Watson’s Fancy

Watson's Fancy
Watson’s Fancy

Ein af mínum uppáhalds og framlag mitt í Febrúarflugur 2016. Flugan er Skosk eins og svo ótal margar frábærar klassískar flugur. Hnýtt af Donald nokkrum Watson frá Inverness. Það hefur vafist fyrir mönnum í fjölda ára hverju Donald var að reyna að líkja eftir þegar hann hnýtti þessa uppáhaldsflugu sína en trúlega hefur hann ekki haft neitt ákveðið í huga annað en það að urriðinn sækir í flugur með skörpum litaskilum.

Votflugur

Áður en ég áhugi minn á fluguveiði færðist yfir í þráhyggju, komu alltaf ákveðnar flugur upp í huga mér þegar veiðiflugur bar á góma. Þið getið ímyndað ykkur hvað mér brá síðan þegar ég fór að stunda og spá í fluguveiði fyrir alvöru og sá t.d. Prince Nymph, Pheasant Tail og Nobbler. Þetta voru bara ekkert flugur eins og þær sem ég hafði alltaf í huga; Teal and Black, Watson‘s Fancy og Dunkeld. Undrun mín varð síðan ekkert minni þegar sölumaðurinn sem seldi mér fyrstu flugustöngina valdi 20 silungaflugur í box fyrir mig. Það var ekki ein einasta votfluga í boxinu; Hva, eru þessar flugur ekkert að virka hér á Íslandi? hugsaði ég með mér, þakkaði fyrir mig og lagði af stað í mína fyrstu fluguveiðiferð með úrval af púpum og kúpum og hvað þær nú hétu allar. Engin þurrfluga, engin votfluga, engin straumfluga.

Þegar ég síðan lagði leið mína í verslunina til að fá smá leiðsögn með þetta taumadót og framlengingar sem voru í pakkanum, þá skáskaut ég augun yfir flugubarinn og leitaði að svona flugu eins og þær sem ég sá alltaf í hyllingum. Nei, það bólaði bara ekki á þeim. Ég sá að vísu nokkrar straumflugur, en þær voru rosalega stórar í mínum augum, þannig að ég hélt áfram að baða púpur það sem eftir lifði sumars.

Teal & Black - Watson's Fancy - Dunkeld
Teal and Black – Watson’s Fancy – Dunkeld

Næstu jól dró ég undan jólatrénu þetta líka fína byrjendasett fyrir fluguhnýtara. Já, einmitt, þarna gaf að líta slatta af efni; öngla #10 og #12, einhverjar fjaðrir, flos og hnýtingarþráð. Í minningunni var fyrsta flugan mín frábær; vængurinn fullkominn, hausinn nettur og skottið eggjandi; Watson‘s Fancy votfluga. Ég gat ekki beðið eftir því að vorið kæmi og ég gæti prófað þessa listasmíð mína.

Grínlaust, þá geymdi ég þessa flugu langt fram á sumarið án þess að hreyfa við henni. Kannski var ég einfaldlega hræddur við að eyðileggja hana, svona viðkvæm og nett, en á endanum lét ég verða að því að setja hana undir og viti menn, rúmlega 2 punda urriði var mér hjartanlega sammála; Þetta er flott fluga og smellti sér á hana.

Nú er febrúar á næsta leiti og ég er að hugsa um að tileinka hann votflugum eins og mér finnast þær fallegastar. Nokkrar þeirra má finna hér á síðunni undir Gamlar myndirJá, Febrúarflugur eru á næsta leiti.

Febrúarflugur

Þegar ég ákvað að stofna til þessa viðburðar á Facebook átti ég ekki von á þeim frábæru undirtektum sem orðið hafa við þessu uppátæki mínu. Núna, þegar viðburðurinn er tæplega hálfnaður, eru þáttakendur orðnir 59 og fjöldi flugna sem lagðar hafa verið fram 72. Viðburðurinn stendur til loka febrúar og sífellt bætast nýjir hnýtarar á áhugamenn um flugur í hópinn, það er því örugglega von á fleiri flugum.

Það er hreint ekki skilyrði fyrir þátttöku að leggja fram flugur, allir geta tekið þátt, lagt til ábendingar eða fyrirspurnir um þær flugur sem aðrir leggja fram.

