Hlíðarvatn í Hnappadal 18. til 20. júní 2021

Sumarið er alveg að detta inn, maður velur sér bara staðsetningu, stillir sig inn á veðrið og lætur slag standa. Með þetta að leiðarljósi héldum við veiðifélagarnir út úr bænum fyrir hádegið á föstudaginn, tókum stefnuna vestur í Hnappadal.

Það hafa fáar fréttir borist úr Hlíðarvatninu það sem af er sumars og því fátt annað að gera en skoða aðstæður upp á eigin spýtur, nesta sig upp og ganga úr skugga um að nægt gas væri á kútunum ef hitastigið þyrfti einhverja hjálp til að halda þolanlegum hita yfir nóttina. Veðurspáin var jú, svona og svona, í og úr, þessi eða hin áttin og hitastigið eftir því. Jákvæðasta spáin var eitthvað í áttina við skýjað, skúrir og sólarglæta á köflum.

Til að klára þetta strax með veðrið, þá var það alls ekki eins svalt og spár gáfu tilefni til að ætla. Fyrripartur föstudags til sunnudags einna fallegastir, oft stillur og almennt fallegt veður. Skúri urðum við ekki vör við fyrr en á sunnudag, sem skipti okkur engu máli því við vorum búinn að pakka og ganga frá þegar þessir fimm dropar duttu niður úr skýjunum.

Og þá að sívinsælli spurningu veiðimanna; Var vatn í vatninu? Stutta svarið er einfaldlega já og það var í meðallagi góð vatnsstaða eins og sjá má á víðmyndinni hér að neðan sem tekin er af vesturenda Fellsbrekku.

Smellið á mynd fyrir fulla stærð

Undanfarin ár hafa verið upp og ofan, aðallega ofan í vatnsborði Hlíðarvatns og miklir þurrkar hafa sett verulegt strik í reikninginn, en það var ánægjulegt að sjá það núna að upp úr miðjun júní er staðan bara tiltölulega góð.

Það er að verða einhver frasi hér að lýsa fasi okkar á veiðistað sem tiltölulega slöku, vorum ekkert að flýta okkur en vorum þó komin út í vatnið rétt upp úr hádegi. Það var annað hvort að hafa sig af stað og ná í endann á fyrriparti dagsins eða þá veðja á kvöldið. Auðvitað stóðumst við ekki blíðuna og töltum út að Rifinu norðanverðu og það var eins og við manninn mælt, það var búið að opna hlaðborð Hlíðarvatns og bleikjurnar fóru hamförum í yfirborðinu.

Þó það væri ekki algjör stilla, þá nægðu sólargeislarnir til þess að vekja klakið og við settum því þurrflugur og klekjur (emergers) undir og uppskárum eftir því. Áður en bleikjurnar fengu sér eftirmiðdagslúr, lágu nokkrar vænar í netum okkar og einhverjar til viðbótar fengu leyfi til að snúa aftur til systra sinna og gátu þá sagt sögur af grunsamlega girnilegum en stingandi mýflugum sem þær höfðu komist í kynni við.

Það varð lítið úr veiði eftir kvöldmat þar sem snögglega kólnaði og tók fyrir allar uppitökur og eitthvað tók hann að blása meira í þokkabót.

Enn og aftur var asinn á okkur hjónum í lágmarki á laugardaginn, stungið úr heilum kaffibrúsa í morgunsárið og fyllt á maga áður en við hreyfðum okkur nokkuð umfram nauðsynlegustu ferðir inn í vagn til að bæta á veitingar. Þegar við loksins drógumst í vöðlurnar var enn og aftur brostið á með klaki og enn fengu þurrflugurnar að njóta sín. Við sáum svo sem litla ástæðu til að breyta mikið út frá vananum og héldum okkur við fyrstu og aðra rennu út frá Rifinu. Þeir sem þekkja til við Hlíðarvatn vita að þar á ég við staðina þar sem vatnar yfir og á milli skerja út frá Rifinu. Þarna þjappast oft ætið saman og er nærri ávísun á fisk, sem raunin varð einmitt á.

Eins og venjulega, í það minnsta í okkar tilfelli, þá gerðist það upp úr miðjum degi að fiskurinn dró sig í til hlés og það var eins og skrúfað væri fyrir alla veiði. Við töltum því aftur í vagninn, sumir fengu sér lúr á meðan aðrir stússuðust í veiðigræjum og veltu því fyrir sér hvað yrði ofaná í kvöldmat.

Þar sem nær allur afli okkar hafði verið bleikja hingað til, þá stóð minn hugur til þess að vaða út í skerin undir Fellsbrekku um kvöldið og tæla nokkra urriða upp úr dýpinu með vel völdum nobblerum. Ég tölti því af stað og hugsaði mér gott til glóðarinnar, minnugur fyrri ferða út á skerin þaðan sem stutt er í fengsæl urriðamið. Svo bregðast krosstré sem aðrir raftar og þrátt fyrir töluverðar tilraunir með litróf nobblera á hægsökkvandi línu, þá kom ekki eitt einasta bein upp úr vatninu. Þetta voru tíðindi til næsta bæjar, hefði ég bara nennt að ganga þangað, og ég var lengi að velta þessu fyrir mér.

Ég komst að þeirri niðurstöðu, hvort sem hún er nú rétt eða röng, að sveiflur undangenginna ára í vatnshæðinni hafa mögulega komið verr niður á urriðastofni vatnsins heldur bleikjunnar. Þeir urriðar sem við tókum voru smávaxnir og fáir, ekki meira en tveggja ára fiskur utan eins sem trúlega var orðinn fimm ára en hefði mátt vera bústnari. Ekki skorti ætið, nóg af hornsíli úti á skerjunum en það var einfaldlega ekki nokkurt líf með djúpinu.

Þetta kemur í raun ekkert niður á vatninu, bleikja var einstaklega vel haldin og hefur sjaldan verið jafn spræk og kröftug á flugu. Ekki ein einasta bleikja sem náð hafði matstærð vantaði gramm upp á að vera yfir meðallagi í holdum.

Sunnudagurinn byrjaði á svipuðum nótum og laugardagurinn, blíðviðri og bleikjur í uppitökum. Við bættum aðeins í netin okkar og skiptum yfir í þyngri flugur þegar hann hallaði sér óþyrmilega í norðvestan átt með tilheyrandi kulda.

Eins og áður segir náðum við að pakka saman áður en örfáir dropar féllu á okkur og það sem meira er við náðum í heimahagana áður en óvæntar tafir urðu á umferð um göngin. Hreint út sagt, frábær helgi sem minnst verður sem þurrfluguhelgarinnar miklu. Er samt enn að velta fyrir mér fjarveru urriðanna.

Hlíðarvatn í Hnappadal 6. – 7. júní 2020

Langþráðan ilm af sumri lagði fyrir vit okkar í Hnappadalnum á laugardaginn þegar við renndum inn að Jónsbúð Borgnesinga við Hlíðarvatn. Þörfin á veiðiferð var töluverð, en vinna fram til hádegis varð til þess að við vorum seint á ferð. Á leið okkar vestur Mýrar, með okkar færanlega veiðihús í eftirdragi, tóku að gerjast ýmsar hugmyndir um daginn. Það væri e.t.v. töluvert lægra í vatninu en fyrir ½ mánuði síðan, vatnið orðið hlýrra, fleiri fiskar á stjái en erfiðara að finna tjaldstæði. Það síðasta var náttúrulega einhver útgáfa af hirtu þinn helvítis tjakk því við höfðum ekkert fyrir okkur í því að bakkarnir væru ofsetnir veiðimönnum, en veðrið gaf nú samt tilefni til að ætla töluverða ásókn.

Þegar á staðinn var komið, þá kom hið sanna í ljós. Það var ekki eitt einasta tjald við vatnið, einn vagn að vísu en hann var við Jónsbúð. Vatnið hafði hlýnað, en það var hvorki að sjá fisk né að það hefði lækkað í vatninu. Þvert á móti, það hafi enn hækkað í vatninu og nú flaut yfir Rifið og þau fáu sker sem stóðu vel upp úr áður, möruðu í hálfu kafi. Nú hlýtur þessi snjór í fjöllunum austan Hnappadals eiginlega að vera búinn og vatnsborðið nær þekkilegri hæð.

Á myndinni hér að neðan ættu að vera nokkur sker. Hægra megin við miðju er það stærsta og hæsta, en það rétt aðeins marar þarna í hálfu kafi. Vatnsborðið hefur hækkað um 60 – 80 cm frá því við vorum við vatnið 23. maí s.l. og langt því frá að vaðið yrði út frá Rifinu til norðurs í hraunið.

