FOS
  • Febrúarflugur
  • Færslur
  • Flugur
  • Grúsk
    • FiskurinnNokkrir punktar um hegðun fisksins sem við erum að eltast við.
    • GreinaskrifGreinar og fréttir sem komið hafa fram á hinum og þessum miðlum á liðnum árum.
    • GræjurNokkrar greinar um veiðistangir, hönnun þeirra og eiginleika.
    • HnútarNokkrir góðir hnútar
    • HnýtingarÝmislegt sem tengist veiðiflugum, hnýtingu þeirra og hönnun.
    • Hnýtingarefni
    • KannanirÝmsar kannanir sem FOS.IS hefur gert meðal lesenda sinna, niðurstöður þeirra og hugleiðingar út frá þeim.
    • KasttækniAlltaf gott að rifja upp kasttæknina.
    • Lífríkið
    • Línur og taumarÝmislegt gagnlegt sem lýtur að flugulínum og taumum.
    • MaturNokkrar uppskriftir og umfjöllun um þann mat sem má gera sér úr aflanum.
    • Veiðiferðir
    • Veiðitækni
    • ÞankarÝmsir þankar og hugleiðingar
    • ÆtiðAllt sem fiskurinn leggur sér til munns.
  • Vötnin
  • Myndir
  • Töflur
    • AFTM
    • Alfræði
    • Byrjendur
    • Festingar
    • Fiskurinn
    • Flóðatafla
    • Hlutföll
    • Krókar
    • Kúlur & keilur
    • Lög og reglur
    • Taumar og flugur
    • Þráður
  • Tenglar

  • Hlíðarvatn í Hnappadal, 28. sept.

    28. september 2013
    Veiði

    Upp

    Forsíða

    Veðurspáin sagði 4 m/sek. og þetta 4-6°C vestur í Hnappadal upp úr hádeginu þannig að maður smellti græjunum í bílinn, heitu vatni á brúsa og skaust vestur að nesinu. Við komumst að vísu ekki að vatninu fyrir landi Heggsstaða vegna vegabóta sem voru ekki alveg klárar, þannig að við fengum að reyna fyrir okkur í Hraunholti.

    Ekki hafði nú dregið neitt niður í vatninu frá því við kíktum vestur um miðjan júlí. Ég held að þetta sé fyrsta árið sem ég verð ekki vitni að umtalsverðri lækkun í vatninu, svona er nú sumarið búið að vera hjá okkur þetta árið.

    Annars fer nú engum sögum af veiði úr þessari ferð, frekar en mörgum öðrum þetta sumarið. Það brast á okkur töluverður vindur (miklu meira en 4 m/sek.) c.a. tveimur tímum eftir að við mættum á staðinn og við einfaldlega létum það eftir okkur að taka saman áður en við kólnuðum alveg inn að beini og héldum heim á leið með lungun full af fersku lofti. Hefði hann getað haldið aðeins lengur í sér, hefðum við e.t.v. náð rökkur byrjun og þannig náð færi á einhverjum fiski, en það varð nú ekki.

    Þar sem farið er að kólna all verulega þessa dagana er ekki fyrirséð að fleiri ferðir verði farnar þetta árið, en hver veit fyrr en allt í einu. Ég ætla í það minnsta ekki að ganga alveg frá græjunum, ef ske kynni…….

    Haustlitir
    Haustlitir

    Veiðitölur ársins

    Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
     0 / 0 19 / 25 0 / 0 9 / 25 39

     

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Hlíðarvatn í Hnappadal, 17.júlí