Hér að neðan má sjá þær flugur sem ég hef sett inn á viðburðinn það sem af er.

Prince Nymph
Prince Nymph
Gylltur Nobbler
Gylltur Nobbler
Watson's Fancy púpa
Watson’s Fancy púpa
Peacock
Peacock
Ónefnd fyrir Veiðivötn
Ónefnd fyrir Veiðivötn
Marabou afbrigði Black Ghost
Marabou afbrigði Black Ghost
Killer
Killer
Black Ghost
Black Ghost

Þurrflugur af bekknum

Ég lét það alveg eiga sig seinni part vetrar að upplýsa um þurrfluguhnýtingar vetrarins. Kannski var ég ekkert of ánægður með útkomuna, baksaði lengi við ýmsar fjaðrir með mismunandi árangri, oftast lélegum. En, svo barst blogginu bréf frá Eiði Kristjánssyni sem færði mér kærkomin útgangspunkt til að tjá mig um þurrflugu(til)raunir mínar í vetur.

Bréfritari ásamt dóttur sinni
Bréfritari ásamt dóttur sinni

Sæll Kristján!

Ég hef nú áður sent þér póst og örugglega komið á framfæri þakklæti mínu fyrir bloggið þitt, en góð vísa er aldrei of oft kveðin og því færðu frá mér fleiri þakkir.

Ég er búinn að setja mér takmark fyrir veiðitímabilið. Ég ætla að fá fisk á þurrflugu. Ég er púpuveiðimaður í húð og hár. Lít helst ekki við „strímerum“, einstaka sinnum hendi ég votflugu undir og aðeins oftar þurrflugu. Oftast set ég þurrfluguna undir þegar ég sé að fiskur er að vaka, en með hjálp google hef ég komist að því að það er ekkert endilega besti tíminn til þess að reyna þurrfluguna. Gáran er víst ekki svo slæm þegar kemur að þessum málum og jafnvel betri, ef eitthvað er. Þá er ég nokkuð viss um að ég megi sýna aðeins meiri þolinmæði með þurrfluguna, en þar sem ég er afar hrifinn af púpunum þá hættir mér til að gefa þurrflugunni lítinn tíma á taumnum, ef nokkurn.

Nú, þar sem ég ætla að veiða meira með þurrflugu í sumar þá langar mig að sjálfsögðu að hnýta mínar eigin. En þar stendur hnífurinn í kúnni. Ég er búinn að vera vandræðast með efni í þurrflugur. Nú veit ég allt (kannski ekki allt en slatta) um undrafjaðrirnar CDC og virkni þeirra. Það sem ég er hinsvegar að spá í eru þessari „hackle“ fjaðrir sem svo oft er talað um. Ég á hanahnakka fjaðrir í nokkrum litum og hef verið að nota þær í þessa vafninga sem eru ýmist fremst á hefðbundnum þurrflugum s.s Royal Wulff eða í kringum „stilkinn“ á parachute þurrflugum.

Það sem ég er hinsvegar ekki að átta mig á er hvernig í ósköpunum ég á að ná fönunum stuttum og fallegum. Hjá mér eru þær allt of langar og ég enda á að þurfa klippa þær til sem leiðir til þess að flugan verður kjánaleg og eiginlega bara alls ekki eins og fyrirmyndin.

Ég hef lesið á blogginu þínu að konan þín sé hrifin af þurrfluguveiðum svo mér datt í hug að þú hefðir kannski hnýtt einhverjar fyrir hana. Geturðu mælt með einhverju efni fyrir mig, einhverri annarri tegund af fjöðrum eða einhverri annarri aðferð?

Bestu kveðjur, Eiður Kristjánsson

Og nú var komið að mér, ég sauð saman eitthvert svar til Eisa með morgunkaffinu og sendi honum með beiðni um að fá að setja bréfið og svörin mín hér á síðuna, sem auðvitað var auðsótt mál.

