Gíslholtsvatn

Gíslholtsvatn
Gíslholtsvatn

Austur í Landsveit kúrir þetta annars ágæta veiðivatn, Eystra-Gíslholtsvatn. Þegar ég fór fyrst þarna austur stóð ég í þeirri trú að vatnið væri aðeins eitt en ætti sér frænku í vestri, Herríðarhólsvatn. En svo kemur á daginn að þetta var meinleg villa sem læðst hafði inn í ýmsar veiðistaðalýsingar og handbækur. Réttara reyndist að vötnin eru systur; Eystra- og Vestara-Gíslholtsvatn og hafa aldrei heitið neitt annað.

Þokublámi
Þokublámi

Myndin hér að ofan er tekin skömmu fyrir hádegi í lok maí eftir nokkuð napurt kvöld og enn napurri nótt. Kvöldið áður hafði þokan náð að drepa allan rauðan lit sólsetursins og sveipa umhverfið blárri slæðu. Morgunin eftir var eins og himininn væri ný þveginn, vatnsflöturinn bónaður og hvoru tveggja steypt saman í eina spegilmynd.

Ég fæ raunar aldrei nóg af því að taka þessar kyrralífsmyndir af veiðivötnunum okkar þegar þau skarta sínu fegursta í kyrrðinni.

Afdrep að vori

Vífilsstaðavatn
Vífilsstaðavatn

Á vorin er þetta fyrsta afdrep margra veiðimanna eftir innilokun vetrarins. Raunar eru menn oft aðeins of snemma á ferðinni því fiskurinn er enn í slow motion og bara alls ekki til í slaginn. En veiðibakterían pirrar margan veiðimanninn bara svo hressilega þegar vorsólin vermir okkur fyrir innan gluggan að við látum hitatölur vorsins lönd og leið, skellum okkur í rykfallnar vöðlurnar og út í þetta litla og nærtæka vatn við höfuðborgina.

Myndina tók ég á gemsann rétt eftir að ísa leysti og fyrstu veiðimennirnir voru komnir á stjá. Ef ég man rétt, þá var ekki einn einasti fiskur farinn að hreyfa sig en mikið ósköp þótti veiðimönnum samt gaman að sýna sig og sjá aðra þennan dag.

Hólmavatn

Hólmavatn
Hólmavatn

Hólmavatnsheiði norðan Laxárdals í Dölum dregur nafn sitt af þessu vatni. Þegar ég kom fyrst að því fann ég fyrir einhvers konar loforði, næstum fyrirheiti um fleiri vötn innan seilingar sem gaman væri að heimsækja. Rétt norðan og eilítið austan Hólmavatns er Reyðarvatnshæð og þar undir Reyðarvatn. Nafnið gefur okkur til kynna að þar leynist bleikja sbr. nafnið reyður sem þýður jú bleikja.

Fleiri lofandi nafngiftir eru í næsta nágrenni eins og  Fiskivötn sem eru beint norðan Hólmavatns. Önnur og e.t.v. þekktari veiðivötn eru nokkru vestar og eilítið sunnar; Ljárskógarvötnin upp af bænum Ljárskógum í Dölum sem stendur nánast á bökkum Fáskrúðar. Vötn sem margir veiðimenn hafa heimsótt í gegnum tíðina.

Myndin hér að ofan er tekin á ómerkilega skyndimyndavél í farsíma, rétt fyrir miðnætti kvöld eitt í miðjum júlí. Gæðin eru léleg, birtan eitthvað broguð en svona kom nú vesturhimininn mér fyrir sjónir þarna um kvöldið og ég lét vaða á útsýnið með farsímanum þar sem ég hafði gleymt myndavélinni heima eins og svo oft áður og oft síðan.