    19. júlí 2013
    Veiði

    Upp

    Forsíða

    Í það minnsta einu sinni á ári höfum við hjónin farið í Hlíðarvatn í Hnappadal. Og hvaða dagur var betri til þess heldur en dagurinn eftir Hlíðarvatn í Selvogi. Við sem sagt lögðum land undir fót á þriðjudag, héldum vestur í Hnappadal og komum okkur fyrir við vatnið í landi Heggsstaða. Það skall á okkur hrein og bein blíða með köflum á miðvikudaginn og fljótlega setti ég í einhverja þá flottustu bleikju sem ég hef náð í Hlíðarvatni á Peacock og heldur lifnuðu nú vonir okkar hjóna um góða veiði, en ……. það komu einfaldlega ekki fleiri fiskar á land á flugu í þessari ferð. Eftir langa bið, rétt á meðan ég flutti innihald eins bjórs úr bauk yfir í belg slæddist ein bleikja til viðbótar á ánamaðk sem fékk að baða sig undir flotholti. Að vísu missti ég þrjá fiska eftir afskaplega naumar tökur og auðvitað voru þetta með stærstu fiskum og ég tel næsta víst að þetta hafi verið bleikjur, í það minnsta voru tökurnar þannig, en fiskan sá ég aldrei því allir ruku þeir niður á botn strax eftir töku og veltu sér þannig að þeir losnuðu.

    Nú er hægt að velta töluverðum vöngum um það hvers vegna þetta gjöfula vatn gaf ekki fleiri fiska en þessa tvo, en ég leitaði einfaldlega til ábúanda Heggsstaða, Alberts Guðmundssonar og spurði hann álits. Hann taldi víst að þrenn síðustu sumur hafi hoggið veruleg skörð í fiskistofnin í vatninu, sérstaklega sumarið 2011 sem hafi slegið öll met hvað varðar lélega vatnsstöðu. Lágt vatnsborð hefur væntanlega gengið veruleg að nýliðum bleikju og urriða dauðum og vatnið getur þurft 3-4 ár til að rétta úr kútinum. Þetta samsvarar þokkalega ástandi þessara tveggja bleikja (ef eitthvað er að marka svo lítið úrtak) því þær voru miklu betur haldnar en þær bleikjur sem við höfum veitt þarna á síðustu árum. Kannski er þetta tilfellið; eldri og færri fiskar, betur haldnir og bara svona miklu erfiðara að nálgast þá í vatninu núna þegar vatnsborðið er með hæsta móti. Hvað um það, næsta ár stefnum við á að fara síðar á sumrinu og sjá til hvernig okkur gengur þegar við þekkjum okkur aðeins betur. Svo hátt var í vatninu núna að ‘gömlu góðu’ staðirnir voru einhvers staðar lengst úti í vatninu og maður næstum bara ‘lost’ eins og krakkarnir segja.

    Veiðitölur ársins

    Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
     0 / 2 18 / 20 0 / 0 5 / 18 28

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Hlíðarvatn, Hnappadal 3.- 5. ágúst

    6. ágúst 2012
    Veiði

    Upp

    Forsíða

    Þegar maður kemur að vatni sem maður telur sig þekkja alveg þokkalega og fiskurinn er eiginlega ekki þar sem hann er vanur að vera, þá þarf að breyta til, það sannaði þessi helgi. Við hjónin ákváðum á föstudaginn að heimsækja Mosó gengið sem hafði farið vestur í Hnappadal deginum áður og gert þokkalega veiði í Hlíðarvatni. Að vísu vorum við svo seint á ferðinni á föstudaginn að við gerðum lítið annað en koma okkur fyrir, settum stangirnar saman og tókum tappa af bjórnum.

    Smællið fyrir stærri mynd

    Til að klára skildupartinn; Veðrið lék sé að okkur þessa daga, vindur, logn, sól, skýjað o.s.frv. Eins og við var að búast hafði lækkað verulega í vatninu frá því í byrjun júní þannig að við leituðum ‘hefðbundinna’ slóða í vatninu í leit að fiski. Vatnshiti var nokkuð hár, 14-16°C sérstaklega þar sem grynningar lágu langt út í vatnið. Engu virtist skipta að nokkur gára væri, hitastigið hélst nokkuð hátt frá morgni til kvölds. Fiskurinn lét bíða töluvert eftir sér og þeir sem við hjónin tókum á laugardag voru frekar í minni kanntinum, jafnvel af Hlíðarvatnsfiski að vera, skárstu slefuðu yfir 1/2 pund. Við skiptum aflatölum nokkuð jafnt á milli okkar, hvort um sig með 3 fiska, einhverjum sleppt sökum smæðar.