Hlíðarvatn frá Rifi og inn í botn – Smellið fyrir stærri mynd

Það var eins og sumarið væri virkilega komið í Hnappadalinn, hiti vel yfir lágmörkum og vindur ekkert til að væla yfir. Reyndar var hann nokkuð vestlægur sem er ekki algengt á þessum slóðum þannig að gamlir hundar sem helst eru vanir að eiga við hann úr norðaustri voru hálf vandræðalegir til að byrja með og þurftu fljótlega að taka sér pásu, matast og hugsa sitt ráð.

Úr varð að við töltum inn með Fellsbrekku að Svartaskúta, lengra komumst við ekki með vatninu og þar byrjuðum við kvöldið. Eftir ótilgreindan fjölda af töpuðum flugum, var loksins tekið í svartan Nobbler af mikilli hógværð. Jæja, ég hef þá lent á barnaheimilinu, hugsaði ég mér og losaði 20 cm urriða af flugunni. Þetta með töpuðu flugurnar kom til vegna þess að ég gerði mér enga grein fyrir botninum sem ég náði til. Undir venjulegum kringumstæðum ætti maður að geta veitt fram af nokkrum hraunköntum þarna, en ég get svarið það að allt þetta vatn hefur fært þá eitthvað til og þeir eru nú skreyttir ýmsum flugum úr farteski mínu.

Eftir að við höfðum gert ýmsar atrennur að fiski, sem við vel að merkja sáum aldrei, þá komst sú kjaftasaga á í okkar hópi (þar sem tveir veiðimenn koma saman, þar er hópur) að það væri svo mikið vatn í vatninu að fiskarnir hefðu beinlínis drukknað.

Þar sem ekkert fullvaxið líf virtist vera þarna við Svartaskúta, færðum við okkur aftur út að Rifi þar sem ég náði loks í mathæfan fisk á ólívulitaðan Nobbler og síðan annan úr ungliðahreyfingunni. Veiðifélaga mínum þótti minn matfiskur greinilega ekki nóg fyrir okkur tvö, þannig að hún setti í annan eins til að taka með heim.

00:30 aðfaranótt sunnudags

Það er til marks um veðurblíðuna að við vorum við vatnið fram á sunnudag, þ.e. klukkan var 00:30 þegar við hættum, fóru upp í vagn og gengum til náða eftir heitan kakóbolla með smá lögg útí. Sunnudagsmorguninn skyldi tekinn með trompi.

10:00 sunnudagsmorgun

Hann var jú alveg þokkalega fagur, en nú blés hann aðeins kröftugra af suðri, sem er enn ein óþekkt átt í Hnappadalnum þannig að við vorum eiginlega alveg úti á túni. Eftir nokkrar tilraunir á og við Rifið, létum við gott heita, tókum saman rétt í tæka tíð áður en fyrstu droparnir féllu. Það var létt yfir okkur á heimleiðinni, núna voru nefin full af sumri og útvistarhjörtun eru farin að slá örlítið örar.

Bleikjur í ferð
0 / 0
Bleikjur alls
3 / 3
Urriðar í ferð
1 / 3
Urriðar alls
3 / 6
Veiðiferðir
9 / 10

Hlíðarvatn í Hnappadal 23. maí 2020

Þegar kemur að því að velja orð yfir veðrið í Borgarfirði á laugardagsmorgun, þá dettur mér helst í hug þetta fallega og lítt notaða íslenska orð vindur. Með töluverðri jákvæðni má segja að það hafi verið gjóla í Skorradalnum nokkuð langt fram eftir laugardeginum, en þegar okkur veiðifélögunum fannst orðið nóg um að bíða þess að hann gengi niður, tókum við stefnuna á Hlíðarvatn í Hnappadal. Kannski væri hann stilltari þar, sjálfsblekkingin var algjör.

Miðað við hitatölur síðustu sólarhringa, þá gerðum við eiginlega ráð fyrir að vatnið hefði hlýnað nóg til að kveikja á einhverju skordýralífi í Hnappadalnum og það stóðst. Það var nóg af flugu; þerrilöpp, toppflugur og ýmislegt annað sem flögraði um eða feyktist til í gjólunni. Við byrjuðum á því að renna inn fyrir Jónsbúð, virtum fyrir okkur ölduhæð og einbeitta veiðimenn sem lögðu agn sitt fyrir fiskinn innan við Rifið. Berandi þá von í brjósti að vind mundi lægja þegar liði á daginn, ákváðum við byrja í vatninu að norðan undir Stekkjarholti þar sem meint útfall vatnsins til Hraunholtaár á að vera.

Útfallið til vinstri, vatnið allt til austurs, Hraunholtahnjúkar til hægri – Smellið fyrir stærri mynd

Við byrjuðum reyndar á því að tölta út á hraunið þar sem við áttum alveg eins von á að fiskurinn hefði bunkast upp í víkurnar í leit að æti. Annað hvort vorum við ekki á réttum slóðum, ekki með réttu flugurnar eða fiskurinn var bara hreint og beint ekki þar, þannig að við héldum til baka undir holtið og gerðum heiðarlegar tilraunir með ýmsar flugur. Það var ekki fyrr en veiðifélagi minn var kominn að litlum svörtum Nobbler í boxinu að fiskur tók.

Eins og mörgum öðrum veiðimönnum er farið, þá apaði ég eftir og hnýtti eins flugu á hjá mér. Já, það var greinilegt að þessi Nobbler var málið því eftir nokkur köst tók ég mjög svipaðan fisk, trúlega þann sama og hljóp á hjá frúnni. Þessi krúttlegi urriði fékk því enn annað tækifæri til að stækka aðeins, sjáum til hvort hann verði ekki kominn í matstærð þegar líður að hausti.

Á einhverjum tímapunkti þótti okkur líklegt að Kári væri þrotinn kröftum og ætlaði sér að setjast í helgan stein, þannig að við tókum okkur til og renndum aftur inn að Jónsbúð. Þar gerðum við nokkrar heiðarlegar tilraunir til þess að slæma flugum út á móti öldunni við Rifið, en án árangurs. Við færðum okkur því fljótlega sunnan á Rifið og veiddum inn í víkina gengt Jónsbúð. Sjálfur varð ég ekki var við fisk, en veiðifélaginn setti í þokkalega einsmáltíðs bleikju sem fékk síðar far með okkur til baka í bústaðinn.

Sem sagt; vindurinn var ekki vinur okkar á laugardaginn. Hitastigið var aftur á móti mjög ásættanlegt og flugan er komin á stjá við Hlíðarvatn í Hnappadal, þá fer þetta nú allt að koma. Já, fyrir áhugamenn um vatnshæðina, þá er hún í hefðbundnum gír miðað við árstíma, nokkuð hátt en það flæðir ekki yfir Rifið eins og stundum áður á þessum tíma.

Bleikjur í ferð
1 / 0
Bleikjur alls
1 / 3
Urriðar í ferð
1 / 1
Urriðar alls
2 / 3
Veiðiferðir
5 / 6

Hlíðarvatn í Hnappadal 29. sept. 2019

Það er ekki alltaf að haustið kemur svona hægt og hljótt. Mér skilst að mánuðurinn sem er að líða hafi slegið einhver blíðumet þegar á fyrstu dögunum og síðan þá hefur hann verið eintóm uppbót á sumarið. Reyndar er það víst svo að vitarnir á Veðurstofunni telja september til síðsumars, ekki hausts og það getur náttúrulega skýrt alla þessa blíðu.

Hvað um það, veðurspá helgarinnar hljóðaði upp á ýmist tilbrigði við dásamlegt veður og því þótti tilvalið að taka annan dag helgarinnar frá fyrir veiðiferð. Hvert? Þangað sem spáin vísaði manni, svo einfalt var það nú; Hlíðarvatn í Hnappadal.

Eftir að hafa endurheimt veiðifélaga minn á sunnudagsmorgun úr klóm mannræningja sem bar að dyrum á mínu heimili á laugardag, var þessi líka fallega morgunbirta nýtt til að renna fyrir Hvalfjörð og Hafnarfjall, vestur á Mýrar og inn Hnappadalinn. Þegar okkur bar að garði var hin óbrigðula norðaustanátt upp á sitt besta og jafnvel aðeins meira en það. Við ákváðum því að byrja undir Stekkjarholti (þeim sem ekki eru staðkunnugir er bent á ágætis kort af vatninu sem má finna hérna) í þeirri von að vindurinn væri eitthvað spakari þar um slóðir heldur en undir Fellsbrekku. Ég ætla nú ekki að segja að sú von hafi átt sér stoð í raunveruleikanum, en við reyndum nú samt fyrir okkur dágóða stund og annað okkar uppskar í það minnsta eitthvað af narti, áhugalaus að vísu en nartað samt.