Mikið kannast ég við þessi ‚hackle‘ mál. Flestar fjaðrirnar sem ég dró upp úr venjulega ‚Short Cock Hackle‘ pokanum mínum frá Veniard voru annað hvort sveigðar og beygðar eða bara alls ekki ‚short‘ þegar ég var búinn að setja hringvöf á fluguna. Ég brá því á það ráð að tæma pokann á súpudisk og flokka þær niður í eftirfarandi; A. Beygðar og ólögulegar fjaðrir sem ég geymdi í t.d. skott á púpum o.s.frv. B. Langar og beinar nýttust í vængi á straumflugur og að síðustu C. Stuttar og beinar, fíngerðar með stuttum geislum út frá hryggnum sem ég gat nýtt í þurrflugur. Því miður náði síðast greindi flokkurinn ekki nema u.þ.b. 10% af innihaldi pokans, en þó það. Af þessum fjöðrum nýttust síðan 2/3 frá oddi í hringvaf einfaldlega vegna þess að því nær slíðrinu sem dregur lengjast geislarnir og verða í raun allt of langir fyrir litlar silungaþurrflugur. Flugurnar sem urðu til úr þessu voru t.d. Hexía, Black Gnat og Adams.

Annað sem ég kannaði í vetur voru s.k.‘Non-hackle- þurrflugur, en mér fannst einfaldlega ekkert sérstaklega varið í þær, kannski helst vegna þess að þær eru flestar ímyndir skordýra sem sjást nánast ekki hér á Íslandi, ennþá. Án þess að fara neitt nánar út í hvernig þessar flugur heppnuðust hjá mér, þá er hérna flýtileið á Google leit (myndir).

Hamurinn
Hamurinn

Það sem ég fann mig síðan best í og hafði mesta ánægju af í vetur, var að nýta efni sem ég keypti í einhverju brjálæði hérna um árið fyrir vildarpunktana mína í gegnum Amazon, heill hamur af Ringneck Pheasant. Ég hef svo sem verið að grípa í þennan ham annars slagið í votflugur og tók þá eftir því að þær flugur sem ég skreytti ríkulega með grófustu fjöðrunum, flutu eiginlega allt of vel þannig að ég fikraði mig áfram með þetta efni í vetur og úr urðu nokkrar flugur sem upphaflega voru hnýttar úr hjartarhárum eða CDC.

Þurrflugur úr Ringneck Pheasant
Þurrflugur úr Ringneck Pheasant

Allar þessar flugur (#12 og #14) eru úr fjöðrum sem ég tók af einum og sama fuglinum og þær fljóta alveg glettilega vel og eru afskaplega einfaldar í hnýtingu; þurrfluguöngull, flatur hnýtingarþráður aftur eftir önglinum og til baka. U.þ.b. 1/5 lengdar frá auga smellti ég síðan örlitlu fjallalambadöbbi (úr þeli) til að lyfta fjöðrunum sem ég hnýtti niður þétt fyrir framan döbbið. Frágangurinn er ekki flókinn, upp og í brúsk rétt fyrir aftan augað, snyrt í heppilega lengd og hnýtt vel fyrir. Nú er bara að sjá hvernig urriðanum og frúnni líkar þetta í sumar.

Þurrfluguboxið mitt
Þurrfluguboxið mitt

Ummæli

03.04.2013 – HilmarGóðar pælingar drengir. Hef verið í svipuðum vandræðum með efnið í þurrflugur, þ.e. hackle allt of langt sem maður á. Náði þó að láta einn félaga minn og ferðalang koma með Grizzly hnakka frá Whitingfarms heim fyrir mig og verð að segja að þá batnaði framleiðslan til muna. Og næst á dagskrá er að ná í 100 pack frá sama fyrirtæki. Maður þar víst að fjárfesta aðeins í þurrflugu efnivið ef maður ætlar að ná að gera þurrflugurnar sæmilegar. En ein besta þurrflugan er þó caddis og flestir eiga efnivið í það, þ.e. elk eða dear hair, og hnýtt á sama hátt og þú gerir úr ringneck hamnum hér að ofan Kristján. Hér er t.d. ein afar einföld caddis Winona Fly Factory

mbk, Hilmar

03.04.2013 – Siggi Kr. (Svarti Zulu)Þurrfluguhnakkarnir frá Whiting eru klassaefni og reyndar er möguleiki minnir mig að fá nokkrar fjaðrir saman í pakka frá þeim en hver fjöður er mjög löng og getur dugað í margar flugur. Ég held að hann Viðar í gallerí flugum hafi verið með efni frá Whiting til sölu en rétt að benda á að þurrfluguhnakkar eru með því dýrara sem maður fjárfestir í við fluguhnýtingar. Ég myndi allavega byrja á því að kíkja í galleríið ef mig vantaði svona efni. En þess utan vil ég endilega hvetja hann Eið til að byrja að líta líka við strímerum því þeir eru ótrúlega skemmtileg veiðitól ;)

Kv. Siggi Kr.

