Veðurspáin sagði 4 m/sek. og þetta 4-6°C vestur í Hnappadal upp úr hádeginu þannig að maður smellti græjunum í bílinn, heitu vatni á brúsa og skaust vestur að nesinu. Við komumst að vísu ekki að vatninu fyrir landi Heggsstaða vegna vegabóta sem voru ekki alveg klárar, þannig að við fengum að reyna fyrir okkur í Hraunholti.
Ekki hafði nú dregið neitt niður í vatninu frá því við kíktum vestur um miðjan júlí. Ég held að þetta sé fyrsta árið sem ég verð ekki vitni að umtalsverðri lækkun í vatninu, svona er nú sumarið búið að vera hjá okkur þetta árið.
Annars fer nú engum sögum af veiði úr þessari ferð, frekar en mörgum öðrum þetta sumarið. Það brast á okkur töluverður vindur (miklu meira en 4 m/sek.) c.a. tveimur tímum eftir að við mættum á staðinn og við einfaldlega létum það eftir okkur að taka saman áður en við kólnuðum alveg inn að beini og héldum heim á leið með lungun full af fersku lofti. Hefði hann getað haldið aðeins lengur í sér, hefðum við e.t.v. náð rökkur byrjun og þannig náð færi á einhverjum fiski, en það varð nú ekki.
Þar sem farið er að kólna all verulega þessa dagana er ekki fyrirséð að fleiri ferðir verði farnar þetta árið, en hver veit fyrr en allt í einu. Ég ætla í það minnsta ekki að ganga alveg frá græjunum, ef ske kynni…….

Veiðitölur ársins
Bleikjur í ferð | Bleikjur alls | Urriðar í ferð | Urriðar alls | Fj.ferða |
---|---|---|---|---|
0 / 0 | 19 / 25 | 0 / 0 | 9 / 25 | 39 |