Þegar vind tók að lægja færðum við okkur á gamalkunnar slóðir undir Fellsbrekkur og út á Rifið. Já, það er víst rétt að taka það fram að Hlíðarvatn í Hnappadal er komið aftur. Það brá sér í smá frí síðla sumars, hvarf næstum með öllu en er nú komið aftur og það flýtur meira að segja (næstum) yfir Rifið á kafla. Við vorum ekki búin að vera lengi að þegar félaga okkar úr veiðifélaginu bar að garði, vindbarinn í meiralagi og hann ásamt félögum sínum búinn að fá alveg nóg af strekkinginum skammt sunnan Heydals. Það sem mér fannst ennþá goluskítur var bara blíða í hans augum.

Við þræddum okkur fyrir Rifið og reyndum hinar ýmsu flugur, glötuðum töluverðum fjölda þeirra en eins og veiðifélagi minn orðaði það; Þú verður nú að hafa eitthvað að gera í vetur. Eftir smá kaffipásu töltum við inn undir Fellsbrekku og böðuðum nokkrar flugur til viðbótar og þar setti ég í eina fiska ferðarinnar. Sá var nú ekki til að hafa mörg orð um, fallegur þó með eindæmum og fékk líf. Ég hef hugsað mér að að vitja hans aftur næsta vor, tæpt að ég nái því þetta sumarið því vatnið lokar jú í dag 30. september.

Veiðifélagi minn hélt uppteknum hætti og glataði öllum þeim flugum sem stöldruðu augnablik við á taumendanum hjá henni. Ég fór að sjá sæng mína útbreidda og í huga mér var fjöldi hnýtingarkvölda framundan kominn vel á þriðja tug, þannig að ég lagði það ofurvarlega til um fimmleitið að við segðum þetta bara gott, tækjum okkur saman og héldum heim á leið.

Þessi tillaga var samþykkt, en fátt var nú rætt á meðan við gengum frá græjunum. Það var reyndar ekki fyrr en við vorum komin inn á Heydalsveg að það heyrðist hljóð úr horni; Það hefði nú verið gaman að fá eins og eina töku. Svo mörg voru þau orð og ekki fleira sagt í bili. Hvort þetta verður síðasta ferð okkar félaganna þetta sumarið, haustið eða hvað sem þessi árstíð annars heitir, veit ég ekki. Ég er í það minnsta ekki búinn að pakka græjunum niður og enn eru örfáar flugur eftir í einhverjum boxum.

Bleikjur í ferð
0 / 0
Bleikjur alls
58 / 74
Urriðar í ferð
01
Urriðar alls
19 / 42
Veiðiferðir
25 / 26

Hlíðarvatn 26. maí

Á heimleið úr Hraunsfirði eru nokkur álitleg vötn, í það minnsta fyrir þá sem eiga heima sunnan Borgarfjarðar. Eitt þessara vatna kom inn á Veiðikortið nú nýlega en vatnið höfum við veiðifélagarnir stundar í mörg ár, Hlíðarvatn í Hnappadal og það heimsóttum við í gær, sunnudag eftir að hafa verið tvær nætur við Hraunsfjörðinn.

Þeim sem þekkja Hlíðarvatnið ætti ekki að koma á óvart þegar ég segi að vindáttin var af norð-austri þegar við renndum í hlað fyrir landi Hraunholta upp úr hádegi í gær. Þessi yndislega vindátt hefur tekið svo ótal oft á móti okkur í Hnappadalnum að vart verður talið. En, það skemmir ekki fyrir okkur því við þykjumst þekkja fiskinn í vatninu nokkuð ágætlega, þ.e. stofninn, því flestir þeirra einstaklinga sem við höfum farið höndum um hafa fylgt okkur heim í lok dags.

Rifið

Oft hefur nú vatnið verið meira á þessum árstíma heldur en það er um þessar mundir. Rifið stendur vel uppúr og það má ekki miklu muna að vaðfært sé að verða út í skerin undir Fellsbrekku. Eiðið út frá Rifi til norðurs var ekki alveg komið upp, en mig grunaði að það væri nóg fyrirstaða þannig að fiskurinn héldi sig þar í víkinni þannig að mér tókst að telja veiðifélaga minn á að tölta þangað í stað þess að rölta inn með vatninu í átt að Neðri-skúta.

Flugan sem fór undir var Orange Nobbler. Silungastofnarnir í vatninu hafa verið aldir upp við það í gegnum árin að vilja Orange Nobbler, hvort sem um er að ræða bleikju eða urriða. Af tómri frekju kom ég mér fyrir beint á móti vindi, slæmdi línunni út og leyfði flugunni að sökkva í ölduna. Tvö snaggaraleg tog og fyrsti fiskur var á, þokkaleg bleikja sem tók grimmt. Í kvikindisskap mínum kallaði ég nógu hátt „FYRSTI“ þannig að það barst veiðifélaga mínum örugglega þrátt fyrir rokið. Næsta kast, sama fluga, annar fiskur og auðvitað kalli ég „ANNAR“. Þriðja kast og ekkert gerðist. Fjórða kast og ég kallaði „ÞRIÐJI“ og skömmu síðar kallaði ég „FJÓRÐI“ en þá hætti ég líka því ég fann fyrir einkennilegum sviða á milli augnanna þar sem nístandi augnaráð veiðifélaga míns hitt mig fyrir. Áður en ég náði að hvísla „FIMMTI“ þá réttust aflatölurnar þegar frúin tók sinn fyrsta urriða í sumar og skömmu síðar bætti hún bleikju við.

Fiskarnir sem komu á land voru vel haldnir og virtust hafa haft nóg æti. Raunar voru þeir allir troðnir af bobba, ekki eitt einasta hornsíli í maga þeirra og flugu var nú ekki heldur fyrir að fara. Það er reyndar reynsla mín að það sé einhver bið eftir hornsílinu, en þegar það fer af stað þá er veisla úti á skerjunum.

Þetta var flott stutt stopp sem við gerðum í vatninu og eftir að við höfðum fengið okkur bita og skjalfest veiðinestið okkar og útsýnið, héldum við áfram för okkar heim eftir þessa fyrstu veiði-ferða-útilegu helgi sumarsins.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
1 / 1 2 / 12 1 / 5 1 / 7 7 / 8

Og veiðifélaginn þurfti að eiga síðasta orðið (eins og vanalega): Djös…..það er bara mjööööööög ljótt að segja svona…eða telja svona upphátt, eiginlega svo hátt að það þurfti að kalla 🙂Bíddu bara. (annars er þetta ekki mitt ár, er það nokkuð?)

Hlíðarvatn í Hnappadal, 1. – 3. júní

Hún stóðst, hún stóðst ….. veðurspáin. Veðurspá helgarinnar fyrir vesturland var ekki upp á marga fiska en þrátt fyrir það létum við slag standa á föstudaginn og renndum vestur í Hnappadal með vagn og ‚alles‘. Fyrsta formlega útilega sumarsins skildi tekin með stæl, farið út úr bænum á föstudag og helst ekki komið heim fyrr en þegar langt yrði liðið á sunnudag.

Hún hefur lengi verið römm sú taug sem tengir okkur veiðifélagana við Hlíðarvatn í Hnappadal og þar sem við erum bæði félagar í Stangaveiðifélagi Borgarness og keyptum sumarleyfi í vatnið um daginn, þá þótti okkur sjálfsagt að taka stefnuna á vatnið. Og þvílíkt vatn! Hér þarf mynd til að skýra þessa upphrópun:

Frá Jónsbúð til norðurs

Myndin er tekin næstum á tröppunum að Jónsbúð, veiðihúsi SVFB. Fyrir miðri mynd er slóði sem liggur undir hlíðinni til hægri og út að s.k. Rifi. Þessi slóði er núna 20 – 30 sm. undir vatnsyfirborðinu, en venjulega er hann u.þ.b. 100 sm. ofan þess. Fyrir miðri mynd sést glitta í nokkra steina lengst úti í vatninu. Þetta er hæsti punktur Rifs sem ég held að sé yfirleitt í ríflegri mannhæð þegar maður stendur við vatnsborðið. Það er sem sagt mikið í Hlíðarvatni í Hnappadal núna og eiginlega ekki á einn einasta þekktan veiðistað komist.

Frá Jónsbúð að Hraunholtum

Meira að segja hraunið á milli Jónsbúðar og bæjarins Hraunholta líktist meira flóa en stöku víkum.

Eins og ég hóf söguna, þá stóðst veðurspáin. Athugið, hún var ekki upp á marga fiska og það var aðeins ein örvingluð bleikja sem slysaðist til að taka Peacock með orange skotti hjá mér á föstudagskvöldið, rétt við Jónsbúð. Sökum skorts á stærð var þeirri bleikju sleppt aftur. Veðrið sjálft var með prýðilegasta móti þótt óvenjuleg vindátt væri við vatnið; suðvestanátt. Þeim sem þekkja til, þykir þetta eflaust afskaplega merkilegt því almennt er talið að aðeins ein vindátt sé við Hlíðarvatn, sú norðaustlæga.