03.04.2013 – UrriðiStraumflugur FTW! Þar sem að alvöru þurrflugurnar mínar fljóta aldrei meira en 2-3 köst þá skilgreinist “þurrfluguveiðin” mín þannig að ég strippa straumflugur í yfirborðinu og sé urriðann koma upp og ráðast á þær…ekkert flottara en það!

Svar: Frábært að heyra hvað menn hafa sterkar skoðanir á þessu. Sjálfur byrjaði ég mest í vot- og straumflugum en síðar náðu púpurnar yfirhöndinni. Samt sem áður eiga straumflugurnar alltaf öruggt pláss í boxinu og nú í sumar ætla ég ekki að horfa upp á frúnna taka hvern fiskinn á fætur öðrum á þurrflugu án þess að geta veitt henni einhverja samkeppni.

04.04.2013 – Eiður KristjánssonSælir! Ég fann einmitt svona hackle poka frá Whiting Farms í Vesturöst rétt eftir að ég sendi Kristjáni póstinn. Hann kostaði rétt tæplega 6.000 krónur!! Reyndar stór poki en alltof dýr. Ég eiginlega gafst upp á “vafnings” þurrflugunum í bili og skellti í nokkrar í ætt við þær sem Kristján birtir hér að ofan. Þær komu virkilega vel út, hlakka til að prófa þær. Notaði reyndar bara venjulegar fjaðrir í þær, hana og urtönd. En þær fljóta vel.

Þetta með straumflugurnar er svo náttúrulega bara persónubundið. Ég notaði straumflugur nokkuð mikið þegar ég var að byrja og fiskaði ekki mikið. Um leið og ég fór að halda mig meira í púpunum fór ég hinsvegar að fiska mun meira. Ég hef bara svo rosalega litla trú á straumflugum, sem er náttúrulega bara vitleysa :)

05.04.2013 – Urriði: Ég er náttúrlega langmest að veiða í straumvatni þar sem straumfluguveiði er auðveldari. Ég veiði alveg jafn vel á púpur og ef e-ð er þá eru þær öflugri og fjölbreyttari veiðitæki….það er bara svo ógeðslega gaman að sjá urriðann koma upp í yfirborðið og ráðast á fluguna (sjá 0:15 hérna)  

og (2:17 og 5:40 hérna)


Í vatnaveiði eru púpur hinsvegar í sérflokki, plús það er bara ekki jafn gaman veiða á straumflugur í vatnaveiði og í straumvatni. Þess vegna nota ég púpur meira í vatnaveiði. Ég verð samt mættur með með straumflugu í ljósaskiptunum í maí og júní til að ná mér í 5kg+ urriða í stórurriðavatninu mínu!

Þurrflugur hafa hingað til bara pirrað mig þar sem að flugurnar fljóta aldrei og línan fælir alla fiska í 100 metra radíus…núna er ég hinsvegar kominn með nettan tvist svo vonandi gengur mér betur með þessa nettu yfirborðsveiði í sumar :)

Af bekknum í boxin

Það er væntanlega við hæfi að óska veiðimönnum til hamingju með daginn í dag, 1.apríl. Fyrstu vötnin að opna eftir vetrarfrí sem vonandi flestir hafi notað vel til hnýtinga og lestur góðra veiðibóka.

Síðari hluta vetrar hef ég leyft mönnum að skyggnast í hnýtingarlistann minn fyrir vertíðina sem er að hefjast í dag með greinum undir heitinu ‘Af bekknum’. Nú eru flestar flugurnar komnar í geymsluboxin, sem eru auðvitað frá IcePete og klárar fyrir sumarið, þ.e.a.s. straum- og votflugur auk púpa. Þurrflugurnar eru örlítið færri eftir veturinn, geri þeim skil síðar. Eins og sjá má eru þetta nokkrar flugur, raunar nokkuð fleiri en þær sem ég hef talið til í þessum greinum mínum í vetur. Það eru ekki aðeins silungarnir sem gína við flugum, ég er ekkert skárri á ráfi mínu á veraldarvefnum, ef ég sé eitthvað spennandi verð ég bara að prófa og þannig bætast stundum nokkrar við sem ekki voru á upphaflegum hnýtingarlista vetrarins.

