Prófuðum undir Réttarmúlanum alveg frá Beilárvöllum og út fyrir víkina undir sæluhúsinu en ekkert gekk. Ekki litið við maðk, spún né flugum. Upp úr hádegi rölti ég Beilárvellina inn að Klifi og þar varð ég loksins var við fisk beint á móti vindi. Reyndum síðan aftur rétt fyrir ljósaskiptin undir Klifi, vel á móti vindi ef ske kynni að bleikjan væri í æti í öldurótinu, en ekkert gekk. Kannski er fiskurinn farinn inn að Langavatnsárós í hryggningu? Finnst það samt full snemmt svona upp úr miðjum ágúst.

Langavatn 9.-11. júlí

Ágætis ferð í Langavatn í Borgarfirði.  Tókum heim með okkur 11 þokkalegar bleikjur eftir tvo daga, ef ég tel sunnudag ekki með vegna rosalegrar rigningar (hagl) rétt fyrir síðdegisveiðina sem sendi væntanlega allan fisk niður í dýpstu dýpi það sem eftir lifði dags. Frúin prófaði fluguna, en mest veiddum við á spún (svartur Toby) og eitthvað á maðk, en ‘Vinstri græn‘ og Dentist gáfu líka. Veiddum í sandfjörunni frá ósi Beilár og til norðurs. Prófuðum líka undir Réttarmúlanum og undir hrauninu að sunnan, en hvorugt gaf.