Föstudagskvöldið við Hlíðarvatn

Laugardagurinn var rakur, mjög rakur á köflum og eiginlega bara frekar blautur og til að toppa þokusuddann, þá var vindur að sperra sig töluvert úr þessari asna suðvestanstæðri átt. Ég tölti um morguninn að þeim stað sem Rifið ætti að vera, óð eins og ég þekkti til í leit að þekktum veiðistöðum, en varð ekkert ágengt. Eftir hádegið fórum við síðan inn með Fellsbrekku að norðan, en urðum ekki vör við fisk, enda ekki víst að nokkur fiskur hafi eitthvað þangað að sækja. Það sem áður var frekar gróðursnauð malarfjara við vatnið, er núna á bóla kafi og óvíst að þar leynist eitthvað æti. Það var ekki fyrr en við vorum á töltinu aftur að Jónsbúð að ég setti í smábleikju á orange Nobbler þar sem vegarslóðinn liggur á kafi. Ef föstudagsbleikjan taldist smágerð, þá var þessi beinlínis dvergvaxin og öðlaðist því frelsi sitt á ný eftir stutta viðureign.

Getgátur okkur hjóna eru einfaldlega þær að vatnið sé enn of kalt vegna mikilla vatnavaxta eftir rigningar maí mánaðar og fiskurinn haldi sig því enn töluvert utar í vatninu, á meira dýpi. Gróður, bæði í hlíðum og í vatni er komin heldur skammt á veg í Hnappadalnum og því hefur fiskurinn lítið upp á grynningar að sækja og bobbar sem áður voru í seilingarfjarlægð fiska og veiðimanna eru núna langt úti í hafsauga. Ég man ekki til að hafa séð vatnsborðið standa jafn hátt og um þessa helgi, en  Sigurði í Hraunholtum  sagði mér að það hefði þó staðið nokkru hærra í einhver skipti, en tók fram að nú þætti sér nóg komið, nú mætti það hætta að bæta á sig.

Við létum staðar numið í veiði um kvöldmat á laugardag, drógum okkur inn í vagn við blaður og spil og héldum heim á leið eftir kuldalega aðfararnótt sunnudags þar sem sannaðist að maður á ekki að fara í útilegu með aðeins einn átekinn gaskút á vagninum. Þrátt fyrir allt kvöddum við Hlíðarvatn með sól í sinni því nú hefur vagninn verið liðkaður eftir veturinn og stefnan verður eflaust tekin á nýjar veiðislóðir á næstu helgum. Þetta veiðir sig ekki sjálft og löngu kominn tími á að liggja úti við veiðar.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 2 11 / 10 / 0 / 1 / 5

 

Hlíðarvatn í Hnappadal, 2. sept.

Þegar maður keyrir í hálfan annan tíma í veiði, þá hefur maður auðvitað nægan tíma til að íhuga hvernig maður ætti að hefja frásögnina af veiðiferðinni. Þegar kötturinn er úti, leika mýsnar sér… – Til að rétta veiðitölurnar af… – Einn ég sit og keyri… o.s.frv. Ekkert af þessu var neitt spennandi eða skemmtilegt þannig að ég byrja bara svona:

Að þessu sinni var ég einn á ferð í veiði, veiðifélaginn fjarri góðu gamni eða öllu heldur í allt öðru góðu gamni. Samt engin ástæða til að láta góðan laugardag renna sér úr greypum þannig að eftir að ég hafði smurt nesti og smellt kaffi á brúsa, renndi ég vestur á bóginn með stefnuna á Hlíðarvatn í Hnappadal.

Nestið klárt

Eins og góður maður hafði á orði á Fésbókinni í morgun, þá á maður alls ekki að láta veðurspánna ráða, þá fengi maður bara sigg á óæðri endann. Útlitið var reyndar þannig í morgun að ég mátti eiga von á töluverðum vindi, ausandi rigningu og eiginlega bara ömurlegu veðri. Ég hélt nú samt ótrauður af stað, þetta yrði þá bara ágætur bíltúr.

Þokuslæðingur við Hlíðarvatn

Svona tók nú Hlíðarvatnið, eða það sem eftir er af því, á móti mér rétt fyrir hádegi. Staflogn, léttur þokuúði og vatnið spegilslétt. Ég hætti umsvifalaust að íhuga afsakanir fyrir aflaleysi, snaraði mér í vöðlurnar, smellti hægsökkvandi línu á stöngina og Orange Nobbler á taum. En viti menn, ekkert gerðist í næstum klukkutíma og ég fór að efast um þessa pottþéttu uppskrift að veiði sem hefur gert sig ágætlega í Hlíðarvatni hingað til. Hvað er þá til ráða? Jú, spóla til baka og gera það sem maður hefði átt að gera í upphafi, setjast niður og horfa á vatnið. Einmitt, þarna var fluga að klekjast og þarna var önnur og svo enn önnur, eiginlega alveg glás af þeim. Hvaða flugur voru þetta eiginlega? Jú, toppflugur og einhverjar óræðar stærri flugur. Eftir kaffisopa og samloku skipti ég yfir í flotlínu, smellti Black Zulu undir og viti menn, fyrsti fiskur í fyrsta kasti og þannig hélt þetta áfram þangað til urriðarnir fóru að missa af flugunum rétt undir yfirborðinu. Ég lengdi því í tauminum og skipti yfir í þurrflugu. Það verður nú bara að segjast að það er fátt skemmtilegra heldur en taka ljóngrimman urriða á þurrflugu, þvílíkt kick sem maður fær út úr þessu.

Hlíðarvatn fyrir landi Hraunholta

Af vatninu er það helst að frétta að það fer minnkandi, eins og svo oft áður. Enn rennur þó úr því í gegnum hraunið en það er töluvert langt síðan hætti að renna í Hraunholtaá. Sem sagt, ekki það lægsta sem ég hef séð í vatninu, en lágt er það nú samt.

Alltaf gaman að kveðja með færslum í þessa

Fiskar dagsins voru allir urriðar, trúlega eru bleikjurnar farnar að sinna öðru en áti og það rifjaðist upp fyrir mér þegar ég sá þær í hundraðatali fyrir landi Heggsstaða hérna um árið, pússandi botninn, rauðar á bumbunni, dökkar á bakinu og með hvítar bryddingar á uggum. Mig minnir fastlega að það hafi verið um þetta leiti sumars og því ekki ólíklegt að þær hafi verið fjarri góðu gamni í dag með hugann við allt annað en flugur veiðimanna og náttúru. Heim fóru fimm fiskar, engir boltar en matfiskar þó. Tveimur skilaði ég aftur í vatnið og þakkaði þeim hetjulega baráttu og skemmtileg tilþrif í loftfimleikum. Að lokum, ef einhver hefur áhuga, þá vildi ég bara segja að sumarið er alls ekki búið og ýmislegt getur ennþá gerst ef flugan heldur áfram að klekjast.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 0 107 / 113 / 7 27 / 30 13 / 14

Hlíðarvatn í Hnappadal, 9. júlí

Það getur alltaf ræst úr veðrinu og það sannaðist svo um munar í dag, sunnudag. Þegar við millilentum í Borgarnesi eftir heldur kuldalega vist við Langavatn var skollið á þessi líka blíða að við stóðumst ekki mátið að renna vestur að Hlíðarvatni í Hnappadal. Frá því við vorum síðast í Hlíðarvatni rétt um miðjan júní, hefur heldur betur lækkað í vatninu og það er þegar komið niður fyrir meðalhæð eftir að hafa verið vel yfir meðalhæð fyrstu mánuði sumars.

Hlíðarvatn eins og það hefur trúlega verið sunnudagskvöldið

Við stoppuðum stutt við vatnið, tæpa þrjá tíma en á þeim tíma náðum við að setja í 12 væna fiska, alla á Orange Nobbler, utan tveggja sem létu glepjast af heimatilbúnu hornsíli sem ég prufukeyrði einmitt í Hlíðarvatni í fyrra. Alla fiskana tókum við beint undan Fellsbrekku þar sem mögulegt var að komast út í ystu sker og kasta út í dýpið til norðurs. Það má með sanni segja að Hlíðarvatn svíkur ekki þegar vorgállinn hefur sjatnað í vatninu.

Að gamni okkar athuguðum við hvor enn rynni úr vatninu í Hraunholtaá, en því fer víðs fjarri, tvær góðar stíflur eru þegar á milli vatns og ár og væntanlega rennur ekki deigur dropi úr Hlíðarvatni ofanjarðar lengur. Mest af vatninu ferðast nú neðanjarðar og fæðir væntanlega Haffjarðará til viðbótar því sem kemur úr Oddastaðavatni.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 2 64 / 58 / 5 17 / 15 / 9

Hlíðarvatn í Hnappadal, 16. – 18. júní

Stundum smellur maður einfaldlega ekki í gírinn. Því var næstum því þannig farið með mig um helgina þegar við veiðifélagarnir fórum í Hlíðarvatn í Hnappadal. Þegar við mættum á staðinn á föstudagskvöldið varð manni eiginlega ekki til setunnar boðið, vatnið skartaði sínu fegursta í kvöldkyrrðinni og við gátum ekki annað en smellt í okkur smá bita og fórum út í vatn. Ekki skemmdi það fyrir eða dró úr eftirvæntingu okkar að húrrahróp og glaðhlakkalegur hlátur nokkurra yngir veiðimanna ómaði úr víkinni við Jónsbúð, veiðihúsi Borgnesinga. Það var greinilega fiskur í tökustuði á ferðinni.