Geymsluboxin fyrir sumarið
Geymsluboxin fyrir sumarið

Með von um að veiðimenn láti nú sjá sig við vötnina í dag, í það minnsta til að óska hverjum öðrum til hamingju með daginn, þakka ég fyrir samfylgdina í vetur og vona að einhverjir hafa haft gaman og e.t.v. eitthvert gagn ‘Af bekknum‘.

Pheasant Tail

Frank Sawyer
Frank Sawyer

Með þessari grein lýkur í raun yfirferð minni yfir nokkrar af þeim flugum sem ég hnýtti í vetur. Það er ekki seinna vænna því ekki á morgun, heldur hinn, hefst tímabilið formlega og eflaust láta einhverjir sig hafa það, hvernig sem viðrar, að heimsækja einhver veiðistað og reyna fyrir sér í vorinu.

Síðasta flugan af bekknum er auðvitað Pheasant Tail. Höfundur flugunnar, Frank Sawyer lagði mikla vinnu í og prófaði sig lengi áfram með ýmsar útfærslur af henni áður en hann var sáttur. Gaumgæfilegar athuganir hans á lífríki árinnar Avon leiddu smátt og smátt af sér þessa ódauðlegu flugu sem vel flestir veiðimenn þekkja. Einfaldleika hennar verður best lýst með efnisvalinu; öngull, koparvír og fasanafjaðrir. Fæstir hnýta hana eins einfalda í dag og Sawyer gerði á sínum tíma. Flestir bæta í það minnsta hnýtingarþræðinum við, ef ekki, þá í það minnsta tonnataki til að tryggja hausinn.

Ég nota þráð og ég nota e.t.v. meiri og grófari koparvír heldur en mörgum þykir við hæfi. Í vængstæðið er ég líka óhræddur við að nota brúnleitt dub úr íslensku fjallalambi. Eflaust þykir einhverju svo mikið út frá upprunalegu uppskriftinni bera að nefna ætti kvikindið eitthvað annað en Pheasant Tail, en….. Nei, ég nefni hana Pheasant Tail, punktur og basta. Já, og stærðirnar mínar eru legglangur #12 og #14 og stuttur #12, #14 og #16.

Pheasant Tail
Pheasant Tail

En fyrir hreintrúarmenn, þá er hér smá klippa þar sem Oliver Edwards sýnir hvernig Frank hnýtti fluguna upprunalega.

Héraeyra

Héraeyrað hefur fylgt fluguveiðimönnum frá örófi alda liggur mér við að segja. Mér hefur flugan fylgt alveg frá því ég eignaðist fyrstu hnýtingargræjurnar. Fyrst var hún bústin, síðar enn bústnari en hin síðari ár hefur hún gengið í gegnum nokkuð alvarlegan niðurskurð og á sama tíma hef ég fært mig frá tinsel vöfum og flash-back útgáfum í mjóslegna flugu með nokkuð áberandi koparvír. Svo hef ég látið það eftir mér að framkvæma þau helgispjöll að nota hár úr íkorna í skottið á henni.

Fátt er vitað um höfund flugunnar, margir verið nefndir en fáir tilnefndir fyrir alvöru. Hvað um það, þessi fluga er önnur vinsælasta fluga silungsveiðimanna á heimsvísu, hvort sem hún er nú veidd ein og sé í löngum taumi eða í félagi við aðrar sem afleggjari (dropper). Í mínu boxi er hún í stærðum #12, #14 og #16 með haus úr Rusty Brown hnýtingarþræði, sem eru náttúrulega bara tiktúrur í mér, ekki of brúnt og ekki of rautt. Uppskrift og alveg stórfína klippu má finna hér.

