Góð ljósmynd getur laðað fram tilfinningar, aðdáun og áhuga. Að sama skapi getur léleg mynd, virkað fráhrindandi og orðið til þess að gott myndefni veki enga athygli. Það leynir sér ekkert þegar myndabankarnir mínir eru skoðaðir, t.d. á Instagram, að ég hef helst áhuga á myndefni þar sem veiðiflugur eða landslag er viðfangsefnið. Þegar kemur að því að taka myndir af veiðiflugum, þá finnst mér skipta miklu máli að velja viðeigandi bakgrunn til að laða fram hughrif.
Ef ég sækist eftir ljósmynd sem á að sýna fluguna nákvæmlega eins og hún er, þá reyni ég að hafa bakgrunn myndarinnar sem hlutlausastan. Hvítur bakgrunnur er alltaf í ákveðnu uppáhaldi hjá mér, en stundum er erfitt að ná hvítu hvítt og því getur verið ráð að hafa hann ljósbláan eða grænan. Umfram allt reyni ég að hafa bakgrunninn ekki of ögrandi, hann má ekki draga athyglina frá flugunni.

Ef ég er aftur á móti að setja upp stemmningsmynd af flugu, eitthvað sem á að laða áhorfandann að, þá nota ég stundum kork, blaðsíðu úr bók eða einfaldlega svamp sem ég get stungið flugunni í. Umfram allt reyni ég að hafa bakgrunninn einsleitan og ekki troðfullan af litum.

Illa misheppnuð mynd af annars ágætri flugu hefur neikvæð áhrif á áhorfandann og er ekki til þess fallinn að fá mörg like á myndasíðum. Dæmi um slíka mynd er hér að neðan, þar sem ég fór greinilega hamförum í bakgrunninum og flugan geldur verulega fyrir það auk þess sem skott flugunnar fellur óþarflega mikið inn í bakgrunninn. Þarna hefði mér verið nær að velja hlutlausari bakgrunn, kápan á þessari uppáhalds veiðibók minni er allt of ögrandi, ber fluguna eiginlega ofurliði.

Þetta eru mögulega einhverjir punktar sem vert er að hafa í huga þegar ég tek myndir af flugunum sem ég ætla að setja inn á Febrúarflugur í næsta mánuði.