Hlíðarvatn í Hnappadal á 17. júní

En, það var ekki mikið tökustuð á þeim fiskum sem ég engdi fyrir þannig að aðeins ein bleikja lá í mínu neti eftir kvöldið. Veiðifélagi minn small aftur á móti alveg í gírinn og setti í fjóra væna fiska þetta kvöld.

Þjóðhátíðardagurinn rann upp með allt öðru veðri heldur en spáð var og við héldum okkur á svipuðum slóðum, þ.e. i grennd við Rifið sem vel að merkja stendur orðið allt upp úr vatninu. Síðast þegar við kíktum við í Hnappadalnum vatnaði nefnilega á milli lands og Rifs, það stóð sem sagt mjög hátt í vatninu í lok maí en það hefur heldur sjatnað í því. Ég vil reyndar meina að það lækki hratt í vatninu, á þessum rúmlega tveimur dögum sem við stoppuðum þar um helgina mátti merkja mun á flæðarmálinu við Rifið.

Heilt yfir vorum við frekar slök við veiðarnar, byrjuðum seint og hættum snemma á laugardag og sunnudag en náðum engu að síður 19 fiskum samanlagt. Það gefur alltaf Hlíðarvatnið, meira að segja þegar maður er hreint ekki í stuði. Þeir fiskar sem við tókum voru almennt vel haldnir og í góðu standi, þannig að það er eins víst að gott sumar er í vændum í vatninu. Eitt langar mig þó að nefna að lokum; skráning í veiðibókina við Jónsbúð mætti vera betri. Þessa daga sem við vorum að veiða var alltaf einhver slæðingur af veiðimönnum við vatnið sem tóku fisk, en aðeins við og einn annar kvittuðu afla í bókina.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 5 13 / 11 / 1 / 2 5

Hlíðarvatn í Hnappadal 27. & 28. ágúst

Það lyktar svolítið af hausti núna‘ var haft á orði þegar ég keypti leyfi að Hraunholtum á laugardaginn. Já, það var svolítið haust í lofti, en dásamlegt veður innan við bílrúðuna. Það er bara eins og aðeins ein vindátt sé þekkt við Hlíðarvatn, af norð-austri, og um helgina tók Kári sig til og blés köldu úr þeirri átt, svo köldu að stóru fiskarnir í vatninu tóku sér frí, lögðust á botninn og létu eiginlega ekki sjá sig.

Hlíðarvatn 27.ágúst 2016
Hlíðarvatn að kvöldi 27. ágúst 2016

Við höfðum verið vöruð við því að enn hefði lækkað í vatninu og hvött til að taka með okkur vatn á brúsa, en ekki óraði okkur fyrir þeirri sjón sem mætti okkur við Jónsbúð á laugardaginn. Aðeins smá pollur eftir fyrir framan veiðihúsið og töluvert langt í næsta vatn. Að vísu höfum við komið að vatninu enn lægra, en þá var það við austurenda þess, þannig að okkur brá nokkuð við þá sjón sem mætti okkur að vestan. Hvað um það, við komum okkur fyrir innan við Jónsbúð og héldum til veiða. Kraftaveiðar, uppásnúningar og bakköst voru það sem þurfti til að koma flugunni út á vatnið á laugardaginn. Vindurinn náði næstum tveimur tölustöfum í m/sek. og blés einmitt á kasthöndina þar sem við vorum við vatnið.  Ef það hefði verið vatn í vatninu frá Rifi og inn að Álftatanga, þá gæti ég sagst hafa þrætt alla ströndina, en þá væri ég að ljúga. Þess í stað röltum við frá eðlilegu fjöruborði og út að vatninu á nokkrum völdum stöðum á þessari leið og náðum að særa upp nokkra fiska á laugardaginn, stærsta um pundið, aðra nokkru minni.

Útsýnið úr Fellsbrekku til vesturs
Útsýnið úr Fellsbrekku til norðurs – þarna ættu að vera stöku hólmar og sker, ekki stöku pollar

Aðfararnótt sunnudags kólnaði heldur betur þannig að slaknandi vindur sem sunnudagurinn bauð uppá fór fyrir lítið og fiskurinn var mjög tregur eftir rok og kulda næturinnar. Aðeins ein bleikja hafði komið á land um þrjúleitið þegar við pökkuðum saman, kíktum til berja og renndum síðan heim á leið. En, það er alls ekki þar með sagt að vetur sé genginn í garð í Hnappadalnum, hann spái hlýnandi seinni part vikunnar og Hlíðarvatn hefur oft gefið vel langt inn í haustið.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 3 212 / 236 / 3 36 / 43 18 20

Hlíðarvatn í Hnappadal 30. – 31. júlí

Síðustu ár höfum við veiðifélagarnir haft ýmislegu öðru að sinna um Verslunarmannahelgina heldur en veiði, en þetta árið varð breyting á. Það var gamalkunnur staður sem varð fyrir valinu og við ásamt Mosó-genginu komum okkur fyrir við Hlíðarvatn í Hnappadal. Annars tók ég eftir því að veiðibók vatnsins er merkt ‚Hlíðarvatn í Kolbeinsstaðahreppi‘, skemmtilegt að halda í gömlu hreppaheitin þrátt fyrir sameiningar síðustu ára.
En hvað um það, við mættum í Hraunholt á föstudagskvöldið í þessum líka hressilega strekkingi af norðaustri. Hef stundum velt því fyrir mér hvort það sé aðeins ein átt þekkt við Hlíðarvatn, því annað hvort blæs hann úr norðaustri þar eða bara ekki neitt. Þar sem vindur var heldur í meira lagi og við e.t.v. eitthvað lúin eftir vikuna, ákváðum við að setja upp vagninn, hita okkur kvöldverð og bíða þess að veiðifélagar okkar kæmu í hús, spennt að sjá afla og heyra veiðisögur. Aflinn hjá Mosó-genginu reyndist meira en glæsilegur, feitir og pattaralegir urriðar og bústnar bleikjur innanum.

Hlíðarvatn, Ljósufjöll í baksýn
Hlíðarvatn, Ljósufjöll í baksýn

Eftir nokkuð snarpa nótt og vindbarning, hélt ég af stað inn fyrir Fellsbrekku út á skerin sem nú stóðu öll landföst þar sem mikið hefur lækkað í vatninu frá síðustu veiðiferð þangað fyrir hálfum mánuði. Mér telst til að vatnborðið sé heilum metra lægra nú en þá og göngufært á ystu skerjum frá Rifi og að Neðriskúta. Heldur var nú vindurinn í meira lagi og ég viðurkenni að mér reyndist frekar erfitt að ná þokkalegum köstum með flugustönginni. Lét mig þó hafa það og streittist við þar til einn urriði lá í netinu. Síðar um daginn fór allur hópurinn inn að Álftatanga og veiddi sig til baka að Rifi. Maðkurinn sannaði sig hjá Mosó-genginu, en ég var eiginlega ekki á blaði fyrir utan einhverjar smábleikjur sem fengu líf. Það var ekki síðan fyrr en eftir kvöldmat að við hjónin töltum aftur út inn með vatninu að hún setti í nokkra væna fiska og ég í aðeins fleiri titti í rokinu sem þá náði hámarki.
Ég tók sunnudaginn snemma, svona á minn mælikvarða, og setti í nokkrar vænar bleikjur og nokkra titti sem fengu líf. Eftir hádegismat fór frúin á kostum og landaði hverjum glæsilegum urriðanum á fætur öðrum en ég varð að láta mér nægja að kynnast honum Sergei (tilvísun í Sergei Bubka, stangarstökkvara) sem tók fluguna með látum inni við Rif, en sýndi síðan listir sínar í loftinu sem urðu til þess að flugan skaust í eina áttin á meðan hann fór í hina.
Það má með sanni segja að maðkurinn hafi staðið uppúr sem veiðitæki helgarinnar, 42 fiskar á tvær stangir á móti 18 á tvær flugustangir. Þá eru ekki taldir þeir sem sleppt var.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 7 141 164 / 1 30 / 38 14 16

Hlíðarvatn í Hnappadal, 16. & 17. júlí

Á ferðalagi okkar hjóna norðan úr landi á föstudaginn leitaði hugurinn ósjálfrátt á fornar slóðir. Það var næstum fyrir ári síðan að ég lét hafa eftir mér að slóðinn inn að uppáhalds veiðisvæði okkar hjóna þyrfti gagngerrar yfirhalningar við ef við færum þangað aftur, þ.e. slóðinn frá Heggsstöðum inn að vatni. Með þetta í huga og þá staðreynd að engar fréttir var að hafa af færð og ástandi slóða, afréðum við að hringja í Stangveiðifélag Borgarness og kanna með veiðimöguleika í vatninu.
Það hitti þannig á að á laugardaginn var Fjölskyldudagur SVFB og miklu meira en sjálfsagt að leyfa okkur að vera við vatnið um helgina. Og þvílík helgi. Við veiðifélagarnir eru sammála um að aldrei hefur fiskurinn í Hlíðarvatni verið eins fallegur, eins mikið af honum og eins skemmtilegur í töku eins og um þessa helgi. Undanfarin ár hefur mér þótt fiskurinn rokka verulega í holda- og heilsufari, en þetta árið hefur hann heldur betur tekið við sér, feitur og pattaralegur, hraustur og almennt vel haldin, bæði bleikjan og urriðinn.