Héraeyrað #12, #14 & #16
Héraeyrað #12, #14 & #16

Watson’s Fancy – púpur

Í gegnum tíðina hef ég alltaf átt Watson’s Fancy púpu með silfurvafi og silfurkúlu í boxinu. Einstaka sinnum hefur síðan gyðla í stíl slæðst í boxið og svo berrassaður grubber sem hefur fengið að halda viðurnefninu Watson’s þó hann ætti e.t.v. frekar að vera kenndur við orm, blóðorm. Hvað um það, í minningunni er Watson’s Fancy púpan eina flugan með silfruðum kúluhaus sem hefur krækt í bleikju fyrir mig. Trúlega er þetta bara eitthvert bull í mér, en ég verð eiginlega að eiga nokkur svona kvikindi, annars finnst mér eitthvað vanta í boxið. Kannski er það vegna þess að ég hef ekki alveg fundið mig með Killer, frekar veðjað á þessa klassísku rauðu og svörtu púpu sem flestir silungsveiðimenn kannast við. Stærðirnar; smærri frekar en stærri, #12, #14 og #16.

Watson's afbrigði
Watson’s afbrigði

Hérinn

Þær þurfa ekki allar að vera flóknar eða fancy til að ganga í augun á silunginum og hér er ein sönnun þess. Afskaplega einföld fluga; krókur, kúla, tan þráður, koparvír og héradub. Ef fyrsta fluga byrjenda í fluguhnýtingum er t.d. Peacock, þá gæti þessi verið ágæt #2 ef menn vilja æfa sig í meðferð dub’s, mistök skipta engu máli, það má alltaf bæta við og mér hefur fundist hún nánast aldrei geta orðið of bústinn.

Hérinn er auðvitað bara einfölduð útgáfa að Héraeyranu heimsfræga og hefur fyrir löngu tekið frá fast sæti í boxinu mínu. Auðvitað verður hann með í för næsta sumar, bæði beinn og boginn (grubber) í stærðum #10, #12 og #14.

Hérar, bognir og beinir
Hérar, bognir og beinir

Ummæli

15.03.2013 – UrriðiÉg er pínu forvitinn um ykkur sem eruð álíka afkastamiklir í hnýtingum og meðalstór verksmiðja… þurfið þið allar þessar flugur? Ég er að missa svona 5-10 flugur á sumri, ef ég hnýtti svona mikið fyrir hvert sumar þá yrði ég að kaupa mér fleiri tugi veiðiboxa. Ætli ég hafi ekki hnýtt innan við 10 nýjar flugur fyrir þetta sumar og gert við svona 10 gamlar sem voru farnar að tætast.
Skil reyndar að það sé gaman að hnýta, sérstaklega í góðra vina hópi :)

Svar: Sko, ég er náttúrulega svo heppinn að vera að hnýta fyrir okkur bæði, hjónin. Annars er svarið auðvitað nei, ég hef örugglega ekkert að gera við allar þessar flugur en mér finnst kvöldunum ekkert síður varið í hnýtingar heldur en sjónvarpsgláp. Því miður hefur mér ekki tekist að ná saman ‘góðra vina hóp’ í hnýtingar t.d. á mínum vinnustað og svo er ég náttúrulega svolítið sér á parti, vinn mér inn efni og flugur langt fram í tímann fyrir þessa síðu. Er t.d. kominn með efni og búinn að setja á schedule greinar fram til loka júní.

16.03.2013 – Eiður KristjánssonÉg hnýti oftast 5 stykki í tveimur stærðum af hverri flugu fyrir sig. Er svo með 4-5 box með mér í bakpoka þegar ég fer að veiða en eitt í vöðlujakkanum/vestinu sem ég vel í.

Ég hnýti líka oftast aðeins extra þar sem mér finnst afar ánægjulegt að hafa flugur aukalega til að gefa ef ég lendi á spjalli við einhvern veiðimann á bakkanum.

Vorflugupúpur

Á meðan ég var að hnýta Peacock í gríð og erg reikaði hugurinn út og suður og upp í kollinn á mér kom þessu spurning; Er líf eftir Peacock? Já, auðvitað. Þegar vorflugupúpan skríður loks út úr húsinu sínu, svamlar hún um í nokkrun tíma þar til hún rís upp að yfirborðinu og verður að fullvaxta flugu. Á þessum tíma kemur eiginlegur litur púpunnar í ljós og oftar en ekki er hún ljósleit og nokkuð áberandi í vatninu. En, vitaskuld er hún til í ýmsum litum sem mér skilst að ráðist mest af þeirri fæðu sem hún leggur sér til munns á meðan hún lifir í hylkinu.