    Sökum óspennandi fiskstærðar og almennt lélegrar veiði á laugardag ákvað ég að eyða kvöldinu í rölt inn með vatninu og upp með Fossá og Djúpadalsá, nokkuð sem mig hefur lengi langað. Ekki varð ég var við einn einasta fisk í ánum, hafði raunar gert ráð fyrir að rekast á einn og einn ungliða urriðahreyfingarinnar en það varð nú ekki. Það væri örugglega gaman að rölta upp með ánum að hausti, nóg var af álitlegum veiðistöðum í þeim.

    Á sunnudag var lagt á hefðbundnar slóðir án þess að verða vör við fisk. Nú var annað hvort að hrökkva eða stökkva svo við hjónin lögðum á okkur grynningakönnun, langt út í vatnið þar til við náðum ágætu sambandi við kaldara vatn í dýpinu og tókum blandaðan pakka af urriða og bleikjum, samtals 14 stk. sem allir voru um og yfir pundið. Helgin endaði því í samtals 20 fiskum, 9 bleikjur og 11 urriðar. Flugurnar sem gáfu einna best voru; Peacock í öllum mögulegum útfærslum, Pheasant og Héraeyra (original).

    Afli helgarinnar

    Veiðitölur ársins

    Bleikjur Sleppt Urriðar Sleppt Fj.ferða Núllað
     106 14 61 4 30 11

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Hlíðarvatn í Hnappadal, 1-3 júní.

    3. júní 2012
    Veiði

    Upp

    Forsíða

    Veiðifélagið (þetta nafnlausa) fór í fyrstu ferð ársins í Hlíðarvatn í Hnappadal um helgina. Alveg hreint glimrandi veðurspá gekk fyllilega eftir, sólbrunir og útiteknir veiðigarpar snéru aftur úr ferðinni. Mér telst til að þetta sé með allra fyrsta móti sem við höfum farið í vatnið, heilum tveimur vikum fyrr en áður. Þótt staðkunnugur hafi sagt okkur að vatnið væri í eðlilegri hæð m.v. árstíð, þá vorum við öll frekar hissa á því hve hátt vatnið stóð. Bakkinn okkar þar sem við höfum oftast slegið upp vögnum var meira eða minna á kafi í vatni.

    Straumendur við Hlíðarvatn

    Föstudagskvöldið gaf okkur öllum ágætlega þrátt fyrir nokkuð stífa norðaustan átt framan af. Mosfellingar, sem mættu örlítið á undan okkur Reykvíkingunum gerðu fína veiði en við hjónin tókum samtals 7 fiska, 3 bleikjur og 4 urriða. Ég verð að játa að mér brá nokkuð hve urriðinn var helst til rýr eftir veturinn, hefði haldið að hann ætti að vera búinn að ná stinnara holdi eftir veðurblíðuna síðustu vikur, bleikjan virtist vera nokkuð betur haldin. Allir fiskarnir sem við tókum komu á land fyrir miðnættið, en veðurblíðan og stillan sem skall á okkur var slík að við höfðum okkur ekki í bælið fyrr en um kl.4

    Þeir eiga það sameiginlegt, laugardagurinn og sunnudagurinn að veðrið lék við okkur frá morgni til kvölds, eins fallegir dagar og þeir geta orðið á Íslandi. Laugardagurinn var merkilegur fyrir frúnna að því leiti til að hún, í blíðunni um morguninn, tók sinn fyrsta fisk á þurrflugu. Af viðbrögðunum að dæma og hrifningunni af tökunni geri ég ráð fyrir að hvert tækifæri verði nýtt í framtíðinni til að veiða þurrfluguna. Eitthvað var aflabrögðum misskipt, eins og svo oft áður, á milli okkar hjóna þessa daga og endaði ferðinn með því að frúin var með 10 fiska á land, en ég 8. Heimalingurinn okkar brá sér síðan út í vatnið síðla sunnudags og sýndi gamla settinu hvernig taka skal fisk án þess að eyða allri helginni í það. Eftir örfá köst lá vænn urriði á bakkanum, sá stærsti í ferðinni. Slatta af fiski var sleppt sem ekki náði mat-hæfni, en flestir fiskanna voru á bilinu 1/2 til 1 pund.