Hlíðarvatn í Hnappadal
Hlíðarvatn í Hnappadal

Við tókum laugardaginn með fyrra fallinu og röltum inn með Fellsbrekku, að Neðri-skúta og alveg út að Svarta-skúta. Veðrið var eins fallegt og best varð á kosið, sól og stillur þannig að þurrflugur fengu að njóta sín á vatninu. Á fyrri vaktinni tókum við 14 fiska, bleikjur og urriða í bland, ásamt því að setja í nokkra putta sem var sleppt. Seinni vaktin var á svipuðum nótum hvað fiska varðar en veðrið tók smávægilegum breytingum þegar leið á kvöldið. Léttur úði og smá blástur krydduðu umhverfið hæfilega og fiskunum virtist líka það vel og við fórum nokkuð sátt í háttinn fyrir miðnættið með okkar 16 fiska eftir vaktina.

Síðkvöld við Hlíðarvatn
Síðkvöld við Hlíðarvatn

Sunnudagurinn rann upp með örlítið öðru veðri, smá blástur en fallegt engu að síður. Við héldum uppteknum hætti og röltum inn með Fellsbrekku og bættu einum sjö urriðum í safnið áður en við tókum saman og héldum heim á leið og skeggræddum alla kosti þess að sækja um aðild að SVFB og þær flugur sem gáfu í þessari veiðiferð. Þær voru sem sagt; Orange Nobbler, Orange Nobbler, Orange Nobbler, svartar þurrflugur, Heimasætan, Krókurinn og að ógleymdum Orange Nobbler.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 9 110 130 13 / 12 23 / 32 12 14

Hlíðarvatn í Hnappadal, 25.júlí

Til margra ára höfum við heimsótt Hlíðarvatn í Hnappadal, stundum oft á ári en hin síðari ár aðeins einu sinni og ég geri ráð fyrir að þessi ferð helgarinnar verði sú eina á þessu ári. Oftast höfum við veitt fyrir landi Heggsstaða og svo var einnig í þetta skiptið. Undanfarin ár hefur slóðinn frá Heggsstöðum og inn að vatni verið torfarinn og ekki hefur hann skánað þetta sumrið. Það má segja að hingað til hafi tveir flöskuhálsar verið á leiðinni inn að vatni; mjótt ræsi í brekkurót á miðri leið og svo ræsið og brekkan niður að vatninu. Nú hefur enn einn farartálmi bæst við rétt fyrir innan bæ. Töluvert hefur runnið úr slóðanum rétt innan hliðs og eins gott að hafa þokkalega hæð undir lægsta punkt og ekki of langt á milli hjóla þegar farið er um þann part. Ég mundi segja að nú sé komin tími á að gera við þennan slóða eða þá að maður sæki sér veiðileyfi í Hraunholti eða Hallkelsstaðarhlíð.

Veðurspá helgarinnar fyrir þennan hluta Hnappadals var með ágætum, miklu betri en raunin varð á þegar inn að vatni var komið á föstudagskvöldið. Snörp norð-austanátt ýfði vatnið all þokkalega en við létum það ekki aftra okkur, settum skotlínur á stangirnar og reyndum fyrir okkur í svo sem tvo til þrjá tíma. Afraksturinn var heldur síðri en oft áður; frúin setti í fjóra fiska, tveimur sleppt og tveir hirtir. Sjálfur setti ég í fjóra, missti tvo (sem auðvitað voru stóri og miklir fiskar) og sleppti tveimur. Fleira bar ekki til tíðinda þetta kvöld og heldur vorum við köld þegar í vagnin var komið laust eftir miðnættið.

Um nóttina jók vind heldur hressilega og hitastig lækkaði enn meira. Eitthvað stilltist hann þó laust fyrir hádegi þannig að við reyndum enn og aftur fyrir okkur, en í þetta skiptið urðum við ekki vör við fisk. Það var eins og hann hefði komið sér tryggilega fyrir í dýpstu álum vatnins eftir rokið um nóttina. Talandi um dýpi, þá er vatnshæð Hlíðarvatns sígild umfjöllunarefni, ár eftir ár. Þetta sumarið er vatnsbúskapur með ágætum, vatnshæð með því mesta sem við höfum séð svona síðla sumars enda síðustu skaflar í nærliggjandi fjöllum rétt ný bráðnaðir en mikið ósköp hefur sumarið farið seint af stað. Fuglalíf hefur oft verið mikið og fallegt við vatnið en í þetta skiptið sáum við aðeins eitt himbrima par, enga svani og engar endur. Smáfuglar í vatnsborðinu voru að vísu nokkrir, en nágranni okkar í Illumýrargili, krían var hvergi sjáanleg.

Eftir að hafa kannað seiðabúskapinn í Illumýrargilslæk á laugardaginn og beðið þess árangurslaust að vind lægði héldum við heim á leið með þessa tvo fiska frúarinnar, frekar súr í bragði. En svona getur nú veiðin verið þegar snögglega kólnar.

Hann lætur ekki mikið yfir sér, Illumýrargilslækurinn sem renndur til Hlíðarvatn, en þarna eru mikilvægar uppeldisstöðvar urriða í vatninu. Til gamans er hér Örklippa sem ég setti saman um seiðin í læknum.

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 0 89 / 104 / 0 17 / 27 9 / 12

 

Hlíðarvatn í Hnappadal, 11. – 12. júlí

Því miður hefur hefðin fyrir ferðum vestur í Hnappadal heldur látið undan síga síðustu ár. Sú var tíðin að farið var 3-4 á sumri í Hlíðarvatnið og veitt heil ósköp. Nokkur ár höfum við bræðurnir og spúsur okkar fylgst með og orðið vitni að gríðarlegum sveiflum í vatnshæð í Hnappadalnum og ég er ekki frá því að við séum að sjá afleiðingar verstu áranna núna. Mér finnst satt best að segja vanta 3ja og 4ra ára fisk í vatnið, þá er ég að tala um urriða. Það sem hópurinn veiddi núna um helgina var mest 2ja ára fiskur og svo mögulega einhverjir 5 ára sem náðust með löngum köstum út í vatnið (flot og maðkur).

Vatnsstaðan er mjög góð í vatninu, með því hæsta sem við höfum séð, en eitthvað hefur skordýralífið látið undan síga. Við skv. venju, veiddum fyrir landi Heggsstaða og gerðum alveg þokkalega veiði, 12 + 4 sleppt á flugu og félagar okkar vel á þriðja tug á flot og maðk á rúmum sólarhring. Við sáum til einhverra veiðimanna í Hallkellsstaðarhlíð á föstudagskvöldið en lítið sást til þeirra á laugardaginn, nema rétt fyrir hádegið. Einhverra varð ég var við á föstudagskvöldið inni við hraunið fyrir landi Hraunholts (Stangaveiðifélag Borgarness) en ég hef heyrt að stofninn þeim megin í vatninu sé í þokkalegu standi og mætti stunda það svæði meira.

Gleðifréttirnar eru að bleikjan í vatninu virðist vera að rífa sig upp úr leiðindum sem hafa hrjáð hana síðustu ár, ekki stór en í góðum holdum og falleg á að líta. Vonandi nær urriðinn sér á strik og étur á sig eitthvað hold það sem eftir lifir sumars. Annars fannst mér lítið um að vera í flæðarmálinu, ekkert síli og minna um flugupúpur heldur en oft áður.

Bleikjur úr Hlíðarvatni í Hnappadal
Bleikjur úr Hlíðarvatni í Hnappadal

Fyrir þá sem hyggjast renna í Hlíðarvatnið fyrir landi Heggsstaða, gætið ykkar á slóðanum niður að síðsta ræsinu áður en komið er að vatninu. Það er illa skorið eftir rigningar síðustu vikna og eins gott að vera á 4×4.