Þegar svo ber undir að maður verður var við einhvern fjölda á þessu stigi í vötnunum, er ekki óalgengt að maður grípi til Héraeyrans eða Héranns, en svo má líka vera með eitthvað þessu líkt í boxinu. Þannig verðu það í það minnsta í sumar hjá mér. Hnýtt á grubber #10, feit og pattaraleg.

Húsnæðislausar vorflugupúpur
Húsnæðislausar vorflugupúpur

Ummæli

06.03.2013 – HilmarÞetta er nú besta nafngift sem ég hef séð lengi á púpum, þú átt eftir að moka inn á þessa í sumar.

mbk, Hilmar

08.03.2013 – Kristinn / veida.isÞessi er flott, veiðileg – hún yrði líklega framarlega í röðinni hjá (mér) að fara undir.

15.03.2013 – UrriðiÉg án djóks hnýtti nákvæmlega eins flugur fyrir nokkrum árum. Hef samt af einhverjum ástæðum aldrei notað þær. Hef reyndar notað aðra útgáfu af heimilislausri vorflugupúpu með góðum árangri :)

Svar: Já, nú held ég bara áfram að ergja þig, Urriði. Hvernig væri nú að þú kæmir þér upp bloggi og settir eitthvað af þínum verkum á framfæri. Þú hefur sýnt það svo um munar að þú lumar á ýmsu skemmtilegu sem við hinir veiðinördarnir súpum hveljur yfir.

16.03.2013 – UrriðiÞetta kemur allt á netið á einn eða annan hátt, hvort sem það er á veidi.is eða veiðidelluhópnum :) Ég nenni ekki að sjá um það sjálfur að halda úti vefsíðu, plús efnið yrði 99% eintómar montsögur frá leynistöðum sem yrði fljótt þreytt.

Peacock

Jú, auðvitað er Peacock í boxinu og ekki bara hefðbundinn. Svona í fljótu bragði dettur mér engin önnur ‘Íslensk’ fluga í hug sem hefur komið fram í eins mörgum og mismunandi útgáfum eins og Peacock. Að sama skapi held ég að fáar flugur hafi fengið eins mikla umfjöllun í gegnum tíðina. Í einfaldleika sínum hefur hún virkað prýðilega vel alveg frá því Kolbeinn Grímsson sauð hana saman á bökkum Hlíðarvatns í Selvogi. Síðar hafa svo veiðimenn flækt málið, leyft flugunni að nálgast frænkur sínar erlendis og eflaust þykir einhverjum sem hér sé ekki lengur um sömu fluguna að ræða.

En, hvað um það. Stuttur, langur og svo bústinn með brúnum haus og urriðabaninn með rauðum haus, þetta eru helstu afbrigðin sem ég hef í boxinu mínu. Svo slæðast auðvitað nokkur önnur afbrigði með, svona allt eftir því hvað manni dettur í hug við hnýtingarnar. Stærstur finnst hann #8 hjá mér með ríkulegu undirvafi til að gera hann bústnari. Uppskrift hér og ýmislegt annað hér, hér og hér.

Stuttur, Langur, Feitur og Rauðhaus
Stuttur, Langur, Feitur og Rauðhaus

Ummæli

15.03.2013 – UrriðiDjöfull eru þessar flottar!

Svar: Já, sá gamli (Peacock) stendur alltaf fyrir sínu.

Blóðormur

Nú í vetur las ég nokkuð skemmtilega grein eftir Simon Gawesworth um Buzzer og það sem aðskilur hann frá Blóðormi. Í stuttu máli; Buzzer er bara samheiti veiðimanna yfir lirfur rykmýs, ekki bitmýsins, sem finnast á stjái í vötnum norðanverðrar Evrópu þegar kemur að því að flugan klekst út. Simon er afar stífur á því að Buzzer getur aldrei verið rauður, þá heitir hann Blóðormur (Bloodworm) og er fastur við botninn. O, jæja, hugsaði ég með mér, hverju skiptir hvað við köllum kvikindið, svo lengi sem það gefur fisk. Síðan settist ég niður og hnýtti nokkrar útgáfur af Blóðormi (þessum rauða) til að hafa í boxinu í vor, já og raunar langt fram á sumarið.