    Veiðitölur ársins

    Bleikjur Sleppt Urriðar Sleppt Fj.ferða Núllað
     30 10 17 2 16 11

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Hlíðarvatn, Hnappadal 20. & 21. ágúst

    22. ágúst 2011
    Veiði

    Upp

    Forsíða

    Það er viss hefð fyrir því hjá veiðifélaginu að taka eina helgi í ágúst við Hlíðarvatn og nú sem áður varð Menningarnæturhelgin fyrir valinu. Mosó mætti á staðinn síðdegis á föstudag og tók til óskiptra málanna fram í myrkur við að særa upp fiska með maðk á floti. Alveg þokkaleg viðbrögð og nokkrir fallegir fiskar lágu í kæli eftir kvöldið. Reykjavíkurdeildin mætti það seint á staðinn að stangirnar voru bara látnar hvíla sig eftir ferðalagið.

    Hlíðarvatn í Hnappadal

    Laugardagurinn rann upp, ekki alveg eins fagur og hér á myndinni en þokkalegur samt. Nokkur vindur þannig að flugunum var leyft að sofa frameftir. Ekki var alveg eins mikið líf í tuskunum og kvöldið áður, en mér tókst samt að særa upp þrjá urriða á spún við Stjánaströnd. Þegar vind stillti eftir hádegið voru flugurnar vaktar og þær settar í vinnu. Við hjónin tókum svolítið bland í poka á Peacock og græna og orange Nobbler, bleikjur og urriða fram að og eftir kvöldmat en brósi fór alveg á kostum með hrogn á floti og reif upp rúmlega 20 urriða á stuttum tíma inn af Tótutanga. Úrræðagóður strákurinn í maðkaleysinu. Nú er bara að kynna sér hrognafræðin.

    Sunnudagurinn, eða Stóri-Bleikjudagurinn eins og hann verður kallaður hér eftir, rann upp fyrir okkur hjónum um 7:30 með yndislegu veðri, hita, algjöri stillu og fiskum að vaka undan Lárulág. Jú, við hjónin drifum okkur í vöðlurnar og ætluðum aðeins að stríða þessum tittum sem voru að vaka, en svo kom áfallið. Þetta voru bara ekkert einhverjir tittir, heldur heilu torfurnar (50-80 stk. pr. torfu) af bleikju sem dreifðu sér með reglulegu millibili við ströndina í aðeins ökkladjúpu vatni. Við fyrstu skref út í vatnið varð það eins og suðupottur á að líta þegar styggð komst að fiskinum. Bleikjan var greinilega farinn að hópa sig fyrir hryggningu enda flestir fiskarnir farnir að taka á sig riðbúning, misjafnlega mikið þó og fáir svo mikið að þeir sýndu flugu ekki áhuga. Svo mikill var atgangurinn og veiðin að við hjónin vorum fljót að fá nægju okkar og settum okkur því reglu; aðeins mátti taka tvo fiska á hverja tegund flugu, þá varð að skipta. Með þessu náðum við ágætri yfirsýn og reynslu með misjafnar flugur í bleikjuna; flestar gáfu í 1 – 3 kasti, fáar ekki. Stuttur listi yfir þær flugur sem gáfu gæti verið; Peacock í öllum mögulegum stærðum og útfærslum (yfirburðir), Ripp, Rapp, Rupp, Davy Jones, Knoll, Connemara Black, Watson’s Fancy púpa, Mobuto, Tailor, hefðbundið og flashback Héraeyra. Þegar svo Mosódeildinn reis úr rekkju toppaði mágkonan ferðina með því að taka sína fyrstu fiska á flugu og þótti það sko ekki leiðinlegt. Allir prófuðu eitthvað nýtt, gerðu tilraunir með flugur, breytilegan inndrátt og æfðu sig í að bregðast við naumum tökum bleikjunnar; sannkallaður fluguveiðiháskóli.