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 0 16 / 11 / 4 13 / 16 15 / 20

Hlíðarvatn í Hnappadal, 28. sept.

Veðurspáin sagði 4 m/sek. og þetta 4-6°C vestur í Hnappadal upp úr hádeginu þannig að maður smellti græjunum í bílinn, heitu vatni á brúsa og skaust vestur að nesinu. Við komumst að vísu ekki að vatninu fyrir landi Heggsstaða vegna vegabóta sem voru ekki alveg klárar, þannig að við fengum að reyna fyrir okkur í Hraunholti.

Ekki hafði nú dregið neitt niður í vatninu frá því við kíktum vestur um miðjan júlí. Ég held að þetta sé fyrsta árið sem ég verð ekki vitni að umtalsverðri lækkun í vatninu, svona er nú sumarið búið að vera hjá okkur þetta árið.

Annars fer nú engum sögum af veiði úr þessari ferð, frekar en mörgum öðrum þetta sumarið. Það brast á okkur töluverður vindur (miklu meira en 4 m/sek.) c.a. tveimur tímum eftir að við mættum á staðinn og við einfaldlega létum það eftir okkur að taka saman áður en við kólnuðum alveg inn að beini og héldum heim á leið með lungun full af fersku lofti. Hefði hann getað haldið aðeins lengur í sér, hefðum við e.t.v. náð rökkur byrjun og þannig náð færi á einhverjum fiski, en það varð nú ekki.

Þar sem farið er að kólna all verulega þessa dagana er ekki fyrirséð að fleiri ferðir verði farnar þetta árið, en hver veit fyrr en allt í einu. Ég ætla í það minnsta ekki að ganga alveg frá græjunum, ef ske kynni…….

Haustlitir
Haustlitir

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 0 19 / 25 / 0 9 / 25 39

 

Hlíðarvatn í Hnappadal, 17.júlí

Í það minnsta einu sinni á ári höfum við hjónin farið í Hlíðarvatn í Hnappadal. Og hvaða dagur var betri til þess heldur en dagurinn eftir Hlíðarvatn í Selvogi. Við sem sagt lögðum land undir fót á þriðjudag, héldum vestur í Hnappadal og komum okkur fyrir við vatnið í landi Heggsstaða. Það skall á okkur hrein og bein blíða með köflum á miðvikudaginn og fljótlega setti ég í einhverja þá flottustu bleikju sem ég hef náð í Hlíðarvatni á Peacock og heldur lifnuðu nú vonir okkar hjóna um góða veiði, en ……. það komu einfaldlega ekki fleiri fiskar á land á flugu í þessari ferð. Eftir langa bið, rétt á meðan ég flutti innihald eins bjórs úr bauk yfir í belg slæddist ein bleikja til viðbótar á ánamaðk sem fékk að baða sig undir flotholti. Að vísu missti ég þrjá fiska eftir afskaplega naumar tökur og auðvitað voru þetta með stærstu fiskum og ég tel næsta víst að þetta hafi verið bleikjur, í það minnsta voru tökurnar þannig, en fiskan sá ég aldrei því allir ruku þeir niður á botn strax eftir töku og veltu sér þannig að þeir losnuðu.

Nú er hægt að velta töluverðum vöngum um það hvers vegna þetta gjöfula vatn gaf ekki fleiri fiska en þessa tvo, en ég leitaði einfaldlega til ábúanda Heggsstaða, Alberts Guðmundssonar og spurði hann álits. Hann taldi víst að þrenn síðustu sumur hafi hoggið veruleg skörð í fiskistofnin í vatninu, sérstaklega sumarið 2011 sem hafi slegið öll met hvað varðar lélega vatnsstöðu. Lágt vatnsborð hefur væntanlega gengið veruleg að nýliðum bleikju og urriða dauðum og vatnið getur þurft 3-4 ár til að rétta úr kútinum. Þetta samsvarar þokkalega ástandi þessara tveggja bleikja (ef eitthvað er að marka svo lítið úrtak) því þær voru miklu betur haldnar en þær bleikjur sem við höfum veitt þarna á síðustu árum. Kannski er þetta tilfellið; eldri og færri fiskar, betur haldnir og bara svona miklu erfiðara að nálgast þá í vatninu núna þegar vatnsborðið er með hæsta móti. Hvað um það, næsta ár stefnum við á að fara síðar á sumrinu og sjá til hvernig okkur gengur þegar við þekkjum okkur aðeins betur. Svo hátt var í vatninu núna að ‘gömlu góðu’ staðirnir voru einhvers staðar lengst úti í vatninu og maður næstum bara ‘lost’ eins og krakkarnir segja.

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 2 18 / 20 / 0 5 / 18 28

Hlíðarvatn, Hnappadal 3.- 5. ágúst

Þegar maður kemur að vatni sem maður telur sig þekkja alveg þokkalega og fiskurinn er eiginlega ekki þar sem hann er vanur að vera, þá þarf að breyta til, það sannaði þessi helgi. Við hjónin ákváðum á föstudaginn að heimsækja Mosó gengið sem hafði farið vestur í Hnappadal deginum áður og gert þokkalega veiði í Hlíðarvatni. Að vísu vorum við svo seint á ferðinni á föstudaginn að við gerðum lítið annað en koma okkur fyrir, settum stangirnar saman og tókum tappa af bjórnum.

Smællið fyrir stærri mynd

Til að klára skildupartinn; Veðrið lék sé að okkur þessa daga, vindur, logn, sól, skýjað o.s.frv. Eins og við var að búast hafði lækkað verulega í vatninu frá því í byrjun júní þannig að við leituðum ‘hefðbundinna’ slóða í vatninu í leit að fiski. Vatnshiti var nokkuð hár, 14-16°C sérstaklega þar sem grynningar lágu langt út í vatnið. Engu virtist skipta að nokkur gára væri, hitastigið hélst nokkuð hátt frá morgni til kvölds. Fiskurinn lét bíða töluvert eftir sér og þeir sem við hjónin tókum á laugardag voru frekar í minni kanntinum, jafnvel af Hlíðarvatnsfiski að vera, skárstu slefuðu yfir 1/2 pund. Við skiptum aflatölum nokkuð jafnt á milli okkar, hvort um sig með 3 fiska, einhverjum sleppt sökum smæðar.

Sökum óspennandi fiskstærðar og almennt lélegrar veiði á laugardag ákvað ég að eyða kvöldinu í rölt inn með vatninu og upp með Fossá og Djúpadalsá, nokkuð sem mig hefur lengi langað. Ekki varð ég var við einn einasta fisk í ánum, hafði raunar gert ráð fyrir að rekast á einn og einn ungliða urriðahreyfingarinnar en það varð nú ekki. Það væri örugglega gaman að rölta upp með ánum að hausti, nóg var af álitlegum veiðistöðum í þeim.

Á sunnudag var lagt á hefðbundnar slóðir án þess að verða vör við fisk. Nú var annað hvort að hrökkva eða stökkva svo við hjónin lögðum á okkur grynningakönnun, langt út í vatnið þar til við náðum ágætu sambandi við kaldara vatn í dýpinu og tókum blandaðan pakka af urriða og bleikjum, samtals 14 stk. sem allir voru um og yfir pundið. Helgin endaði því í samtals 20 fiskum, 9 bleikjur og 11 urriðar. Flugurnar sem gáfu einna best voru; Peacock í öllum mögulegum útfærslum, Pheasant og Héraeyra (original).

Afli helgarinnar

Veiðitölur ársins

Bleikjur Sleppt Urriðar Sleppt Fj.ferða Núllað
 106 14 61 4 30 11

Hlíðarvatn í Hnappadal, 1-3 júní.

Veiðifélagið (þetta nafnlausa) fór í fyrstu ferð ársins í Hlíðarvatn í Hnappadal um helgina. Alveg hreint glimrandi veðurspá gekk fyllilega eftir, sólbrunir og útiteknir veiðigarpar snéru aftur úr ferðinni. Mér telst til að þetta sé með allra fyrsta móti sem við höfum farið í vatnið, heilum tveimur vikum fyrr en áður. Þótt staðkunnugur hafi sagt okkur að vatnið væri í eðlilegri hæð m.v. árstíð, þá vorum við öll frekar hissa á því hve hátt vatnið stóð. Bakkinn okkar þar sem við höfum oftast slegið upp vögnum var meira eða minna á kafi í vatni.