Ég get svo sem verið sammála Simon að Buzzer og Blóðormur séu bara samheiti flugna og því eru Blóðormarnir mínir afskaplega mismunandi í útliti og lögun. Þegar svo kemur að því að velja Blóðorm fyrir fisk ræður skap mitt í það og það skiptið væntanlega meiru um valið heldur en gaumgæfileg skoðun á útliti þeirra í vatninu. Það er nefnilega alls ekki svo einfalt að greina útlit þeirra í vatninu, maður velur bara einn og skiptir um þangað til hann bítur á.

Nokkrir af blóðormunum mínum
Nokkrir af blóðormunum mínum

WD-40

Þegar þessi verður til í skotinu mínu og fyrir valinu verður grubber öngull þá heitir hún WD-40. En þegar beinn öngull verður fyrir valinu, þá fær hún í mínum huga heitið Tailor. Auðvitað eru þær ekki eins, meira að segja töluverður munur á þeim m.v. uppskriftirnar en þegar upp er staðið og þær komnar í vatnið er lítill munur á þeim, í það minnsta eins og ég hnýti þær. Ég hnýti þessa flugu (WD-40) með Ultra Dark Brown 70 þræði til að ná fram áberandi skilum í búk flugunnar þegar hún er komin í vatnið, það myndast skemmtilegur contrast á milli ullar og þráðar sem silungurinn virðist alveg gleypa við.

Þessar flugur eru hluti ættartrés Pheasant Tail þótt hráefnið sé allt annað. Allar þrjár eru ómissandi í boxinu þegar gráðugur silungurinn er annars vegar.

WD40 - #10 & #14
WD40 – #10 & #14

Higa’s SOS

Sú fluga sem kom mér mest á óvart árið 2012, Higa’s SOS. Það var í lok árs 2011 að ég rakst á skemmtilega grein um þessa sára einföldu flugu sem gert hafði góða hluti vestan hafs þá um árið. Eftir að hafa prófað að hnýta kvikindið setti ég uppskriftina að henni hingað á síðuna og reyndi hana svo fyrir alvöru s.l. sumar. Í sem fæstum orðum; stórkostleg fluga sem ég veit að fleiri hafa prófað með mjög góðum árangri.

Þó upprunalega uppskriftin nefni silfurkúlu, þá hef ég látið það eftir veiðifélaga mínum að setja á hana svarta kúlu fyrir næsta sumar. Það kemur síðan í ljós hvor virkar betur, silfur eða svört. Ég fer ekki í veiði án þessarar flugu í stærðunum #10 – #16 og nú er búið að fylla á tvö box af þessu undrakvikindi.

Higa's SOS
Higa’s SOS

Ummæli

Ingó – 10.02.2013Ég hnýtti haug af þessari síðasta vetur og hún gaf ótrúlega vel í Þingvallavatni eftir miðjan júní. Þá virtist engu máli skipta hvort hún var hnýtt með vængstubb úr glitþræði eða ekki. Spennandi að sjá hvort bleikjan tekur hana jafnt grimmt næsta sumar eða hvort hún verður komin úr tísku :) Ingó

Palli G. – 13.02.2013: Þessari verður klárlega bætt í rotation-ið.

Black Ghost

Bráðdrepandi fluga sem fyrir löngu er búin að sanna sig. Mér liggur við að segja að hún eigi það til að skipa einhvers konar heiðurssess hjá sumum veiðimönnum, hvort sem það er nú verðskuldað eða bara hefð. Ég þekki einn veiðimann sem fékk sinn fyrsta fisk á flugu, einmitt á Black Ghost og eftir það hefur nánast aldrei verið farið í veiði öðruvísi en hann fari undir í lengri eða skemmri tíma. Auðvitað hefur þessi fluga þá gefið viðkomandi veiðimanni marga fiska. Ég hnýti drauginn í stærðum 6 og niður í 12 fyrir þennan aðila, með og án orange ívafi í vængfjöður því stundum er hann spennandi þannig en stundum ekki.

Black Ghost - #6 - #8 - #10 - #12
Black Ghost – #6 – #8 – #10 – #12

Ummæli

03.02.2013 – ÞórunnUppáhalds :)