    Það var svo ekki fyrr en eftir hádegið að aðeins fór að draga úr veiðinni og maður þurfti að hafa aðeins meira fyrir hverjum fiski en veiðin hélst alveg fram undir kvöldmat þegar mál var komið að pakka saman og koma sér heim. Eitthvað fór talning afla á milli daga í rugl, en samtals afli var eitthvað á þá leið að Mosó var með 42 fiska, mest urriða og töldu þar mest 25 stk. á hrogn. Reykjavíkurdeildin var með 7 urriða og 54 bleikjur, samtals 61 fisk. Allt fiskar af ágætri ‘matfiska stærð’, tæpt pund og upp í tvö. Hér eru ótaldir allir fiskar sem var sleppt eða sluppu. Toppur sumarsins.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Hlíðarvatn, Hnappadal 4. – 7. júlí

    7. júlí 2011
    Veiði

    Upp

    Forsíða

    Eftir nokkrar vegabætur reistu báðar deildir veiðifélagsins búðir sínar á bökkum Hlíðarvatns í landi Heggsstaða að kvöldi mánudagsins 4.júlí. Veðurspáin gerði ráð fyrir léttum vindi frá 0 – 8 m/sek. úr öllum áttum sem gekk eftir þannig að maðkastangirnar voru hafðar til taks.

    Við höfðum frétt af lélegri veiði í vatninu vikuna á undan, fáir og litlir fiskar, þannig að væntingarnar voru lágstemmdar sem skilaði sér í gríðarlegum fögnuði yfir hverjum fiski sem kom á land. Mánudagskvöldið var rólegt, nýttum það helst til að ná áttum við vatnið sem hafði tekið miklum breytingum frá því í fyrra. Þriðjudagurinn var ágætur, hraðfleygt logn og mest veiði um kvöldið upp í ölduna við Tótutanga. Miðvikudagurinn rann upp með logni og glampandi sól, hreinni rjómablíðu þannig að eiginkonan stóðst ekki mátið heldur vatt sér í dressið og út í vatn með flugustöngina, fyrir morgunverð. Fljótlega fór Mosó-deildinn af stað og tók til við að landa hverjum fiskinum á fætur öðrum þannig að fljótlega varð útséð um hvor deildin ætlaði sér vinninginn. Kvennpartur Mosó deildarinnar fylltist þvílíku kappi rétt fyrir kvöldmat að nánast ekkert varð eftir af fiski í vatninu fyrir kvöldveiðina og ávann sér þannig inn eitt örnefnið enn við vatnið, Lárulág. Endanlegar aflatölur urðu þær að Reykjavíkur-deildin tók samtals 21 fisk á tvær stangir, þar af 1 á Beiki, 1 á Watson’s Fancy púpu, 2 á Peacock og 1 á svartan Toby, restina á maðk. Eins og við var búist átti Mosó-deildin vinninginn með 33 fiska, allt á maðk. Hef lúmskan grun um að kynjahlutfall hafi verið okkur bræðrum óhagstætt, ekki orð um það meir.

    Smellið fyrir stærri mynd

    Ég notaði tækifærið til smá náttúruskoðunar og myndatöku af nokkrum íbúum vatnsins, smá efnisöflun fyrir bloggið. Náði mjög góðum myndum af nokkrum vorflugupúpum sem ég hyggst nota í smá umfjöllun um litlar flugur og trú manna á þeim. Auðvitað verður fjallað um vinsælustu eftirlíkingu vorflugupúpunnar, Peacock sem sést hér til hliðar í hópi ‘original’ púpa úr Hlíðarvatni.

    Að lokum er rétt að árétta að GPS hnit örnefna við vatnið; Tótutangi, Lárubotn, Lárulág, Pétursklettur og Stjánaströnd, verða ekki gefin upp að svo komnu máli.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
«Fyrri síða
1 2 3 4 5
Næsta síða»

FOS

Allur réttur áskilinn – © 2025 – Kristján Friðriksson

  • Facebook
  • Vimeo
  • Issuu
  • YouTube
  • Instagram
  • Senda skilaboð
  • Áskrift í tölvupósti
 

    • Gerast áskrifandi Subscribed
      • FOS
      • Join 176 other subscribers
      • Already have a WordPress.com account? Log in now.
      • FOS
      • Gerast áskrifandi Subscribed
      • Skrá mig
      • Innskráning
      • Report this content
      • Skoða vef í lesara
      • Manage subscriptions
      • Collapse this bar