Straumendur við Hlíðarvatn

Föstudagskvöldið gaf okkur öllum ágætlega þrátt fyrir nokkuð stífa norðaustan átt framan af. Mosfellingar, sem mættu örlítið á undan okkur Reykvíkingunum gerðu fína veiði en við hjónin tókum samtals 7 fiska, 3 bleikjur og 4 urriða. Ég verð að játa að mér brá nokkuð hve urriðinn var helst til rýr eftir veturinn, hefði haldið að hann ætti að vera búinn að ná stinnara holdi eftir veðurblíðuna síðustu vikur, bleikjan virtist vera nokkuð betur haldin. Allir fiskarnir sem við tókum komu á land fyrir miðnættið, en veðurblíðan og stillan sem skall á okkur var slík að við höfðum okkur ekki í bælið fyrr en um kl.4

Þeir eiga það sameiginlegt, laugardagurinn og sunnudagurinn að veðrið lék við okkur frá morgni til kvölds, eins fallegir dagar og þeir geta orðið á Íslandi. Laugardagurinn var merkilegur fyrir frúnna að því leiti til að hún, í blíðunni um morguninn, tók sinn fyrsta fisk á þurrflugu. Af viðbrögðunum að dæma og hrifningunni af tökunni geri ég ráð fyrir að hvert tækifæri verði nýtt í framtíðinni til að veiða þurrfluguna. Eitthvað var aflabrögðum misskipt, eins og svo oft áður, á milli okkar hjóna þessa daga og endaði ferðinn með því að frúin var með 10 fiska á land, en ég 8. Heimalingurinn okkar brá sér síðan út í vatnið síðla sunnudags og sýndi gamla settinu hvernig taka skal fisk án þess að eyða allri helginni í það. Eftir örfá köst lá vænn urriði á bakkanum, sá stærsti í ferðinni. Slatta af fiski var sleppt sem ekki náði mat-hæfni, en flestir fiskanna voru á bilinu 1/2 til 1 pund.

Veiðitölur ársins

Bleikjur Sleppt Urriðar Sleppt Fj.ferða Núllað
 30 10 17 2 16 11

Hlíðarvatn, Hnappadal 20. & 21. ágúst

Það er viss hefð fyrir því hjá veiðifélaginu að taka eina helgi í ágúst við Hlíðarvatn og nú sem áður varð Menningarnæturhelgin fyrir valinu. Mosó mætti á staðinn síðdegis á föstudag og tók til óskiptra málanna fram í myrkur við að særa upp fiska með maðk á floti. Alveg þokkaleg viðbrögð og nokkrir fallegir fiskar lágu í kæli eftir kvöldið. Reykjavíkurdeildin mætti það seint á staðinn að stangirnar voru bara látnar hvíla sig eftir ferðalagið.

Hlíðarvatn í Hnappadal

Laugardagurinn rann upp, ekki alveg eins fagur og hér á myndinni en þokkalegur samt. Nokkur vindur þannig að flugunum var leyft að sofa frameftir. Ekki var alveg eins mikið líf í tuskunum og kvöldið áður, en mér tókst samt að særa upp þrjá urriða á spún við Stjánaströnd. Þegar vind stillti eftir hádegið voru flugurnar vaktar og þær settar í vinnu. Við hjónin tókum svolítið bland í poka á Peacock og græna og orange Nobbler, bleikjur og urriða fram að og eftir kvöldmat en brósi fór alveg á kostum með hrogn á floti og reif upp rúmlega 20 urriða á stuttum tíma inn af Tótutanga. Úrræðagóður strákurinn í maðkaleysinu. Nú er bara að kynna sér hrognafræðin.

Sunnudagurinn, eða Stóri-Bleikjudagurinn eins og hann verður kallaður hér eftir, rann upp fyrir okkur hjónum um 7:30 með yndislegu veðri, hita, algjöri stillu og fiskum að vaka undan Lárulág. Jú, við hjónin drifum okkur í vöðlurnar og ætluðum aðeins að stríða þessum tittum sem voru að vaka, en svo kom áfallið. Þetta voru bara ekkert einhverjir tittir, heldur heilu torfurnar (50-80 stk. pr. torfu) af bleikju sem dreifðu sér með reglulegu millibili við ströndina í aðeins ökkladjúpu vatni. Við fyrstu skref út í vatnið varð það eins og suðupottur á að líta þegar styggð komst að fiskinum. Bleikjan var greinilega farinn að hópa sig fyrir hryggningu enda flestir fiskarnir farnir að taka á sig riðbúning, misjafnlega mikið þó og fáir svo mikið að þeir sýndu flugu ekki áhuga. Svo mikill var atgangurinn og veiðin að við hjónin vorum fljót að fá nægju okkar og settum okkur því reglu; aðeins mátti taka tvo fiska á hverja tegund flugu, þá varð að skipta. Með þessu náðum við ágætri yfirsýn og reynslu með misjafnar flugur í bleikjuna; flestar gáfu í 1 – 3 kasti, fáar ekki. Stuttur listi yfir þær flugur sem gáfu gæti verið; Peacock í öllum mögulegum stærðum og útfærslum (yfirburðir), Ripp, Rapp, Rupp, Davy Jones, Knoll, Connemara Black, Watson’s Fancy púpa, Mobuto, Tailor, hefðbundið og flashback Héraeyra. Þegar svo Mosódeildinn reis úr rekkju toppaði mágkonan ferðina með því að taka sína fyrstu fiska á flugu og þótti það sko ekki leiðinlegt. Allir prófuðu eitthvað nýtt, gerðu tilraunir með flugur, breytilegan inndrátt og æfðu sig í að bregðast við naumum tökum bleikjunnar; sannkallaður fluguveiðiháskóli.

Það var svo ekki fyrr en eftir hádegið að aðeins fór að draga úr veiðinni og maður þurfti að hafa aðeins meira fyrir hverjum fiski en veiðin hélst alveg fram undir kvöldmat þegar mál var komið að pakka saman og koma sér heim. Eitthvað fór talning afla á milli daga í rugl, en samtals afli var eitthvað á þá leið að Mosó var með 42 fiska, mest urriða og töldu þar mest 25 stk. á hrogn. Reykjavíkurdeildin var með 7 urriða og 54 bleikjur, samtals 61 fisk. Allt fiskar af ágætri ‘matfiska stærð’, tæpt pund og upp í tvö. Hér eru ótaldir allir fiskar sem var sleppt eða sluppu. Toppur sumarsins.

Hlíðarvatn, Hnappadal 4. – 7. júlí

Eftir nokkrar vegabætur reistu báðar deildir veiðifélagsins búðir sínar á bökkum Hlíðarvatns í landi Heggsstaða að kvöldi mánudagsins 4.júlí. Veðurspáin gerði ráð fyrir léttum vindi frá 0 – 8 m/sek. úr öllum áttum sem gekk eftir þannig að maðkastangirnar voru hafðar til taks.

Við höfðum frétt af lélegri veiði í vatninu vikuna á undan, fáir og litlir fiskar, þannig að væntingarnar voru lágstemmdar sem skilaði sér í gríðarlegum fögnuði yfir hverjum fiski sem kom á land. Mánudagskvöldið var rólegt, nýttum það helst til að ná áttum við vatnið sem hafði tekið miklum breytingum frá því í fyrra. Þriðjudagurinn var ágætur, hraðfleygt logn og mest veiði um kvöldið upp í ölduna við Tótutanga. Miðvikudagurinn rann upp með logni og glampandi sól, hreinni rjómablíðu þannig að eiginkonan stóðst ekki mátið heldur vatt sér í dressið og út í vatn með flugustöngina, fyrir morgunverð. Fljótlega fór Mosó-deildinn af stað og tók til við að landa hverjum fiskinum á fætur öðrum þannig að fljótlega varð útséð um hvor deildin ætlaði sér vinninginn. Kvennpartur Mosó deildarinnar fylltist þvílíku kappi rétt fyrir kvöldmat að nánast ekkert varð eftir af fiski í vatninu fyrir kvöldveiðina og ávann sér þannig inn eitt örnefnið enn við vatnið, Lárulág. Endanlegar aflatölur urðu þær að Reykjavíkur-deildin tók samtals 21 fisk á tvær stangir, þar af 1 á Beiki, 1 á Watson’s Fancy púpu, 2 á Peacock og 1 á svartan Toby, restina á maðk. Eins og við var búist átti Mosó-deildin vinninginn með 33 fiska, allt á maðk. Hef lúmskan grun um að kynjahlutfall hafi verið okkur bræðrum óhagstætt, ekki orð um það meir.

Smellið fyrir stærri mynd

Ég notaði tækifærið til smá náttúruskoðunar og myndatöku af nokkrum íbúum vatnsins, smá efnisöflun fyrir bloggið. Náði mjög góðum myndum af nokkrum vorflugupúpum sem ég hyggst nota í smá umfjöllun um litlar flugur og trú manna á þeim. Auðvitað verður fjallað um vinsælustu eftirlíkingu vorflugupúpunnar, Peacock sem sést hér til hliðar í hópi ‘original’ púpa úr Hlíðarvatni.

Að lokum er rétt að árétta að GPS hnit örnefna við vatnið; Tótutangi, Lárubotn, Lárulág, Pétursklettur og Stjánaströnd, verða ekki gefin upp að svo komnu máli.